Allt í ru$li

Valdimar Birgisson

Valdimar Birgisson

Það er óhætt að segja að það hafi staðið styr um Sorpu undanfarnar vikur, eftir að það kom í ljós að það vantar rúmar 600 milljónir til þess að klára byggingu á gas- og jarðgerðarstöðinni sem verið er að byggja í Álfsnesi.
Þar fyrir utan þurfti að stækka móttökustöðina í Gufunesi og kaupa tæki þar til þess að hægt sé að nýta sorpið. Þessi tækjakaup gleymdust í áætlun 2019 og bætast við rúmar 700 milljónir af þeim sökum. Það kemur í ljós að kostnaður við stöðina er 1,3 milljörðum meiri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Fyrsta spurninginn er náttúrulega hvort þessi stöð sé nauðsynleg – til hvers er verið að byggja hana? Svarið við því er já, hún er nauðsynleg. Gas- og jarðgerðarstöðin mun geta unnið metangas og moltu úr heimilissorpinu. Sorp sem hingað til hefur verið urðað við bæjardyrnar hjá okkur með tilheyrandi lyktarmengun verður að mestu endurnýtt. Þetta er því hagsmunamál okkar Mosfellinga að þessi stöð rísi.

En þegar mistök eru gerð er eðlilegt að það sé staldrað við, þau skoðuð og lært sé af þeim. Í tilfelli Sorpu eru ekki gerð ein mistök heldur röð mistaka sem leiða í ljós stjórnunarvanda sem þarf að taka á. Því þarf að fara fram umræða um stjórnun Sorpu. Eins og hún er í dag er hún ekki skilvirk. Við erum með stjórn þar sem sitja sex kjörnir fulltrúar sem samkvæmt starfsreglum eiga sérstaklega að gæta þess að nægjanlegt eftirlit sé með bókhaldi og meðferð fjármuna. Allar meiriháttar ákvarðanir eru þó teknar á svokölluðum eigendavettvangi þar sem stjórn Sorpu situr auk bæjarstjóra og borgarstjóra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Því eru samtals tólf kjörnir fulltrúar sem koma að ákvarðanatöku varðandi Sorpu. Þarna vantar skýrara samband á milli ákvarðana, ábyrgðar og eftirlits.

Bæjarfulltrúar Viðreisnar á höfuðborgarsvæðinu hafa látið sig málið varða og lagt til að skipuð verði neyðarstjórn fagfólks sem fari ofan í saumana á rekstri Sorpu. Þessi stjórn starfi tímabundið og klári þau verkefni sem eru fram undan og komi með tillögur að úrbótum. Það er tímabært að stokka upp og laga þegar svona gerist. Við eigum að gera betur.

Valdimar Birgisson
bæjarfulltrúi Viðreisnar