Traustur vinur getur gert kraftaverk

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Vinátta er ekki sjálfgefin en er okkur öllum mikilvæg. Hún getur verið með ýmsu móti en þegar við ræktum vinasambönd líður okkur vel innra með okkur auk þess sem við sköpum góðar minningar sem við búum að til framtíðar. Því skulum við hlúa að og rækta sambönd við góða vini.

Styrkur og hamingja
Við manneskjurnar erum í raun háðar hver annarri á svo margan hátt. Við erum í sífelldri leit að styrk og hamingju sem kemur vissulega innan frá en það eitt að eiga góða og sanna vináttu annarrar manneskju er mikil gæfa, gæfa sem gerir okkur hæfari í að verða besta útgáfan af sjálfum okkur. Gæfa sem hjálpar okkur að öðlast þá vissu að við séum elskuð með öllum okkar kostum og göllum, VIÐ séum nóg.

Góð samskipti
Uppbyggileg samskipti eru grundvöllur að góðri vináttu og í því tilliti þurfum við að tileinka okkur nokkur grundvallaratriði eins og umburðarlyndi, því ekkert okkar er eins og því ríður á að viðurkenna og skilja mikilvægi fjölbreytileikans og koma fram við alla af virðingu.
Við þurfum að taka tillit til annarra, virða og sýna mismunandi skoðunum og hátterni skilning auk þess að sýna samkennd og áhuga. Allt þetta krefst hugrekkis og þess að við gefum af okkur en slíkt gerir okkur að góðum vinum.

Jákvætt viðhorf
Viðhorf okkar geta skipt sköpum varðandi sanna vináttu, styrk og hamingju og því ættum við að temja okkur glaðværð, kærleika, hlýju og bjartsýni. Lærum að meta líðandi stund, verum meðvituð um að skapa góðar minningar fyrir okkur sjálf og þá sem eru í kringjum okkur og hugsum jákvætt, það er léttara.

„Ég get aðeins hvatt ykkur til að setja vináttuna ofar öllu öðru hér í heimi því ekkert er í jafn miklu samræmi við innsta eðli mannsins. Það er ekkert sem hefur meira gildi, hvort heldur vel gengur eða á móti blæs.“ (heimspekingurinn Cicero, 106-43 f.Kr.).

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ