Vegferð til vellíðunar

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú þegar hátíð ljóss og friðar er að ganga í garð er ekki úr vegi að staldra aðeins við, líta yfir árið og velta því fyrir sér hvernig það var og af hverju.
Leið mér vel? Lagði ég rækt við sjálfa/-n mig og aðra? Var ég meðvituð/-aður um gerðir mínar og viðbrögð í hinu daglega amstri? Þetta eru aðeins örfáar af þeim spurningum sem koma upp í hugann því það er nefnilega svo ótal margt sem við getum gert til að efla vellíðan okkar og leggja rækt við okkur sjálf og aðra í kringum okkur.

Jákvæðni er val
Eins og segir í fyrsta geðorðinu þá er einfaldlega léttara að hugsa jákvætt og slíkt er í raun val hvers og eins. Það er sama hversu krefjandi verkefnin okkar eru, það er alltaf hægt að finna jákvæðar hliðar á þeim og þó okkur takist jafnvel ekki að leysa þau eins og við vildum þá erum við að minnsta kosti alltaf reynslunni ríkari.
Mundu að reynslan og viðhorf okkar til hlutanna skapa okkur sem manneskjur og þau gildi sem við stöndum fyrir. Áskoranir lífsins eiga nefnilega ekki að hafa lamandi áhrif á okkur, þær eiga að hjálpa okkur að uppgötva hver við erum í raun.

Þakklæti bætir heilsuna
Þakklæti er göfug og góð tilfinning. Sálfræðingurinn Robert A. Emmons hefur meðal annarra rannsakað áhrif þakklætis á samskipti, hamingju og heilsu fólks.
Niðurstöður hans sýna m.a. að það einfalda atriði að þakka markvisst og meðvitað einu sinni í viku leiðir til betri heilsu, meiri gleði og hamingju, betri svefns og samskipta, meiri ákafa og bjartsýni, meiri styrks og ákveðni, meiri ástundunar líkamsræktar, meiri lífsánægju og er þá einungis talinn upp hluti þeirra góðu áhrifa sem þakklæti hefur á líf okkar og heilsu.

Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Rannsóknir hafa einnig sýnt að þeim sem gengur vel í lífinu og líður vel eiga það sameiginlegt að hlúa að því sem þeim þykir vænt um. Með því að koma vel fram við og gleðja aðra þá stuðlum við að vellíðan þeirra auk okkar eigin.
Settu þér það markmið að gleðja og/eða tjá einhverjum væntumþykju þína reglulega og hlúðu þannig að þeim sem þér þykir vænt um og skipta þig máli í lífinu.

Vellíðan
Það er löngu vísindalega sannað að holl, góð og fjölbreytt næring hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan okkar og hið sama gildir um hreyfingu.
Ef okkur líður vel andlega og líkamlega þá eru yfirgnæfandi líkur á því að félagslegi þátturinn fylgi með sem einkennist af góðum og kærleiksríkum samskiptum við aðra.
Temjum okkur að þakka fyrir góðu hlutina í lífi okkar, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, og virkjum fólkið í kringum okkur með í þessari vegferð til þakklætis, hamingju og heilbrigðis.

Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ færir ykkur hjartans þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, óskar ykkur gleði og friðar um hátíðirnar og að sjálfsögðu heilbrigðis og hamingju á nýju ári.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Hækkar sól um jól

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason

Framundan eru tímamót: vetrarsólhvörf, jól og áramót á næsta leiti. Lífgjafi okkar allra hækkar á lofti, skammt undan lúrir janúar sem er nefndur eftir rómverska guðnum Janusi með andlitin tvö, annað sneri til fortíðar en hitt fram á veginn.
Hér á eftir hyggjumst við undirrituð drepa stuttlega á það sem hefur verið ofarlega á baugi síðustu misserin á vettvangi sveitarfélagsins okkar, um leið og við horfum til framtíðar.

Endurskoðun aðalskipulags
Í Mosfellsbæ er í gildi aðalskipulag fyrir árin 2011–2030. Eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar var tekin sú ákvörðun að endurskoða skipulagið, það ferli stendur yfir og áætlað að það taki um þrjú ár. Skipulagsmál snerta daglegt líf og lífsgæði okkar allra á einn eða annan hátt og því mikilvægt að þessi endurskoðun byggi á skarpri framtíðarsýn, hún sé vel ígrunduð og markviss.

Fjármál
27. nóvember sl. var fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar samþykkt í bæjarstjórn. Í áætlun fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 340 m.kr. og framkvæmdakostnaður næsta árs nemi tæpum þremur milljörðum króna. Þar vega þyngst framkvæmdir við skóla-, gatna- og veitumannvirki, þau viðamestu sem sveitarfélagið hefur ráðist í til þessa. Gert er ráð fyrir hóflegri hækkun á gjaldskrám, í takti við þá stefnu sem mörkuð var í lífskjarasamningunum og leikskólagjöld munu lækka um 5% í samræmi við málefnasamning V- og D-lista sem gerður var eftir síðustu kosningar.

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Skólamál – íþróttamál
Stór hluti tekna sveitarfélagsins fer í að sinna skólahaldi; síðustu árin hefur bygging hins glæsilega Helgafellsskóla vegið þar þyngst en síðastliðið sumar fóru einnig fram miklar endurbætur á húsnæði Varmárskóla.
Samkvæmt fjárhagsáætlun verður stofnaður nýsköpunar- og þróunarsjóður en hlutverk hans er að styrkja kennara til að vinna að verkefnum sem leiða til framþróunar í skólum bæjarins.
Stöðugt þarf að huga að uppbyggingu og viðhaldi íþróttamannvirkja í ört stækkandi sveitarfélagi líkt og Mosfellsbæ. Það nýjasta er fjölnota íþróttahús á Varmá sem mun gerbreyta aðstöðunni til knattspyrnuiðkunar. Haldin var opin samkeppni um nafn hússins og tóku 235 einstaklingar þátt í henni. Var það afar ánægjulegt að sjá að bæjarbúar létu sig nafngiftina varða og lögðu fram margar góðar tillögur. Niðurstaða dómnefndar var að velja nafnið Fellið en sex einstaklingar lögðu það nafn til.

Hlégarður
Menningarmál skipa veglegan sess í Mosfellsbæ og í okkar augum leikur félagsheimilið Hlégarður þar stórt hlutverk. Í málefnasamningi núverandi meirihluta er getið um stefnumótun um Hlégarð þar sem eitt höfuðmarkmiðið er að nýta húsið betur í þágu Mosfellinga. Menningar- og nýsköpunarnefnd bæjarins hefur haldið utan um þessa stefnumótun þar sem dregnar voru upp mismunandi sviðsmyndir, hvað varðar rekstrarform og nýtingu hússins.
Niðurstaðan varð sú að velja svonefnda blandaða leið, þar sem samið verður við núverandi rekstraraðila um áframhaldandi rekstur og jafnframt mun Mosfellsbær ráða viðburðastjóra sem tryggir bæjarfélaginu og bæjarbúum greiðari aðgang að húsinu. Gera þarf töluverðar breytingar á byggingunni svo hún nýtist sem best og styttist í að tillögur arkitekta þar um líti dagsins ljós.

Ný umhverfisstefna
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt nýja umhverfisstefnu fyrir árin 2019–2030. Stefnan tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og má lesa hana á heimasíðu bæjarins. Við hvetjum bæjarbúa til að kynna sér þessa metnaðarfulla stefnu og láta sig umhverfismál varða í víðustum skilningi þess orðs, minnugir þess að heimsbyggð og heimabyggð eru eitt og hið sama.
Þegar öllu er á botninn hvolft.

Vinstri-græn í Mosfellsbæ óska öllum bæjarbúum gleðilegra jóla, árs og friðar.

Bjarki Bjarnason, bæjarfulltrúi VG og forseti bæjarstjórnar.
Bryndís Brynjarsdóttir, varabæjarfulltrúi VG.

Umferðarlög – breytingar um áramótin

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Það hefur eflaust ekki farið framhjá Mosfellingum frekar en öðrum landsmönnum að eftir um 12 ára ferli þá munu ný umferðarlög taka gildi um áramótin. Margt nýtt er í lögunum sem vert er að taka eftir. Hér eru nokkur nýmæli.

Snjalltæki
Í lögunum eru ákvæði er varða snjalltæki og bann við notkun þeirra gert skýrt, jafnt fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja sem og fyrir hjólreiðamenn.

Létt bifhjól
Létt bifhjól eru nú skráningar- og skoðunarskyld.

Ölvunarakstur
Í lögunum telst ökumaður ekki geta stjórnað ökutæki örugglega ef vínandamagn mælist 0,2‰ í blóði hans. Hlutlægu mörkin sem segja til um það hvort ökumaður geti stjórnað ökutæki örugglega eru því lækkuð úr 0,5‰ í 0,2‰.

Öryggisbelti í hópbifreiðum
Ekki er heimilt að veita undanþágu frá notkun öryggis- og verndarbúnaðar í hópbifreiðum í almenningsakstri í dreifbýli á vegum þar sem heimilt er að aka hraðar en 80 km á klst.

Akstur í hringtorgum
Sett eru sérstök ákvæði um akstur í hringtorgum. Þannig er lögfest að ökumaður í ytri hring skal veita þeim sem ekur í innri hring forgang út úr torginu. Þá skal ökumaður í hringtorgi, sem skipt er í tvær akreinar, velja hægri akrein (ytri hring), ætli hann að aka út úr hringtorginu á fyrstu gatnamótum.

Bannað að leggja bílum í botnlangagötu
Í lögunum er sérstaklega áréttað að ekki megi leggja í snúningssvæði í botnlangagötum.

Hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki
Í lögunum er kveðið á um að hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir.

Framhaldsskólar
Í umferðarlögunum er nú sérstaklega kveðið á um það að umferðarfræðsla skuli fara fram í framhaldsskólum. Ráðherra sem fer með fræðslumál ákveður að fenginni umsögn Samgöngustofu nánari tilhögun fræðslu og sveitarstjórnum ber að fræða almenning um þær sérreglur er gilda á hverjum stað.

Af þessum fáu punktum má sjá að það eru allmargar þarfar breytingar sem nú komast inn í lögin. Margar aðrar breytingar mætti hér kynna en best að að skoða lögin í heild sinni. Lögin er að finna á heimasíðu Alþingis. Umferðarlög nr. 77/2019.

Bestu jólakveðjur
Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson
Ökukennari – 820 1616

Jólakveðja frá Aftureldingu

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Enn líður að jólum og komið að því að gera upp árið. Árið 2019 hefur verið lifandi og skemmtilegt hjá Aftureldingu, en það eru orð að sönnu að það er aldrei dauð stund í lífinu þegar kemur að því að hlúa að og halda utan um þetta flotta félag sem við erum.
Stór skref hafa verið tekin í aðstöðumálum á árinu og má þar helst nefna endurnýjun gólfa í sölum Varmár og fjölnota knatthús. Í framhaldi af því má nefna að samráðshópur á vegum Mosfellsbæjar og Aftureldingar hefur klárað þarfagreiningu og framtíðarsýn á aðstöðumálum félagsins til næstu 15 ára. Næstu skref eru að vinna þetta áfram með arkitektum og teikna upp sviðsmynd sem allir geta verið sáttir við. Afurð af þessari vinnu ætti að vera tilbúin í lok næsta sumars.
Mér finnst þessi samvinna frábært skref fram á við og gríðarlega mikilvægt að framtíðarsýn í aðstöðumálum sé til staðar. En eins og góður maður sagði þá klárast þessi vinna aldrei, það er okkar að vera endalaust á vaktinni yfir því að viðhalda góðri uppbyggingu.
Með bættri aðstöðu má búast við auknum fjölda iðkenda og kröfu um góðan árangur. Talandi um góðan árangur þá verður tilkynnt um val á íþróttakarli og -konu ársins hjá okkur í Aftureldingu 27. desember nk. í Hlégarði, þetta er uppáhaldsviðburðurinn minn á árinu og það er alltaf jafn gaman að taka saman árangur ársins og sjá hversu mikinn félagsauð við eigum og flotta fulltrúa sem gera okkur stolt á hverjum degi.
Auðvitað snýst ekki allt um árangur en við gerum okkar besta við að sinna öllum hvort sem iðkendur eru að stunda sína íþrótt til þess að ná afreksárangri eða hreinlega til þess að vera í góðum félagsskap og hafa gaman. Best er þegar þetta fer saman því það er svo dýrmætt að geta sinnt báðum hópum saman.
Sjálfboðaliðinn er eitt af því mikilvægara sem við eigum í félaginu og auðvitað styrktaraðilarnir okkar líka en báða hópa viljum við halda fast í vegna þess að án ykkar kæmust við ekki langt. Rekstrarumhverfi íþróttafélaga hefur verið mikið rætt undanfarið og það er staðreynd að það verður erfiðara og erfiðara að halda úti öflugu starfi meistaraflokka og vera réttum megin við núllið. Eitthvað er um að fyrirtæki hafi dregið saman í styrkjum til íþróttafélaga sem gerir starf sjálfboðaliðanna enn erfiðara. Það er erfitt til þess að hugsa að forsvarsmenn sumra ráða séu hálfandvaka yfir því hvernig kljúfa eigi reksturinn, en margar hendur létta róðurinn og við megum alls ekki gefast upp.
Kæru iðkendur, foreldrar og aðrir stuðningsmenn, ég vona að þið eigið eftir að eiga gleðileg jól og ég hlakka til að sjá ykkur sem flest í Hlégarði 27. desember þar sem íþróttafólkið okkar verður valið. Ég fer stolt og full tilhlökkunar með Aftureldingu inn í árið 2020 og hlakka til þess að sjá ykkur sem flest á viðburðum félagsins.

Jólakveðja,
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar

Framlög til íþróttamannvirkja fordæmalaus

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Framtíðarsýn okkar er sú að Mosfellsbær sé fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi. Traustur rekstur er lykill þess að að vöxtur sveitarfélagsins sé efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbær.
Á undanförnum árum hefur bærinn okkar stækkað, eflst og dafnað. Það má segja að fordæmalaus fjölgun hafi verið hér síðustu tvo áratugina en síðustu árin hefur fjölgað um allt að 1.000 íbúa á ári. Þessu hefur fylgt mikil innviðauppbygging til að mynda í skólum, gatnakerfi og ekki hvað síst í íþrótta- og tómstundamannvirkjum.
Mosfellsbær hefur alltaf verið mikill íþrótta- og útivistarbær og hér búa barnmargar fjölskyldur og því er okkur mikilvægt að hér sé fyrsta flokks aðstaða til íþrótta-, útivistar- og tómstundaiðkunar. Þá er Mosfellsbær heilsueflandi samfélag og við tökum það eins og allt annað alvarlega og sinnum okkar skyldum í þeim efnum.

Framkvæmt fyrir um 5.500 m.kr. á síðustu 17 árum
Síðustu árin hefur mikið áunnist í aðstöðu fyrir íþrótta-, útivistar- og tómstundastarf í Mosfellsbæ. Samantekið hefur á síðustu 17 árum verið varið rétt um 5,5 milljörðum króna til uppbyggingar á innviðum í þessum málaflokki.
Hér að neðan er tafla sem sýnir framkvæmdirnar í heild sinni.

Íþróttamiðstöðin að Varmá 1.823
Tungubakkar 72
Gervigrasvöllur 477
Íþróttamiðstöðin Lágafell 2.222
Golfvellir og íþróttamiðstöð 447
Skíðasvæðin 77
Reiðhöll og reiðstígar 265
Skátaheimili og stikaðar gönguleiðir 101
Mótomos 12
Samtals 5.496

Eins og sjá má af töflunni er hér um verulega miklar framvæmdir að ræða en upphæðirnar eru á verðlagi dagsins í dag. Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging Íþróttamiðstöðvarinnar við Lágafell.
Tilkoma Lágafellslaugar var bylting í sundaðstöðu hér í bæ og laugin er ein vinsælasta sundlaug landsins. Að Varmá hafa verið geysimiklar framkvæmdir og nemur upphæð þeirra með framkvæmdum við gervigrasvöll um 2.300 m.kr. á þessu tímabili. Þar ber hæst bygging fimleikahúss, fjölnota knatthúss og gervigrasvallar.
En mörgum fleiri smærri framkvæmdum hefur verið lokið á þessu tímabili. Má þar nefna að í ár lauk vinnu við að skipta um gólfefni í öllum sölum íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá, búningsklefar undir sundlauginni hafa verið stækkaðir og endurnýjaðir, ný stúka byggð við gervigrasvöllinn auk þess sem nýtt gervigras var lagt á hann í fyrra.
Töluvert fjármagn hefur einnig verið lagt í uppbyggingu golfvalla bæði í Bakkakoti og á Hlíðavelli sem og uppbyggingu íþróttamiðstöðvar við Hlíðavöll. Reiðhöll hefur verið byggð á þessu tímabili og fé lagt í skátaheimili í Álafosskvos svo eitthvað sé nefnt.

Áfram skal haldið
Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árin 2020-2023 er sem fyrr gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu á íþrótta-, útivistar- og tómstundaaðstöðu fyrir bæjarbúa eða rúmir 1,6 milljarðar króna. Þar er meðal annars tekið mið af þeirri vinnu sem sett var af stað með samráðsvettvangi bæjarins og Aftureldingar um uppbyggingu að Varmá.
Þar er verið að skoða möguleika á nýjum gervigrasvelli í stað grasvallarins, stúkubyggingu og aðstöðu fyrir félagsstarf ungmennafélagsins. Á næsta ári er m.a. gert ráð fyrir að að innrétta húsnæði í millibyggingu milli fimleikahúss og íþróttasalar fyrir starfsemi Aftureldingar, bæta við búningsklefum sem bæði geti nýst sundlaug og íþróttasvæðinu og endurnýja lýsingu í sal 1 og 2 með hágæða led lýsingu sem bætir birtu og dregur úr rekstrarkostnaði. Loks er gert ráð fyrir að þak salar 1 og 2 verði nánast endurgert.
Það er mikið um að vera í Mosfellsbæ um þessar mundir enda íbúafjölgun mikil sem kallar á fjárfestingu í innviðum. Íþrótta-, útivistar- og tómstundamál eru þar ekki undanskilin sem sést vel á þeim miklu fjármunum sem hefur verið varið í uppbyggingu í þessum málaflokki á undanförnum árum og því sem stendur til að gera á komandi árum.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri

Eflum menntasamfélagið í Mosfellsbæ

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár var afgreidd á bæjarstjórnarfundi þann 27. nóvember síðastliðinn. Eins og áður eru fræðslumálin langstærsti málaflokkurinn og fer um 52% af útgjöldum bæjarins í málaflokkinn eða um 5.712 mkr.
Áætlunin ber merki þess að bæjarstjórn leggur mikla áherslu á að efla menntasamfélagið í Mosfellsbæ. Mikil fjölgun barna í bænum hefur kallað á aukið fjármagn til málaflokksins og aukast framlög til hans um 11% milli ára.

Helstu áherslur fjárhagsáætlunar í fræðslumálum eru:
Stoðþjónusta efld. Mikil áhersla hefur verið lögð á að efla stoðþjónustuna í skólum bæjarins. Aðstaða til sérkennslu og stuðnings hefur verið bætt til að mæta þörfum nemenda.
Einnig má nefna aukið stöðugildi talmeinafræðings hjá Mosfellsbæ sem kemur að frumgreiningu barna með skertan málþroska. Börnum af erlendum uppruna hefur fjölgað og hefur stoðin fyrir þau börn verið aukin, svo eitthvað sé nefnt.

Upplýsinga – og tæknimál. Á næsta ári verður haldið áfram að efla upplýsinga- og tækniumhverfi grunnskólanna með megin­áherslu á spjald- og fartölvur fyrir nemendur og innleiðingu nýrra kennsluhátta.

Ný ungbarnadeild opnar. Þrír leikskólar munu bjóða pláss fyrir yngstu börnin. Leikskólinn Hlíð er ungbarnaleikskóli, á Huldubergi eru tvær ungbarnadeildir og opnar ný deild í Leirvogstunguskóla. Mun plássum því fjölga um 25.
Mosfellsbær er einnig með samninga við ungbarnaleik­skóla og dagforeldra í öðrum sveitarfélögum. Ungbarnaskóli/deildir er ný þjónusta samhliða dagforeldrum og stefnir í að öll börn 12 mánaða og eldri verði komin með pláss í vor, mun fyrr en áætlað hafði verið.
Leikskólagjöld lækka. Til að koma enn frekar til móts við fjölskyldur verða leikskólagjöld lækkuð um 5% þriðja árið í röð.
Stöðugildum í Listaskólanum fjölgar. Mikil ásókn er í tónlistarnám og var ákveðið að fjölga stöðugildum í Listaskólanum til að koma til móts við þá eftirspurn. Kennsla verður aukin út í grunnskólunum, sérstaklega kennsla fyrir yngstu nemendurna.

Nýsköpunar– og þróunarsjóður stofnaður. Til að styðja betur við kennara og skólana okkar hefur Mosfellsbær ákveðið að stofna nýsköpunar– og þróunarsjóð. Verður hægt að sækja um styrki til að koma nýjum hugmyndum á laggirnar eða þróa enn frekar starf sem þegar er í gangi.
Fræðslunefnd mun ákveða hverjar áherslur hvers árs verða og auglýsa eftir styrkumsóknum.
Markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi leik- og grunnskólum. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að verkefnin verði kynnt í skólasamfélagi Mosfellsbæjar og heimilt verði að nota verkefnin af öðrum en styrkhöfum. Nýsköpunar- og þróunarverkefnum verður gert hátt undir höfði með sérstökum viðburði og kynningu þegar kemur að styrk­afhendingu, slíkt er afar jákvætt og hvetjandi fyrir starfsemi leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ.

Stjórnendur og starfsfólk bera uppi starfið
Stjórnendur og starfsfólk skólanna bera uppi skólastarfið og verður seint fullþakkað fyrir þeirra mikilvæga starf. Mosfellsbær vill standa vörð um skólastarfið í öllum skólum bæjarins og halda áfram að byggja upp framúrskarandi skólastarf.
Þessi hópur, starfsfólk Mosfellsbæjar, leysir verkefni sín á grunni virðingar, jákvæðni, framsækni og umhyggju fyrir þeim verkefnum sem þeim eru falin. Þannig stöndum við saman að uppbyggingu menntasamfélagsins í Mosfellsbæ.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Felldu tillögur um nýjan veg og lækkun fasteignaskatts á fyrirtæki

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Undirritaður bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar flutti tvær tillögur við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 sem var til afgreiðslu í bæjarstjórn í síðustu viku.
Fyrri tillagan laut að því að inn kæmi nýr liður í fjárfestingaráætlun undir liðnum gatnagerð, sem bæri nafnið „Skammadalsvegur frá Helgafelli að Bjargsvegi” og til fjárfestingarinnar yrði varið 10 milljónum á árinu 2020.
Tilgangur tillögunnar var að þegar yrði hafinn undirbúningur að lagningu nýs vegar frá Auganu svokallaða í Helgafellshverfi og að Bjargsvegi sem fælist í gerð kostnaðaráætlunar vegna nýja vegarins og undirbúnings uppkaupa á landi. Undirritaður hefur bent á nauðsyn þess, í ræðu og riti, að þessi vegtenging komi sem allra fyrst þar sem uppbygging á IV. og V. áfanga í Helgafellshverfi er þegar komin á dagskrá.
Fyrstu hugmyndir um veg­tengingar inn og út úr Helgafellshverfinu voru um núverandi Álafossveg. Að auki stóð til að vegur lægi yfir Varmá á móts við Ístex og upp á Reykjalundarveg, og svo að lokum sá vegur sem undirritaður gerði tillögu um að hafinn yrði nú undirbúningur að.
Síðari tillagan laut að breyttri álagningarprósentu fasteignagjalda í skattflokki C, það er vegna verslunar-, skrifstofu- og iðnaðarhúsnæðis. Tillagan laut að lækkun á álagningarprósentu um 6,2% þannig að hún færi úr 1,6% af fasteignamati húss og lóðar og niður í 1,5%. Þess má geta að raunhækkun á fasteignamati atvinnuhúsnæðis milli 2019-2020 sem tekur gildi um nk. áramót er ca. 14%. Hér var því gerð tillaga um að koma til móts við þá hækkun um tæpan helming.
Undanfarin ár hefur Mosfellsbær ekki látið hækkun fasteignamats vegna íbúðarhúsnæðis koma að fullu til framkvæmda en ekkert hefur verið komið til móts við eigendur atvinnuhúsnæðis. Það er ekki fyrr en allt í einu núna að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggur til lækkun um heil 0,015%.
Það er mikilvægt í huga undirritaðs að einmitt núna þegar dregur úr þenslu og hagvexti og horfur eru á að tekjur fyrirtækja séu að dragast saman, komi sveitarfélagið á móti atvinnulífinu með því að lækka gjaldtöku af fasteignaskatti.
Því miður er skemmst frá því að segja að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna felldi báðar þessar tillögur án nokkurra umræðna.

Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Jólaskógurinn í Hamrahlíð

Björn Traustason

Björn Traustason

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar verður með sína árlegu jólatrjáasölu í Hamrahlíð fyrir jólin eins og síðastliðna áratugi.
Jólaskógurinn í Hamrahlíð mun opna sunnudaginn 8. desember með opnunarhátíð sem hefst klukkan 13. Þar verður ýmislegt við að vera, bæjarstjóri mun höggva fyrsta jólatréð, jólasveinar mæta á svæðið, ratleikur fyrir börnin og margt fleira.
Hjá mörgum fjölskyldum er jólatrjáaleit í Hamrahlíð orðinn árviss viðburður og ómissandi hluti af aðventunni. Mjög margir sækja einmitt í Hamrahlíðina til að saga sitt eigið tré, þó fjölgar þeim sem heimsækja rjóðrið okkar þar sem hægt er að velja tré sem söguð hafa verið úr skóginum. Þar er mikið úrval af greni og stafafuru af öllum stærðum.
Loftslagsmál hafa fengið aukið vægi síðustu misseri, en skógrækt hefur verið hluti af lausnum stjórnvalda sem binding á móti þeirri losun sem við mannfólkið látum frá okkur.
Á síðasta ári lofaði Skógræktarfélag Mosfellsbæjar því að gróðursetja 30 tré fyrir hvert tré sem yrði selt. Skógræktarfélagið hefur þegar staðið við gefið loforð og voru gróðursett 15.000 tré í sumar fyrir þau tré sem félagið seldi í jólatrjáasölunni á síðasta ári. Búast má við að helmingur þeirra trjáa muni verða að fullvaxta trjám og binda koltvísýring næstu áratugina. Hinn helmingurinn verður ýmist seldur sem jólatré, nýttur í skógarafurðir eða nær ekki að lifa.
Sami háttur verður hafður á um þessi jól, við munum gróðursetja 30 tré fyrir hvert og eitt sem selt verður og með því er hægt að nýta jólatrjáasöluna til að stuðla að aukinni bindingu með skógrækt. Eins og áður erum við stödd við Vesturlandsveginn í alfaraleið og hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að heimsækja okkur og næla sér í flott jólatré, og stuðla að kolefnisbindingu í leiðinni!

Jólakveðja, Björn Traustason
Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar

Eldri ökumenn í umferðinni

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Í almennri umræðu er oft rætt um eldri ökumenn sem hættu í umferðinni. Jafnframt að þörf sé á að hafa meira eftirlit með þessum hópi ökumanna, meðal annars með því að skylda þá til að fara reglulega í akstursmat.
Í nýafloknu námi til ökukennslu skrifaði ég ritgerð um eldri ökumenn og spurði þeirrar spurningar: Eru eldri ökumenn hættulegri en yngri ökumenn í umferðinni?
Niðurstaðan var sú að aldur segir ekki til um getu hvers og eins til að aka bifreið, heldur koma þar fjölmargir aðrir þættir sem geta gert ökumenn mishæfa til að stjórna bifreið, má þar helst nefna heilsu hvers og eins. En hvað breytist þegar aldurinn hækkar?
Þegar við eldumst hrakar almennri heilsu, þar með sjón, heyrn, viðbragðstíma og almennri hreyfigetu. Þessir þættir tengjast oft vanda í umferðinni.

Sjón: Góð sjón er ein af grunnkröfunum í öruggum akstri. Sjónin breytist þegar aldurinn færist yfir og því er nauðsynlegt að láta kanna sjónina á nokkurra ára fresti og þá sérstaklega þegar árin færast yfir.

Heyrn: Góð heyrn er einnig mjög mikilvæg í akstri. Nauðsynlegt er að ökumenn heyri og geti þannig greint hættumerki í umferðinni. Eins og sjón þá hrakar heyrn einnig með aldrinum.

Hverjir eru styrkleikar og veikleikar eldri ökumanna? Styrkleikar eldri ökumanna liggja í meiri reynslu og dómgreind er oft betri en hjá yngri ökumönnum, en breytingar til dæmis á umferðarmannvirkjum, akstursleiðum og ökutækjum geta reynst þeim eldri erfiðari ásamt nýjum umferðarmerkjum. Reikna má með að eldri ökumenn eigi erfiðara með akstur í lélegu skyggni s.s. myrkri og misjafnri lýsingu. Oft eru eldri ökumenn á lyfjum sem einnig geta haft áhrif á akstursgetu.
Töluvert hefur verið rætt um þá þörf að setja upp ferla sem aðstoða eldri borgara til að meta hæfni sína til þátttöku í umferðinni. Slíkir ferlar gætu verið í formi akstursmats eins og notað er fyrir útgáfu fullnaðarskírteinis. Í því akstursmati væri kannað hvort mat viðkomandi ökumanns væri í samræmi við raunverulega getu viðkomandi. Markmið slíks mats er að ökumaðurinn geri sér fulla grein fyrir getu sinni og hæfni í umferðinni. Einnig er rík þörf á fræðslu fyrir eldri borgara í umferðinni.

Hvað gerist þegar aldurinn færist yfir?
Ég hef tekið saman örnámskeið sem verður í boði fyrir félög eldri borgara. Námskeið þetta tekur á eftirfarandi þáttum: Mannfjöldaspá, helstu orsökum umferðaslysa eldri ökumanna, kvíða, öldrun og athyglisskerðingu, gildistíma ökuskírteina, endurnýjun og akstursmat.
Hafir þú spurningar um þetta efni, næstu námskeið eða vilt bóka tíma í ökukennslu eða ökumat, hafðu þá samband í gegnum netfangið hzoega@gmail.com eða í síma 820 1616.

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson, ökukennari

TAKK!

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Í dag 5. desember er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Rauði krossinn þakkar sjálfboðaliðum sínum sem gera starf félagsins mögulegt.
Hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ starfa 90 sjálfboðaliðar í fjölbreyttum verkefnum sem öll hafa þó sömu gildi að leiðarljósi; mannúð, hlutleysi og óhlutdrægni. Sjálfboðaliðar okkar rjúfa einsemd með heimsóknum, aðstoða börn og ungmenni í námi, styðja við innflytjendur í nýju samfélagi, veita hlýju með hannyrðum, bregðast við í neyðarútköllum og stuðla að umhverfisvernd með betri nýtingu á barnafatnaði. Starfssvæðið er breitt og sjálfboðaliðar víða að en öll með sama markmið: Að byggja betra samfélag, samfélag sem byggir á mannúð og opnum hug.
Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á fáeinum áratugum. Á tímum sem þessum þar sem einstaklingar og fjölskyldur finna fyrir mikilli kröfu úr ýmsum áttum er mikilvægt að minna sig á hvað það er sem skiptir okkur raunverulegu máli og hvernig samfélag við viljum byggja. Því hver og einn einasti hefur þann mátt sem þarf til að láta gott af sér leiða. Hvort sem það er með persónulegum, hagnýtum eða efnislegum leiðum.
Án allra þeirra sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum verkefni Rauða krossins væri samfélagið okkar snauðara. Við hvetjum ykkur til að líta í kringum ykkur í dag og þakka sjálfboðaliðum okkar. Því við gerum það svo sannarlega. Takk!
www.raudikrossinn.is

Margrét Lúthersdóttir
Deildarstýra Rauða krossins í Mosfellsbæ

Helgafell – deiliskipulag 4. áfanga

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Þann 31. október sl. lauk fresti til að skila inn athugasemdum vegna auglýsingar um deiliskipulagsbreytingu fyrir 4. áfanga í Helgafellshverfi.
Skemmst er frá því að segja að formlega bárust fimmtán athugasemdir, þar af athugasemd frá húsfélagi með um þrjátíu íbúðum. (Sjá fundargerð skipulagsnefndar nr. 501)
Segja má að helst hafi athugasemdir lotið að tveimur meginþáttum, í fyrsta lagi óánægju með ráðgert fjögurra hæða fjölbýlishús vestast í skipulaginu með tilheyrandi skerðingu á útsýni og í öðru lagi að áhyggjum af umferð í gegnum augað, Vefarastræti og Gerplustræti, á meðan á uppbyggingu 4. áfanga stendur. Í athugasemdum er bent á að umferðin fari fram hjá nýjum Helgafellsskóla þar sem umferð barna er mikil bæði til og frá skóla og götur þröngar.

Skipulagsnefnd gerði svohljóðandi samþykkt á 501. fundi sínum:
„Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að flokka og greina innkomnar athugasemdir og leggja fram á fundi nefndarinnar. Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að boða til fundar með fulltrúum úr skipulagsnefnd, Byggingarfélaginu Bakka og skipulagshöfundum varðandi hugsanlega endurskoðun deiliskipulagstillögunnar.”
Það er skemmst frá því að segja að undirritaður hafði strax í upphafi málsins áhyggjur af því að aðkoma að 4. áfanga á uppbyggingartíma yrði í gegnum Helgafellshverfið (augað Vefarastræti/Gerplustræti). Þetta viðraði undirritaður í grein sem birtist í Mosfellingi 29. nóvember 2018. (Sjá grein)

Það er með nokkrum ólíkindum að ríkjandi meirihluti bæjarstjórnar, fullltrúar D- og V-lista, skuli ekki hafa hugað að því að finna einhverja lausn á aðkomu að 4. áfanga á meðan á uppbyggingu stendur. Það albesta hefði verið að vegur austur út 4. áfanga og niður á Bjargsveg/Reykjaveg hefði verið kominn, að minnsta kosti vinnuvegur vegna framkvæmda í nýju hverfi. En svo er ekki og ekkert er um veginn í fyrirliggjandi 3ja ára framkvæmdaáætlun 2020-2023.

Stefán Ómar Jónsson bæjarfulltrúi Vina
Mosfellsbæjar og aðalmaður í skipulagsnefnd

Allt í ru$li

Valdimar Birgisson

Valdimar Birgisson

Það er óhætt að segja að það hafi staðið styr um Sorpu undanfarnar vikur, eftir að það kom í ljós að það vantar rúmar 600 milljónir til þess að klára byggingu á gas- og jarðgerðarstöðinni sem verið er að byggja í Álfsnesi.
Þar fyrir utan þurfti að stækka móttökustöðina í Gufunesi og kaupa tæki þar til þess að hægt sé að nýta sorpið. Þessi tækjakaup gleymdust í áætlun 2019 og bætast við rúmar 700 milljónir af þeim sökum. Það kemur í ljós að kostnaður við stöðina er 1,3 milljörðum meiri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Fyrsta spurninginn er náttúrulega hvort þessi stöð sé nauðsynleg – til hvers er verið að byggja hana? Svarið við því er já, hún er nauðsynleg. Gas- og jarðgerðarstöðin mun geta unnið metangas og moltu úr heimilissorpinu. Sorp sem hingað til hefur verið urðað við bæjardyrnar hjá okkur með tilheyrandi lyktarmengun verður að mestu endurnýtt. Þetta er því hagsmunamál okkar Mosfellinga að þessi stöð rísi.

En þegar mistök eru gerð er eðlilegt að það sé staldrað við, þau skoðuð og lært sé af þeim. Í tilfelli Sorpu eru ekki gerð ein mistök heldur röð mistaka sem leiða í ljós stjórnunarvanda sem þarf að taka á. Því þarf að fara fram umræða um stjórnun Sorpu. Eins og hún er í dag er hún ekki skilvirk. Við erum með stjórn þar sem sitja sex kjörnir fulltrúar sem samkvæmt starfsreglum eiga sérstaklega að gæta þess að nægjanlegt eftirlit sé með bókhaldi og meðferð fjármuna. Allar meiriháttar ákvarðanir eru þó teknar á svokölluðum eigendavettvangi þar sem stjórn Sorpu situr auk bæjarstjóra og borgarstjóra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Því eru samtals tólf kjörnir fulltrúar sem koma að ákvarðanatöku varðandi Sorpu. Þarna vantar skýrara samband á milli ákvarðana, ábyrgðar og eftirlits.

Bæjarfulltrúar Viðreisnar á höfuðborgarsvæðinu hafa látið sig málið varða og lagt til að skipuð verði neyðarstjórn fagfólks sem fari ofan í saumana á rekstri Sorpu. Þessi stjórn starfi tímabundið og klári þau verkefni sem eru fram undan og komi með tillögur að úrbótum. Það er tímabært að stokka upp og laga þegar svona gerist. Við eigum að gera betur.

Valdimar Birgisson
bæjarfulltrúi Viðreisnar

Haustið gengur í garð

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Það er einhvern veginn alltaf ákveðinn léttir þegar fer að hausta, skólarnir byrja, laufblöðin falla, æfingar barnanna falla í fastar skorður og þar með lífið í heild.
Sumarið var náttúrulega dásamlegt hjá okkur í Mosfellsbæ og Aftureldingu, veðrið lék við hvern sinn fingur og til dæmis á fótboltaleikjum meistaraflokkanna var stúkan þéttsetin á flestum heimaleikjum. Við getum verð stolt af því að eiga knattspyrnulið bæði karla og kvenna í topp 20 á Íslandi.
Núna þegar vetrarstarfið fer á fullt langar mig að skora á ykkur kæru foreldrar og velunnarar Aftureldingar að bjóða fram aðstoð ykkar. Sjálfboðaliðastarfið er virkilega gefandi og skemmtilegt, þar sem það er mikil fjölgun hjá okkur á öllum vígstöðum þá vantar alltaf fólk, margar hendur vinna létt verk sagði einhver. Ég hvet ykkur til að setja ykkur í samband við deild að eigin vali.
Fram undan hjá okkur í Aftureldingu er spennandi vetur, meistaraflokkarnir okkar í handbolta og blaki eru í fremstu röð og fara vel af stað. Einstaklingsgreinarnar falla oft í skuggann fyrir hópunum en karate-, taekwondo- og frjálsíþróttafólkið okkar er að standa sig gríðarlega vel svo eitthvað sé nefnt.
Við höfum skrifað undir samning við Sideline, snjallforrit sem er um leið samskiptatæki milli þjálfara, foreldra og iðkenda, og hins vegar er þar mikill æfingagrunnur og tæki til leikgreiningar fyrir þjálfarana okkar.
Við munum innleiða þetta í nokkrum áföngum fram að áramótum. Samhliða því hættum við að nota facebook í þessum tilgangi þannig að þjálfararnir okkar eignast sitt einkalíf aftur 🙂 Markmið okkar með innleiðingu Sideline er að auka þjónustuna bæði við iðkendur og foreldra og ekki síst þjálfarana okkar.
Það verður haldinn starfsdagur fyrir þjálfara og sjálfboðaliða 10. október í Hlégarði þar sem allar æfingar verða felldar niður þann seinnipart til þess að gefa öllum þjálfurum kost á að mæta. Það er gríðarlega mikilvægt að mæta og hlusta á fróðleg erindi og hrista hópinn saman. Það er aldrei of oft sagt að þó að við séum 11 deildir þá erum við öll eitt lið, Afturelding.
Að lokum langar mig að hvetja þig til að mæta á viðburði hjá Aftureldingu og mig langar líka til að hvetja þig til þess að mæta í Aftureldingartreyju, það er svo gaman að tilheyra svona flottu liði sem Afturelding er.

Birna Kristín Jónsdóttir
formaður Aftureldingar

Áherslur í uppeldi

Fjalar Freyr Einarsson

Fjalar Freyr Einarsson

Þegar fjölskyldur fá sér hund er ekki óalgengt að farið sé á hundanámskeið þar sem fjölskyldan lærir að umgangast hundinn og siða hann þannig að hundurinn teljist hlýðinn og góður.
Þegar barn kemur í heiminn er sjaldnast farið á námskeið um barnauppeldi. Áhugasamir foreldrar ná sér reyndar í bækur um ungbörn og atlæti þeirra og fræðast þannig um það helsta sem snýr að barninu. Foreldrar fá það reyndar í forgjöf að hafa verið barn, en því er ekki að heilsa með hundinn ;-).

Frumtengsl foreldra seint vanmetið
Uppeldishlutverkið hefst um leið og barnið fæðist, þó ekki með leiðsögn og reglum strax í upphafi heldur við að annast það, vernda og mæta þörfum þess. Frumtengsl foreldra við barn sitt verður seint vanmetið en rannsóknir hafa sýnt að samskipti foreldra og þá helst móður við barn sitt á fyrstu vikum og mánuðum lífs þess hefur afgerandi áhrif á þroska barnsins.
Rannsóknir renna stoðum undir mikilvægi þess að hvítvoðungum sé veitt athygli strax frá upphafi, að móðirin horfi á barnið sitt og gæli við það á meðan það tekur brjóst sem dæmi.

Umbun gríðarlega mikilvæg
Þegar barnið vex og dafnar þurfa foreldrar að vera samtaka og sammála um uppeldi barnsins. Þeir þurfa að setja reglur og skýran ramma um daglegt umhverfi barnsins. Slíkur rammi veitir barninu öryggi, því líður betur og það á auðveldara með að fara eftir þeim reglum sem því eru settar.
Foreldrar þurfa að vera vakandi fyrir hegðun barnsins. Barnið þarf að fá hrós og styrkingu í viðeigandi hegðun. Slíkt hrós kallast umbun. Reglulega hitti ég foreldra sem eru algerlega á móti öllum umbunum. Þeim finnst að það eigi ekki að þurfa að umbuna börnum sérstaklega fyrir æskilega hegðun. Því er til að svara að umbun er gríðarlega mikilvæg til að styrkja æskilega hegðun.
Umbunin þarf alls ekki að vera í efnislegu formi. Hrós, merki (svo sem þumall upp) og önnur tjáning sem segir barninu að það sé að gera rétt verður að fylgja góðri hegðun. Þegar um vægan agavanda er að ræða getur stjörnugjöf verið gríðarlega áhrifarík.

Barnið viti af óæskilegri hegðun
Á sama hátt þarf barnið að fá að vita þegar hegðun þess er óæskileg. Það á ekki að þurfa að skamma barnið þótt það geri hluti sem foreldrarnir vilja ekki. Yfirleitt er nóg að ræða við það án nokkurs æsings. Aðal inntakið er að barnið þarf upplýsingar um þegar hegðun þess er æskileg og einnig þegar hún er óæskileg.
Ef barn fer að sýna ítrekaða óæskilega hegðun er mikilvægt að foreldrarnir grípi inn í. Barnið þarf að fá að vita hvað það er við hegðun þess sem foreldrunum ekki líkar. Gott er að láta barnið endursegja hvað það má ekki svo foreldrarnir viti fyrir víst að það skilji og að það sé meðvitað um hegðun sína.

Barnið fái viðvörun
Þegar barn sýnir ítrekaða óæskilega hegðun þarf að skoða hvað veldur hegðuninni. Hvenær á hún sér stað, hvar og hvað er í gangi í kringum barnið? Algengt er að sum börn, oft drengir, verði reiðir þegar þeir fá ekki að spila tölvuleikinn sinn lengur.
Gott er að gefa barninu viðvörun áður en það á að hætta. Það má t.d. klára borðið sem það er í eða að það eigi að hætta eftir 10 mínútur. Ef það dugar ekki til missir það þau forréttindi að fá að fara í tölvuleikinn sinn næst þegar kemur að tölvutíma.

Fjalar Freyr Einarsson,
aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is

Að finna gleðina og bæta gæðin í lífinu á ný

vinurÍ lífi manna gengur mismikið á en hjá flestum safnast upp með tímanum atvik og tilfinningar sem erfitt getur verið að vinna úr.
Sumt er meðvitað en annað ómeðvitað og það getur verið erfitt að átta sig á því.
Ég er þarna engin undantekning og eftir því sem leið á, fann ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Eitthvað hafði slökknað innra með mér. Ég hélt samt áfram því ég þurfti að sjá fyrir mér og mínum! Það kom svo að því að ég varð algerlega uppgefinn og gleðin var horfin úr lífi mínu og ég vissi ekki hvað ég vildi eða þurfti. Mér fannst fólk ráðskast með mig, bæði persónulega og í vinnu. Þótt ég hefði einhverjar skoðanir stóð ég ekki á þeim heldur flaut bara með en var ekki ánægður. Ég hafði lítið sjálfsálit og dæmdi mig hart ef eitthvað gekk ekki eins og ég vildi. Mér leið ekki vel og einangraði mig og sinnti ekki mínum eigin þörfum. Mér fannst ég hafa misst stjórnina á lífinu.
Dag einn hitti ég gamlan vin sem greinilega tók eftir breytingu á mér og kannaðist við ástandið því hann fór að segja mér frá hvernig hann hafði endurskoðað líf sitt með aðferðum 12 sporanna. Með því hafði hann náð tökum á lífi sínu á ný. Hann lýsti því hvernig það að skoða líf sitt á þennan hátt fékk hann til að koma auga á ýmislegt sem betur mátti fara. Á einum vetri hefði hann náð góðum tökum á lífi sínu á ný. Hann hafði tileinkaði sér nýjan lífstíl þar sem hann notar aðferðir 12 sporanna til að tækla lífið og tilveruna. Með því var hann nú orðinn sáttur við líf sitt, sig og sína.
Vinur minn hvatti mig til að koma með sér á sporafund hjá Vinum í bata og athuga hvort ég finndi þar leið fyrir mig. Ég varð hissa því ég hélt að 12 sporin væru eingöngu fyrir þá sem ættu við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða.
Það er skemmst frá því að segja að ég sló til og fór í 12 sporin og get nú ekki hugsað mér lífið án þeirra. Með hjálp sporanna tileinkaði ég mér nýjan lífstíl sem gerði mér kleift að ná tökum á lífinu, finna gleðina á ný og lifa í sátt við sjálfan mig og aðra.

Vinir í bata er hópur karla og kvenna á öllum aldri sem hafa tileinkað sér Tólf sporin til að vinna úr sínum málum hvort sem er úr fortíð eða í nútíð.
Kynningarfundurinn verður í safnaðarheimili Lágafellskirkju að Þverholti 3, miðvikudaginn 2. október kl. 19.00. Næstu þrjú miðvikudagskvöld eftir það verða opnir fundir til frekari kynninga en 23. október kl. 19.00 er síðasta tækifærið til að slást í hópinn þennan veturinn því eftir það verður hópnum lokað og hin eiginlega 12 spora vinna hefst.
Bestu kveðjur.

Vinur í bata