VIÐ

Ég horfði með mínu fólki á íslensku heimildarmyndina „Velkominn Árni“ í vikunni. Virkilega vel gerð mynd sem hafði áhrif á okkur öll. Eitt af því sem mér fannst magnaðast var að sjá hvað það gerði mikið fyrir söguhetjuna að tengjast fólki sem virkilega þótti vænt um hann og vildi njóta lífsins með honum. Hann varð allur annur, fór að taka þátt í lífinu í stað þess að fela sig frá því. Þetta eru engin geimvísindi, en samt vísindi. Við þurfum á öðru fólki að halda til þess að líða vel og best líður okkur þegar við gerum eitthvað fyrir aðra.

Sumir segja að sjálfboðaliðastarf sé að líða undir lok, að það sé alltaf erfiðara og erfiðara að fá fólk til þess að taka að sér sjálfboðaliðaverkefni. Mín skoðun er að við sem höldum úti sjálfboðaliðastarfi, í nafni íþróttafélaga, hjálparsamtaka eða annarra, þurfum að vera betri í að bjóða nýju fólki að taka þátt í sjálfboðaliðastarfinu á sínum forsendum. Ekki bjóða fólki yfir þröskuldinn og svo hlaða á það alls konar verkefnum sem það hugsanlega hvorki hefur kunnáttu né vilja til að sinna.

Ef fólk fær að sinna þeim verkefnum sem það virkilega hefur áhuga á, erum við í góðum málum. Það er nefnilega ekkert eins gefandi og að taka þátt í að gera eitthvað betra án þess að fá borgað fyrir það. Því fylgir orka sem ekki er hægt að útskýra, hún verður að upplifast.

Árni, söguhetjan í myndinni, upplifði þessa orku þegar hann fór og heimsótti nýju fjölskylduna sína í Bandaríkjunum. Með því að vera hann sjálfur styrkti hann fjölskyldubönd þeirra og fékk, ómeðvitað, ættingjana til þess að hætta að velta sér upp úr gömlum leiðindamálum. Með því að taka honum opnum örmum og gera líf hans innihaldsríkara og ánægjulegra, gerði bandaríska fjölskyldan sitt líf betra. Þetta virkar.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. janúar 2023