Logn í skóginum

Björn Traustason

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar verður með sína árlegu jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg dagana 9.–23. desember.

Laugardaginn 9. desember kl. 13-14 verður opnunarhátíð í Hamrahlíðinni þar sem fyrsta jólatréð mun verða sagað, Mosfellskórinn syngur nokkur lög og Ævintýraverur úr Leikhópnum Lottu munu skemmta börnunum svo eitthvað sé nefnt. Að sjálfsögðu munu jólasveinar láta sjá sig og svo verður boðið upp á heitt kakó.
Úlfarsfellið er fyrir löngu orðinn mjög vinsæll áningarstaður og hefur skógurinn í Hamrahlíðinni mikið aðdráttaafl. Það líður því varla sá dagur að ekki séu bílar á bílastæðinu við skógræktina í Hamrahlíðinni og gaman að sjá hversu mikið svæðið er nýtt af fólki.

Skógrækt á Íslandi hefur aukist verulega síðastliðin 30 ár með tilkomu Landgræðsluskóga, en það er verkefni sem hófst árið 1990 og hefur Skógræktarfélag Íslands haft umsjón með verkefninu frá upphafi.
Skógræktarfélög geta sótt um að fá trjáplöntur í gegnum Landgræðsluskóga og hefur Skógræktarfélag Mosfellsbæjar fengið plöntur til gróðursetninga allar götur frá því verkefnið hófst. Fyrsta gróðursetningin fór fram í Lágafelli norðanverðu á því svæði sem Krikahverfi er. Meginhluti skógræktarsvæða Skógræktarfélags Mosfellsbæjar eru gróðursett eftir árið 1990 sem þýðir að þorri þeirra trjáa sem vaxa upp á svæðum félagsins eru komin í gegnum Landgræðsluskógaverkefnið.
Fjöldamörg skógræktarsvæði með trjáplöntum frá Landgræðsluskógum hafa vaxið upp víða um land og eru þau farin að veita byggðinni skjól og gegna mikilvægu hlutverki sem útivistarskógar. Þar að auki stuðla skógarnir að kolefnisbindingu með bindingu koltvíoxíðs úr andrúmslofti, auk þess að binda kolefni í jarðvegi. Skógarnir gegna því bæði samfélagslegu og vistfræðilegu hlutverki.
Þar að auki hafa þeir efnahagslegt hlutverk, en jólatrjáasala Skógræktarfélags Mosfellsbæjar er helsta tekjuöflun félagsins. Mest af starfsemi félagsins er unnin í sjálfboðavinnu og skiptir því stuðningur ykkar miklu máli með kaupum á alíslensku jólatré.
Það geta skipst á skin og skúrir eða snjór og bylur ef því er að skipta þegar komið er fram í desember. Við vonum að sem flestir komi til okkar í skóginn og kaupi sér jólatré hvernig sem viðrar. Því það er alltaf logn í skóginum.

Björn Traustason
formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar