Skráningardagar í leikskólum

Aldís Stefánsdóttir

Á vordögum samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar, að tillögu fræðslunefndar, að innleiða skráningardaga í leikskólum.
Í haust hefur því farið fram kynning og prófun á þessu fyrirkomulagi og leikskólstjórnendur eru að innleiða það hver í sínum skóla.
Skráningardagar þýða að ef foreldrar hyggjast nýta sér þjónustu leikskólanna á fyrirfram ákveðnum skráningardögum og skráningartímum þurfa þau að láta leikskólann vita. Markmiðið með þessu er að innleiða styttingu vinnuvikunnar í leikskólunum með því að vera með lágmarksstarfsemi á ákveðnum tímum. Við það má bæta að markmiðið með að bjóða upp á fulla styttingu vinnuvikunnar fyrir starfsfólk leikskóla er meðal annars að mæta þeim mönnunarvanda sem hefur verið í leikskólum í Mosfellsbæ og á höfuðborgarsvæðinu öllu á síðustu árum. Við væntum þess að fyrirsjáanleiki í rekstri skólanna muni aukast og lokun deilda heyri sögunni til.

Hvernig leysum við mönnunarvanda á leikskólum?
Stutta svarið við þessari spurningu er; með því að bæta starfsumhverfið og gera það aðlaðandi og samkeppnishæft.
Breytingar í ytra umhverfi leikskólanna hafa ekki verið þeim í hag undanfarið. Eitt leyfisbréf fyrir kennara og óútskýrður launamunur ófaglærðra í leik- og grunnskólum hefur valdið því að erfiðara er að ráða fólk í leikskóla.
Erfiðlega hefur gengið að innleiða styttingu vinnuvikunnar þar sem sú kjarabót fyrir launafólk átti ekki að hafa í för með sér skerðingu á þjónustu. Samið hefur verið um 30 orlofsdaga fyrir allt starfsfólk og starfsemin glímir við háa veikindatíðni bæði í lengri og skemmri tíma.
Við þessar aðstæður eru góð ráð bókstaflega dýr. Eftir mikla yfirlegu og samráð við fræðsluyfirvöld í Mosfellsbæ og stjórnendur leikskólanna lagði fræðslunefnd til skráningardaga eins og áður sagði. Helsti kostur þeirra er að þau sem þurfa á þjónustunni að halda munu fá hana.
Þessi leið krefst þess hinsvegar að foreldrar taki þátt í því að gera þetta að farsælli lausn á erfiðu viðfangsefni og við tryggjum þannig stöðuleika og fyrirsjáanleika þjónustunnar. Innleiðing á styttingu vinnuvikunnar í atvinnulífinu ætti að gera mörgum kleift að stytta vikuna einnig hjá leikskólabörnunum sínum. Skráningardagar í vetrarfríum, jóla- og páskafríum hafa þegar gefið góða raun og eru ekki alveg nýir af nálinni.
Að sjálfsögðu sitja ekki öll við sama borð þegar kemur að styttingu vinnuvikunnar og þess vegna er ekki farin sú leið að loka skólunum heldur hafa þá opna fyrir þau sem þurfa á því að halda.

Takk foreldrar!
Á síðustu vikum hefur raunin verið sú að um 70% barna hafa ekki þurft á vistun að halda á skráningartímum á föstudögum. Það er afskaplega góð byrjun og vil ég þakka foreldrum í Mosfellsbæ fyrir góð viðbrögð og samvinnu í þessu verkefni. Ég ætla ekki hafa mörg orð um mikilvægi þjónustu leikskólanna hér í þessari grein enda er hún flestum ljós. En ég vil frekar leggja áherslu á að við erum í þessu saman og að reka þessa skóla er samfélagslegt verkefni sem við höfum orðið sammála um að er mikilvægt. Það er mikilvægt fyrir heimilin og það er mikilvægt fyrir samfélagið allt.
Stöndum því saman vörð um leikskólana í Mosfellsbæ og þá góðu starfsemi sem fer þar fram og er veganesti barnanna okkar út í lífið.

Aldís Stefánsdóttir
Bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður fræðslunefndar