Opinn fundur umhverfisnefndar

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Ágætu Mosfellingar.
Fimmtudaginn 28. apríl nk. mun umhverfisnefnd Mosfellsbæjar efna til opins fundar í Listasalnum í Kjarna og hefst hann kl. 17.
Fundurinn er haldinn í samræmi við lýðræðistefnu bæjarins en þar segir: Hver og ein nefnd leitist við að hafa opinn upplýsinga- og samráðsfund fyrir bæjarbúa einu sinni á ári.
Þema fundarins er heilsuefling og útivist í Mosfellsbæ og verða flutt þrjú stutt erindi þar um. Í kjölfarið gefst fundargestum kostur á að ræða þessi málefni og hvaðeina sem tengist umhverfismálum bæjarins. Hér verður gerð nánari grein fyrir viðfangsefni fundarins.

Heilsueflandi samfélag og útivist
Mosfellsbær skilgreinir sig sem heilsueflandi samfélag og er útivist mikilvægur þáttur í því samhengi. Bærinn er umlukinn fögru umhverfi með ótal tækifærum til útivistar og á fundinum mun Ólöf Sívert­sen frá Heilsuvin fjalla um heilsueflingu og útivist í sveitarfélaginu.

Skógrækt og útivist
Skógrækt hefur verið stunduð í landi Mosfellsbæjar um áratugaskeið eins og sjá má víða í sveitarfélaginu. Þetta starf hefur ekki síst verið borið uppi af Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, af mikilli eljusemi og dugnaði. Skógræktarsvæðin eru kjörin til útivistar og á fundinum mun fulltrúi félagsins fjalla um þau mál.

Gönguleiðir
Margar áhugaverðar gönguleiðir er að finna í landi Mosfellsbæjar, bæði meðfram ströndinni og um fjöll og dali. Á undanförnum árum hafa þessar leiðir verið merktar rækilega með stikum og skiltum; verkefnið er fjármagnað af Mosfellsbæ en Skátafélagið Mosverjar annast framkvæmd þess. Ævar Aðalsteinsson mun fjalla um gönguleiðaverkefnið á fundinum.
Þessar merktu gönguleiðir eru flestar í námunda við þéttbýlið en þess má geta að uppi á Mosfellsheiði er mikið af ómerktum göngu- og reiðleiðum. Undanfarin misseri hefur starfshópur á vegum bæjarins haft það verkefni með höndum að kortleggja þessar leiðir og skilgreina notkun þeirra. Hér er um viðamikið verkefni að ræða sem er enn í vinnslu en þess má geta að Mosfellsheiði er sameign nokkurra sveitarfélaga, þar á meðal Mosfellsbæjar.

Lokaorð
Sumarið er sá árstími þegar fólk hugar hvað mest og best að umhverfi sínu. Því er ekki úr vegi að minna á að fram til 5. maí verður sérstakt hreinsunarátak í bænum; að venju hefur sveitarfélagið sett upp gáma fyrir garðaúrgang en um staðsetningu þeirra má lesa nánar á heimasíðu Mosfellsbæjar.
Við hvetjum bæjarbúa til að fjölmenna á fundinn þann 28. apríl og fyrir hönd umhverfisnefndar óskum við öllum Mosfellingum gleðilegs sumars.

Bjarki Bjarnason, formaður.
Örn Jónasson, varaformaður.