Áherslur í uppeldi

Fjalar Freyr Einarsson

Fjalar Freyr Einarsson

Þegar fjölskyldur fá sér hund er ekki óalgengt að farið sé á hundanámskeið þar sem fjölskyldan lærir að umgangast hundinn og siða hann þannig að hundurinn teljist hlýðinn og góður.
Þegar barn kemur í heiminn er sjaldnast farið á námskeið um barnauppeldi. Áhugasamir foreldrar ná sér reyndar í bækur um ungbörn og atlæti þeirra og fræðast þannig um það helsta sem snýr að barninu. Foreldrar fá það reyndar í forgjöf að hafa verið barn, en því er ekki að heilsa með hundinn ;-).

Frumtengsl foreldra seint vanmetið
Uppeldishlutverkið hefst um leið og barnið fæðist, þó ekki með leiðsögn og reglum strax í upphafi heldur við að annast það, vernda og mæta þörfum þess. Frumtengsl foreldra við barn sitt verður seint vanmetið en rannsóknir hafa sýnt að samskipti foreldra og þá helst móður við barn sitt á fyrstu vikum og mánuðum lífs þess hefur afgerandi áhrif á þroska barnsins.
Rannsóknir renna stoðum undir mikilvægi þess að hvítvoðungum sé veitt athygli strax frá upphafi, að móðirin horfi á barnið sitt og gæli við það á meðan það tekur brjóst sem dæmi.

Umbun gríðarlega mikilvæg
Þegar barnið vex og dafnar þurfa foreldrar að vera samtaka og sammála um uppeldi barnsins. Þeir þurfa að setja reglur og skýran ramma um daglegt umhverfi barnsins. Slíkur rammi veitir barninu öryggi, því líður betur og það á auðveldara með að fara eftir þeim reglum sem því eru settar.
Foreldrar þurfa að vera vakandi fyrir hegðun barnsins. Barnið þarf að fá hrós og styrkingu í viðeigandi hegðun. Slíkt hrós kallast umbun. Reglulega hitti ég foreldra sem eru algerlega á móti öllum umbunum. Þeim finnst að það eigi ekki að þurfa að umbuna börnum sérstaklega fyrir æskilega hegðun. Því er til að svara að umbun er gríðarlega mikilvæg til að styrkja æskilega hegðun.
Umbunin þarf alls ekki að vera í efnislegu formi. Hrós, merki (svo sem þumall upp) og önnur tjáning sem segir barninu að það sé að gera rétt verður að fylgja góðri hegðun. Þegar um vægan agavanda er að ræða getur stjörnugjöf verið gríðarlega áhrifarík.

Barnið viti af óæskilegri hegðun
Á sama hátt þarf barnið að fá að vita þegar hegðun þess er óæskileg. Það á ekki að þurfa að skamma barnið þótt það geri hluti sem foreldrarnir vilja ekki. Yfirleitt er nóg að ræða við það án nokkurs æsings. Aðal inntakið er að barnið þarf upplýsingar um þegar hegðun þess er æskileg og einnig þegar hún er óæskileg.
Ef barn fer að sýna ítrekaða óæskilega hegðun er mikilvægt að foreldrarnir grípi inn í. Barnið þarf að fá að vita hvað það er við hegðun þess sem foreldrunum ekki líkar. Gott er að láta barnið endursegja hvað það má ekki svo foreldrarnir viti fyrir víst að það skilji og að það sé meðvitað um hegðun sína.

Barnið fái viðvörun
Þegar barn sýnir ítrekaða óæskilega hegðun þarf að skoða hvað veldur hegðuninni. Hvenær á hún sér stað, hvar og hvað er í gangi í kringum barnið? Algengt er að sum börn, oft drengir, verði reiðir þegar þeir fá ekki að spila tölvuleikinn sinn lengur.
Gott er að gefa barninu viðvörun áður en það á að hætta. Það má t.d. klára borðið sem það er í eða að það eigi að hætta eftir 10 mínútur. Ef það dugar ekki til missir það þau forréttindi að fá að fara í tölvuleikinn sinn næst þegar kemur að tölvutíma.

Fjalar Freyr Einarsson,
aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is