Líflegt starf í hestamannafélaginu

Það hefur verið venju fremur líflegt í hesthúsahverfinun í haust, enda veður verið milt og gott.
Krakkarnir í félagshúsinu eru komin á fullt í sinni hestamennsku, námskeið fyrir þau og önnur börn í félaginu hafa farið af stað með krafti og haustið er notað vel jafnt til útreiða og þjálfunar hrossa og uppbyggingar ungu knapanna sjálfra.
Hópur í endurmenntunarnámi við LBHÍ sem heitir reiðmaðurinn hefur verið við nám hér í Herði í haust og heldur áfram í vetur, 14 kátar Harðarkonur í þeim hressa hóp hafa lífgað upp á lífið í hverfinu. Framhaldsskólinn er sem fyrr með kennslu í reiðhöllinni og alltaf gaman að sjá þá nemendur blómstra sem hafa kosið sér hestamennsku sem fag í skólanum.
Dagskráin fram undan er þétt og glæsileg, námskeið og sýnikennslur, mót og alls konar samvera halda hestamönnum á öllum aldri í Mosfellsbæ við efnið fram á vor. Í sumar er svo Landsmót hestamanna í Reykjavík og við í Herði ætlum enn fremur að halda hér Íslandsmót barna og unglinga dagana 19.-21. júlí, mikil tilhlökkun að takast á við það verkefni sem verður án efa skrautfjöður fyrir bæjarfélagið. Verið er að vinna að endurbótum á keppnisvellinum svo við verðum sem best undir það búin að halda þetta stóra mót.
Fyrir hönd hestamanna í Herði óska ég öllum Mosfellingum og nærsveitarmönnum gleði og friðar um jól og áramót. Megi nýtt ár verða gott og gjöfult.

Margrét Dögg Halldórsdóttir formaður Harðar