Mennt er máttur og lestur er grunnurinn

Bryndís Haraldsdóttir

Íslenskt atvinnulíf og samfélag á allt undir því að börnin okkar komi heilsteypt og full sjálfstrausts út úr menntagöngu sinni. Læsi er þar lykilbreyta.
Tungumálið opnar dyr að menningu þjóða og hefur reynst lykilþáttur í inngildingu þeirra sem flytjast til Íslands.
Undanfarin ár hafa komið fram mælingar sem sýna vaxandi áskorun íslenskra barna þegar kemur að lestri og málskilningi. PISA niðurstöður sýna t.a.m. að 34,4% íslenskra drengja geta ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og nær fimmtungur stúlkna. Á þessu ári hefur verið umfangsmikil úttekt í gangi á vegum menntamálaráðuneytisins um stöðu drengja í íslensku skólakerfi og eru heildarniðurstöður væntanlegar á næstu misserum.
Samkvæmt menntamálaráðuneytinu er ein lykilniðurstaða úr þeirri vinnu að íslensk börn, sérstaklega drengir, þurfi aukinn tungumálastuðning, þá helst á fyrstu árunum á menntagöngu sinni.
Hermundur Sigmundsson hefur á síðustu misserum verið óþreytandi í umræðu um lestrarkunnáttu og breytta nálgun í kennsluháttum. Ég hef setið nokkra fundi með Hermundi og sótt ráðstefnur um hið frábæra verkefni Kveikjum neistann, verkefni sem keyrt hefur verið í Vestmannaeyjum og skilað mjög góðum árangri. Kannski ætti Mosfellsbær að innleiða það verkefni næst.
Hermundur hefur staðið fyrir komu erlendra fræðimanna hingað til lands og það var einmitt á slíkum fundi sem ég heyrði fyrst um Graphogame sem er finnskur lestrartölvuleikur. Leikurinn grípur börn í grunnundirstöðum lestrar, aðlagar sig að getustigi þeirra og hefur margsýnt virkni sína við að koma þeim börnum sem eru sein til læsis hratt á rétta leið. Leikurinn hefur verið aðgengilegur finnskum börnum undanfarin ár.
Graphogame hefur verið staðfært á 11 tungumál um allan heim og hlaut á dögunum UNESCO menntaverðlaunin fyrir afburðaárangur. Það þýðir að aðferðafræðin hefur skilað framúrskarandi mælanlegum árangri í læsi þvert á tungumál.

Íslensk útgáfa
Á undanförnum misserum hefur verið unnið að íslenskri staðfærslu á finnska lestrartölvuleiknum. Tryggvi Hjaltason og Billboard ehf. standa saman að útgáfu tölvuleiksins Graphogame í íslenskri útgáfu, sem verður gjaldfrjáls í fimm ár. Billboard fjármagnar verkefnið ásamt því að tryggja og viðhalda vitund almennings fyrir leiknum næstu fimm árin.
Mikið vona ég að þessi leikur komist í verkfærakistur kennara sem víðast, en Kópavogur verður fyrstur til að prófa þetta í sínum skólum, vonandi fylgir Mosfellsbær í kjölfarið.

Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar