POWERtalk deildin Korpa 30 ára

POWERtalk eru alþjóðleg samtök sem leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjálfun í tjáningu sem skilar árangri. Samtökin virkja fólk til þátttöku í umræðum, bjóða leiðtogaþjálfun og auka færni fólks við kynningar og fundarstjórnun.
Samtökin hafa engan fjárhagslegan ávinning. Ávinningurinn felst í því að fólk öðlist þá færni og sjálfstraust sem þarf til að flytja mál sitt af öryggi, hvort sem er í ræðu eða riti, við ýmis tækifæri. Starfsemin byggir á einstaklingsmiðaðri jafningjafræðslu sem hvetur fólk til dáða þar sem tjáskipta- og stjórnunarhæfileikar skipta sköpum til starfsframa og þátttöku á opinberum vettvangi.
Þann 5. mars 1986 var POWERtalk deildin Korpa stofnuð í Mosfellsbæ. Korpa fagnaði því 30 ára afmæli sínu s.l. helgi. Félagar deildarinnar blésu til afmælisfundar fimmtudaginn 3. mars 2016, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar. Fjölmargir gestir komu og fögnuðu afmælinu með félögum deildarinnar. Vel var gert við þá í mat og drykk, ásamt góðri hressingu fyrir sálina með skemmtilegri dagskrá.

Heiðursgestur afmælisfundarins var einn af stofnfélögum deildarinnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingiskona. Í ávarpi sínu sagði hún fundargestum frá mikilvægi þess fyrir sig að hafa fengið þjálfun í að undirbúa mál sitt og flytja það fyrir hóp af fólki. Einnig fjallaði hún um þann góða vinskap sem myndast innan deildarinnar og persónulega tengslanetið sem stækkar mikið er maður starfar í samtökunum.
Á 30 árum hafa um 130 manns notið góðs af því starfi sem fer fram í POWERtalk deildinni Korpu. Fólk kemur úr öllum áttum og hefur mismunandi þekkingu og reynslu. Einstaklingurinn finnur fljótt að fátt eða ekkert er ómögulegt. Það virðist alltaf einhver hafa lausn eða þekkingu til að vinna þau mál sem þarf að leysa. Í Korpu er enginn eins en allir vinna saman og nýta tækifæri sín vel.
POWERtalk-deildin Korpa er staðsett í Mosfellsbæ og fundar annan hvern fimmtudag í Safnaðarheimili Lágafellssóknar. Næsti fundur er fimmtudaginn 17. mars kl. 20:00. Það vill svo skemmtilega til að þá verða kappræður á milli tveggja deilda. Korpa keppir við POWERtalk deildina Hörpu frá Reykjavík. Korpa hefur fengið það hlutverk að leggja til að heilbrigðiskerfið verði einkavætt. Kappræðulið Hörpu mótmælir tillögunni. Að sjálfsögðu ætlar Korpa að vinna þessa úrslitaviðureign og hampa bikarnum í lok kvöldsins. Kappræður eru einstaklega líflegar og skemmtilegar á að horfa og því tilvalið að koma á fund hjá Korpu fimmtudaginn 17. mars kl 20:00 í Safnaðarheimilinu, Þverholti 3. Það eru allir velkomnir.

Lóa Björk Kjartansdóttir

Greinin birtist í Mosfellingi 10. mars 2016