Samræming úrgangsflokkunar

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa lengi kallað eftir samræmdu sorphirðukerfi við heimili og sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi.
Undanfarna mánuði hafa Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) unnið að undirbúningi á slíku og var skýrsla starfshóps um samræmingu og sérsöfnun nýlega kynnt. Mosfellsbær hefur nú þegar samþykkt að taka þátt í samstarfinu.
Stefnt er að því að um mitt ár 2022 hefjist innleiðing á samræmdu sorphirðukerfi við heimili sem felur í sér sérsöfnun á plasti, pappa og lífrænum eldhúsúrgangi. Samræming sorphirðukerfis er stórt framfaraskref sem er hluti af sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins og mun skipta miklu máli í baráttunni gegn loftslagsvánni og fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi.
„Við hjá Mosfellsbæ höfum lengi barist fyrir umbótum í flokkun á sorpi og tókum strax ákvörðun um að styðja vel við og taka þátt í verkefninu eins og það liggur fyrir núna. Jafnframt samþykktum við sérstaklega að kynna verkefnið fyrir ungmennaráði enda eru það gjarnan ungmennin á heimilunum sem brýna fyrir hinum fullorðnu mikilvægi flokkunar og byggja þannig undir góða siði á sviði umhverfismála,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Fjórir flokkar af sorpi
Í nýja sorphirðukerfinu er lagt til að fjórum úrgangsflokkum verði safnað við öll heimili á höfuðborgarsvæðinu.
Úrgangsflokkarnir eru:
– Lífrænn eldhúsúrgangur
– Blandað heimilissorp
– Pappír og pappi
– Plastumbúðir
Kerfið er í samræmi við þær breytingar sem taka gildi á lögum um söfnun á úrgangi við heimili um áramótin og er að norrænni fyrirmynd.
Sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi er mikilvæg aðgerð til að gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi geti unnið moltu úr lífrænum eldhúsúrgangi frá höfuðborgarsvæðinu, og er lagt til að lífræna eldhúsúrgangnum verði safnað í bréfpoka sem sveitarfélögin útvegi íbúum til að tryggja hreinleika efnisins í moltugerð.

Fleiri og betri grenndargámar
Til viðbótar við fjögurra flokka kerfi við heimili er lagt til að grenndarstöðvanet höfuðborgarsvæðisins verði þétt og að gleri, málmum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum verði safnað á öllum grenndarstöðvum, ásamt plasti, pappír og pappa á stærri stöðvum.