Erum sífellt að þróa þjónustuna

Jórunn Edda Hafsteinsdóttir fagstjóri hjúkrunar og svæðisstjóri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis.

Jórunn Edda var ung að árum er hún hóf störf á sambýli en það var þar sem hún áttaði sig á við hvað hún vildi starfa í framtíðinni. Hún hóf nám í hjúkrunarfræði og eftir útskrift hóf hún störf á Landspítalanum þar sem hún starfaði í tólf ár. Hún segir árin þar hafa verið góð en starfið hafi oft á tíðum verið krefjandi.
Í dag stýrir hún Heilsugæslu Mosfellsumdæmis sem flutti í nýtt húsnæði að Sunnukrika árið 2021. Heilsuvernd er stór hluti af starfseminni svo það er sannarlega í mörg horn að líta.

Jórunn Edda er fædd í Vestmannaeyjum 23. mars 1975. Foreldrar hennar eru Guðfinna S. Kristjánsdóttir fv. bankastarfsmaður og Hafsteinn Stefánsson húsasmiður.
Jórunn á tvo bræður, Kristján Helga f. 1978 og Ívar Frey f. 1985.

Tel mig forréttindastelpu
„Ég fæddist í Vestmannaeyjum en bjó þar aldrei en móðir mín er ættuð þaðan. Mér þykir mjög vænt um Eyjarnar og þar á ég stóra fjölskyldu.
Ég ólst upp í sveit, í Túni í Flóa, rétt utan við Selfoss. Ég átti góða æsku og tel mig forréttindastelpu að hafa alist þarna upp og hafa enn aðgang að sveitinni. Foreldrar mínir voru með blandað bú í félagsbúi við afa minn og ömmu sem bjuggu á sama bæ. Það var gæfa að fá að alast upp í nálægð þeirra því þau eru fyrirmyndir mínar í svo mörgu.
Það hafði mótandi áhrif að taka þátt í sveitastörfunum og að valta og snúa á traktornum þegar aldur leyfði. Ég hafði gaman af því að keyra hann, maður sat með vasadiskóið og söng hástöfum lög með Greifunum.“

Hafði góð áhrif að koma fram
„Ófærð og rafmagnsleysi er eitthvað sem maður þekkti vel, þá var kveikt á olíulömpum og kertum. Ein jólin var svo brjálað veður að við þurftum að fara yfir til ömmu og afa á traktornum með jólapakkana bundna aftan á, það var rafmagnslaust þau jólin. Föðurbræður mínir léku alltaf jólasveina og þeir komu með pakkana í stórum poka alla leið inn í stofu, þetta er ljúf æskuminning,“ segir Jórunn og brosir.
„Ég gekk í barnaskólann í Þingborg en þetta var lítill sveitaskóli með um 30 börn, þar var skipt í yngri og eldri deildir. Skólastjórinn var mikill leikhúsáhugamaður og það voru sett upp leikrit fyrir jólin sem allir tóku þátt í. Þetta hafði án efa góð áhrif á það að koma fram og taka þátt.“

Skelltu sér á sveitaböllin
Jórunn gekk í gagnfræðaskólann á Selfossi og segir að það hafi verið mikil breyting að koma í stóran skóla. „Eftir útskrift úr gagnfræðaskólanum þá fór ég í Fjölbrautaskóla Suðurlands, það voru góð ár og þar kynntist ég mínum bestu vinkonum. Við vorum duglegar að ferðast og skemmta okkur á sveitaböllunum í Njálsbúð, Hvoli og Aratungu.
Á sumrin tók ég þátt í störfunum í sveitinni en sumarið eftir fermingu fór ég að vinna í humri í Vestmannaeyjum. Þá dvaldi ég hjá ömmu minni Helgu og það var skemmtilegt sumar. Eftir það starfaði ég hjá Kaupfélagi Árnesinga og við hin ýmsu verslunarstörf eftir það.“

Fór til Bandaríkjanna
„Eftir stúdentinn 1995 fór ég í eitt ár sem aupair til Bandaríkjanna. Ég var í New Jersey fylki og var mjög heppin með fjölskyldu. Tilgangurinn með þessari dvöl var að sjá heiminn og læra betur ensku því ég ætlaði í frekara nám.
Þetta var mjög þroskandi för, ég náði að ferðast til Flórída, Mexíkó og Kanada. Þetta var áður en internetið kom til sögunnar þannig að ég skrifaði um 350 bréf til vina og ættingja þetta árið og fékk annað eins til baka,“ segir Jórunn og brosir. „Eftir að ég kom heim þá starfaði ég einn vetur á bensínstöð en eftir það hef ég starfað við umönnun og hjúkrun.“

Ekkert gerist af sjálfu sér
Jórunn Edda er gift Óskari Sigvaldasyni frá Borgarnesi, hann rekur ásamt öðrum fyrirtækið Borgarverk. Þau eiga þrjá drengi, Sigvalda Örn f. 2002, Hafstein Ara f. 2007 og Halldór Orra f. 2011.
„Við fjölskyldan höfum gaman af því að ferðast, bæði um landið og erlendis og við förum mikið í sveitina, eins höfum við verið í jeppaferðum og útivist.
Drengirnir okkar hafa allir æft íþróttir með Aftureldingu, um tíma voru þeir allir í blaki og ég líka. Ég gaf kost á mér í barna-og unglingaráð blakdeildarinnar. Þátttaka í starfi Aftureldingar er gefandi og reyndist mér góð leið til að kynnast skemmtilegu og drífandi fólki. Við sem eigum börn í íþróttum megum ekki gleyma því að ekkert gerist af sjálfu sér og við verðum öll að taka þátt í einhvern tíma til þess að starf félagsins gangi upp, þá uppskera allir.“

Þetta var krefjandi á köflum
„Ég starfaði eitt sumar á sambýli á Selfossi og þar áttaði ég mig á að áhugi minn lægi í hjúkrun. Ég hóf nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist 2001. Ég hóf störf á Landspítalanum og starfaði þar í tólf ár, lengst af á almennri skurðdeild og þvagfæraskurðdeild. Þetta voru góð ár þótt starfið hafi verið krefjandi á köflum. Á þessum tíma tók ég einnig diplómanám í hjúkrun aðgerðasjúklinga við HÍ.
Haustið 2013 ákvað ég að breyta til, komin með þrjú börn og orðið flóknara að vera í vaktavinnu. Ég sótti um starf hjá Heilsugæslu Mosfellsumdæmis og hér hefur mér líkað mjög vel. Ég byrjaði sem skólahjúkrunarfræðingur en hef verið mest í ung- og smábarnavernd og á hjúkrunarmóttökunni.“

Skjólstæðingum fer fjölgandi
„Árið 2016 fór ég í klínískt diplómanám í heilsugæsluhjúkrun við Háskólann á Akureyri, hélt áfram námi og kláraði meistarapróf 2020 í heilbrigðisvísindum með áherslu á klíníska heilsugæslu í héraði.
Vorið 2021 bauðst mér að taka við sem fagstjóri hjúkrunar og svæðisstjóri heilsugæslunnar. Hér starfar gott starfsfólk, tæplega 30 manns, 7 starfsstéttir í mismunandi stöðugildum. Saman vinnum við að því að sinna og leysa úr erindum sem berast með hag skjólstæðinga okkar að leiðarljósi, en skjólstæðingum stöðvarinnar hefur farið fjölgandi.
Heilsuvernd er stór hluti af starfi heilsugæslunnar, mæðravernd, ung- og smábarnavernd, skólaheilsugæsla og heilsueflandi móttaka. Við erum sífellt að þróa þjónustuna til að sinna okkar fólki sem best. Í haust komum við af stað nýrri heilsueflandi móttöku aldraðra sem er góð og þörf viðbót. Við erum einnig með öfluga hjúkrunarmóttöku og dagvakt sem sinnir bráðveikum og slösuðum, ásamt hefðbundinni læknamóttöku. Á morgnana bjóðum við upp á stutta samdægurs læknatíma og einnig í lok dags.
Álag hefur verið mikið, sér í lagi síðustu tvö árin, það er krefjandi verkefni að sinna vel þeim erindum sem berast en hlúa um leið vel að starfsfólkinu. Árið 2021 fluttum við í nýja húsnæðið okkar í Sunnukrika sem hefur breytt gríðarlega miklu í starfi stöðvarinnar.
Ég er mjög stolt af því að tilheyra þeim góða hópi sem starfar á heilsugæslunni,“ segir Jórunn Edda og brosir er við kveðjumst.