Tindahlaupið í boði Nettó

Hrannar frá Kyndli, Ingibjörg frá Nettó og Gunna Stína frá blakdeild Aftureldingar.

Næstu tvö árin mun Tinda­hlaup Mos­fells­bæj­ar bera nafnið Tindahlaup Mosfellsbæjar í boði Nettó en á dögunum skrifuðu Mosfellsbær, Nettó og aðstandendur Tindahlaupsins undir tveggja ára samstarfssamning þar um.
Aðspurð segist Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir markaðsstjóri Samkaupa hlakka til samstarfsins en markmið Nettó væri að styðja við íþróttastarf á landsvísu. „Við styðjum margþætt æskulýðs- og forvarnarstarf á landsvísu sem stuðlar að heilbrigðum lífsstíl og endurspeglast þessir þættir að öllu leyti í samstarfinu við Tindahlaupið,“ segir Ingibjörg Ásta.
Nettó opnaði verslun í Sunnukrika í Mosfellsbæ í byrjun júní í fyrra. Í versluninni er m.a. að finna gríðarlegt úrval af heilsuvörum fyrir hlaupara og alla sem huga að heilsunni.

Fjórar vegalengdir í boði 27. ágúst
Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Tindahlaupið skemmtilegt og krefj­andi ut­an­vega­hlaup sem haldið er síð­ustu helg­ina í ág­úst ár hvert í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima.
Hlaupið býður upp á fjórar leiðir og vegalengdir eða 1, 3, 5 og 7 tinda þar sem hlaupið er um fjöll, heiðar og dali Mosfellsbæjar. Geta því allir áhugasamir fundið leið og vegalengd við sitt hæfi í hlaupinu, óháð fyrri hlaupareynslu eða -getu.
Fyrir utanvegahlaupara sem stefna á hlaup erlendis má greina frá því að Tindahlaupið hefur staðist kröfur ITRA (International Trail Running Association) og fengið þrjár af fjórum hlaupaleiðum viðurkenndar sem punktahlaup.
Nánari upplýsingar um hlaupið er hægt að nálgast inn á vefsíðunni Tindahlaup.is.

Gleði og hreyfing í Fótboltafitness

Reynsluboltarnir og frænkurnar Eygerður og Bóel sameina fitness og fótbolta.

Frænkurnar, Eygerður Helgadóttir og Bóel Kristjánsdóttir hafa báðar tekið mikinn þátt í starfi Aftureldingar í gegnum árin og hafa mikla reynslu og menntun í knattspyrnuþjálfun.
Nú gefst Mosfellingum á besta aldri tækifæri til að sækja fótboltanámskeið þeirra sér að kostnaðarlausu. Mosfellingur tók þær frænkur tali á dögunum.

Dönsk fyrirmynd
„Verkefnið hefur verið lengi í fæðingu og Valdimar Gunnarsson framkvæmdastjóri UMSK hafði mikinn áhuga á að koma þessu af stað hér á Íslandi eftir að hafa fylgst með Football Fitness vaxa og dafna í Danmörku.
Valdimar setti sig í samband við okkur og við vorum tilbúnar að skoða þessa hugmynd, okkur þótti hún spennandi. Í framhaldinu hafði hann samband við Danina og fékk frekari upplýsingar um verkefnið ásamt æfingabanka til að styðjast við.“

Samstarfsverkefni KSÍ, UMSK og Aftureldingar
„Ákveðið var, í samstarfi við UMSK, KSÍ og Aftureldingu, að fara af stað með æfingar tvisvar í viku, iðkendum að kostnaðarlausu. UMSK og KSÍ útveguðu búnað og Afturelding æfingaaðstöðu.
Æfingar hófust í byrjun mars og hafa hátt í hundrað manns mætt í heildina síðan, þrátt fyrir það hefur ekki gengið vel að ná upp reglulegri mætingu. En smátt og smátt er að myndast kjarni sem vonandi þéttist þegar á líður.“

Gleði og hreyfing með og án bolta
„Aðalmarkmið Fótboltafitness er gleði og hreyfing með og án bolta. Lagt er upp með þol, styrk, tækni og leikgleði. Það er gert í gegnum hinar ýmsu æfingar með eða án boltans.
Það sem er skemmtilegt við þetta verkefni er að allir geta mætt á æfingarnar sama hvaða grunn þeir hafa. Kannski hefur einhvern alltaf langað til að prófa fótboltaæfingu en ekki treyst sér, þá er þetta einmitt vettvangurinn.
Við höfum fengið fótboltakempur á öllum aldri á æfingar og þær hafa einnig fengið heilmikið út úr æfingunum.“
Æfingar fram á sumar
„Æfingar verða fram á sumar einu sinni í viku á þriðjudögum kl. 20:30 og er mæting við Fellið og þar verða æfingarnar áfram eins og verið hefur en þegar fer að hlýna verður farið út á gervigras eða sparkvöllinn.“
„Við bjóðum alla velkomna á æfingu í Fótboltafitnes,” sögðu þær frænkur, Bóel og Eyja að lokum.

KYNNING

Hafa alla tíð verið umkringd dýrum

Bjarni Bjarnason og Nina Baastad reka húsdýragarðinn á Hraðastöðum í Mosfellsdal.

Á Hraðastöðum í Mosfellsdal er fjölbreytt dýralíf svo vægt sé til orða tekið en Húsdýragarðurinn þar nýtur sívaxandi vinsælda en hann hefur verið starfræktur frá árinu 2013.
Ábúendurnir á bænum, Bjarni, Nina og dætur þeirra, hafa tekið á móti leik- og grunnskólabörnum frá árinu 2004 en flest þeirra koma á meðan sauðburður stendur yfir. Um leið og skólum lýkur taka Sveitasælunámskeiðin við þar sem börnin læra að umgangast dýrin, fóðra þau og njóta sveitarinnar um leið.

Bjarni fæddist 25. apríl 1962. Foreldrar hans eru þau Klara Þórðardóttir og Bjarni Bjarnason bændur á Hraðastöðum. Bjarni á fjögur systkini, Þórhildi f. 1958, Sigrúnu f. 1965, Guðna f. 1971 og Berglindi f. 1973.
Nina fæddist í Noregi 30. ágúst 1969. Foreldrar hennar eru þau Ragnhild Baastad húsmóðir og Per Kristian Baastad vörubílstjóri en hann lést árið 2019. Nina á tvo bræður, Björn f. 1966 og Knut f. 1968.

Fóru í langa útreiðartúra
Bjarni ólst upp á Hraðastöðum og á góðar minningar frá æskuárunum. Minnistæðastar eru ferðirnar sem þau systkinin fóru í með pabba sínum en þá fóru þau ríðandi yfir Mosfellsheiðina að Jórukleif og borðuðu þar nesti. Gott var svo að koma heim í heitan kvöldmat hjá mömmu eftir langan og góðan reiðtúr.
„Við félagarnir hérna í Dalnum vorum mjög duglegir að ríða út og við fórum í margar mjög svo ánægjulegar ferðir saman, þá lágu leiðir oft til Þingvalla eða á Kjalarnesið. Það er sko fátt sem toppar svona túra,“ segir Bjarni og brosir.

Útskrifaðist sem vélfræðingur
Bjarni gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og á sumrin starfaði hann við bústörf á heimili sínu. Eftir útskrift fór Bjarni í Iðnskólann í Reykjavík til að læra vélvirkjun og eftir úskrift starfaði hann í vélsmiðjum og verksmiðjum.
Hann rekur vélaleigu í dag og starfar sjálfur við gröfuvinnu og snjómokstur. Hans helstu áhugamál eru hestamennska og vélar og allt sem tengist þeim.

Þetta var reynslumikill tími
Nina ólst upp í Trysil í Noregi en þar er að finna eitt stærsta skíðasvæði landsins. Á æskuárunum eyddi hún miklum tíma úti í náttúrunni, var á gönguskíðum, fór í göngutúra, á hestbak eða tíndi ber. Hún hefur alla tíð verið í kringum dýr, bæði með vinnu og sér til skemmtunar en hestarnir eiga hug hennar allan. Nina gekk í grunnskólann í Trysil og með skóla starfaði hún við að mjólka í geitafjósi.
„Skemmtilegasta ævintýri sem ég fór í á æskuárunum var þegar ég fékk að fara í þriggja daga hestaferð en þá var ég tólf ára. Eftir þessa ferð fékk ég sumarvinnu á hestaleigunni í Femundsmarka sem er þjóðgarður. Þetta var rosalega góður og reynslumikill tími, ég kynntist fullt af fólki í sveitinni og fékk að upplifa alvöru sveitaball sem haldið var úti við.“

Útskrifaðist sem búfræðingur
„Ég var 16 ára þegar ég flutti á heimavistina í bændaskólanum í Alvdal og þar var ég í tvö ár. Ég fór svo til Íslands 1988 til að taka verklega hluta námsins. Ég starfaði á Káraneskoti í Kjós í 10 mánuði við að mjólka kýr, fara á hestbak og við almenn störf.
Það var rosalegt ævintýri að koma hingað til Íslands, ég var strax hrifin af menningunni og náttúrunni og auðvitað íslenska hestinum. Ég fór svo aftur til Noregs, kláraði bændaskólann og útskrifaðist sem búfræðingur 1990. Ég fór strax til Íslands eftir útskrift og skellti mér á Landsmót hestamanna fyrir norðan. Á landsmótinu hitti ég yndislegan pilt, sem ég er gift í dag,“ segir Nina og brosir til Bjarna. „Ég hélt svo áfram að ferðast ein hringinn í kringum landið með bakpoka og tjald í viku áður en ég hóf störf í Helgadal í Mosfellsdal.
Ég hóf síðar störf hjá Reykjabúinu og var þar í 10 ár og og í söludeild Nóa og Síríus í 13 ár, svo var ég í vörukynningum fyrir MS um helgar. Sl. fjögur ár hef ég starfað hér heima við og í tvö ár hef ég verið að moka snjó fyrir bæinn.“

Börnin læra að umgangast dýrin
Bjarni og Nina hófu búskap á Hraðastöðum árið 1990. Þau eiga þrjár dætur, Klöru f. 1997, Lindu f. 1999 og Söru f. 2002. Síðastliðin ár hefur tími þeirra aðallega farið í endurbætur á húsum og vélakosti á bænum en þau skreppa þó einu sinni á ári til Noregs til að kíkja á æskuslóðir Ninu.
Árið 2004 byrjuðu þau að taka á móti leik- og grunnskólanemum og gera enn en þessar heimsóknir fara fram yfir sauðburðartímann. Um leið og skólunum lýkur þá byrja Sveitasælunámskeiðin sem heimasæturnar Linda og Sara stýra. Aðsóknin á námskeiðin hefur aukist gríðarlega í gegnum árin og er algengt að börn komi á fleiri en eitt námskeið og sum þeirra koma ár eftir ár. Aldursbilið er frá 6 ára og upp úr og margir hafa eignast góða vini.
Markmiðið með þessu námskeiði er að börnin skemmti sér vel, læri að umgangast dýr og njóti þess að vera í sveitinni. Þau fá að fóðra dýrin og veita þeim ást og umhyggju, moka flórinn, kemba og flétta hestana og þeir sem vilja geta farið á hestbak. Námskeiðin eru viku í senn, þrjár klukkustundir á dag.

Opnuðu húsdýragarð
„Húsdýragarðinn opnuðum við 2013 en sú hugmynd kom upp því stelpurnar okkar vantaði sumarvinnu. Þetta var kjörið tækifæri því öll dýrin voru hér til staðar. Opnunartíminn er mjög mismunandi svo fyrir áhugasama er best að fara inn á hrada­stadir.is til þess að fá nánari upplýsingar.
Garðurinn er opinn fjóra mánuði á ári og hér er hægt að fara á hestbak, setjast á traktora, leika með leikföng, borða nesti úti við og almenningur getur komið með pylsur og grillað.
Við erum líka með hestaleigu á bænum, tökum á móti hópum og bjóðum upp á persónulega þjónustu.
Það var gaman að sjá í Covid hversu margir Íslendingar komu á hestbak. Margir höfðu á orði hversu umhverfið í Dalnum væri fallegt, meira að segja margir Mosfellingar sem hafa bara verið vanir að keyra hér í gegn,“ segir Nina og brosir.

Björt vornótt með fuglasöng
„Við stefnum á að bjóða upp á að fólk geti komið hingað og haldið upp á barnaafmæli og bekkjarkvöld og eins að starfsmannafélög geti komið og notið góðra stunda með dýrunum.
Ég spyr Bjarna og Ninu að lokum hvað gefi þeim mest við að reka húsdýragarð? „Án efa að sjá hvað fólk nýtur þess að koma hingað og vera innan um dýrin og ekki síst fullorðna fólkið,“ segir Bjarni. Og Nina bætir við: „Það er ekkert eins dásamlegt eins og að vera út í fjárhúsum á björtum vornóttum, hlusta á fuglasönginn og horfa á lömbin koma í heiminn,“ og með þeim orðum kvöddumst við.

Úthlutað úr Klörusjóði

Styrkþegar frá Krikaskóla og Helgafellsskóla ásamt Kolbrúnu formanni fræðslunefndar.

Mánudaginn 9. maí voru afhentir styrkir úr Klörusjóði en markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi í Mosfellsbæ.
Í ­sjóð­inn getur sótt starfsfólk skóla- og frí­stundastarfs og verkefnin geta verið samstarfsverkefni bæði innan og utan skóla. Í ár var áhersla lögð á umhverfisfræðslu og fengu Krikaskóli og Helgafellsskóli úthlutað til eftirfarandi verkefna.

Tími og rými til að kanna umhverfið
UM HVERFIÐ er verkefni sem ætlað er gefa börnunum í Krikaskóla tíma og rými til að kanna umhverfi sitt sérstaklega út frá sínum veruleika, skóla og búsetu hér í Mosfellsbæ. Markmið verkefnisins er að gefa börnunum færi á að að auka skilning sinn á umhverfinu og samspili þess við búsetu.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna mun hafa sérstakt vægi í fyrirhuguðu umhverfis­verkefni. Verkefnið hefur öfluga tengingu við skólastarfið í Krikaskóla eins og það er sett fram í almennum hluta skólanámskrár Krikaskóla frá 2021.
Skólanámskrá Krikaskóla er nánari útfærsla skólans á Aðalnámskrám leik- og grunnskóla ásamt þeim lögum og reglum sem um íslenskt skólastarf gilda. Að sama skapi er verkefnið með tengingu við nýútgefna menntastefnu Mosfellsbæjar en vöxtur, fjölbreytni og samvinna eru þrjár grunnstoðir nýrrar menntastefnu Mosfellsbæjar.

Gönguskíði fyrir leikskólabörn
FJÖLBREYTT HREYFING OG ÚTIVIST er verkefni sem hugsað er fyrir leikskólabörn í Helgafellsskóla. Markmiðið er að börnin fái sem fjölbreyttasta hreyfingu og útivist, með því erum við að efla lýðheilsu og umhverfisvitund barnanna.
Með styrknum er ætlunin að fjárfesta í sex pörum af gönguskíðum til að auka hreyfifærni barna og útivistaráhuga. Gott svæði er til að stunda útiveru í nærumhverfi Helgafellsskóla og með hverri ferð út fyrir skólalóðina á sér stað ákveðin umhverfisfræðsla.
Verkefnið er langtímaverkefni sem væri í stöðugri þróun, það gefur augaleið að það myndi eiga sér stað yfir vetrartímann þegar aðstæður leyfa. Búnaðurinn væri eign skólans en vissulega opnað fyrir þann möguleika að lána hann til annarra skóla í sveitarfélaginu.

Uppbygging á Blikastöðum – áhersla lögð á fjölbreytta byggð

Horft yfir Blikastaðalandið af Úlfarsfelli.

Mosfellsbær og Blikastaðaland ehf. hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu sjálfbærrar og mannvænnar byggðar í landi Blikastaða. 
Í tillögum hefur verið gengið út frá því að sett verði viðmið um að svæðisnýting á þróunarás Borgarlínu verði um 0,4. Til viðmiðunar er Helgafellshverfi þéttast í 0,65 og á Hlíðarenda í Reykjavík 1,4.
Blikastaðaland, sem er um 87 hektarar að stærð og er eitt stærsta óþróaða landið á höfuðborgarsvæðinu, er í eigu Blikastaðalands ehf., dótturfélags Arion banka. Áhersla verður lögð á þrenns konar þéttleika og karakter byggðarinnar undir yfirskriftunum bær, þorp og sveit. Þá er gert ráð fyrir tveimur grunnskólum, fjórum leikskólum og íþróttaðstöðu á svæðinu. 

Hverfið verður hannað frá grunni sem fjölbreytt og blönduð byggð þar sem fólk getur sinnt helstu erindum fótgangandi eða með almenningssamgöngum þar sem Borgarlínan verður í burðarhlutverki. Með því er stuðlað að betri nýtingu náttúrugæða, orku og innviða sem sýnir ábyrgð í umhverfismálum og tryggir lífsgæði komandi kynslóða.
Samráð við íbúa vegna vinnu við skipulag svæðisins er tryggt að lögum en samningurinn rammar inn þátttöku landeigandans í fjárfestingu í innviðum hverfisins.

Byggð á Blikastöðum lengi legið fyrir
„Það hefur lengi legið fyrir að það mun rísa byggð í landi Blikastaða,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Gildandi stefnumörkun um þéttleika á Blikastaða­landi má rekja til svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og breytinga á því skipulagi sem auglýst var á síðasta kjörtímabili og tók gildi á þessu kjörtímabili. Þar er um að ræða breytingu sem bar heitið „Samgöngu- og þróunarásar fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu – Borgarlína.“
Þar er kveðið á um þann þéttleika byggðar sem þarf að vera til að bera slíkt samgöngukerfi og það er ein af stoðunum þremur í samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins sem undirritaður var 2019.
Á árinu 2020 kynntu eigendur Blika­staða­lands bæjarstjórn Mosfellsbæjar drög að forsögn fyrir rammaskipulag og þróunar­áætlun. Bæjarráð ákvað að skipa rýnihópa til að rýna framlögð gögn. Að þeirri vinnu lokinni héldu áfram kynningar og vinna rammaskipulags með skipulagsnefnd frá því síðasta haust. Framgangur málsins hefur birst meðal annars á vef bæjarins í fundargerðum skipu

Við Blikastaðabæinn má búast við þjónustu, verslun og afþreyingu.

lagsnefndar.“

Aðkoma íbúa að mótun skipulagsins
„Í forsögn að rammaskipulagi Blikastaða­lands er gert ráð fyrir að uppbygging og skipulag geti verið unnið í þremur til fimm áföngum. Þannig muni landeigendur vinna áfram náið með starfsfólki og kjörnum fulltrúum Mosfellsbæjar að frekari útfærslum.
Í skipulagsferli hafa íbúar jafnframt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að. Við rýni svæðisins og undirbúning er leitast við að halda í helstu sérstöðu Mosfellsbæjar innan höfuðborgarinnar, þar sem græn byggð og lágreist yfirbragð einkennir bæinn. Í tillögum hefur verið gengið út frá því að sett verði viðmið um að svæðisnýting á þróunarás Borgarlínu verði um 0,4. Frekari útfærslur um ásýnd, gerð og gæði byggðar munu eiga sér stað við gerð deiliskipulags og fara í viðeigandi samráðsferli.“

Bær, þorp, sveit og Borgarlína
Í framsetningu hugmynda er lögð áhersla á þrenns konar þéttleika og karakter byggðarinnar undir yfirskriftunum bær, þorp og sveit. Bærinn verður byggð fjölbreyttra búsetukosta í fjölbýli næst fyrirhugaðri þjónustu og legu Borgarlínu. Þorpið lýsir sér sem smærri fjölbýliskostur í bland við sérbýli í par- og raðhúsum á völdum reitum. Sveitin er svo sá hluti hverfisins sem gengið er út frá að verði vestast á svæðinu og ætlaður sérbýli af fjölbreyttri stærð og gerð.“
Þá telur Haraldur mikilvægt að fram komi að: „Í þeim viðræðum sem hófust síðustu áramót um gerð uppbyggingarsamnings um Blikastaðalandið var því ekki verið að semja um þéttleika eða fjölda íbúða því þær forsendur lágu fyrir eftir umfjöllun í bæjarráði, bæjarstjórn og skipulagsnefnd.
Það er skýrt tekið fram í samningnum og allir fyrirvarar gerðir um að þessa skipulagsvinnu á eftir að vinna með aðkomu íbúa með lögbundnu samráði. Samráðið er líka lykilþáttur í að skapa vandað, umhverfisvænt og mannvænt bæjarumhverfi.
Samningurinn tryggir hins vegar þá fjármuni sem landeigandi skuldbindur sig til að láta af hendi til að standa undir þeim innviðum sem byggja þarf í hverfinu. Þar er um að ræða tvo grunnskóla, fjóra leikskóla og íþróttaaðstöðu.
Þetta var flókin samningagerð enda miklir hagsmunir undir en ég veit að út úr öllu þessu starfi kom mjög góður samningur fyrir Mosfellsbæ.“

Uppbyggingarsamningur án hliðstæðu
„Þetta er uppbyggingarsamningur án hliðstæðu í öllu tilliti. Verðmæti samningsins fyrir Mosfellsbæ er um 10 milljarðar króna sem skiptist annars vegar í 7 milljarða sem greiddir eru með peningum í tengslum við framvindu útgáfu byggingarleyfa og svo byggingu íþróttamannvirkja og hins vegar lóðaréttindi sem metin eru á 3 milljarða. Þetta eru upphæðir sem ekki hafa áður sést í samningum sem þessum.
Samningurinn tryggir farsæla uppbyggingu hér í Mosfellsbæ, uppbyggingu sem er til þess fallin að efla þjónustu og lífsgæði Mosfellinga og efla samfélag okkar á alla lund. Þá verður ekki framhjá því litið að uppbygging í landi Blikastaða verður lykilþáttur í að tryggja gott lóðaframboð á höfuðborgarsvæðinu sem mætir þeirri eftirspurn eftir húsnæði sem við höfum fundið svo vel,“ segir Haraldur.

Heilsuefling og kosningar

Tveir dagar í kosningar. Það skiptir máli hverjir stjórna. Heilsuefling er mér ofarlega í huga þegar ég velti því mér hvaða framboð á að fá kross í kjörklefanum. Ég er búinn að skoða nokkuð vel hvað framboðin segja um heilsueflingu okkar bæjarbúa og hvað þau hafa í hyggju að gera á því sviði. Það sem mér finnst skipta máli er að fólk viti hvað það er að tala um og að það sé trúverðugt að loforð og góðar fyrirætlanir muni verði að veruleika. Íþróttir hafa mikið forvarnargildi, félagslega, andlega og líkamlega. Því betri aðstaða sem íþróttafélögin okkar búa við, því fleiri eru líklegir til þess að æfa reglulega. Peningar sem eru settir í íþróttaaðstöðu skila sér margfalt til baka inn í samfélagið – það er staðreynd.

En heilsuefling snýst ekki bara um skipulagðar íþróttir. Heilsuefling snýst líka um vellíðan barna og unglinga og þar skipta skólarnir mjög miklu máli. Því betur sem krökkum, unglingum og starfsmönnum líður í skólanum, því betur líður okkur öllum. Margfeldisáhrifin eru mikil. Vellíðan og metnaður fara vel saman, það er gaman að gera vel, finna að maður er að ná betri tökum á lífinu og því sem maður fæst við.

Heilsuefling snýst líka um eldri borgara. Við viljum halda eldra fólki eins hraustu og hressu eins lengi og við getum. Bæði vegna þess að þau eiga það skilið eftir allt sem þau hafa gert fyrir komandi kynslóðir og vegna þess að það skilar sér margfalt til baka inn í samfélagið. Því fyrr sem fólkið okkar missir heilsu og getu til að sjá um sig sjálft, því dýrara fyrir samfélagið allt. Umönnum kostar sitt.

Forvarnir og skýr framtíðarsýn á sviði heilsu og vellíðunar er það sem ég legg mesta áherslu í kjörklefanum. Trúverðugleiki er lykilatriði. Innan­tóm loforð gera lítið fyrir mig. Heilsueflandi kosninga­kveðjur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. maí 2022

Be Happy opnar í Kjarna

Á dögunum opnaði í Kjarnanum fyrirtækið Be happy Iceland. Eigandanum Söndru Ragnarsson er margt til lista lagt en hún meðal annars hannar, saumar og málar.
Sandra er frá Litháen en hefur búið á Íslandi í 23 ár. „Fyrirtækið var stofnað fyrir 13 árum, fyrst í Hafnarfirðinum en ég er sjálf nýflutt í Mosó og er ánægð að vera komin með stúdíóið á þennan skemmtilega stað,“ segir Sandra sem einnig er með heimasíðu þar sem allar hennar vörur eru aðgengilegar.

Fatabreytingar og saumaviðgerðir
„Ég tek að mér fatabreytingar og alls kyns saumaverkefni bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Svo er ég ýmislegt sem ég sauma eins og til dæmis töskur, húfur og hettupeysur. Allar upplýsingar eru á heimasíðunni. Þar eru einnig sokkar, kerti, skartgripir og fleira.
Opnunartíminn er sveigjanlegur hjá mér og um að gera að hafa bara samband við mig annaðhvort í síma 862-3782 eða á netfangið verslun@byhappy.is,“ segir Sandra sem vonast til að Mosfellingar verði duglegir að nýta hennar þjónustu.

Allir þurfa einhvern tilgang í lífið

Þríþraut er íþrótt sem reynir sérstaklega mikið á þol keppenda en keppt er í sundi, hjólreiðum og kapphlaupi. Þekktasta langþríþrautarkeppnin er Járnkarlinn sem hófst á Hawaii árið 1977.
Einar Sigurjónsson sjúkraþjálfari hefur tekið þátt í fimm járnkörlum víða um heim og er hvergi hættur. Hann segir að hver keppni gefi sér góðar minningar og hann vonast til að geta keppt svo lengi sem heilsan leyfir.

Einar er fæddur í Reykjavík 12. október 1980. Foreldrar hans eru Helga Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Sigurjón Eiríksson rafvirki. Einar á tvö systkini, Arnar f. 1981 og Kristrúnu f. 1985.

Fóru á skíði í Kerlingarfjöll
„Ég er alinn upp í Mosfellsbæ og átti heima fyrstu árin mín í Grundartanga en svo fluttum við fjölskyldan í Leirutangann, í húsið sem foreldrar mínir byggðu. Það var barnmargt í götunni og ég var svo heppinn að minn besti vinur og frændi, Grétar Þór, bjó í parhúsi við hliðina á okkur.
Foreldrar mínir voru mjög natnir að fara með okkur systkinin í ferðalög um landið og frá þeim tíma á ég góðar minningar, sérstaklega þegar við fórum í Kerlingarfjöll á skíði í kringum 1990.“

Árið sem stendur upp úr
„Sú minning sem stendur upp úr frá æskuárunum er árið sem við bjuggum í Danmörku 1992-1993 en við fluttum þangað því foreldra mína langaði í tilbreytingu. Þetta var viðburðaríkt og skemmtilegt ár og þarna lærði ég dönsku.
Dag einn vorum við stödd á Bellavue-ströndinni í Danmörku þegar pabbi sendi okkur krakkana til að sækja íspinna á útvarpsstöð sem var að senda út á ströndinni. Íspinnarnir voru ekki íspinnar heldur bananasmokkar, þarna eignaðist ég mína fyrstu 30 smokka, 12 ára gamall,“ segir Einar og hlær.

Hún uppskar mikla virðingu
„Ég gekk í Varmárskóla og svo í Gagnfræðaskólann í Mosfellsbæ. Kynntist þar Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem var kjarnorkukona, hún var skólastjóri árin mín í gaggó. Árið 1995 voru öll kennsluborð og sæti í kennslustofunum endurnýjuð. Tveir nemendur ákváðu að skera nöfn sín í nýju borðin og það var því ekki erfitt að finna út hverjir þessir nemendur voru. Ragnheiður tæklaði þetta mjög vel og uppskar mikla virðingu en drengirnir tveir sátu með sín gömlu borð út önnina.
Eftir útskrift úr gagnfræðaskólanum lá leiðin í Menntaskólann við Sund þaðan sem ég lauk stúdentsprófi árið 2000 af náttúrufræðibraut. Á sumrin vann ég við leikjanámskeið ÍTÓM, íþrótta- og tómstundaskóla Mosfellsbæjar með Hlyni Guðmundssyni og á veturna í Íþróttaskóla barnanna með Svövu Ýri og Höllu Karen.“

Spennandi tímar fram undan
„Eftir útskrift fór ég að starfa sem aðstoðarmaður sjúkraþjálfara á Landspítalanum við Hringbraut. Ég fór síðan í Háskóla Íslands til að læra sjúkraþjálfun og útskrifast þaðan árið 2005.
Ég hef starfað í 17 ár á MT-stofunni í Síðumúla sem sjúkraþjálfari en nú eru blikur á lofti því ég er að fara að opna stofu með tveimur öðrum sjúkraþjálfurum í Ártúni í sumar svo það eru virkilega spennandi tímar fram undan.“

Afslappandi að fara í sveitina
Einar giftist eiginkonu sinni, Birnu Maríu Karlsdóttur, 9. júní 2012 en hún er ættuð úr Öxarfirði í Þingeyjarsýslu. Þau kynntust í námi sínu í sjúkraþjálfun og tóku saman 2005. Birna starfar á Landspítalanum Hringbraut á hjartasviði. Þau eiga saman tvö börn, Helgu Laufeyju f. 2008 og Snorra Stein f. 2010.
„Við fjölskyldan njótum þess að fara í ferðalög innanlands og utan. Okkur finnst gaman að fara með fellihýsið okkar og taka frisbígolfið með. Oftast förum við í sveitina rétt hjá Ásbyrgi til tengdapabba en hann er sauðfjárbóndi þar ásamt mági mínum, Bjarka Fannari. Að komast í sveitina þar sem mikið er af kindum, hestum og hænum er gríðarlega afslappandi og skemmtilegt fyrir börnin. Þar er tekið í sveitastörfin ásamt því að njóta náttúrunnar.“

Gerðu það sem gleður þig
Einar fer hjólandi í vinnuna allt árið um kring en aðaláhugamál hans er hreyfing og þá sérstaklega þríþraut. Árið 2015 dró frændi hans Jens Ingvarsson hann með sér í WOW Cyclothon sem samanstóð af 10 manna liði sem hjólaði hringinn í kringum Ísland. Eftir þessa ferð var ekki aftur snúið, Einar fann þarna ástríðu sína.
„Mín lífsspeki er þessi, allir þurfa einhvern tilgang í lífið. Gera eitthvað sem er skemmtilegt og gleður mann. Best er ef það er hreyfing í einhverri mynd. Gott er að setja sér markmið og jafnvel fara út fyrir þægindarammann. Ef þú sinnir sjálfum þér aukast líkurnar á að þér líði betur og þú sinnir fjölskyldu, vinum og vinnu mun betur.
Það gefur mér tilgang á hverjum einasta degi að fá hreyfiskammtinn minn ásamt þeim gleðihormónum sem því fylgja.“

Með góðu skipulagi er allt hægt
Járnkarl eða Ironman samanstendur af 3,8 km sundi, 180 km hjólreiðum og 42,2 km maraþonhlaupi. Klára þarf keppnina á 16 klukkustundum en góður íþróttamaður er um 10 klukkustundir að klára.
„Ég fór í minn fyrsta járnkarl í Barcelona árið 2017 og síðan þá hef ég farið á hverju ári. Ég keppi núna í sjötta sinn í Svíþjóð í sumar og fjölskylda mín kemur með mér sem stuðningsmannalið. Ég æfi 12 klukkustundir á viku allar vikur ársins og með góðu skipulagi og frábærri eiginkonu er allt gerlegt,“ segir Einar og brosir.

Langþráðu markmiði náð
„Árið 2021 náði ég langþráðu markmiði þegar ég kláraði Ironman á Ítalíu á 9 klukkustundum og 39 mínútum. Það var búið að vera þráhyggja í nokkur ár að brjóta 10 klukkustunda múrinn sem er ákveðinn tímamótaárangur hvers íþróttamanns í þríþrautarheiminum, þá var grátið af gleði.
Líkaminn er gjörsamlega hamraður í nokkra daga eftir svona keppni og miklir strengir í fótleggjum. Ég man þegar ég kláraði Ironman í Austurríki 2019 þá þurfti ég að fara á klósettið. Þegar ég ætlaði að standa upp þá fékk ég svo mikinn krampa í fæturna að ég gat ekki staðið upp svo ég þurfti bara að sitja í dágóðan tíma á meðan ég jafnaði mig, ég gat ekki annað en hlegið að þessum aðstæðum.
En það eru ekki bara keppnirnar sem maður sækir í heldur líka ferðalögin, allar æfingarnar og félagsskapurinn. Það er líka lífsnauðsynlegt að eiga góðan maka sem styður mann og elskar.
Hver keppni gefur mér svo góðar minningar, ég vona að ég geti keppt eins lengi og heilsan leyfir. Langtímamarkmið mitt er að komast á heimsmeistaramótið sem haldið er ár hvert á Hawaii, nú er bara að krossa fingur,“ segir Einar og brosir er við kveðjumst.

Ný þjónustubygging rís við íþróttamiðstöðina að Varmá

Á grunni þarfagreiningar er búið að hanna nýja þjónustubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá og er áætlað að stærð byggingarinnar verði um 1.177 m2.
Miðað er við að framkvæmdir geti hafist í sumar.
Á fyrstu hæð verður ný afgreiðsla og góð aðstaða fyrir gesti hússins. Í kjallaranum verða fjórir nýir búningsklefar sem mæta þeim kröfum sem gerðar eru í dag til búningsaðstöðu liða í efstu deild. Á annarri hæð verður fundarsalur sem hægt er að skipta upp í smærri rými.
Með tilkomu þjónustuhússins mun félagsaðstaða Aftureldingar og annarra gesta hússins verða gjörbreytt. Fundarsalurinn á efri hæðinni mun tengjast íþróttasölum og verða nýtanlegur þegar keppni eða aðrir viðburðir fara fram í húsinu. Með hönnun þjónustubyggingar verður aðkoma og aðgengi tryggt fyrir alla gesti hússins.

Mikilvægi leiðtoga

Ég hef verið stuðningsmaður Nottingham Forest síðan ég man eftir mér. Það er búið að vera sérstaklega áhugavert að fylgjast með liðinu á núverandi tímabili en liðið spilar í næstefstu deild á Englandi. Eftir fyrstu 7 umferðirnar var liðið með 1 stig í neðsta sæti. Þáverandi knattspyrnustjóri var varfærinn og varnarsinnaður og liðið lagði mesta áherslu á að reyna að tapa ekki (sem það gerði samt) og að fá ekki á sig mörk (sem það gerði). Hann breytti aldrei um aðferð, sama hvað illa gekk og á endanum fengu eigendur félagsins nóg, ráku hann og fengu Steve nokkurn Cooper til að taka við.

Aðdáendur liðsins voru himinlifandi að losna við áhættufælna knattspyrnustjórann en flestir vildu fá reynslumeiri og þekktari stjóra en Steve Cooper. Staðan í dag, þegar örfáar umferðir eru eftir af deildinni, er sú að Forest er í toppbaráttu. Liðið er öruggt um sæti í úrslitakeppni um að komast upp í úrvalsdeildina og á, þegar þetta er skrifað, möguleika á því að enda í öðru sæti deildarinnar og komast þar með beint upp.

Viðsnúningurinn hefur verið ótrúlegur frá því að varfærni stjórinn sem engu vildi breyta kvaddi klúbbinn. Í dag ríkir bjartsýni og gleði. Menn þora, trúa og framkvæma samkvæmt því. Samstaða innan liðs og utan er mögnuð, allir stefna í sömu átt. Leikmenn njóta þess að spila jákvæðan fótbolta og að vera hluti af öflugri liðsheild. Og þetta smitar, Nottingham er eins og Akranes, þegar vel gengur í boltanum eru allir brosandi og kátir. Allt verður auðveldara og einfaldara.

Steve Cooper fær fólk til að trúa, til að vinna saman, til að vera stolt af fortíðinni og til að gera nútíð og framtíð betri. Hann tengir við leikmenn, stjórnarmenn, eigendur og stuðningsmenn. Allir skipta máli hjá honum.

Það er stutt í kosningar. Það skiptir máli hver stjórnar.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. apríl 2022

Hreyfing í vatni er góð þjálfun fyrir alla

Elísa Berglind Sigurjónsdóttir hefur kennt konum vatnsleikfimi í Lágafellslaug síðan haustið 2014 og hafa tímarnir notið mikilla vinsælda.
Til að byrja með var boðið upp að tíma tvisvar í viku en nú eru tímarnir orðnir fimm í viku hverri. Mosfellingur tók Elísu tali um starfið vítt og breytt.

„Leikfimin er mjög fjölbreytt og engir tveir tímar eins, segir Elísa. Notast er við ýmis hjálpartæki eins og núðlur, handlóð, ketilbjöllur, teygjurenninga og ýmislegt annað. Tónlist er mjög mikilvægur partur af tímunum hjá mér.
Það eru svokallaðir mjúkir morguntímar tvisvar í viku þar sem áhersla er lögð á mjúkar hreyfingar, léttar þolæfingar, styrktaræfingar, teygjur og yoga. Kvöldtímarnir sem eru þrisvar í viku eru aðeins kraftmeiri, þá erum við með stöðvaþjálfun, tabata, Aqua Zumba, þol- og styrktaræfingar svo eitthvað sé nefnt.”

Iðkendum fjölgar ört
„Þegar ég byrjaði renndi ég svolítið blint í sjóinn. Ég var að byrja í nýrri sundlaug í nýju bæjarfélagi og vissi ekkert hvernig þetta myndi fara eða þróast. Það var ekki nema ár síðan ég fékk réttindi til að kenna Zumba í vatni og það form líkamsræktar var ekki þekkt hér á landi. Tímarnir fóru frekar hægt af stað en á fyrsta námskeiðinu skráðu sig fimmtán konur.
Þetta var þó fljótt að spyrjast út og núna eru iðkendur í kringum sjötíu, þó ekki allir ofan í í einu. Ennþá hef ég einskorðað tímana við konur en dauðlangar að prófa að hafa tíma fyrir karla. Ég legg mikla áherslu á að hver og ein kona í lauginni mæti á sínum forsendum og geri nákvæmlega það sem hennar líkami ræður við á sínum hraða. Ég vil ekki að nein ofgeri sér.”

Zumba er góð spennulosun
„Þjálfun í vatni er stórkostlegt æfingaform sem hentar flest öllum, ekki bara eldra fólki og ófrískum konum. Ávinningur fyrir líkamann við þjálfun í vatni er mikill, álag á liðamót nánast ekkert og meiðsli eru nánast óþekkt í vatnsþjálfun. Í vatni getum við hreyft okkur á margan hátt sem við gætum annars ekki.
Hreyfing í vatni er ótrúlega góð fyrir stoðkerfi og liði, er nánast meiðslalaus, hefur mýkjandi áhrif á líkamann og losar um spennu. Þetta er aðeins brot af þeim góðu áhrifum sem þjálfun í vatni hefur á líkama okkar.”

Rósirnar
„Hópurinn, sem ég hef kallað Rósirnar, er einstakur og í gegnum árin höfum við haldið að minnsta kosti tvo viðburði á ári utan sundlaugarinnar. Stundum er farið létt út að borða eftir tíma og við höfum farið tvisvar sinnum saman til Spánar í slökunar- og hreyfiferð, við förum í þriðja skiptið núna í júní.”

Mosfellingur þakkar Elísu Berglindi spjallið og fylgja hér í lokin nokkrar umsagnir frá hennar ánægðu Rósum.

• Það er svo nærandi kærleikur í öllum þínum tímum yndislega Elísa Berglind

• Það er ekkert mál að falla strax inn í hópinn. Elísa Berglind heldur sérstaklega vel utan um okkur, jákvæð og hvetjandi, en allt á okkar forsendum þar sem engar tvær eru staddar á sama stað í getu.

• Hreyfing og æfingar í vatni er dásemd og hefur bjargað mér bæði líkamlega og andlega því hópurinn er svo dásamlega samheldinn

• Ég kom fyrst í Aqua Zumba til Elísu Berglindar 2015 og hef verið næstum óslitið síðan. Í fyrsta skipti sem ég finn heilsurækt sem ég fer í full af tilhlökkun og kem alltaf glaðari og hressari upp úr lauginni. Hef auk þess kynnst mörgum skemmtilegum konum í sundinu og Elísa Berglind er gefandi, faglegur og jákvæður leiðbeinandi sem leggur allt sitt í að tímarnir séu góðir og skemmtilegir.

• Mæli eindregið með. Tímarnir í Lágafells­laug hjá Elísu Berglindi eru mitt “happy place”, alltaf gaman, núvitund og gleði í eigin líkama. Finn mikinn mun á styrk og þoli auk þess sem það er einfaldlega gaman. Velvilji, samkennd og jákvæðni er einkennandi fyrir hópinn og hana Elísu Berglindi sem leiðir okkur áfram

• Ég er ný í hópnum og leið strax eins og heima hjá mér. Glaður og vinalegur hópur, kennarinn fyrsta flokks og tónlistin frábær. Góð og styrkjandi hreyfing í vatni og ekki síst mjög skemmtileg.

KYNNING

Íþróttaskóli barnanna í 30 ár

Íþróttaskóli barnanna hefur verið starfræktur síðan 1992. Svava Ýr Baldvinsdóttir hefur stjórnað skólanum frá upphafi og er því að ljúka sínu 30 starfsári.
Íþróttaskólinn hefur verið mjög vinsæll í gegnum árin og fjöldi barna, á aldrinum 3ja til 5 ára, hefur fengið sína fyrstu kynningu af íþróttum í Íþróttaskólanum.
Mikil almenn ánægja hefur verið með þetta merka starf Svövu Ýrar allt frá upphafi.
Mosfellingur tók Svövu Ýr tali, gefum henni orðið.

„Í Íþróttaskólanum er lögð áhersla á fjölbreytta hreyfingu, þar sem áhersla er lögð á að efla þroska barnanna með fjölbreyttu og markvissu hreyfinámi. Tekið er mið af þroska barnanna þar sem verið er að efla hreyfiþroska, vitsmunaþroska og félagsþroska, svo eitthvað sé nefnt. Markvist er unnið að því að efla m.a. þor barnanna, styrk, fín- og grófhreyfingar, fimi, jafnvægi og taka tillit til náungans.“

Umfram allt að það sé gaman
„Markmiðunum er náð í gegnum leik. Mjög mikilvægt er að börnin finni þörf fyrir að hreyfa sig og hafi umfram allt gaman af. Foreldrar taka virkan þátt í tímunum enda er það eitt af lykilmarkmiðum skólans, að börn og foreldrar leiki sér saman og eigi fallega gæðastund í vinalegu umhverfi. Kærkominn samverutími í annars hröðu samfélagi nútímans.”

Fjölbreytt æfingaval
„Mjög mikilvægt er að börnunum líði vel í íþróttasalnum og reynum við að hafa andann léttan og skemmtilegan þar sem notast er við fjölbreytt æfingaval. Rannsóknir hafa sýnt fram á að góð grunnþjálfun, þar sem áhersla er lögð á alhliða líkams- og hreyfiþroska og jákvætt umhverfi, hefur mjög mikla og jákvæða þýðingu fyrir einstaklinginn þegar fram í sækir.
Íþróttaskólinn leggur metnað sinn í að kynna flestar þær íþróttagreinar sem Afturelding býður upp á. Þau kynnast boltagreinum, spaðagreinum, fimleikum, hreyfingu með tónlist og margt margt fleira. Það má því búast við að líkur aukist á að barnið velji sér hreyfingu við hæfi hjá einni eða fleiri deildum félagsins.“

Börnin eru vel undirbúin þegar kemur að skólaíþróttum
„Í Íþróttaskólanum kynnast börn og foreldrar húsnæði íþróttamiðstöðvarinnar og síðast en ekki síst reglum og aga í íþróttasalnum og klefum. Börnin eru því vel undirbúin þegar kemur að skólaíþróttum,“ segir Svava Ýr að lokum.
Rétt er að benda á að síðasti tími þessa námskeiðs er laugardaginn 9. apríl en nýtt 5 tíma námskeið hefst laugardaginn 23. apríl. Börn fædd 2019-2016 eru velkomin á það námskeið. Skólinn er á laugardagsmorgnum og hver aldurshópur er 55 mínútur í sal.
Allar upplýsingar birtast á Fésbókarsíðu Íþróttaskólans. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið ithrottaskólinn@gmail.com.

KYNNING

Fagna afmæli Sölku Völku og 120 ára afmæli Laxness

Guðný Dóra safnstjóri á Gljúfrasteini.

Það er margt fram undan á Gljúfrasteini en hefðbundin dagskrá er að fara aftur í gang eftir takmarkanir vegna faraldursins.
„Nú er allt að verða bjartara og sólin farin að skína. Þann 23. apríl verða 120 ár liðin frá fæðingu nóbelskáldsins og á þeim degi ætlum við að opna litla sýningu hér á Gljúfrasteini um Sölku Völku. Hún verður níræð á þessu ári, en Salka Valka er ein af fyrstu stóru bókum Halldórs Laxness,“ segir Guðný Dóra Gestsdóttir safnstjóri.

Salka Valka 90 ára
Salka Valka kom út í tvennu lagi 1931 og 1932. „Við ætlum að vekja athygli á Sölku með sýningunni og svo fleiri viðburðum út þetta ár. Bókin var líka að koma út í nýrri enskri þýðingu, sem eru ákveðin tímamót því sagan hefur mikið verið stúderuð af bókmenntafræðingum og almenningi um allan heim. Sagan hefur bæði verið kvikmynduð og sett á svið í hinum ýmsu leikhúsum.
Það eru margir sem eiga Sölku Völku sem sína uppáhalds bók og er það mál manna að það sé í raun ótrúlegt hvað Halldór gat sett sig vel inn í hugarheim ungra kvenna á þessum árum.“

Ganga á afmælisdegi skáldsins þann 23. apríl
Á afmælisdegi Halldórs Laxness þann 23. apríl verður almenningi boðið upp á gönguferð frá Mosfellskirkju að Gljúfrasteini undir leiðsögn Bjarka Bjarnasonar.
„Þessi ganga er í samstarfi við stofnun Árna Magnússonar sem heldur utan um kennslu á íslensku fyrir útlendinga í Evrópu. Í fyrra höfðu nokkrir íslenskukennarar við erlenda háskóla frumkvæðið að bókmennta- og heilsuátakinu Laxness119, en þá voru nemendur hvattir til að stunda hreyfingu. Átakið stóð yfir frá 8. febrúar, sem var dánardagur Halldórs til afmælisdags hans þann 23. apríl.
Ákveðið var að endurtaka þetta í ár og fólk út um alla Evrópu hefur tekið þátt og deilt sinni þátttöku á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #laxness120.
Átakinu líkur með göngunni frá Mosfellskirkju og verðum við með útsendingu héðan til þeirra sem hafa verið að taka þátt úti í heimi,“ segir Guðný Dóra en tekur fram að gangan er öllum opin og hvetur hún Mosfellinga sem og aðra til að mæta og njóta.

Styrkur minn efldist til muna

Anna Olsen formaður Karatedeildar Aftureldingar hvetur alla til þess að læra sjálfsvörn.

Alþjóðlega karatesambandið viðurkennir fjóra mismunandi karatestíla í keppni, Shito Ryu, Goju Ryu, Shotokan og Wado Ryu. Þrír af þessum stílum eru iðkaðir á Íslandi og er Shito Ryu stíllinn kenndur hjá Karatedeild Aftureldingar. Þrátt fyrir mismunandi áherslur og stíla er karateiðkun alltaf skipt í þrjá hluta, kata, kihon, kumite.
Karate hentar iðkendum á öllum aldri og er í senn bardagaíþrótt, líkamsrækt, sjálfsvörn og lífsstíll. Anna Olsen var 48 ára gömul er hún fór á sína fyrstu karate­æfingu. Í dag er hún komin með svarta beltið, dómararéttindi og svo kennir hún bæði byrjendum og framhaldshópum. Hún segir karate íþróttina gefa sér mikið en hún eyðir fimm dögum vikunnar í íþróttahúsinu að Varmá.

Anna fæddist í heimahúsi í Vesturbæ Reykjavíkur 15. desember 1964. Foreldrar hennar eru þau Anna Jóhannesdóttir og Karl Hinrik Olsen en þau eru bæði látin.
Anna á þrjú alsystkini, Hinrik f. 1952, Sigurbjörg f. 1954, Jóhannes f. 1958 d. 1980. Þrjú hálfsystkini, Ágústa f. 1943, Valdimar f. 1948 og Soffía f. 1954 og einn fósturbróður, Anton f. 1961.

Setti spritt á sárin
„Ég er alin upp á Meistaravöllum í Reykjavík. Á flestum heimilum í kring voru 3-4 börn svo það var ávallt líf og fjör og nóg af leikfélögum. Við lékum okkur oftast úti og það skipti ekki máli hvort þú varst 8 ára eða 15 ára, allir léku saman.
Óbyggða svæðið sem síðar var byggður Flyðrugrandi var heillandi staður. Þar var starfandi starfsvöllur á sumrin og margir fallegir hlutir búnir til. Margir kofarnir voru smíðaðir og því fylgdi óhjákvæmilega að stígið var á naglaspítur, maður var orðin ansi lunkinn við að kippa nöglunum úr og setja spritt á sárin.”

Mamma sat uppi við alla nóttina
„Ferðalögin með fjölskyldunni eru ofarlega í huga frá æskuárunum. Farið var á rauðu Volkswagen bjöllunni, öllu pakkað á toppinn, okkur systkinunum troðið aftur í og svo var ekið af stað. Foreldrar mínir reyktu bæði og það var reykt í bílnum eins og tíðkaðist í denn. Það fór illa í mig og ég varð oft bílveik, yfirleitt var ég búin að æla áður en Ártúnsbrekkunni var náð.
Það var farið víða um land og hvíta tjaldinu tjaldað. Mamma var mjög hrædd við pöddur og hún sat oftast uppi við alla nóttina með kveikt á vasaljósinu til að fylgjast með hvort það væru einhverjar köngulær inn í tjaldinu,” segir Anna og brosir.”

Vorum heppin með kennara
„Melaskóli og Hagaskóli voru mínir skólar. Melaskóli þessi stóri skóli, man hvað manni fannst maður orðin stór þegar maður byrjaði þar. Við vorum heppin með kennara, Ástríði Guðmundsdóttur en hún kenndi okkur allan barnaskólann. Hún var dugleg að fara með okkur á skauta á Melavöllinn, æfingar hjá Sinfóníuhljómsveitinni í Háskólabíói og í fjöruferðir.
Hagaskóli var gagnfræðaskólinn, lauk þar 9. bekk sem þá var efsta stigið. Haldin voru regluleg skólaböll og aðrar skemmtanir sem voru vel sóttar.”

Tóku þátt í húsverkum og heyskap
Anna var 15 ára að klára Hagaskóla þegar hún kynntist manni sínum, Árna Jóhannessyni. Hann var úr sveit svo sumarið eftir gagnfræðaskóla lá leiðin í Húnavatnssýsluna. Þar brettu þau upp ermar og tóku þátt í sauðburði, húsverkum og heyskap.
„Eftir dásamlegan tíma í sveitinni hafði ég hugsað mér að fara í fatasaum í Iðnskólann í Reykjavík, ég sótti um en komst ekki inn. Ég fór því að vinna á saumastofunni í Karnabæ, taldi það koma sér vel, en þar fann ég út að mig langaði bara alls ekki að vinna við þetta. Það varð því ekkert af framhaldsskólagöngu hjá mér.”

Fjölbreyttur og farsæll ferill
„Árið 1983 keyptum við Árni okkar fyrstu íbúð, það sama ár var ég ráðin til starfa hjá Landsbankanum. Ég átti þar fjölbreyttan og farsælan feril í 37 ár og fór í gegnum ýmiskonar nám. Störfin í bankanum voru töluvert öðruvísi þá miðað við sem þekkist í dag, margt fólk á hverri vinnustöð og mörg handtökin. Það var mikil breyting þegar tölvuvæðingin hóf innreið sína, ég tók þátt í að innleiða og kenna á gjaldkerakerfin sem tekin voru upp ásamt því að fara á milli fyrirtækja og kenna á netbankann þegar hann kom.
Að vera starfsmaður í bankanum þegar hann var ríkisbanki, einkabanki og svo aftur ríkisbanki var töluverð reynsla og fylgdu því miklar breytingar. Að fá að þróast í starfi frá því að vera almennur starfsmaður að selja tékkhefti í að vera staðgengill útibússtjóra með þeirri ábyrgð sem því fylgdi var líka mikil reynsla.
Ég er lánsöm að hafa kynnst góðu fólki í gegnum tíðina hjá bankanum. Nú hafa tímarnir breyst, ég missti vinnuna s.l. haust og er því Landsbankahjartað mitt svolítið brotið en ég er hokin af reynslu.”

Dundum okkur saman í garðinum
Anna og Árni slitu samvistum árið 2019. Þau eiga saman dótturina, Valdísi Ósk f. 2000.
„Við mæðgur erum duglegar að dunda okkur saman í garðinum og gróðurhúsinu og svo förum við í gönguferðir með hundinn. Erum svo lánsamar að búa á dásamlegum stað þar sem stutt er í náttúruna. Við höfum einnig verið duglegar að ferðast um landið.”

Ég gjörsamlega heillaðist
„Árið 2011 byrjaði Valdís Ósk mín að æfa karate og ég hafði gaman af að fylgjast með úr fjarlægð. Mér leið vel með að vita að hún gæti varið sig ef eitthvað kæmi upp á, ég myndi gjarnan vilja sjá fleiri feta þennan veg. Fljótt fór ég að vera með puttana í ýmis­konar málum, fór í stjórn félagsins og hef verið formaður frá 2015.
Það varð svo úr að ég fór að mæta á fullorðins æfingar, orðin 48 ára gömul,” segir Anna og brosir. Æfingarnar voru skemmtilegar og það ríkti mikil virðing milli æfingafélaganna. Ég gjörsamlega heillaðist og hef nú mætt að jafnaði þrisvar sinnum í viku á æfingar frá því að ég byrjaði. Ég vissi ekki alveg hvort þetta myndi ganga hjá mér því ég hef átt við bakvandamál að stríða en styrkur minn hefur eflst til muna.
Nú er ég komin með svarta beltið 2. Dan og með dómararéttindi í Kata, hver veit nema ég reyni við 3. Dan eftir 3 ár. Undanfarin ár hef ég einnig verið að kenna bæði byrjendum og framhaldshópum sem gefur mér mikið, ég er því í íþróttahúsinu fimm daga vikunnar, bæði við æfingar og kennslu.
Það er svo gaman að taka á móti krökkunum á haustin og sjá hvað þau hafa þroskast í sumarfríinu og svo auðvitað að bjóða nýja iðkendur velkomna,” segir Anna að lokum er við kveðjumst.

Frjálslyndi og jafnrétti er leiðarstef okkar

Aftari röð: Sigurberg, Ölvir, Hrafnhildur, Reynir, Rúnar, Guðrún. Þórarinn. Fremri röð: Atlas, Lovísa, Valdimar, Elín, Hildur.

Framboðslisti Viðreisnar fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fara fram 14. maí var samþykktur á fjölmennum félagsfundi.
„Við bjóðum fram öflugan og fjölbreyttan lista fólks sem mun vinna af krafti til þess að bæta bæinn okkar. Frjálslyndi og jafnrétti er leiðarstef okkar og með þessi gildi að leiðarljósi viljum við tryggja að Mosfellsbær verði framúrskarandi samfélag þar sem lífsgæði og jöfn tækifæri íbúa eru í fyrirrúmi.
Listinn samanstendur af 11 konum, 10 körlum og 1 kvár. Meðalaldur er 43,9 ár, elsti frambjóðandinn er 69 ára en yngsti 19 ára.


Lovísa Jónsdóttir

Hlökkum til að takast á við mikilvæg verkefni
Lovísa Jónsdóttir, hugverkalögfræðingur og varabæjarfulltrúi er nýr oddviti Viðreisnar en haldin var skoðanakönnun um uppröðun á meðal félagsmanna.
„Það er margt sem þarf að huga að en það er skýr sýn okkar að Mosfellsbær á að vera leiðandi í umhverfismálum og þjónustu við fatlað fólk, börn og eldri borgara þannig að allir fái notið sín í bænum. Skipulagsmál hafa verið og eru stór áskorun í ört vaxandi bæjarfélagi. Við leggjum áherslu á ábyrga fjármálastjórn og uppbyggingu kröftugs atvinnulífs. Eins viljum við einfalda íbúum lífið í bænum með því að bæta stafræna þjónustu bæjarins og tryggja gagnsæja stjórnsýslu. Við hlökkum til að takast á við þessi mikilvægu verkefni og leggja okkar af mörkum til að gera bæinn betri,“ segir Lovísa.


Valdimar Birgisson

Það er kominn tími til breytinga í Mosfellsbæ
Fyrir fjórum árum buðum við í Viðreisn fram í Mosfellsbæ í fyrsta skiptið og náðum því að vera næst stærsta framboðið. Fólki hugnaðist sú framtíðarsýn sem við settum fram um breytt vinnubrögð. Mörg af þeim loforðum sem við settum fram hafa verið framkvæmd og við teljum að við höfum haft áhrif til góðs á sundurlausa bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Fyrst og fremst sögðumst við opna stjórnkerfið og auka aðkomu íbúa að ákvörðunum. Það stendur óbreytt komumst við í meirihluta á næsta kjörtímabili munum við efna það loforð. Það er kominn tími til breytinga í Mosfellsbæ og við í Viðreisn erum tilbúin að leiða þær breytingar.


Framboðslisti Viðreisnar

1. Lovísa Jónsdóttir, hugverkalögfræðingur og varabæjarfulltrúi
2. Valdimar Birgisson, auglýsingastjóri og bæjarfulltrúi
3. Elín Anna Gísladóttir, verkfræðingur og varaþingmaður
4. Ölvir Karlsson, lögfræðingur
5. Olga Kristrún Ingólfsdóttir, viðskiptafræðingur og verkefnastjóri
6. Atlas Hendrik Ósk Dagbjarts, framhaldsskólanemi
7. Ágústa Fanney Snorradóttir, framleiðandi og kvikmyndagerðarkona
8. Rúnar Már Jónatansson, rekstrarstjóri
9. Guðrún Þórarinsdóttir, viðurkenndur bókari
10. Þórarinn Helgason, nemi
11. Gréta Jóhanna Ingólfsdóttir, skrifstofufulltrúi
12. Jón Örn Jónsson, verkefnastjóri
13. Emilía Mlynska, mannfræðingur og náms- og starfsráðgjafi
14. Kjartan Jóhannes Hauksson, sölu- og þjónustufulltrúi
15. Hrafnhildur Jónsdóttir, öryrki
16. Reynir Matthíasson, framkvæmdastjóri
17. Ólöf Guðmundsdóttir, kennari
18. Magnús Sverrir Ingibergsson, húsasmíðameistari
19. Ásta Lilja Maack Sigurðardóttir, leiðbeinandi á leikskóla
20. Sigurberg Guðbrandsson, rafvirki
21. Hildur Björg Bæringsdóttir, verkefnastjóri
22. Bolli Valgarðsson, ráðgjafi