Skógrækt möguleg og áhugaverð á Mosfellsheiði

Reynir Kristinsson

Kolviður og Skógræktarfélag Mosfellsbæjar hafa lengi haft áhuga á að koma upp loftslagsskógi á Mosfellsheiði til þess að skila henni aftur því sem frá henni hefur verið tekið í gróðri frá landnámi og til að auka við skjól og útivistarmöguleika fyrir Mosfellinga.
Kolviður er sjóður með Skógræktarfélag Íslands og Landvernd sem bakhjarla. Kolviður hefur starfað í 15 ár og gróðursett um 1,5 milljónir plantna víða um land.
Markmið sjóðsins er aukin binding kolefnis í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Sjóðurinn vinnur að þessu markmiði með því m.a. að:
a. Gefa fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum tækifæri til þess að gerast kolefnishlutlaus. b. Fjármagna aðgerðir til bindingar kolefnis með landgræðslu og skógrækt. c. Stuðla að verndun jarðvegs og gróðurs. d. Stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um losun gróðurhúsalofttegunda. e. Draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Niðurstöður tveggja ára tilraunar
Kolviður hefur látið gera rannsókn á möguleikum skógræktar á Mosfellsheiði.
Settir voru upp 12 afgirtir tilraunareitir á heiðinni og plantað inn í þá furu og birki, einnig var plantað með sama hætti utan við hina afgirtu reiti. Ýmsir þættir voru kannaðir svo sem hitastig, veðrun og lifun plantna.

Björn Traustason

Við fengum þá Reyni Kristinsson formann Kolviðar og Björn Traustason formann Skógræktarfélags Mosfellsbæjar til að skýra þetta betur fyrir okkur.
„Niðurstöður þessarar tveggja ára tilraunar liggja nú fyrir og samkvæmt þeim er skógrækt á Mosfellsheiði möguleg en taka þarf tillit til eftirfarandi þátta.
– Án beitarfriðunar er ekki raunhæft að koma upp skógi á Mosfellsheiði.
– Sumarhiti er nægjanlega hár fyrir skógrækt alls staðar á heiðinni.
– Víða er veruleg hætta á sumarfrostum allt að -3,5°C og kali.
– Velja þarf tegundir sem þola frost á vaxtartímanum, stafafura og birki eru dæmi um tiltölulega þolnar tegundir.
– Mikið vindálag mældist á tilraunarstöðunum og miklar barrskemdir á stafafuru nema þar sem smáplönturnar nutu skjóls.“

Leiðir til aukins skjóls í Mosfellsbæ
Það er álit Kolviðar að Mosfellsheiðin geti verið álitlegur valkostur sérstaklega vestari hluti hennar og niður á Bringurnar.
Fyrst þarf þó að skilgreina svæðið með heimild til skógræktar í nýju aðalskipulagi Mosfellsbæjar sem verið er að vinna að.
„Við höfum lagt til að land sunnan við Þingvallaveg frá Bringum austur að Bugðu verði skilgreint með heimild til skógræktar en þetta eru um 1.800 ha.
Færa þarf um 15 km af núverandi beitargirðingu austar en við það skerðist beitarland á Mosfellsheiði um 2%.“
Kolviður hefur áhuga á að hefja skógrækt á þessu svæði og sjá um færslu girðingarinnar og skógræktina án kostnaðar fyrir Mosfellsbæ.
„Með skógrækt á framangreindu svæði legði Mosfellsbær nokkuð af mörkum til kolefnisbindingar upp í skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, skógurinn yrði opinn til útivistar og hann ætti að leiða til aukins skjóls í Mosfellsdal og Mosfellsbæ. Mosfellsbær og aðrir landeigendur eignast síðan skóginn 50 árum eftir að gróðursetningu lýkur.
Við horfum til þess að Mosfellsheiðin geti komið inn í áætlanir Kolviðar innan fimm ára ef vilji bæjarbúa stendur til þess.
Ákvörðun um skógrækt á Mosfellsheiði kemur líklega til með að liggja hjá nýjum bæjarfulltrúum sem taka við í vor.“