Þakkir til Mosfellinga!

Helga Kristín Magnúsdóttir

Helga Kristín Magnúsdóttir

Á dögunum gengum við ásamt frábærum hópi fólks í hús hér í bæ til að safna undirskriftum til að knýja fram almennar prestskosningar í Mosfellsprestakalli.
Við erum ákaflega stoltar og þakklátar yfir því hversu vel tókst til, hversu auðveldlega tókst að ná tilsettum fjölda undirskrifta og gott betur. Við erum mjög svo þakklátar þeim sem voru tilbúnir að leggja okkur lið og það er augljóst að hér í sókninni býr frábært fólk sem stendur saman. Bæjarbúar eiga hrós og þakkir skildar fyrir hversu vel þeir tóku í undirskriftarsöfnunina og voru almennt jákvæðir fyrir því að styðja lýðræðið.

Umsóknarfrestur um embætti prests í Mosfellsprestakalli rann út þann 9. febrúar sl. og nú liggur ljóst fyrir að Arndís G. Bernhardsdóttir Linn er eini umsækjandinn og því ein presta í kjöri. Arndís hefur starfað við Lágafellssókn í fjórtán ár, verið meðhjálpari, séð um foreldramorgna, unnið að fermingarfræðslu og komið að fleiri störfum innan kirkjunnar. Frá því hún hlaut sjálf vígslu til Kvennakirkjunnar hefur hún leyst presta sóknarinnar af og sinnt hinum ýmsu prestsverkum fyrir bæjarbúa sem og aðra við góðan orðstír.
Arndís er Mosfellingur í húð og hár og teljum við það mikinn kost að fá hér prest sem þekkir til flestra sóknarbarna sem og þau til hennar. Hún hefur afar þægilega nærveru, er einlæg og tilbúin til að þjóna fólki á gleði- og sorgarstundum.

Sigríður Sigurðardóttir

Sigríður Sigurðardóttir

Þó svo að Arndís sé eini umsækjandinn munu fara fram „kosningar“ á vegum Biskupsstofu. Við viljum því hvetja bæjarbúa til að fjölmenna á kjörstað, styðja okkar konu og sýna í verki að hún á stuðning okkar til þessa embættis.

Virðingarfyllst
Helga Kristín Magnúsdóttir
og Sigríður Sigurðardóttir