Umhverfið okkar
Að lifa í góðu, fögru og hollu umhverfi á að vera kappsmál okkar allra. Við sjáum margt sem gleður okkur en því miður margt sem okkur þykir miður og jafnvel særir okkur.
Slæm umgengni um sitt nánasta umhverfi lýsir hverjum manni og ber vitni um hver tengsl viðkomandi eru við umhverfið.
Mjög margir garðar eru til mikillar prýði og til fyrirmyndar. Til eru garðar þar sem kæruleysið virðist vera allsráðandi og þá kannski best hreinlega að malbika. Sem betur fer heyrir slíkt til undantekninga.
Mig langaði til að vekja athygli allra Mosfellinga á hvað við erum að sjá í nánasta umhverfi okkar. Miklar umræður hafa verið í samfélaginu um loftslagsbreytingar og hækkun sjávarmáls sem fylgifisk þeirra breytinga.
Þegar ég var í Menntaskólanum við Hamrahlíð fyrir meira en hálfri öld lásum við í jarðfræði eftir Þorleif Einarsson. Talið er að land á höfuðborgarsvæðinu hafi lækkað um allt að 5 metra á undanförnum 3.000 árum og er til vitnis um það mýraleifar í fjöruborðinu yst á Seltjarnarnesi skammt frá Gróttuvita. Merki um sjávarrof getum við séð víða við Leirvoginn og er miður hve sjórinn virðist ná árangri að eyða ströndinni.
Árið 1980 birtist í Árbók hins íslenska fornleifafélags grein eftir Kristján Eldjárn sem þá var að ljúka sínum embættistíma sem forsetinn okkar. Í greininni fjallar hann um rústirnar í Blikastaðanesi og við Þerneyjarsund en talið er fullvíst að á miðöldum hafi verið þar mikilvæg hafnar- og verslunaraðstaða. Slóðina á grein Kristjáns má lesa: www.timarit.is/files/68889713
Við Mosfellingar ættum að skoða þessa grein gaumgæfilega og eiga gott samtal um hana. Fyrir nokkrum áratugum lagði hestamannafélagið reiðstíg um Blikastaðanesið en ekki tókst betur til en svo að hann var upphaflega lagður um rústirnar. Líklega var ókunnugleika að kenna að svo færi en ólíklegt er að ætlað hafi verið að valda tjóni. Átti ég þátt í því að vekja athygli á þessu og skrifaði eitthvað um það í mosfellsku blöðin. Varð það tilefni fyrir Kristinn Magnússon fornleifafræðing sem er búsettur í Mosfellsbæ að kanna aðstæður og rannsaka aftur rústirnar. Varð það til að reiðstígurinn var færður nokkuð ofar í landið sem vel hefur tekist. Á síðustu árum hefur hafið skolað meiru af ströndinni og verður ef fram horfir og ekkert aðhafst að rústirnar hverfi innan nokkurra ára. Verður eftirsjá að þessum gömlu fornu minjum. Mér skilst að þetta sé víða á Íslandi að gamlar verbúðir og aðrar strandminjar séu í mikillri hættu.
Meðfylgjandi mynd tók ég fyrir nokkrum vikum og má augljóslega sjá hversu sjávarrofið er smám saman að færa sig upp á skaftið. Bakkinn rétt vestan við fuglaskoðunarhúsið við Langatanga er að eyðast og ef ekkert er að gert verður að flytja húsið.
Spurning er hvort Mosfellsbær þurfi ekki að skoða betur þessi mál og reyna að sporna við frekari landeyðingu. Auðvitað kostar það sitt en þá er spurning hvort ekki megi draga úr kostnaði annars staðar. Mér þykir sem mörgum Mosfellingum nokkuð djarflega farið með opinbert fé til að slá fífilbrekkur og blómaengi bæjarins sem eru bæði fuglum himinsins sem og okkur mannfólkinu og sérstaklega ungviðinu til gleði og ánægju.
Við verðum að huga betur að umhverfi okkar og forða að spilla því. Um áramót eru þessar skelfilegar sem minna mig alltaf á stríðsátök. Mætti ekki biðja fremur um rótarskotin en rakettuskotin ef hugur er að styrkja starf björgunarsveitanna.
Góðar stundir.
Guðjón Jensson