Forréttindi að starfa með eldri borgurum

Markmið félagsstarfs eldri borgara í Mosfellsbæ er að fyrirbyggja félagslega einangrun aldraðra og finna hæfileikum, reynslu og þekkingu þátttakanda farveg. Ferðalög, handmennt, hreyfing, kórstarf, listsköpun og spilamennska eru dæmi um starfsemina.
Forstöðumaður félagsstarfsins er Elva Björg Pálsdóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur, hún segir að í félagsstarfinu sé ávallt stefnt að því að auka fjölbreytni bæði í námskeiðshaldi og hópstarfi þannig að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Elva Björg er fædd á Þingeyri við Dýrafjörð 7. mars 1975. Foreldrar hennar eru Jóhanna Ström húsmóðir og Páll Björnsson skipstjóri. Elva á þrjú systkini, Jónínu f. 1966, Viktor f. 1968 og Birnu f. 1980.

Heppin að eiga góðar minningar
„Ég er alin upp á Þingeyri við fallegasta fjörð landsins, Dýrafjörð. Það eru mikil forréttindi að hafa fengið að alast upp úti á landi, mikið frjálsræði og allir pössuðu vel hver upp á annan.
Á þessum árum bjuggu um 500 manns í þorpinu en það hefur verið talsverð fólksfækkun síðan þá. Snjóavetur voru miklir og við fórum ekki mikið á milli byggðarlaga en nú er búið að byggja bæði brýr og göng svo allt er þetta orðið auðveldara.
Ég er svo heppin að eiga bara góðar æskuminningar, ég á góða fjölskyldu og vini. Ég gat oft verið stríðin og var dugleg við að vera leiðinleg við yngstu systur mína sem fór oft í fýlu út í mig og fór þá út á kletta sem voru við húsið okkar og tók með sér ferðatösku og allt. Þetta fannst mér alltaf afar fyndið en það skal taka fram að við erum bestu vinkonur í dag,“ segir Elva og brosir.

Góður tími á Núpi
„Ég gekk í grunnskólann á Þingeyri, þar lék maður við krakka á öllum aldri því árgangarnir voru misstórir. Það voru um 100 krakkar í skólanum og í mínum bekk vorum við fimm.
Þegar ég var fimmtán ára þá urðum við að fara í heimavistarskólann á Núpi til að klára 10. bekkinn en skólinn er staðsettur hinum megin í firðinum. Það er auðvitað skrítið til þess að hugsa að hafa farið svona ung að heiman en mér fannst það aldrei neitt tiltökumál, það var ekkert annað í boði. Þarna var auðvitað margt brallað misgáfulegt eins og að fara í kökuslag í matsalnum eða vatnsslag á heimavistinni og eftir á að hyggja var þetta ekki gáfuleg iðja. Frá Núpi á ég mínar bestu æskuminningar, ég kynntist yndislegum krökkum og kennurum alls staðar að á landinu. Þar kynntist ég einnig eiginmanni mínum honum Finnboga og við höfum verið saman allar götur síðan.
Á sumrin vann ég í sjoppunni í Kaupfélaginu en ég starfaði einnig í saltfiskverkun og á sjúkrahúsinu á Patreksfirði.“

Ætlaði að verða gullsmiður
Ég spyr Elvu hvað hún hafi farið að gera eftir útskrift úr gagnfræðaskóla? „Ég flutti suður og fór í Iðnskólann í Reykjavík og hóf nám í grunndeild málmiðna því ég ætlaði í gullsmíði. Ég hætti svo í því og kláraði tanntækninám við Fjölbrautaskólann í Ármúla en varð svo stúdent af hönnunarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Leið mín lá síðan í Háskóla Íslands þaðan sem ég kláraði tómstunda- og félagsmálafræði og nú er ég hálfnuð í námi í öldrunarfræðum við sama skóla.“

Þetta var okkur þungbær reynsla
Eiginmaður Elvu Bjargar heitir Finnbogi Helgi Snæbjörnsson ættaður frá Patreksfirði. Hann er menntaður vélfræðingur og starfar sem vélstjóri á frystitogara. Þau eiga fjóra syni, Alexander Almar f. 1995, Ágúst f. 2001 l. 2001, Aron Atla f. 2002 og Alvar Auðun f. 2007.
„Ég var komin tæpa sjö mánuði á leið þegar ég þurfti að fæða son okkar en hann fæddist andvana, við skírðum hann Ágúst. Þetta var okkur hjónum erfið og þungbær reynsla en saman komumst við í gegnum þetta ásamt góðri aðstoð fjölskyldu og vina þó að þetta auðvitað grói aldrei. Við eigum einn engil á himninum sem passar okkur fjölskylduna vel og hefur kennt okkur hversu dýrmætt lífið er.
Við erum mjög samrýmd fjölskyldan og okkur finnst afar gaman að ferðast bæði innanlands sem utan og við sækjum mikið í heimahagana vestur á firði. Við erum líka dugleg að fara í göngutúra með hundana okkar og skoða hér nokkur fell í leiðinni.
Ég hef svo nýtt tímann vel í alls kyns handavinnu, mér finnst t.d ótrúlega gaman að renna leir og skapa í keramiki. Þess á milli skrepp ég á kaffihús höfuðborgarsvæðisins með systur minni og les gjarnan blöðin í leiðinni.“

Hjá okkur er gleði alla daga
Elva Björg hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina, afgreitt í sjoppu, verið verslunarstjóri, tanntæknir, dagmamma í Mosfellsbæ og var um tíma aðstoðarmaður iðjuþjálfa á Reykjalundi. Hún hóf störf sem leiðbeinandi í handavinnu í félagsstarfi aldraðra í Mosfellsbæ árið 2010 en tók svo við sem forstöðumaður árið 2013.
„Það eru sannkölluð forréttindi að vinna með eldri borgurum og ég nýt hvers dags,“ segir Elva brosandi. „Hér er ávallt stefnt að því að auka fjölbreytni bæði í námskeiðshaldi og hópstarfi þannig að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.
Mitt starf er að vera fólkinu innan handar enda er ég fyrst og fremst að vinna fyrir þau. Þau eiga jafnan frumkvæði að því sem þau vilja gera og í sameiningu setjum við upp skemmtilega dagskrá og hjá okkur er gleði alla daga.
Við erum með góða aðstöðu á Eirhömrum en starfsemi okkar nær einnig út fyrir húsakynnin. Hreyfing er það langvinsælasta hjá okkur í dag enda kynslóðirnar að breytast, fjölbreytnin að aukast og kröfurnar í takt við tímann.“

Mosfellingur ársins 2021
Val á Mosfellingi ársins fer fram ár hvert þar sem lesendum Mosfellings gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Útnefningin er síðan kunngjörð í fyrsta tölublaði hvers árs.
Elva Björg var valin Mosfellingur ársins 2021 og var mjög snortin yfir þeim tíðindum enda átti hún alls ekki von á þeim. „Ég var fyrst og fremst mjög þakklát og tileinkaði öllum eldri borgurum í Mosfellsbæ þessa tilnefningu. Ég get sagt þér að það er ekki sjálfgefið að starfa við það sem gefur manni svona mikið í lífinu,“ segir Elva Björg brosandi er við kveðjumst.