Atvinnustefna Mosfellsbæjar

Sævar Birgisson

Nú á dögunum staðfesti bæjarstjórn Mosfellsbæjar atvinnustefnu fyrir sveitarfélagið, þótti starfandi meirihluta tímabært að mörkuð yrði skýr stefna í þeim málaflokki.
Mikil samstaða var um að farið yrði af stað í stefnumótunarvinnu í kjölfar síðustu kosninga og greinilegt að þörf var á skerpingu í atvinnumálum. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar leiddi stefnumótunarvinnuna sem hófst í byrjun árs og lauk nú á sumarmánuðum, fékk nefndin utanaðkomandi ráðgjafa til að halda utan um verkefnið frá byrjun.
Það var mikið lagt upp úr því að stefnan yrði hnitmiðuð og auðlesin, markmiðin raunhæf og hægt að ýta sem flestum aðgerðum úr vör á næstu 1-3 árum. Ásamt því að árangur aðgerða yrði mælanlegur til að gera alla eftirfylgni skilvirkari og markvissari.

Vel heppnaður íbúafundur
Það komu fjölmargir að stefnumótunarvinnunni en mikilvægur partur af ferlinu var að opna umræðuna með íbúum og var vel heppnaður íbúafundur haldinn í Fmos á vormánuðum. Mætingin var mjög góð og umræður gagnlegar í meira lagi. Það bar þess greinilega merki að íbúum og öðrum hagsmunaaðilum þótti þörf á því að bærinn kæmi markvisst að því að efla enn frekar atvinnulíf í sveitarfélaginu.
Öflugu atvinnulífi fylgir aukin þjónusta fyrir íbúa og frekari tækifæri, íbúafjöldinn í Mosfellsbæ er farinn að nálgast 14 þúsund og það væri kærkomið að sjá jafn kröftugan vöxt í atvinnuuppbyggingu samhliða hröðum íbúavexti. Þrátt fyrir að höfuðborgarsvæðið sé skilgreint sem eitt atvinnusvæði þá skapar sérstaða Mosfellsbæjar fjöldamörg sóknarfæri sem í enn frekara mæli ber að nýta. Hér eru vissulega fjöldi öflugra fyrirtækja starfandi sem má ekki gleyma í þessu samhengi, en að sama skapi á sveitarfélagið mikið inni í atvinnumálum.

Öflug upplýsingamiðlun og markaðssetning
Megininntak atvinnustefnunnar er annars vegar hvernig sveitarfélagið geti stutt sem best við atvinnuuppbyggingu og hins vegar helstu áherslu atvinnugreinar. Það kemur fram að mikilvægt sé að huga vel að upplýsingamiðlun og þá helst varðandi framboð atvinnulóða og móttöku fyrirspurna, nauðsynlegt að ferlið sé sem einfaldast og að allar helstu upplýsingar séu aðgengilegar á vef Mosfellsbæjar.
Hin hliðin á peningnum er öflug markaðssetning, í stefnunni er fjallað um frumkvæði sveitarfélagsins, t.d. með gerð markaðsáætlunar og skilgreiningu á ábyrgðaraðilum vegna þeirra verkefna sem bíða við innleiðingu á stefnunni.

Næstu skref
Nú tekur við innleiðingarferli á atvinnustefnunni þar sem hægt verður að hrinda fyrstu aðgerðum í framkvæmd og undirbúa jarðveginn fyrir frekari uppbyggingu. Stefnan hefur ekki verið birt, en það má búast við að hún verði birt á vef Mosfellsbæjar á næstunni. Eru áhugasamir hvattir til að kynna sér innihaldið þegar að því kemur.
Að lokum vill undirritaður þakka öllum þeim sem komu að vinnunni við stefnumótunina fyrir hönd Atvinnu- og nýsköpunarnefndar, þar er okkar trú að þetta verði farsælt skref fyrir Mosfellsbæ sem blæs frekara lífi í atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu.

Sævar Birgisson
bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður Atvinnu- og nýsköpunarnefndar