Jólasaga – Hríðin

Karitas Jónsdóttir sigraði jólasögukeppni Helgafellsskóla.
Hér birtum við þessa fallegu sögu…

Agla mín, þú verður að drífa þig, við erum að verða of sein,“ hrópaði mamma frá anddyrinu, orðin frekar óróleg því hún gjörsamlega HATAÐI að vera sein. „Já, já, ég er að koma,“ öskraði ég til baka og tók símann minn úr hleðslu og setti ofan í tösku.
Við vorum að fara í jólamatarboð hjá afa og ömmu því það var 24. desember. Mamma er snillingur í því að vera stressuð, sérstaklega um jólin. Mömmu fannst svo rosalega góð hugmynd að eyða aðfangadagskvöldinu með ömmu, afa og Lísu frænku og Elvari kærasta hennar.
„Agla Rut Friðriksdóttir, viltu gjöra svo vel að koma niður og klæða þig í útiföt strax.“ Ég leit á klukkuna, sjitt! Klukkan var 12:35 og við ætluðum leggja af stað klukkan 12:00. Ég hljóp niður, klæddi mig í skóna, út í bíl og pabbi keyrði af stað.
„Jæja, eigum við ekki bara að reyna að vera glöð, ha?“ sagði mamma til þess að létta andrúmsloftið. Ég brosti pínu. Ég meina, það var 24. desember og örfáir klukkutímar í jól. Af hverju ætti maður að vera leiður á jólunum?
Ég vissi að þessi jól yrðu soldið öðruvísi en vanalega því að núna yrðu Lísa frænka og nýi kærasti hennar með okkur.
Amma og afi áttu heima á sveitabæ, það tók 2 tíma að keyra þangað og við ætluðum að gista eina nótt.
„Nei, blessuð elsku Agla mín, guð hvað þú ert orðin stór,“ sagði Lísa frænka þegar við komum til ömmu og afa og knúsaði mig eins fast og hún gat.

Þegar allir voru búnir að heilsast fóru mamma og Lísa að undirbúa jólamatinn, en það varð alveg hræðilegt og þurftum við að hlusta á þær rífast um allt milli himins og jarðar í eldhúsinu og meira að segja um hvort rauðkálið ætti að vera heitt eða kalt. Þær hættu ekki fyrr en amma hótaði að henda þeim út í svínastíuna.
Við settumst öll niður klukkan sex og fengum okkur að borða rosalega gott hangikjöt, óskuðum gleðilegra jóla og hlustuðum á jólatónlist. „Þetta hefði samt verið betra ef við hefðum bara keypt Ora baunir,“ byrjaði mamma en amma leyfði henni ekki að klára. „Við erum heppin að Lísa fór í búðina fyrir okkur yfir höfuð,“ sagði amma.
„Já, þú segir það Steinunn mín, þegar ég var ungur var bara farið einu sinni í mánuði í kaupstað til að draga björn í bú svo þá var bara að duga og drepast og mátti heldur betur naga sig í handakrikana ef eitthvað gleymdist,“ sagði afi og starði út í loftið eins og þvara.
Þegar allur maturinn var búinn fórum við að opna gjafirnar. Eftir það fórum við inn í stofu og horfðum á Grinch því hún er klassík.
Klukkan eitt voru allir á leið í rúmið nema ég, mamma og amma sem vorum að horfa á veðrið. „Á að vera stórhríð á morgun?“ spurði ég áhyggjufull. „Já, greinilega,“ sagði mamma og horfði út um gluggann. „Hvernig komumst við þá heim?“ spurði ég en ég vissi svarið nú þegar.

„Við ætlum að biðja fólk í Vestursveit að fara vinsamlegast ekki út úr húsi og við biðjumst afsökunar að hafa ekki tekið eftir þessu fyrr.“

„Jæja, þá er það bara þannig, þið eruð veðurteppt, en vonandi ekki lengi því við eigum bara mat fyrir tvo daga,“ sagði amma og horfði á okkur kvíðin á svip. Ég og mamma sátum orðlausar í sitt hvorum stólnum.
Dagana á eftir var veðrið svo brjálað að við komumst ekki heim. Þegar ég vaknaði um morguninn 27. desember voru allir vaknaðir og farnir að tala saman um matarvandamálið. En eftir nokkrar mínútur af blaðri þá var planið að pabbi yrði að fara út í hríðina og kaupa eitthvað sem myndi duga fyrir okkur í nokkra daga í viðbót.
Fimm tímum seinna var pabbi ekki ennþá komin heim. Við sátum öll orðlaus í stofunni, svöng, þreytt og hrædd um pabba. Rafmagnið var farið svo að það voru milljón kerti út um allt.

Allt í einu heyrðum við skarkala úr eldhúsinu. Við litum upp og Elvar fór að kíkja hvað gengi á. „Ég trúi aftur á jólasveinana,“ sagði hann þegar hann kom til baka og starði á okkur hin eins og hann tryði ekki sínum eigin augum. Við hlupum öll inn í eldhús og göptum.
Eldhúsborðið var troðið af alls konar mat og á einum Cheerios-pakkanum stóð:
„Frá Stekkjastauri. Ég heyrði í ykkur tala saman um matavanDræði svo að ég ákvað að gjefa ölllum bæjjúm hérna eitvað til að borða.“

Amma, mamma og Lísa fóru á hnén og byrjuðu að þakka guði fyrir þennan mat. „Þetta er blessun!“ sagði mamma og allir nema ég tóku undir. Ég stóð þarna eins og þvara og starði á miðann. En það var eitt á hreinu. Ég trúi á jólasveininn.

Daginn eftir vorum við aðallega að spila og skoða hvað við fengum í jólagjöf. Veðrið var ennþá brjálað og allt í einu voru mamma, Lísa og amma orðnar ógeðslega kristnar og báðu fyrir öllu mögulegu, Elvar trúði aftur á jólasveininn og afi virtist vera orðinn ennþá meira gamaldags en vanalega.
Aftur var eldhúsborðið troðið af mat nema í þetta sinn var það Giljagaur. Mamma, Lísa og amma sögðu að þetta hefði verið blessun meðan ég, Elvar og afi sögðum að þetta hefði verið heppni. Pabbi var ennþá ekki sjáanlegur svo mamma var búin að hringja á björgunarsveitina til að láta leita að honum.
Næsta dag birtist aftur matur inni í eldhúsi sem var frá Stúfi. Þetta var ekki alveg eins mikill matur og hina dagana en hann skrifaði bara að það væri út af því að hann væri ekki alveg eins stór og hinir jólasveinarnir.

„Hvað er komið í mömmu þína?“ spurði kunnugleg rödd. Mér brá rosalega en sá síðan að pabbi stóð í dyragættinni hjá eldhúsinu og brosti til mín. Ég stökk upp og knúsaði hann svo fast. Mamma, Lísa, Elvar, amma og afi komu fljótlega og við knúsuðumst öll. „Óh, elsku guð takk fyrir!!” hrópaði mamma mín og knúsaði mig og pabba fastar.
„Þú þarft ekkert að þakka guði fyrir þetta,“ sagði pabbi minn. „Ég er búinn að vera hérna síðasta tvo og hálfan daginn,“ hélt hann áfram.
„HA?” hrópuðum við öll á meðan pabbi sprakk úr hlátri.
„Já, sjáiði til, þegar ég lagði af stað út þá sá ég ekkert og var örugglega í kringum klukkutíma bara að grafa mig í átt að bílnum, síðan átti ég eftir að grafa hann upp af því að hann var allur undir snjó. Þegar ég loksins fann hann og var kominn inn þá tók ég eftir því að þetta var ekki minn bíll, heldur afa. Þegar ég leit í aftursætið þá sá ég þar 6 troðfulla innkaupapoka af mat,“ sagði pabbi og við öll horfðum á afa.
„Hva? Ha, já alveg rétt, mér fannst þetta nú heldur klént og leist ekkert á þessa kaupstaðarferð sem þið mæðgur fóruð þarna fyrir jólin. Ég get sagt ykkur það að hann Sigfinnur gamli á Skítalæk fór ekki nema þrisvar á ári í kaupstaðarferð, en þá átti hann heldur ekkert eftir í búrinu nema hrútspunga vikum saman.“
„Já, já, já, við náum því afi, haltu áfram pabbi,“ sagði ég óþolimóð.
„Ég reyndi að klöngrast aftur út úr bílnum og inn með pokana en það endaði á að taka langan tíma. Þegar ég var næstum því kominn að dyrunum þá ákvað ég að hrekkja ykkur aðeins og gróf mig niður í kjallara með matinn. Ég sendi ykkur svo matargjafir frá jólasveinunum úr kjallaranum. Þetta var frekar fyndið en ég varð eiginlega líka pínu smeykur um hvað hefði komið yfir fólkið hérna svo ég ákvað að hætta þessu og koma til ykkar úr kjallaranum,“ sagði pabbi brosandi og beið eftir einhverjum viðbrögðum. Eftir svona mínútu af þögn sprungum við úr hlátri.

Næsta dag fórum við aftur heim. Hríðin var hætt, snjórinn hafði skolast í burtu um nóttina svo það var bara rosaleg hálka, eiginlega allt var orðið eins og það var. Það eina sem var eftir var að kveðja.
Amma og afi stóðu í dyragættinni og töluðu við mömmu og pabba.
„Nei, já, ég man eftir, þegar ég sé þennan bíl,“ sagði afi og benti á skærrauða bílinn sinn.
„Ég man eftir að hafa farið í kaupstaðarferð á þessum bíl. Já, kaupstaðarferðir, já sko, þegar ég var ungur.“