Ámælisvert

Guðjón Jensson

Þegar ekinn er Langitangi á móts við Olís blasir vægast sagt furðulegt fyrirbæri við. Tvö vestustu húsin við Bjarkarholt hafa verið jöfnuð við jörðu og allur trjágróðurinn sem hafði verið gróðursettur með mikilli alúð af fyrri eigendum lóðanna allur upprættur.
Viðurstyggð eyðileggingarinnar hefur blasið við okkur í allan vetur og er framkvæmdaraðila til mjög mikils vansa. Af hverju mátti gróðurinn ekki veita skjól yfir vetrarmánuðina og upprættur skömmu áður en framkvæmdir eiga að hefjast?

Undir lágnætti laugardagsins 4. febrúar mátti heyra allþétta flugeldaskothríð suður af viðlagasjóðshúsunum við Arnartanga þar sem ég hef búið undanfarin 40 ár. Þessi dagsetning var nákvæmlega fimm vikum á eftir gamlársdegi og það er eins og viðkomandi sem málið varðar hafi gleymt sér gjörsamlega.
Hvað vakir fyrir honum að valda samborgurum sínum röskun á svefni og kyrrð? Margt eldra fólk á oft erfitt með svefn og er viðkvæmt fyrir sérhverri röskun í nánasta umhverfi sínu. Sjálfsánægja einhvers sem vill láta á sér bera má aldrei bera skynsemina ofurliði.
Flugeldum má einungis skjóta á loft upp á gamlársdegi og kannski þrettándanum en ekki aðra daga. Lögreglusamþykktir landsins taka á þessu og kannski er sérstök ástæða fyrir bæjarstjórn Mosfellsbæjar að taka þetta mál til skoðunar. Kannski þarf að minna betur á þetta bann og benda á viðurlög sem kunna að varða. Kannski verði að herða þau, gera virkari og fylgja betur eftir.

Kannski væri hyggilegast að banna alfarið sölu og notkun flugelda og blysa. Þessir hlutir hafa reynst mörgum hættulegir og valdið oft slysum og meinsemdum. Þá er mengunin umtalsverð og er miður að sjá allt draslið langt fram á vor eftir skotglaða samborgara sem gleðjast yfir augnablikinu meðan ljósadýrðin stendur yfir. Víða erlendis er notkun flugelda stranglega bönnuð af ýmsum ástæðum og er það ekki að tilefnalausu.
Björgunarsveitirnar eiga að finna sér betri og skynsamari tekjustofna. Þær eiga að hætta við sölu flugelda sem fram að þessu hefur verið einn megintekjustofn björgunarsveitanna.
Loftmengunin hefur verið mjög vanmetin á Íslandi enda telja margir að Ísland sé „hreinasta“ land heims hversu mikil skammsýni sú skoðun sýnir.
Við eigum að stuðla að heilbrigðara lífi og virðingu fyrir náttúru sem og umhverfi okkar. Þar með aukum við lífsgæði okkar allra og eigum betra mannlíf meðal samborgara okkar. Við eigum ekki að valda neinum öðrum vandræðum eða leggja óþarfa steina í götur annarra.
Berum fyllstu virðingu fyrir umhverfinu og samfélaginu.

Guðjón Jensson
arnartangi43@gmail.com

Áramótakveðja

Regína Ásvaldsdóttir

Nýársávarp bæjarstjóra Mosfellsbæjar

Gleðilegt ár kæru íbúar, starfsmenn og aðrir samstarfsaðilar.
Ég vil byrja á því að þakka fyrir samfylgdina síðustu mánuði en ég var ráðin sem bæjarstjóri í sumar, af nýjum meirihluta Framsóknarflokks, Samfylkingar og Viðreisnar. Ég tók til starfa í byrjun

september og það verður að segjast eins og er að verkefnin hafa verið ærin, enda að mörgu að huga í vaxandi bæjarfélagi. Sum verkefnanna fengum við í fangið ef svo mætti að orði komast, eins og viðgerðir í Kvíslarskóla sem er gríðarlega kostnaðarsamt og flókið verkefni, samhliða því að halda úti fullu skólastarfi. Þar eiga nemendur og starfsfólk skólans mikið hrós skilið fyrir þrautseigju og þolinmæði á meðan á framkvæmdum stendur.
Meðal þess sem við höfum lagt áherslu á í starfinu í haust er að miðla upplýsingum til bæjarbúa. Auka fréttaflutning á vefnum og facebook-síðu bæjarins auk þess sem ég hef skrifað vikulega pistla sem birtast á heimasíðu Mosfellsbæjar á föstudagseftimiðdögum þar sem ég fer yfir helstu verkefni vikunnar. Markmiðið er að veita innsýn í starf bæjarstjórans þó að eðli málsins samkvæmt sé ekki farið í einstök málefni sem snerta einstaklinga og fyrirtæki hér í bæ. Fyrir hvert mál sem er tekið til umfjöllunar og ákvarðanatöku í bæjarráði eða fagnefndum bæjarins liggur mjög mikil undirbúningsvinna, sem er oft ósýnileg.

Það er mikil uppbygging fram undan, bæði í Helgafellslandinu, Hamraborginni og í Blikastaðahverfinu, svo helstu nýbyggingarsvæðin séu nefnd. Fjölgun íbúa fylgir þörf á aukinni velferðarþjónustu, nýjum skólum og leikskólum, bættri aðstöðu fyrir íþrótta-, frístunda- og menningarstarf auk þess sem það þarf að styrkja stjórnsýsluna í bæjarfélaginu. Þar ber helst að nefna innleiðingu stafrænna lausna og verkferla sem stytta málsmeðferðartíma gagnvart bæjarbúum og fyrirtækjum.

Til þess að undirbúa sveitarfélagið sem best fyrir framtíðina þá var samþykkt af öllum flokkum í bæjarstjórn að ráðast í stjórnsýslu- og rekstrarúttekt á bæjarskrifstofunum og samþykkt að fá ráðgjafafyrirtækið Strategíu í verkefnið.

Tilgangur úttektarinnar er að fá fram mat á núverandi stöðu sveitarfélagsins og leiða fram hvernig stjórnsýsla Mosfellsbæjar virkar í dag gagnvart íbúum, stofnunum bæjarins, hagsmunaaðilum, kjörnum fulltrúum og starfsmönnum. Jafnframt að setja fram á grunni stöðumatsins tillögur að umbótum sem eru til þess fallnar að efla starfsemi bæjarins. Loks þarf úttektin að leiða fram helstu áhættur í rekstri Mosfellsbæjar og mat á fjárfestingargetu sveitarfélagsins til skemmri og lengri tíma.
Mosfellsbær, eins og önnur sveitarfélög fer ekki varhluta af verðbólgu og háu vaxtastigi. Það hefur mikil áhrif á niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 og sveitarfélagið mun skila neikvæðri niðurstöðu, eins og reyndar árin 2020 og 2021. Þar voru áhrif Covid veruleg á rekstur sveitarfélagsins.
Við stefnum hinsvegar að hallalausu ári á árinu 2023 og farið verður í fjölmörg ný verkefni og velferðarþjónusta bæjarins verður styrkt svo um munar.
NPA-samningum verður fjölgað og tækifæri fatlaðra einstaklinga til atvinnu við hæfi verða aukin. Bætt verður í ráðgjöf við fjölskyldur og börn og frístundaþjónusta við fötluð börn efld, sem og skammtímadvöl. Uppbygging búsetuúrræða fyrir fatlað fólk heldur áfram og gert er ráð fyrir stofnframlögum til óhagnaðardrifinna félaga til byggingar á hagkvæmum leiguíbúðum.
Á næsta ári verður skólaþjónusta styrkt með fjölgun starfsmanna og 50 ný leikskólapláss tekin í notkun. Lokið verður við endurbætur á 1. hæð Kvíslarskóla og átak gert í endurbótum á skólalóðum og það sama á við um íþróttahús og útisvæði við Helgafellsskóla.
Áhersla verður lögð á heildstæða uppbyggingu íþróttasvæða í bæjarfélaginu og til stendur að endurbæta gervigras á fótboltavelli við Varmá sem og hönnun og útboð á endurgerð aðalvallar. Þá hefst undirbúningur að byggingu þjónustubyggingar við íþróttahúsið á árinu.
Endurskoðun á aðalskipulagi stendur yfir og umhverfissvið verður styrkt með fjölgun starfsmanna til að styðja við fyrirsjáanlegan vöxt næstu ára. Þá er vinna hafin við forgangsröðun og gerð rammaskipulags mögulegra uppbyggingasvæða. Nýjum lóðum verður úthlutað í 5. áfanga í Helgafellslandi og gert er ráð fyrir umfangsmiklum framkvæmdum við stofnlagnir vatns-, hita- og fráveitu ásamt raf- og fjarskiptalögnum á atvinnusvæðinu í Blikastaðalandi.
Stafrænn leiðtogi Mosfellsbæjar hefur verið ráðinn og bærinn tekur þátt í stafrænum verkefnum á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Á sviði menningarmála verður viðburðum á vegum Mosfellsbæjar í Hlégarði fjölgað og hafin vinna við mótun stefnu á sviði atvinnu- og nýsköpunarmála.

Ný áfangastofa ferðamála fyrir allt höfuðborgarvæðið tekur til starfa á árinu og eru fjölmörg tækifæri fyrir Mosfellsbæ í því samstarfi.

Það er því ekki annað hægt en að vera bjartsýnn á framtíðina hér í Mosfellsbæ. Góðir innviðir, frábært starfsfólk og mikill vilji og tækifæri til umbóta einkennir samfélagið.

Ég hlakka til vegferðarinnar á nýju ári!

Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri

Frístundastyrkir fyrir ungmenni og eldri borgara

Ásgeir Sveinsson

Við gerð nýsamþykktar fjárhagsáætlunar lögðu bæjarfulltrúar D-lista fram tillögu um hækkun á frístundaávísunum til barna, ungmenna og eldra fólks í Mosfellsbæ.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti að vísa málinu til bæjarráðs og var tillaga fulltrúa D-lista samþykkt í bæjarráði á fundi þann 22. desember.
Hækkun frístundastyrkja tekur gildi frá 1. ágúst 2023 og verður frístundaávísun fyrir 1 barn kr. 57.000 og 65.000 fyrir 3 börn og fleiri.
Frístundastyrkur fyrir eldri borgara verður kr. 11.000.
Þessi hækkun tryggir að frístundastyrkir verða áfram með þeim hæstu í Mosfellsbæ af sveitarfélögum eins og undanfarin ár.
Ég hvet foreldra og forráðamenn ungmenna og sem og eldri borgara í Mosfellsbæ að nýta frístundastyrkinn í þá fjölbreyttu íþrótta- og tómstundaiðkun sem í boði er þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Þátttaka í íþróttum og tómstundum er mjög mikilvæg fyrir okkur öll, líkamlega, andlega og félagslega og í lýðheilsubænum Mosfellsbæ geta allir aldurshópar fundið sína tómstund.
Kynnið ykkur hvað er í boði og svo er bara að drífa sig af stað.
Kær lýðheilsukveðja.

Ásgeir Sveinsson, bæjarfulltrúi.
Oddviti D-lista Mosfellsbæ.

Mosfellingar greiða hærri skatta

Bryndís Haraldsdóttir

Sem þingmaður og áður bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hér í bæ hef ég og mun áfram leggja áherslu á að álögum á íbúa sé haldið í lágmarki.
Við búum í velferðarsamfélagi og það vil ég standa vörð um. Þess vegna eru skattar nauðsynlegir, til þess að standa straum af þeirri sameiginlegu velferðarþjónustu sem við viljum veita. En á sama tíma er mikilvægt að kjörnir fulltrúar fari vel með fé íbúa sinna og tryggi að það sé vel nýtt. Það er og hefur verið grunnstefna Sjálfstæðisflokksins.
Þannig hefur það verið í fjölda ára að Mosfellsbær, ásamt öðrum sveitarfélögum í Suðvesturkjördæmi, hefur ekki innheimt hámarksskatt af íbúum sínum. Í þessu kjördæmi hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í meirihluta í öllum sveitarfélögunum.
En nú eru breyttir tímar hér í bæ. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum vann Framsókn mikinn kosningasigur og myndaði meirihluta með Viðreisn og Samfylkingu.
Sú breyting mun birtast íbúum Mosfellsbæjar strax í hærri sköttum þar sem sveitarstjórnin hefur nú ákveðið að innheimta hámarksútsvar og heldur uppi fasteignagjöldum. Þannig aukast álögur á íbúa Mosfellsbæjar umtalsvert strax á fyrsta ári þessa nýja meirihluta. Íbúar sjá strax hækkun fasteignagjalda en útsvarshækkun mun birtast okkur þegar skattaárið er gert upp.
Í öðrum sveitarfélögum í Suðvesturkjördæmi þar sem Sjálfstæðismenn eru enn í meirihluta er ekki innheimt hámarksútsvar og fasteignagjöld hafa verið lækkuð til að koma til móts við hækkun fasteignamats.
Mosfellsbær sker sig úr og er kominn í sömu stöðu og Reykjavík þar sem álögur á íbúa eru meiri, enda eru sömu flokkarnir við völd í þessum tveimur sveitarfélögum. Við vitum öll hvernig fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er, slíkt má ekki gerast hér í Mosfellsbæ.
Ég vil því brýna fyrir félögum mínum, Sjálfstæðismönnum í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, að halda áfram uppi vörnum fyrir skattgreiðendur hér í bæ. Áherslan á að vera að halda álögum í lágmarki og tryggja að skattfé sé vel nýtt í grunnþjónustuna en ekki í gæluverkefni. Ég vil svo brýna fyrir öðrum bæjarfulltrúum að hlusta á tillögur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Það hefði svo sannarlega komið sér betur fyrir heimilisbókhald Mosfellinga ef tillögum þeirra við fjárhagsáætlun 2023 hefði verið fylgt.
Gleðilegt ár kæru sveitungar.

Bryndís Haraldsdóttir

Jákvæðni er valkostur

Ólöf Kristín Sívertsen

Gleðilegt ár kæru Mosfellingar og nærsveitungar!
Um áramót eru margir sem setja sér markmið fyrir komandi ár og líta margir á þessi tímamót sem nýtt upphaf þar sem fram undan eru 365 óskrifaðir dagar og þar með ótal tækifæri til að efla eigin vellíðan og annarra.

Ég sjálf ætla t.d. að temja mér að hrósa meira, hugsa jákvætt, vera þakklát, sjá og grípa tækifærin og bara að vanda mig almennt við það að vera glöð og gefandi manneskja og láta gott af mér leiða.
Það er nefnilega þannig að flest sem við segjum og gerum hefur ekki eingöngu áhrif á okkur sjálf heldur öll í kringum okkur.

Veljum jákvætt viðhorf
Til að hlúa að vellíðan og andlegu heilbrigði þarf að skapa aðstæður sem ýta undir jákvæð samskipti og heilbrigða sjálfsmynd og gera öllum kleift að rækta styrkleika sína, taka virkan þátt í lífinu og blómstra á eigin forsendum.
Hver einstaklingur ber hér ábyrgð því viðbrögð okkar við því sem gerist í lífinu stjórna líðan okkar og eftir því sem viðhorf okkar til hlutanna er jákvæðara þeim mun betri verður líðan okkar. Hins vegar er ekki nóg að efla eingöngu einstaklinginn heldur þarf umhverfið að einkennast af félagslegu réttlæti og jöfnum tækifærum þar sem tekið er tillit til ólíkra þarfa og takmarkana fólks.

Geðorðin 10
Til að hjálpa okkur við að skapa sem besta líðan eigum við að sjálfsögðu að nýta þau tæki og tól sem til eru og koma Geðorðin 10 þar sterk inn (www.landlaeknir.is). Þau eru aðgengileg heilræði fyrir alla sem gott er að staldra við í dagsins önn:

1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara
2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir
4. Lærðu af mistökum þínum
5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina
6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu
7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig
8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup
9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína
10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

Höfum hugfast að við getum haft áhrif á líðan okkar með hugarfari og að viðbrögð okkar við þeim verkefnum og áskorunum, sem mæta okkur í daglegu lífi, skipta þar höfuðmáli.
Jákvæðni er raunverulegur og skynsamlegur valkostur!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Hátíðarkveðja

Halla Karen Kristjánsdóttir

Kæru Mosfellingar

Gjöfin
Ég veit ekki hvort þú hefur
huga þinn við það fest.
Að fegursta gjöf sem þú gefur
er gjöfin sem varla sést.

Ástúð í andartaki
augað sem glaðlega hlær,
Hlýja í handartaki,
hjartað sem örar slær.

Allt sem þú hugsar
heiminum breytir til.
Gef þú úr sálarsjóði
sakleysi fegurð og yl.
Úlfur Ragnarsson

Okkur í Framsókn langar að óska ykkur kæru sveitungar gleðilegra jóla og megi nýja árið færa ykkur gleði, heilsu og hamingju. Munum að hamingjan er val, hamingjan er lífstíll og hamingjan er ákvörðun en allt er það vinna. Fyllum líf okkar af því sem okkur þykir gaman að gera. Eitthvað sem gerir okkur glaðari, ánægðari eða eitthvað sem nærir okkur.
Það er líka mikilvægt að staðsetja sig sólarmegin í lífinu þannig að gleði, jákvæðni og þakklæti séu til staðar alla daga. Já við þurfum að staldra aðeins við og njóta allra einföldu hlutanna sem eru allt í kringum okkur, þeir eru lífið. Njótum þess!
Gefum af okkur, vöndum framkomu okkar við aðra því þannig gerum við gott samfélag betra.
Eigið góða daga, alla daga og megi gæfan umvefja ykkur.
Með jólakveðju,
Framsókn í Mosfellsbæ.

Halla Karen Kristjánsdóttir
oddviti Framsóknar

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar – árið 2023

Ásgeir Sveinsson

Nýr meirihluti Framsóknarflokksins, Samfylkingar og Viðreisnar hefur samþykkt sína fyrstu fjárhagsáætlun, áætlun ársins  2023.

Fjárhagsáætlunin nýtur sannarlega góðs af faglegu og góðu starfi starfsfólki Mosfellsbæjar og bæjarstjórnar undanfarinna ára og með þessum grunni eru allir möguleikar fyrir hendi að til að auka og bæta þjónustu við bæjarbúa. Það eru vissulega krefjandi tímar og óvissa varðandi horfur í efnahagsmálum og því mikilvægt að sýna ábyrgð í fjármálastjórnun og áríðandi að forgangsraða eins vel og hægt er og að gera raunhæfar áætlanir bæði á tekjum og gjöldum. 

Undanfarin ár hafa verið ár fólksfjölgunar og mikilla framkvæmda í Mosfellsbæ. Þjónusta hefur verið aukin og breytingar gerðar með það markmið að  veita betri, viðtækari og skilvirkari þjónustu og gera aðgengi að þjónustunni þægilegra og auðveldara

Velferðarmál.

Jana Katrín Knútsdóttir

Velferðarmál er málaflokkur með umfangsmikla þjónustu sem mun aukast enn meiri næsti árin samhliða fjölgun íbúa í Mosfellsbæ.   Heildaráætlun vegna reksturs fjölskyldusviðs á árinu 2023 nemur um 3 milljarða króna og hækkar um 490 miljónir milli ára. Þessi hækkun er tilkomin vegna aukningar á lögbundinni þjónustu sveitarfélasins  og á móti þessari útgjalda aukningu fær Mosfellsbær 550 miljónir frá Jöfnunarsjóði. Í fjárhagsáætluninni er því  ekki að sjá útgjaldaukningu  vegna áherslna eða stefnu nýs meirihluta.

Skólar og leikskólar

Í Mosfellsbæ er öflugt skólasamfélag í leik-og grunnskóla þar sem fagleg vinna og stöðug þróun er í hávegum höfð af hæfileikaríku og metnaðarfullu starfsfólki. Nú í vor var ný menntastefna fyrir Mosfellsbæ samþykkt og er innleiðing hennar þegar hafin í skólum bæjarins.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Á síðustu tveimur árum hefur markvisst verið byggð upp stoðþjónusta á báðum skólastigum og mikilvægt að þeirri vinnu verði haldið áfram. Staða leikskólamála í Mosfellsbæ er með því besta sem gerist á landinu og er það mjög ánægjulegt. Ástæðan fyrir þessari góðu stöðu er að undafarin ár hefur verið unnið mjög faglegt og gott starf á bæði fræðslu- og umhverfissviði að kortleggja framtíðarþörf á leiksólaplássum og brugðist við því tímanlega að fjölga plássum þannig að nægt framboðs sé ávallt á leikskólaplássum. Í Mosfellsbæ hefur ekki verið úthlutað plássum í leikskóla sem ekki er búið að byggja eins og gert er í Reykjavík og vonandi verður þau vinnubrögð ekki tekin upp hér. 

Undanfarin tvö ár hefur verið í undirbúningi bygging nýs 150 barna leikskóla í Helgafellshverfi.  Búið er að hanna og samþykkja bygginguna.  Bygginguna átti átti að bjóða út sl. vor.  Því miðir hefur það útboð ekki átt sér stað og hefur nýr meirihluti einungis boðið út jarðvinnu sem nú er lokið. Að því loknu var stofnaður starfshópur um leikskólamál og uppbyggingu leikskóla í Mosfellsbæ til næstu 5 ára.  Að okkar mati var þessi  vinna algjörlega óþörf því þessar upplýsingar sem starfshópurinn átti að skila liggja fyrir á fræðslusviði og nú þarf meirihlutinn að hafa þor til þess að taka ákvörðun um að hefja framkvæmdir sem fyrst svo leikskólamálin bæjarins geti áfram verið með þeim bestu í landinu sem fyrr.

Helga Jóhannesdóttir

Upplýsinga- og tæknimál eru mikilvæg okkar unga fóki og síðustu ár hefur  markvisst  verið  unnið  að  því  að  efla  upplýsinga-  og  tæknimál  í  leik-  og grunnskólum Mosfellsbæjar. Í framhaldi af þeirri vinnu lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði fram tilögu í júní s.l. um stofnun Fablab smiðju Í Mosfellsbæ.  Tillögunni var vísað  úr bæjarráði til atvinnu- og nýsköpunarnefndar. Því miður er fjármagn í þetta verkefni ekki sjáanlegt í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun en vonandi kemst það á dagskrá sem allra fyrst enda mjög jákvætt og mikilvægt verkefni.

Íþróttir og lýðheilsumál.

Mosfellsbær er íþrótta- útivistar- og lýðheilsubær og hefur verið lögð mikil áhersla ár að efla og styrkja enn frekar þennan málaflokk undanfarin á fyrir íbúa á öllum aldri. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á Íþróttamiðstöðinni að Varmá  undafarin 2-3 ár. Nýtt fjölnota knatthús hefur veirð tekið í notkun og samþykkt var á síðast kjörtímabili fyrirhuguð forgangsröðun um áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Sú áætlun er nú í algjörri óvissu og uppnámi og ljóst að samkvæmt fjárhagsáætlun sem samþykkt hefur verið mun sú uppbygging tefjast um  allt að tvö ár í sumum tilfellum. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn hafa lagt fram tillögur um að breyta forgangsröðun til að minka þessar tafir en þær tillögur hafa allar verið felldar af meirihlutanum

Framkvæmdir og lóðaútlutanir

Undanfarin ár hafa verið miklar nýframkvæmdir í bænum á vegum Mosfellsbæjar þrátt fyrir mikið tekjufall árin 2020 og 2021 og sýnir það sterka fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins.  Næsta ár er þar engin undantekning því samkvæmt rekstraráætluninni  verða eignfærðar framkvæmdir um 4,1 miljarðar króna. Þessar tölur endurspegla með skýrum hætti að Mosfellsbær er sveitarfélag í örum vexti þar sem nú sem fyrr er mikið lagt úr uppbyggingu innviða.

Í fyrsta skipti í mjög langan tíma er Mosfellsbær í aðstöðu til að úthluta lóðum úr eigin landi og það í töluverðu magni, eða yfir 200 lóðir. Um er að ræða lóðir í 5. og 6 áfanga Helgafellshverfis auk lóða á Hamraborgarsvæði, við Langatanga fyrir neðan Olís. Mikil eftirspurn er eftir þessum lóðum sem eru allflestar undir sérbýli og virði þeirra fyrir rekstur bæjarins mikil næstu misseri og ár. Því miður hafa úthlutanir lóða tafist í 5. áfanga af ýmsum ástæðum sem er mjög bagalegt í alla staði. Uppbygging tefst, kostnaður tilvonandi lóðahafa hefur hækkað og það lengist sá tími sem tekjur af þessum nýju íbúum skila sér til sveitarfélagsins.

Fjárhagsáætlun nýs Meirihluta

Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er góð, þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í efnahagsmálum og ljóst að nýr meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar í Bæjarstjórn Mosfellsbæjar tekur við góðu búi. Mjög margt að því sem tilgreint er í fjárhagsáætlun fyrir 2023 eru áframhaldandi vinna á  góðum verkum fyrri meirihluta fyrir utan stórfelldar skattahækkanir sem eru alfarið í boði nýs meirihluta. Í Mosfellsbæ hefur verið rekin ábyrg og fagleg  fjármálastjórn undanfarin mörg ár og bæjarfulltrúar D lista styðja ávallt ábyrga fjármálastjórnun.

Í umræðu um fjárhagsáætlun bæjarins kom fram megin áherslumunur okkar og meirihlutans.  Áherslumunurinn varðar áætluðar tekjur af byggingarétti og lóðaúthlutun sem koma fram í áætluninni, en þær eru að okkar mati van áætlaðar. Þessi van áætlun gerir það að verkum að skattar og álögur hafa verið stórhækkaðar á íbúa á þessum tímum verðbólgu, mikilla hækkana á allri þjónustu sveitarfélagsins og hárra vaxta.

Þar er alvarlegasta dæmið hækkun fasteignagjalda sem munu hækka um 15-18 % á næsta ári og á sama tíma hrósar meirihlutinn sér af því að lækka fasteignaskattinn örlitið sem dugir engan vegin til vegna stórhækkaðs fasteignamats á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Auk þessara hækkana á öllum gjöldum hjá sveitarfélaginu eru uppi áform um frestanir uppbygginar á fyrrnefndum bygginum, það er leikskóla í Helgafellshverfi og íþróttamannvirkjum að Varmá.

Að lokum ber þess að geta að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn lögðum m.a. fram eftirfarandi tillögur til breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2023, en þær voru allar felldar nema tillaga um hækkun frístundastyrkja sem var vísað til bæjarráðs og samþykkt þar:

Tillögur D-lista sem voru felldar eru eftirfarandi:

  • Lagt er til að útsvar verði óbreytt og ekki hækkað upp í löglegt hámark 14,52 %
  • Lagt er til að fasteigngjöld verði lækkuð eins og undanfarin ár svo þau hækki ekki umfram vísitölu, aAnnars hækka gjöldin um 15-18 % eftir hverfum
  • Lagt er til að farið verði í framkvæmdir við þjónustubygginguna að Varmá strax í byrjun næsta árs í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir.
  • Lagt er til að hafnar verið strax framkvæmdir við leikskólann í Helgafellslandi í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir
  • Lag er til að FabLab smiðja verði sett á stofn í Mosfellsbæ árið 2023. (tillögunni var vísað inn í nefnd)

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðislokksins í í Mosfellsbæ munum styðja sem fyrr ranhæfar og góðar tillögur meirihlutans á kjörtímabilinu en munum að sjálfsögðu halda áfram að koma okkar tillögum og stefnumálum á framfæri svo áfram verði best að búa í Mosó.

Bæjarfulltrúar D-lista.
Ásgeir Sveinsson
Jana Katrín Knútsdóttir
Rúnar Bragi Guðlaugsson
Helga Jóhannesdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Þekkir þú erfðarétt þinn?

Margrét Guðjónsdóttir

Að þekkja erfðarétt sinn og ganga frá málum með gerð erfðaskrár getur bæði verið skynsamlegt og komið í veg fyrir ýmis vandamál við andlát eða skilnað.
Erfðaskrá er formbundinn skriflegur löggerningur um hinsta vilja einstaklingsins.

Vissir þú að…
…hver sá sem er orðinn fullra 18 ára og telst andlega heill getur ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá.

…langlífari maki á lög

bundinn rétt til setu í óskiptu búi með sameiginlegum börnum sínum og hins skammlífara, nema annað hafi verið ákveðið í erfðaskrá.
Ekki þarf samþykki sameiginlegra barna þar um og skiptir þá engu hvort þau eru fjárráða eða ófjárráða. Þess skal þó getið að sækja þarf um leyfi til setu í óskiptu búi hjá sýslumanni í því umdæmi sem viðkomandi býr.

…langlífari maki á ekki rétt til að sitja í óskiptu búi með börnum hins skammlífara, nema þau eða forráðamenn þeirra, ef þau eru yngri en 18 ára, samþykki það. Innan þriggja mánaða frá 18 ára aldri getur barnið síðan óskað eftir að búinu verði skipt.
Ef fjárráða stjúpniðjar, þ.e. 18 ára og eldri, hafa samþykkt setu hins langlífara í óskiptu búi, geta þeir krafist skipta á búinu með eins árs fyrirvara. Þetta er hægt að koma í veg fyrir með erfðaskrá.
…aðeins fólk í hjúskap getur gert erfðaskrá sem heimilar eftirlifandi maka að sitja í óskiptu búi. Sambúðarfólk getur það ekki.

…sambúðaraðilar eiga engan erfðarétt eftir hvort annað og skiptir þá lengd sambúðar eða sameiginleg börn engu þar um. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum er hægt að tryggja sambúðaraðila arf með erfðaskrá.

… þú getur gert arf barna þinn að séreign gangi þau í hjúskap eða eru í hjúskap.

…skv. erfðalögum er öllum heimilt að ráðstafa að vild einum þriðja eigna sinna með erfðaskrá. Gildir þetta jafnt fyrir þá sem eru í hjúskap og/eða eiga börn. Maki sem situr í óskiptu búi getur aðeins ráðið eignarhluta sínum með erfðaskrá.

…þeim sem ekki eiga skylduerfingja, þ.e. börn eða maka, er heimilt að ráðstafa öllum arfi sínum með erfðaskrá.

… fari skipti á dánarbúi fram eftir lát beggja hjóna, fellur niður lögmæltur erfðaréttur hins langlífara eftir hið skammlífara.

…við andlát einstaklings verður til sjálfstæð lögpersóna, dánarbú, sem tekur tímabundið við öllum réttindum og skyldum hins látna. Huga þarf því vel að framtalsskilum og skuldastöðu hins látna.
…óski erfingjar eftir einkaskiptum á dánarbúi hins látna bera þeir persónulega ábyrgð á öllum skuldum, einn fyrir alla og allir fyrir einn, hvort sem þeim er um þær kunnugt eða ekki.

Margrét Guðjónsdóttir lögmaður aðstoðar við einkaskipti dánarbúa, hvort sem er að sækja um leyfi til einkaskipta og koma fram af hálfu erfingja í nafni dánarbúsins, sjá um opinbera skýrslugerð, sölu eigna, úthlutun til erfingja eða hvað annað sem dánarbúi viðkemur þar til skiptum er lokið.

Verið velkomin.

Margrét Guðjónsdóttir lögmaður
MG Lögmenn
margret@mglogmenn.is
www.mglogmenn.is

Tillögu um greiðslu á húsaleigu vegna Karla í skúrum hafnað

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Þann 5. apríl 2018 var haldinn opinn íbúafundur í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ um stefnumótandi áherslur íbúa varðandi málefni eldri íbúa í Mosfellsbæ. Þátttakendur voru um 110 talsins.
Það kom líklega fyrst fram á prenti hér í Mosó það sem síðar varð að átaksverkefninu frá Rauða krossinum, Karlar í skúrum, en það sem fram kom á íbúafundinum var einmitt mikilvægi þess að ,,virkja karlana í kjallaranum“ eins og það var orðað þá!

Verkefnið Karlar í skúrum sækir fyrirmynd sína til Ástralíu og Írlands og hefur Rauði kross Íslands haft frumkvæði að stofnun verkefnisins hér á landi, sem síðan varð að veruleika í Mosfellsbæ í nóvember 2020.
Tilgangur starfsins er að auka lífsgæði félagsmanna, einkum eldri karlmanna, í gegnum handverk og samveru og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og neikvæðum afleiðingum hennar og skapa karlmönnum vettvang til að hittast á þeirra eigin forsendum.

Karlar í skúrum er opið fyrir alla karlmenn og gefur þeim stað og stund til að hittast, spjalla og vinna að ýmsum sameiginlegum verkefnum sem þeir sjálfir ákveða. Þar skiptast þeir á þekkingu og gefa til samfélagsins í leiðinni.
Markmið verkefnisins var að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karlmanna er í fyrirrúmi, þar sem þeir halda sér við líkamlega, andlega og félagslega.

Mosfellsbær hefur frá upphafi styrkt verkefnið meðal annars með því að greiða fyrir húsaleigu en eftir að upphaflegi samningurinn rann út hafa karlarnir sjálfir þurft að greiða húsaleiguna.
Við í D-listanum komum með þá tillögu til fjárhagsáætlunar að Mosfellsbær myndi áfram greiða húsaleigu fyrir þetta frábæra verkefni. Meirihlutinn ákvað á fundi bæjarráðs nr. 1556 að koma með tillögu um að nýta ágóðahlutagreiðslu frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands til að styrkja verkefnið Karlar í skúrum og Heilsa og hugur (Heilsa og hugur er verkefni sem var sett á laggirnar á síðasta kjörtímabili af þáverandi meirihluta).
Styrkurinn hljóðar upp á 782.000 kr. en við í D-listanum komum með málsmeðferðartillögu um að þessi styrkur færi ekki til greiðslu húsaleigu heldur til tækja- og vélakaupa og/eða námskeiðshalda og að Mosfellsbær héldi áfram að greiða húsaleigu að fullu fyrir þetta mikilvæga verkefni.
Þeirri tillögu var alfarið hafnað af B-,C- & S-lista meirihlutans, og munu því Karlar í skúrum áfram greiða húsaleigu sem nemur kr. 120.000 á mánuði, að frátöldum fyrrnefndum styrk.

Rúnar Bragi Guðlaugsson
Bæjarfulltrúi

Það er betra að vera unglingur í bæ en í borg

Guðrún Helgadóttir

Ég vil vekja athygli á hversu gott það er að vera unglingur í bæ en ekki í borg. Það geri ég vegna væntanlegra aðgerða Reykjavíkurborgar í niðurskurði á opnunartíma félagsmiðstöðva, sem er aðför að barna- og unglingavelferð.
Við í stjórn SAMFÉS – samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi gagnrýnum þetta harðlega ásamt öllum þeim sem koma að þessum vettvangi.
Unglingar í Mosfellsbæ eru einstaklega heppnir þegar kemur að félagsmiðstöðvarstarfi. Hvergi á landinu er jafn mikill opnunartími félagsmiðstöðva. Mosfellsbær býður upp á þetta mikla starf til að tryggja að börn og unglingar hafi samastað í öruggu umhverfi þar sem bæði fer fram formlegt og óformlegt frístundastarf. Þar er hægt að tryggja mikilvægt samstarf barna/unglinga, skóla, foreldra og félagsmiðstöðva.

Það sem Mosfellsbær býður upp á umfram flest, ef ekki öll, bæjarfélög er heilsdagsopnun félagsmiðstöðva. Nú hugsa eflaust margir um hvers vegna félagsmiðstöð sé að opna klukkan 9:00 á morgnana þegar börnin eiga að vera í skóla? Í hugum margra er félagsmiðstöðin geymslustaður fyrir unglinga eftir skóla og fram á kvöld. Þar sem unglingarnir eru best geymdir til að drepa tímann.
Ég hitti reglulega fyrrum unglinga sem koma til að þakka fyrir að starfsmenn Bólsins voru alltaf til staðar og benda á að Bólið bjargaði þeim á svo margan hátt. Oft eru þetta unglingar sem pössuðu ekki inn í ramma skólans eða voru ekki svo heppnir að búa við hin fullkomnu skilyrði heima fyrir. Hver sem ástæðan var, þá áttu þeir öruggt athvarf í Bólinu.

Það sem félagsmiðstöðvarstarf snýst um er að vinna með einstaklinga og hópa á jafnréttisgrundvelli. Án stífra ramma en alltaf með virðingu að leiðarljósi. Félagsmiðstöðin er staður þar sem unglingar geta komið og opnað sig, tjáð tilfinningar, áhyggjur og sorgir. Staður þar sem er hlustað er á þá og ef á þarf að halda, staður þar sem starfsmenn koma erfiðum málum í rétt ferli, þannig að hægt sé að tryggja velferð og öryggi barna og unglinga. Staður þar sem starfsfólk er vinir, en á sama tíma fagfólk sem getur gripið inn í óæskilega hegðun. Starfsmenn sem eru vinir en þekkja mörk og heilbrigð samskipti og geta miðlað því áfram til unglinganna. Starfsmenn sem eru vinir, en eru ófeimnir við að nálgast erfið umræðuefni sem unglingurinn er ekki tilbúinn til að ræða við foreldra/aðstandendur.
Það sem gerist á daginn í félagsmiðstöðinni er að unglingarnir koma til okkar í frímínútum, í eyðum, í félagsfærni eða þeir koma í þau valfög sem við kennum. Valfögin eru alls konar. Þar má nefna kynfræðslu, fatahönnun, félagsfærni og félagslega styrkingu. Auk þess þá tökum við alla bekki unglingadeildanna til okkar í fræðslu tengda fræðsluherferðum okkar.

Til að koma aftur að upphafspunktinum, þá er ég svo þakklát fyrir langtímasýn stjórnenda Mosfellsbæjar. Með niðurskurði á þessum vettvangi er verið að kasta krónum til að spara aura. Ráðuneytin eru meðvituð um að staða barna og unglinga eftir heimsfaraldur er ekki eins og við óskum okkur. Til að bregðast við, þá sit ég ásamt öðrum sem vinna að málefnum barna og unglinga í ótal vinnuhópum á vegum ráðuneytanna um hvernig megi bregðast við þessari þróun sem er meðal annars aukin áhættuhegðun, kvíði og félagsleg einangrun. Þrátt fyrir þetta þá ætlar Reykjavíkurborg að skera niður fjárveitingu, sem er með öllu óskiljanlegt.

Því vil ég enn og aftur þakka fyrir að stjórnendur Mosfellsbæjar sjái og meti það góða og mikilvæga starf sem félagsmiðstöðvar sinna. Þó svo enn sé vinna fram undan við að koma starfseminni á þann stað sem okkar börn og unglingar eiga skilið, þá er Mosfellsbær orðinn það bæjarfélag sem horft er til á þessum vettvangi.
Hrós til Mosfellsbæjar – ég er þakklát fyrir að unglingarnir mínir fái að alast upp í bæjarfélagi sem er tilbúið að styrkja undirstöðuna, sem er unga fólkið okkar.

Virðingarfyllst,
Guðrún Helgadóttir
Forstöðumaður Bólsins

Ert þú á löglegum hraða?

Ásgeir Sveinsson

Skipulagsnefnd fundar aðra hverja viku og hefur nefndin fundað aukalega í ár vegna endurskoðunar aðalskipulags. Endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar er langt komin og er áformað að vinnunni ljúki fyrri hluta næsta árs.
Nefndinni hafa borist þónokkur erindi er tengjast endurskoðun aðalskipulagsins og er mögulegt að sjá þessi erindi í fundargerðum nefndarinnar.
Skipulagsnefnd berast erindi er varða til dæmis breytingar á deili- og/eða aðalskipulagi Mosfellsbæjar, en þar sem nefndin er einnig umferðarnefnd, koma málefni er tengjast umferðarmálum í Mosfellsbæ einnig til nefndarinnar. Á fundi skipulagsnefndar í nóvember sl. kom fram samantekt um hraðamælingar lögreglunnar hér í Mosfellsbæ, sem framkvæmdar voru fyrr á árinu. Niðurstöður þessara hraðamælinga voru því miður ekki góðar. Hraðamælingar fóru fram á 12 stöðum hér í bænum og kom í ljós að 7-38% ökumanna óku of hratt, mismunandi eftir götum og hverfum. Á einum stað þar sem hámarkshraði er 70 km/klst. var til dæmis ekið á allt að 124 km hraða. Þetta er því miður of hátt hlutfall og of mikill umferðarhraði. Við hvetjum alla bæjarbúa til að virða umferðarhraða og umferðarreglur í bænum okkar því við verðum að sýna gott fordæmi, sérstaklega nú í skammdeginu.

Helga Jóhannesdóttir

Meðal verkefna sem eru í vinnslu og undirbúningi hjá skipulagsnefnd má nefna deiliskipulag 6. áfanga Helgafellshverfis, deiliskipulagsbreytingar við Bjarkarholt og miðbæjargarð, skipulag Borgarlínu og umferðar í miðbæ Mosfellsbæjar, umferðaröryggisáætlun fyrir bæinn, uppbyggingu á athafnasvæði Blikastaðalands, uppbyggingu Hamraborgar við Langatanga og 5. áfanga Helgafellshverfis.
Í nýsamþykktri samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar hafa skipulagsfulltrúa nú verið fengnar víðtækari heimildir en áður til afgreiðslu erinda sem berast, sem er mjög jákvætt og mun stuðla að enn betri og skilvirkari þjónustu við bæjarbúa.

Ásgeir Sveinsson og Helga Jóhannesdóttir,
bæjar­fulltrúar D-lista og fulltrúar í skipulagsnefnd

Hlégarður – næstu skref

Franklín Ernir Kristjánsson

Fyrsti fundur menningar- og lýðræðisnefndar var haldinn 15. nóvember sl. en nefndin hét áður menningar- og nýsköpunarnefnd.
Hin nýja nefnd fer með menningar- og lýðræðismál og á meðal annars að gera tillögur til bæjarstjórnar um menningarmál, um stefnu í lýðræðismálum, hafa eftirlit með starfsemi stofnana sem vinna að menningarmálum og fleira.
Á fyrsta fundi nefndarinnar lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að farið yrði í framkvæmdir á sviði Hlégarðs og því breytt þannig að hljóðburður þar sé það góður, að hægt sé að bjóða upp á ólíka tónlistar- og menningarstarfsemi í húsinu. Einnig var lagt til að skoðað verði að setja fellistúku sem hægt væri að nýta fyrir viðburði í húsinu. Þessum tillögum var synjað með þremur atkvæðum meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar.

Helga Möller

Tillögur þessar voru lagðar fram þar sem það er mat okkar og margra annarra, að Hlégarð sé hægt að nýta mun betur og meira en nú er gert, og að húsið bjóði upp á mikla möguleika í þágu allra bæjarbúa og gesta. Fyrstu skrefin að okkar mati í þeirri vinnu eru að laga sviðið í húsinu og aðstöðu í sætum til að taka á móti gestum.
Samkvæmt bókun meirihlutans liggur ekki fyrir hvaða starfsemi húsið á að hýsa, né hver á að sjá um reksturinn. Stefnumótum stendur nú yfir varðandi þessi mál og bíðum við spennt eftir niðurstöðu þeirra stefnumótunarvinnu.

Franklín Ernir Kristjánsson og Helga Möller
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og lýðræðisnefnd

Uppbygging leikskóla í Mosfellsbæ

Aldís Stefánsdóttir

Síðustu vikur hefur verið að störfum starfshópur um uppbyggingu leikskóla í Mosfellsbæ. Tilurð hópsins má rekja til þess að nauðsynlegt þótti að rýna betur í áætlanir sveitarfélagsins um byggingu annars leikskóla í Helgafellslandi.
Frá því að upphaflegar áætlanir voru settar fram um mitt síðasta ár hefur kostnaður við byggingu skólans aukist um 56% bæði vegna verðlagshækkana og einnig vegna kostnaðar við að byggja á óhentugri lóð. Heildarkostnaður hefur verið áætlaður um 1900 milljónir en það er án búnaðar. Þessa kostnaðaráætlun þarf að endurskoða í heild sinni. Það væri óábyrgt af núverandi meirihluta að gera það ekki og gefa sér ekki tíma til að ræða hvort þetta sé besta leiðin fyrir Mosfellsbæ.
Á sama tíma og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja drífa í þessu og bjóða út bygginguna eru önnur sveitarfélög að fá engin tilboð eða tilboð sem eru langt umfram kostnaðaráætlun í sambærilegar byggingar. Tímasetningin á því að bjóða út slíkt verk hefur því verið einstaklega óhentug þar sem mikil þensla er á byggingamarkaði. Við sjáum það líka á öðrum verkefnum en eins og komið hefur fram þá bárust engin tilboð í þjónustubyggingu við Varmá í vor.

Niðurstaða
Niðurstaða starfshópsins er að það sé vissulega heppilegast að byggja annan leikskóla í Helgafellslandi. Það geti þó ekki verið fyrir opinn tékka. Við verðum að setja okkur raunhæf markmið og ná byggingarkostnaði niður. Það er hægt að gera með ýmsum hætti og einn af þeim þáttum sem hefur áhrif eru tímasetningar. Bæði hvenær boðið er út og hvaða tímarammi er á verkinu sjálfu. Því meira sem við flýtum okkur því hærri kostnaður.
Niðurstaða hópsins er einnig sú að Mosfellsbær geti áfram stækkað leikskólastarfsemi sína og tekið á móti þeim fjölda barna sem þurfa pláss á allra næstu árum þó að leikskólinn verði ekki byggður alveg strax. Kostnaðurinn við það verður alltaf réttlætanlegur og aðstaðan nýtt til framtíðar.

Áframhaldandi góð þjónusta
Mosfellsbæ hefur vegnað vel að takast á við aukinn fjölda leikskólabarna á síðustu árum og náð að bæta þjónustuna við ung börn á sama tíma og bærinn stækkar. Nýr meirihluti mun taka við keflinu og halda uppbyggingunni áfram. Það er þó mikilvægt að gæta að því að rekstur leikskóla snýst ekki bara um húsnæði. Starfsumhverfið í leikskólum og „vinnudagur“ leikskólabarna er eitthvað sem við sem samfélag þurfum að ræða og takast á við. Það er mikilvægt í þessu samhengi að muna að eitt hentar ekki öllum þegar kemur að þjónustu við ung börn og fjölskyldur þeirra og fjölbreytni er mikilvæg. Stórar einingar, litlar einingar, dagforeldrar, einkareknir skólar og jafnvel heimgreiðslur til foreldra ættu allt að vera leiðir sem hægt er að fara í þessum efnum.
Undirrituð þakkar öllum sem að vinnunni komu en í hópnum voru fulltrúar frá meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn ásamt starfsfólki Mosfellsbæjar. Það var gagnlegt að taka samtalið í þessu ferli og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs þar sem raddir allra fá að heyrast og viðhöfð eru lýðræðisleg vinnubrögð.

Aldís Stefánsdóttir,
bæjarfulltrúi Framsóknar

Verður áfram best að búa í Mosó?

Jana Katrín Knútsdóttir

Á dögunum fór fram fyrri umræða um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar. Að mörgu leyti er hún skynsamleg og góð enda byggð á góðum grunni stefnumótunar og vinnu undanfarinna ára.
Það er þó áhyggjuefni þegar brýnum framkvæmdum er skotið á frest. Samkvæmt áætlun er tveggja ára seinkun á uppbyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá auk þess sem leikskólinn sem rísa átti í Helgafelli hefur verið settur á bið og óvíst hvert framhaldið verður. Hvort tveggja eru þetta framkvæmdir sem ráðast átti í strax á þessu ári og vera langt komnar á því næsta.
Athygli vekur að á meðan uppbygging nýja leikskólans hefur verið stöðvuð á að leggja 225 milljónir í bráðabrigðalausn á leikskólaplássum.

Ásgeir Sveinsson

Þá munu Mosfellingar nú búa við einna hæstu álögur og gjöld sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, hugsanlega að frátöldum Reykvíkingum. Fasteignagjöld munu nefnilega hækka svo að um munar þó svo að fréttatilkynning frá meirihluta í bæjarstjórn hafi gefið annað í skyn. Sú tilkynning hljóðaði nefnilega upp á að fasteignaskattar muni lækka. Þar var í sjálfu sér ekki farið með rangt mál. Fasteignaskattar lækka vissulega lítillega. Þessi lækkun hefur þó afar takmörkuð áhrif til lækkunar á fasteignagjöldum sem í reynd munu því hækka um að minnsta kosti 15% og það munar um minna þegar horft er til umtalsverðra hækkana á

fasteignamati ásamt síauknum útgjöldum heimilanna. Til viðbótar verður útsvar hækkað í það hámark sem lög heimila.
Það má velta fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að hækka álögur og gjöld á íbúa eingöngu vegna þess að lög gefa kost á því? Væri ef til vill nærtækara að taka pólitíska ákvörðun um að keyra af stað þau verkefni sem fram undan eru og geta verið veigamiklir tekjustofnar á komandi árum í stað þess að sækja tekjurnar beint í vasa bæjarbúa?
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram alls 9 tillögur til breytinga á fjárhagsáætlun. Þær tillögur miða m.a. að því að lækka álögur og gjöld á íbúa, flýta framkvæmdum að Varmá ásamt leikskólanum í Helgafelli.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Jafnframt að leggja áherslu á úthlutun lóða í 5. áfanga Helgafellshverfis og í Hamraborg, sem til stóð að gera á þessu ári með tilheyrandi tekjum fyrir sveitarfélagið.
Að lokum má svo leiða hugann að því hvort þessi framsetning á upplýsingum er varða lækkanir á fasteignasköttum sé í samræmi við þær áherslur sem boðaðar voru í málefnasamningi nýs meirihluta, um heiðarleika og gagnsæi.

Verður áfram best að búa í Mosó?

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins,
Jana Katrín Knútsdóttir
Ásgeir Sveinsson
Rúnar Bragi Guðlaugsson

Helga Jóhannesdóttir

Helga Jóhannesdóttir

Bætt þjónusta og framtíðarsýn í fjárhagsáætlun

Meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar hefur nú lagt fram sína fyrstu fjárhagsáætlun og ber hún merki um nýjar áherslur.
Rekstrarumhverfi sveitarfélaga er snúið þessi misserin m.a. vegna hárrar verðbólgu og afleiðinga innrásar Rússa inn í Úkraínu. Misjafnt er hvernig sveitarfélög taka á aðstæðum.
Sum hver hafa ákveðið að fara í niðurskurð, uppsagnir og skerðingu á þjónustu til að mæta áskorununum. Við höfum ákveðið að fara ekki þá leið.

Bætt þjónusta
Mikilvægi skólaþjónustunnar er óumdeilt og styrking hennar tímabær. Það ætlum við að gera og fyrstu skrefin verða tekin á næsta ári með ráðningu sérfræðings. Við hleypum líka krafti í vinnu við innleiðingu farsældarlaga sem krefjast nýrra vinnubragða og tökum upp þráðinn við innleiðingu hugmyndafræði barnvæns samfélags. Þessum áföngum verður ekki náð nema að bæta þjónustu við börn.

Fjármagn til velferðarþjónustu hækkar um tæplega hálfan milljarð milli ára. Þar má nefna fjölgun NPA samninga og búsetuúrræða, aukningu skammtímavistunar fatlaðra barna, eflingu Úlfsins og styrkingu í ráðgjöf við börn og fjölskyldur.
Við bætum heimaþjónustu og gerum ráð fyrir stóraukningu á félagslegu innliti til þeirra samborgara okkar sem þá þjónustu þurfa. Við festum í sessi betri matarþjónustu með heimsendingu matar um helgar.

Mosfellsbær er að fara inn í tímabil mikillar uppbyggingar og til að sú uppbygging gangi vel fyrir sig er nauðsynlegt að styrkja innviði stjórnsýslunnar. Reyndar er sú styrking löngu tímabær. Aukið verður við stöðugildi inni á umhverfissviði og ráðinn verður lögfræðingur.
Þessar breytingar eru bráðnauðsynlegar svo allur undirbúningur og vinna við skipulagsmál nýrra uppbyggingarsvæða verði marviss og að stjórnsýsla bæjarins hafi getu til að takast á við þau stóru viðfangsefni. Þessi mikla uppbygging mun skila bæjarsjóði auknum tekjum í framtíðinni og þar af leiðandi mikilvægt að setja hana í forgang.

Framkvæmdir
Við erum að leggja fram mjög metnaðarfulla fjárfestingaráætlun með skýra sýn um uppbyggingu til framtíðar. Strax á næsta ári eru fyrirhugaðar miklar framkvæmdir. Má þar sérstaklega nefna framkvæmdir vegna nýrra lagna í óbrotnu landi á fyrirhuguðu athafnasvæði í landi Blikastaða. Hér er um stóra fjárfestingu að ræða fyrir sveitarfélagið en jafnframt nauðsynlegan þátt í undirbúningi að byggingu þess hverfis sem mun í framtíðinni auka tekjur sveitarfélagsins og skapa ný atvinnutækifæri fyrir Mosfellinga.
Viðhaldsverkefni sveitarfélagsins eru fjölmörg í fjárhagsáætluninni. Í Mosfellsbæ hefur byggst upp viðhaldsskuld í áranna rás og vill meirihlutinn vinna markvisst á henni. Í viðhaldi viljum við ganga alla leið og gott dæmi þar um er Kvíslarskóli. Að sönnu eru fjárhæðirnar sem áætlaðar eru í viðhald og endurbætur þess skóla háar en meirihlutinn vill ljúka verkinu, ekki taka smábúta hér og þar.

Gott samfélag
Við viljum fjárfesta í fólki. Það er stöðugt ákall eftir meiri og betri þjónustu sveitarfélaga og viljum við svara því kalli innan þess ramma sem ábyrg fjármálastjórn veitir okkur. Að reka gott samfélag þar sem hugað er að þörfum allra og pláss er fyrir okkur öll kostar.
Fjármagn til rekstrarins verður að koma úr þeim reglulegu tekjustofnum sem við höfum yfir að ráða. Þannig mun þessi meirihluti nálgast fjármálastjórn sveitarfélagsins.

Bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar.