Stormsveitin gefur út plötu með frumsömdum lögum

Feðgarnir Arnór Sigurðarson og Sigurður Hansson.

Stormsveitin, sem er rokkkarlakór, er um þessar mundir að leggja lokahönd á plötu með lögum sem samin eru og útsett af Arnóri Sigurðarsyni og textar eftir stórskáldið Kristján Hreinsson.
„Formlega er kórinn orðin 10 ára. Við erum fjórraddaður lítill karlakór sem syngur hefðbundin karlakóralög sem og önnur lög við undirleik rokkhljómsveitar. En við höfum samt margoft komið fram órafmagnaðir,“ segir Sigurður Hansson forsprakki kórsins. Sonur hans Arnór hefur frá stofnun kórsins séð um tónlistarhliðina og útsetningu á lögum.

Platan kemur út á Spotify
„Frá upphafi hef ég verið tónlistarstjóri Stormsveitarinnar, hef séð um að útsetja fyrir hljómsveitina. Svo þróaðist þetta út í að ég varð kórstjórinn líka,“ segir Arnór.
„Ég fann það svo í Covid-ástandinu þar sem við vorum alltaf að byrja og hætta að við þurftum einhverja áskorun.
Það varð úr að ég samdi nokkur lög fyrir kórinn og fékk svo Kristján Hreinsson til að semja textana.
Platan er komin út á spotify en svo er hugmyndin að fara af stað með söfnun á Karolina Fund eftir áramót þar sem hægt verður að tryggja sér plötuna á vínil,“ segir Arnór sem samdi öll lögin á plötunni nema eitt en það lag er samið af föðurbróður hans, saxafónleikaranum Jens Hanssyni.

Útgáfu- og þrettánda­tónleikar í Hlégarði
Laugardaginn 7. janúar verða útgáfu- og þrettándatónleikar í Hlégarði hjá Stormsveitinni. „Það er hefð hjá okkur að vera með þrettándatónleika og í ár bætum við um betur og flytjum nýju plötuna í heild sinni fyrir hlé og svo eftir hlé tökum við þau lög sem okkur hefur fundist skemmtilegast að syngja þau 10 ár sem Stormsveitin hefur starfað.
Við erum með flotta hljómsveit með okkur, auk Arnórs verða Jens Hansson á saxann, Þórir Úlfarsson á hljómborð, Páll Sólmundur á gítar og Jakob Smári á bassa. Við lofum góðri skemmtun og miklu stuði.
Miðasala er hafin á Tix.is og eru miðarnir tilvalin jólagjöf,“ segir Siggi og vonast eftir góðri mætingu á tónleikana.