Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Það er svo ótal margt sem við getum gert til að efla vellíðan okkar og leggja rækt við okkur sjálf.
Það er löngu vísindalega sannað að holl, góð og fjölbreytt næring hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan okkar og hið sama gildir um hreyfingu. Ef okkur líður vel andlega og líkamlega þá eru yfir­gnæfandi líkur á því að félagslegi þátturinn fylgi með sem einkennist af góðum og kærleiksríkum samskiptum við aðra.

Kærleiksvikan 14.-21. febrúar
Kærleiksvikan hefur verið við lýði í Mosfellsbæ allt frá árinu 2010 en markmið hennar er að virkja kærleikann innra með okkur, bæði í garð okkar sjálfra sem og annarra. Margt skemmtilegt er á dagskránni og má þar m.a. nefna kærleiksrík skilaboð sem nemendur grunnskólanna setja á innkaupakerrur í Krónunni og Bónus og Heilunarguðþjónustu sem verður í Lágafellskirkju kl. 20:00 í kvöld.
Kærleikssetrið býður m.a. upp á létt herðanudd, talna- og stjörnuspeki og margt fleira auk þess sem hægt verður að kaupa 15 mínútna spá á vægu verði í Spákaffi í Kaffihúsinu Álafossi á sunnudag. Nánari dagskrá má finna á síðunni „Kærleiksvika í Mosfellsbæ“ á Facebook.

Lífshlaupið
Þessa dagana er Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, í algleymingi. Mörg lið úr Mosfellsbæ taka að sjálfsögðu þátt eins og frá bæjarskrifstofunni, Varmárskóla og Lágafellsskóla. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til að huga að daglegri hreyfingu sinni og hvernig megi auka hana.
Getum við t.d. gengið/hjólað á milli staða í stað þess að nýta bílinn? Getur við gengið stigann í staðinn fyrir lyftuna? Höldum við á börnunum okkar eða leyfum við þeim að ganga/hlaupa? Við getum öll bætt við hreyfingu í okkar daglega líf og gott er að miða við ráðleggingar Embættis landlæknis en þar er börnum/unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur. Nánari ráðleggingar um hreyfingu má nálgast á www.landlaeknir.is

Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Rannsóknir hafa sýnt að þeim sem gengur vel í lífinu og líður vel eiga það sameiginlegt að hlúa að því sem þeim þykir vænt um. Með því að koma vel fram við og gleðja aðra þá stuðlum við að vellíðan þeirra auk okkar eigin. Settu þér það markmið að gleðja og/eða tjá einhverjum væntumþykju þína áður en þú ferð að sofa í kvöld og hlúðu þannig að þeim sem þér þykir vænt um og skipta þig máli í lífinu.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ