Haustið gengur í garð

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Það er einhvern veginn alltaf ákveðinn léttir þegar fer að hausta, skólarnir byrja, laufblöðin falla, æfingar barnanna falla í fastar skorður og þar með lífið í heild.
Sumarið var náttúrulega dásamlegt hjá okkur í Mosfellsbæ og Aftureldingu, veðrið lék við hvern sinn fingur og til dæmis á fótboltaleikjum meistaraflokkanna var stúkan þéttsetin á flestum heimaleikjum. Við getum verð stolt af því að eiga knattspyrnulið bæði karla og kvenna í topp 20 á Íslandi.
Núna þegar vetrarstarfið fer á fullt langar mig að skora á ykkur kæru foreldrar og velunnarar Aftureldingar að bjóða fram aðstoð ykkar. Sjálfboðaliðastarfið er virkilega gefandi og skemmtilegt, þar sem það er mikil fjölgun hjá okkur á öllum vígstöðum þá vantar alltaf fólk, margar hendur vinna létt verk sagði einhver. Ég hvet ykkur til að setja ykkur í samband við deild að eigin vali.
Fram undan hjá okkur í Aftureldingu er spennandi vetur, meistaraflokkarnir okkar í handbolta og blaki eru í fremstu röð og fara vel af stað. Einstaklingsgreinarnar falla oft í skuggann fyrir hópunum en karate-, taekwondo- og frjálsíþróttafólkið okkar er að standa sig gríðarlega vel svo eitthvað sé nefnt.
Við höfum skrifað undir samning við Sideline, snjallforrit sem er um leið samskiptatæki milli þjálfara, foreldra og iðkenda, og hins vegar er þar mikill æfingagrunnur og tæki til leikgreiningar fyrir þjálfarana okkar.
Við munum innleiða þetta í nokkrum áföngum fram að áramótum. Samhliða því hættum við að nota facebook í þessum tilgangi þannig að þjálfararnir okkar eignast sitt einkalíf aftur 🙂 Markmið okkar með innleiðingu Sideline er að auka þjónustuna bæði við iðkendur og foreldra og ekki síst þjálfarana okkar.
Það verður haldinn starfsdagur fyrir þjálfara og sjálfboðaliða 10. október í Hlégarði þar sem allar æfingar verða felldar niður þann seinnipart til þess að gefa öllum þjálfurum kost á að mæta. Það er gríðarlega mikilvægt að mæta og hlusta á fróðleg erindi og hrista hópinn saman. Það er aldrei of oft sagt að þó að við séum 11 deildir þá erum við öll eitt lið, Afturelding.
Að lokum langar mig að hvetja þig til að mæta á viðburði hjá Aftureldingu og mig langar líka til að hvetja þig til þess að mæta í Aftureldingartreyju, það er svo gaman að tilheyra svona flottu liði sem Afturelding er.

Birna Kristín Jónsdóttir
formaður Aftureldingar