Skógarfólk og veiðimenn finna ýmislegt við sitt hæfi

Hrefna Hrólfsdóttir stendur vaktina í Kjarna.

Hjónin Hrefna Hrólfsdóttir og Viðar Örn Hauksson hafa rekið verslunina Vorverk í Kjarnanum, Þverholti 2 undanfarin þrjú ár.
Verslunin hefur vaxið og dafnað á þessum tíma og flutti í stærra og betra húsnæði á árinu.

Keðjusagir og köflóttar skyrtur
Fatnaður og skór fyrir útivistina og þægilegur hversdagsfatnaður er áberandi í versluninni og litavalið á brúna og græna rófinu vekur athygli margra.
„Skógarfólk, veiðimenn og köflóttir karlar og konur finna hjá okkur ýmislegt sniðið að þeirra smekk og þörfum,” segir Hrefna en tekur fram að ljósar herraskyrtur fyrir jólin séu líka málið þessa dagana.
„Stór hluti af okkar starfsemi felst annars í að þjónusta skógargeirann með sérhæfðan búnað en einnig sumarbústaða- og garðeigendur með ýmis tæki og tól. Hér er þess vegna ekki ólíklegt að mæta manni í hurðinni með nýjan slátturóbót eða keðjusög í höndunum og gúmmískó, buxur og fallega köflótta skyrtu í poka.”

Eiga orðið hóp tryggra viðskiptavina
„Við getum ekki annað en verið ánægð með viðtökurnar sem verslunin hefur fengið. Það koma hér ný andlit inn á hverjum degi, þar á meðal Mosfellingar sem eru ánægðir að geta verslað í heimabyggð.
En viðskiptavinahópurinn er fjölbreyttur og kemur af öllu höfuðborgarsvæðinu, landinu og miðunum. Það sem skiptir mestu er að fólk kemur aftur og við eigum orðið stóran hóp tryggra viðskiptavina sem vílar ekki fyrir sér að skreppa í Mosó.”
Vefverslunin alltaf opin
Verslunin í Kjarna er opin alla virka daga kl.10-18 og 11-16 á laugardögum. Jafnframt er hægt að skoða vöruúrvalið í vefverslun vorverk.is sem auðvitað er opin allan sólarhringinn.