Stígum skrefið til fulls

Anna Gísladóttir

Í nokkra áratugi hef ég fylgt fótboltaliðinu okkar, meira þó karlaliðinu. Ég hef farið með þeim upp (og niður) um nokkrar deildir og átt með frábærum sjálfboðaliðum góða tíma.
Eftir besta sumar í sögu karlaliðsins eru aðstöðumál knattspyrnudeildar mér ofarlega í huga. Snemma sumars kom í ljós að núverandi áhorfendasvæði á Malbiksstöðvarvellinum að Varmá var of lítið og áhorfendur á hverjum leik mikið fleiri en sætafjöldinn.
Ráðamenn á Varmá stigu upp og komu til aðstoðar svo sjálfboðaliðar gætu komið upp annarri bráðabirgðastúku á miðju sumri svo flestir hefðu sæti á heimaleikjum liðsins.

Þessi viðbótar bráðabirgðastúka fékk mörg okkar í kringum fótboltann til að velta fyrir okkur hvort það sé ekki komið nóg af bráðabirgðaúrbótum á knattspyrnusvæðinu?
Nú þegar er allt í gámum og gámar hýsa salerni, veitingasölu, fjölmiðlamenn og starfsmenn leikjanna. Þetta gerir t.d. umgengni fyrir fatlaða erfiða á svæðinu.
Við erum þó þakklát fyrir þær útbætur sem gerðar hafa verið undanfarin misseri, en það má alltaf bæta í.

Við höfum mörg í baklandinu verið að rifja upp að fyrir aldamót kepptum við á Grenivík við Magna um sæti í 3. deildinni. Unnum þar og höfum klifið tvær deildir síðan. Nú erum við 28 sætum ofar í íslensku styrkleikaröðinni en Magni, en samanburðurinn á aðstöðumálum þessara félaga er okkur verulega í óhag.
Þegar Magni komst upp í 1. deild um tíma var farið í að smíða stúku við Magnavöll sem rúmaði sæti fyrir alla íbúa í hreppnum. Einnig voru smíðaðir búningsklefar og snyrting við völlinn. Þetta hefur okkur sárvantað allt of lengi.
Á sama tíma hefur kvennaliðið okkar tvívegis komist upp í deild þeirra bestu og ekki þarf að nefna hvað aðstöðuleysið hefur háð þeim líka í gegnum tíðina.
Á þessum tíma voru iðkendur í Aftureldingu um 200 en hefur í dag fjölgað í rúmlega 700 en aðstaðan lítið breyst.

Er ekki kominn tími á að næsta stórframkvæmd fyrir Aftureldingu verði að setja gervigras á gamla Varmárvöll og byggja upp almennilega stúku sem myndi leysa af hólmi bráðabirgðalausnir sem eru í dag? Bæta svo um betur og setja upp þjónustubyggingu sem myndi leysa þær þarfir sem standa út af í kjölfarið.

Ég tek ofan fyrir þeim sjálfboðaliðum sem bera hitann og þungan af starfinu í dag fyrir hvað þeim tekst að gera gott úr því sem er og græja góða umgjörð fyrir hvern leik. Tjalda stundum lúnu tjaldi tvisvar til þrisvar til að hýsa viðburði á leikjum því það fýkur niður jafn harðan. Ég óska þeim svo innilega betri aðstöðu því krafturinn í starfi knattspyrnudeildar hefur aldrei verið meiri, sem og áhuginn.

Hér um árið þegar við unnum 3. deildina var ég gjarnan kölluð mamma fótboltans, seinna meir þegar við unnum 2. deildina var ég oftar kölluð amma fótboltans og er oft kölluð enn. Ég vona svo innilega að við verðum komin með nýtt stúkumannvirki sem yrði okkur öllum í Aftureldingu til sóma áður en ég verð kölluð langamma fótboltans.

Áfram Afturelding!

Anna Gísladóttir – knattspyrnuáhugakona