Skráningardagar á leikskólum og endurskoðun leikskólagjalda

Dagný Kristinsdóttir

Snemmsumars var samþykkt að taka upp skráningardaga í leikskólum bæjarins. Vinnulag sem átti að leysa tvær áskoranir í leikskólastarfinu; vinnutímastyttingu starfsmanna og mönnunarvanda sem meðal annars þurfti að mæta með lokun deilda.
Á fundum kom ósjaldan fram sú trú margra að þetta verklag myndi stórbæta mönnun því fólk fengist frekar til starfans. Á sama tíma gerist það að margir starfsmenn í fleiri en einum leikskóla bæjarins kusu að segja starfi sínu lausu eða fara í launalaust leyfi. Þetta gerist þrátt fyrir að vinnutímastyttingin sé formlega bundin í starfið. Það segir manni að eitthvað annað og meira í starfsumhverfinu hafi áhrif en vinnutíminn einn og sér.

Tillaga felld en önnur lögð fram
Á fundi bæjarstjórnar þann 21. júní síðastliðinn lagði undirrituð fram tillögu um stofnun starfshóps sem hefði það markmið að fara heildstætt yfir stöðu leikskólamála í bænum.
Þar segir m.a. „Vinna þarf að og þróa verkefnið betri vinnutíma. Skoða þarf mönnun leikskólanna og hvernig er hægt að mæta lögboðnu sumarfríi starfsmanna. Sérstaklega þarf svo að skoða hvernig hægt er að gera leikskóla Mosfellsbæjar að aðlaðandi vinnustöðum.“

Þessi tillaga var felld með þeim orðum að þessi vinna væri þegar hafin. Hún var ekki meira hafin en svo að á fundi fræðslunefndar sem fór fram í byrjun nóvember lagði meirihlutinn fram tillögu að stofnun starfshóps sem hefur það markmið að „greina stöðuna eins og hún er í dag, bæði með tilliti til velferðar barna og starfsumhverfis í leikskólum.“
Þessi nýi starfshópur á áhugavert verk fyrir höndum. Fyrir utan að skoða starfsumhverfið á hann að fara skipulega yfir gjaldskrá leikskólanna, leggja til breytingar á henni og einnig á að rýna í þær breytingar sem sveitarfélögin í kringum okkur eru að gera. Sérstaklega var bent á nokkra þætti og eru þeir t.d. almenn gjaldtaka vegna vistunartíma, opnunartími, hámarksvistunartími, vinnutímastytting og biðlistagreiðslur. Það verður áhugavert að sjá að hvaða niðurstöðu hópurinn kemst.

Leikskólaforeldrarnir
En hvernig lítur þetta allt út gagnvart foreldrum? Ég, sem leikskólaforeldri hefði fengið tölvupóst í sumar þar sem fram kom að búið væri að ákveða skráningardaga og síðar annan þar sem mér væri tjáð að búið væri að breyta vistunarsamningi barnsins míns til kl 14.00 á föstudögum, einhliða.
Vinnan mín á föstudögum tæki mið af því að ég fari úr húsi upp úr kl. 13.00 til að sækja börnin mín. Ég þyrfti að vinna lengur aðra daga eða um helgar til að ljúka vinnutímanum, tek jafnvel sumarfrísdaga, því mín vinnutímastytting er ekki á pari við leikskólann. Suma daga þarf ég, til viðbótar við föstudagana, að sækja fyrr vegna þess að deildin lokar vegna manneklu og að lokum þarf ég að muna eftir blaðinu sem hangir uppi á deildinni og skrá barnið mitt í vistun þá föstudaga sem ég er föst í vinnu. En það veit ég ekki endilega með átta daga fyrirvara.
Sem foreldri myndi ég líklegast ekki skilja af hverju þetta fyrirkomulag er best og af hverju ég mátti skrá barnið mitt nokkra föstudaga fram í tímann en svo allt í einu mátti það ekki lengur. Og ég ætti líka erfitt með að skilja af hverju enginn kannaði upplifun mína á öllum þessum breytingum.
Styrkleiki hvers stjórnanda/meirihluta er að fagna góðum hugmyndum og veita þeim brautargengi, það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur. Það er því hálf broslegt að hafna einni tillögu og leggja svo fram aðra af sama meiði nokkrum mánuðum seinna.

Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar