Þrennt gott

Ég var þátttakandi í alþjóðlegu samstarfsverkefni fyrir nokkrum árum. 10 manns frá 8 mismunandi löndum unnu saman í nokkrar vikur að sameiginlegu verkefni.

Á hverjum morgni voru haldnir stuttir fundir sem gengu út á að draga fram það sem við höfðum gert vel daginn áður og nýta það til þess að gera enn betur í dag. Hver og einn átti að nefna eitthvað þrennt sem hafði gengið vel og mátti á þessum fundi ekki minnast orði á það sem hafði ekki gengið vel – það var rætt á öðrum vettvangi.

Við byrjuðum daginn því með um 30 jákvæð atriði í kollinum og hugmyndir að því hvernig við gætum byggt ofan á þau. Þetta var snúið fyrst. Sumir áttu mjög erfitt með að halda sig frá því að tala um það sem gekk ekki vel, en fundarstjórinn stýrði öllu með myndarbrag og leyfði bara stuttar og jákvæðar setningar. Smám saman lærðu þeir sem voru vanir að einbeita sér að því sem illa gekk og betur mætti fara, að fókusera á það sem þeir og aðrir höfðu gert vel.

Í lok verkefnisins vann hópurinn saman sem smurð vél og átti í engum vandræðum með að nefna þrennt gott á morgunfundunum.

Ég tók þátt í sams konar verkefni ári síðar. Þá voru þessir fundir ekki á dagskránni, menn gáfu sér ekki tíma í þá. Það var verið að prófa nýja tækni, sem krafðist mikils tíma, og hún átti allan hug og hjörtu stjórnenda. Mér fannst það miður, saknaði jákvæðu morgunfundanna sem minntu okkur öll reglulega á hvað við værum að gera góða hluti og hvöttu okkur áfram á uppbyggilegan hátt.

Prófaðu þetta á sjálfum þér í eina viku: Spurðu þig yfir morgunbollanum hvað þú gerðir þrennt gott í gær og hvernig þú getir nýtt þér það til að gera enn betur í dag.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. mars 2022