Tíðindalaust í bæjarstjórn?
Á vettvangi bæjarstjórnar og nefnda bæjarfélagsins eru teknar ákvarðanir sem hafa bein áhrif á bæjarbúa. Á flestum nefndafundum eru rædd málefni sem á einn eða annan hátt skipta bæjarbúa máli í þeirra daglega lífi.
Á nefndafundum eru málin rædd og fulltrúar allra flokka sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn hafa rétt til að koma sínum skoðunum á framfæri. Í samræmi við sveitarstjórnarlög eru nefndafundir lokaðir fundir sem einungis kjörnir nefndamenn mega sitja. En í samræmi við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar sem fyrst var samþykkt 2011 og endurskoðuð af bæjarráði árið 2015 hafa markviss skref verið tekin til að opna stjórnsýsluna og að gera hana gagnsærri.
Þannig eru nú birt með fundargerðum nefnda og bæjarráðs á vef bæjarins þau gögn sem fylgja málum, þ.e. ef þau eru ekki þess eðlis að persónuvernd hamli birtingu eða að hagsmunir bæjarins gætu skaðast af birtingu þeirra. Með birtingu fylgigagna er bæjarbúum gert auðveldara að fylgjast með hvernig ákvarðanir eru teknar og á hverju þær byggja. Ég vil hvetja bæjarbúa til að láta sig varða umræðuna á vettvangi bæjarstjórnar. Það má gera með því að mæta á fundi hennar til að fylgjast með umræðunum því fundir bæjarstjórnar eru opnir fundir þar sem allir mega mæta og hlusta.
Þá hefur sú framför orðið að streymt er beint frá fundunum svo þeir sem hafa áhuga á vissum málum, en eiga ekki heimangengt, geta lagt við hlustir þegar þau eru rædd. Um árabil hafa fundirnir síðan verið teknir upp og gerðir aðgengilegir á vef bæjarins.
Mörg mál eru afgreidd í samkomulagi innan nefnda og bæjarstjórnar en auðvitað skerst í odda á stundum. Þá fer umræðan fram á fundi bæjarstjórnar og getur hvesst nokkuð á ræðustóli og bókanir lagðar fram á báða bóga. Þegar best lætur næst nokkuð víðtækt samkomulag um mál. Má þar nefna sem dæmi tillögu Samfylkingar um aðgerðir til að efla almennan leigumarkað í bænum. Sú tillaga hlaut gott brautargengi hjá öðrum stjórnmálaflokkum og nú hefur bæjarstjóra verið falið að undirrita samkomulag við framkvæmdaaðila um úthlutun lóðarinnar við Þverholt 27-29 undir leiguíbúðir, allt að 30 talsins.
Þá má nefna tillögu Samfylkingar um uppbyggingu Ungmennahúss sem bæjarráð vísaði með öllum greiddum atkvæðum til gagngerrar skoðunar og upplýsingaöflunar embættismanna bæjarkerfisins. Niðurstaða málsins er ekki ljós en samtalið varð a.m.k. til þess að tillögunni var ekki fleygt lóðbeint út af borðinu. Ekki fá öll mál okkar slíkan framgang enda má segja að það liggi í eðli þess að bæjarstjórn skiptist í meirihluta og minnihluta.
Dæmi um það er umræðan um uppbyggingu skólamannvirkja þar sem Samfylkingin taldi að kostir við byggingu skóla miðsvæðis hafi ekki fengið þá skoðun sem hugmyndin átti skilið. Þó við Samfylkingarfólk höfum orðið undir í þeirri umræðu þá þýðir það ekki að við tökum ekki fullan þátt og af heilindum í undirbúningi nýs skóla samkvæmt þeim ákvörðunum sem meirihlutinn hefur tekið. Það er okkar skylda að vinna úr hverri stöðu eins og hún er á hverjum tíma með hag bæjarbúa í huga.
Aðhald bæjarbúa er mikilvægt fyrir kjörna fulltrúa og með því að fylgjast með störfum bæjarstjórnar og koma ábendingum til bæjarfulltrúa stuðla kjósendur að betri og gegnsærri stjórnsýslu og vonandi heilladrjúgum ákvörðunum fyrir bæinn okkar.
Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingar