Peningalestin

 

Ég fékk að heyra það nýlega að ég hefði misst af lestinni. Hvaða lest? Peningalestinni. Ástæðan væri sú að ég vildi ekki fórna frelsinu, væri alltof óhefðbundinn og færi ekki réttu leiðina í lífinu. Það er örugglega ýmislegt til í þessu. Það er ekki margt sem bendir til þess að ég verði moldríkur – maður veit samt aldrei … ég hef ekkert á móti peningum og myndi ekki segja nei ef Nottingham Forest hefði samband og byði mér vel launað hlutverk.

En þetta er rétt með frelsið, ég vil ekki fórna því. Ég vil hafa frelsi til þess að móta mitt líf þannig að það samræmist mínum gildum. Tími með mínum nánustu skiptir mig þannig meira máli en mörg aukanúll á bankareikningnum. Ég áttaði mig á þessu fyrir 17-18 árum þegar ég var, þá þriggja barna faðir, farinn að eyða mun meiri tíma í vinnunni en með fjölskyldunni. Þetta var skemmtileg vinna, mikið af ferðalögum á áhugaverða staði, vel launuð og ég fékk frelsi til þess að koma hugmyndum mínum til framkvæmda. En ég saknaði fjölskyldunnar, saknaði litlu guttanna minna.

Það skemmtilegasta sem ég gerði var að vera með þeim, spila fótbolta með þeim, upplifa hluti með þeim. En vinnan takmarkaði þann tíma sem ég vildi hafa með mínu fólki. Vinnan var í fyrsta sæti á tímabili. Þarna ákvað ég að stíga af lestinni og trúa því að ég myndi áfram geta fært björg í bú. Að ég myndi finna leiðir til þess að láta þann draum rætast að fá meiri tíma með fjölskyldunni og að geta skapað tekjur samhliða.

Við höfum á þessum tíma ferðast um allan heiminn saman og fengið miklu fleiri samverustundir en hefðu verið mögulegar ef ég hefði haldið áfram að byggja upp „réttan“ starfsferil. Samveran og sameiginlegu upplifanirnar eru mér mikilvægari en allir peningar heimsins.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. febrúar 2023