Aðstaða fyrir alla Mosfellinga

Gunnar Ingi Björnsson

Gunnar Ingi Björnsson

Nú höfum við hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar tekið í notkun nýja aðstöðu við Hlíðavöll sem við höfum ákveðið að skíra Klett.
Um gríðarlega lyftistöng er að ræða fyrir GM sem mun skipta sköpum í rekstri og uppbyggingu klúbbsins til framtíðar.

Við hönnun hússins og lóðar höfum við horft til þess að gera sem flestum kleift að nýta húsið og aðstöðuna. Þó svo að húsið sé vissulega aðstaða kylfinga er það einnig aðstaða sem opin er öllum þeim sem hana vilja nýta. Tenging við stígakerfi Mosfellsbæjar mun þýða að allir sem vilja njóta útivistar á Blikastaðanesi og nágrenni geta nýtt þessa aðstöðu um leið.

Við munum í sumar koma fyrir hjólagrindum og búnaði til að setja loft í dekk og vatni. Þegar neðri hæð hússins verður tilbúin mun þar verða búningsaðstaða sem göngu-, hjóla- eða hlaupahópar geta nýtt sér. Göngu- og hlaupaleiðir út frá húsinu verða kortlagðar og merktar.

Til framtíðar viljum við hjá GM gjarnan sjá þessa aðstöðu einnig verða aðstöðu þeirra sem vilja njóta útivistar og samveru á besta stað í Mosfellsbænum. Okkar framtíðarsýn er að sjá aðstöðu GM í Bakkakoti, Mosfellsdal, fá sambærilegt hlutverk í Mosfellsdalnum. Með þeim hætti verður hægt að bjóða Mosfellingum og gestum að njóta þjónustu við í hvorum enda sveitarfélagsins.

Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag. Lykilatriði í góðri heilsu er að stunda heilnæma hreyfingu og útivist. Það er jákvætt að íþróttaaðstaða eins og golfvellir geti verið nýttir til eflingar lýðheilsu og stuðlað að aukinni hreyfingu allra aldurshópa.

Barna- og unglingastarf Golfklúbbsins Kjalar, og nú Golfklúbbs Mosfellsbæjar, er stolt klúbbsins. Við hlökkum mikið til þess að nýta nýja aðstöðu til að efla það til muna enda hefur æfingaaðstaða ungra kylfinga verið afar döpur og staðið okkur fyrir þrifum. En við hlökkum einnig mjög til að bjóða alla Mosfellinga velkomna í heimsókn og sjá hvernig þessi nýja aðstaða getur eflt heilsueflandi samfélag Mosfellinga.

Gunnar Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri
Golfklúbbs Mosfellsbæjar

Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Bjartar sumarnætur eru dásamlegar og um að gera að njóta þeirra til fullnustu enda forréttindi að fá að upplifa slíkt.
Margir tengja þennan tíma, þegar sólin er hvað hæst á lofti, við langþráð sumarfrí þar sem við fáum tækifæri til að einbeita okkur að því að njóta og gera það sem okkur finnst skemmtilegast.

Samvera og vellíðan
Lífsmynstur margra breytist á þessum árstíma og flest okkar fá tækifæri til að njóta enn meiri tíma með fjölskyldum okkar og vinum. Njótum þess að vera saman, heimsækja fólkið okkar, tala saman, velta upp hugmyndum, skiptast á skoðunum, gefa af okkur, prófa eitthvað nýtt, spila, leika okkur og hlæja dátt. Gerum alla þessa litlu sjálfsögðu hluti sem eru í raun félagslegur fjársjóður hverrar manneskju.

Njótum náttúrunnar á hreyfingu
Sumarið er ekki hvað síst tíminn til að njóta hinnar dásamlegu fegurðar náttúrunnar og þar hefur heilsubærinn Mosfellsbær svo sannarlega upp á margt að bjóða. Nýtum okkar dásamlegu sundlaugar og hvernig væri síðan að gera gönguáætlun með fjölskyldunni?
Við fjölskyldan erum t.d. búin að ganga á Úlfarsfellið og Mosfell oftar en einu sinni í ár og stefnum á fleiri. Svo eru einnig spennandi göngu- og hjólaleiðir á láglendinu, t.d. meðfram ströndinni, í kringum Álafosskvos, í Reykjalundar­skógi, meðfram Varmánni og svo mætti lengi telja.
Þess utan er líka gaman að nýta þá frábæru aðstöðu sem er t.d. í boði á Stekkjarflöt, í Hamrahlíðarskóginum og Ævintýragarðinum til að bregða á leik og endurvekja barnið í sjálfum sér. Þarna er hægt að ná skemmtilegu markmiði í hverri ferð þar sem náttúran og félagsskapurinn spila að sjálfsögðu stærsta hlutverkið. Hugmyndirnar og möguleikar á útfærslum eru endalausir, hvern langar t.d. ekki í útivistarbingó?

Fjölbreyttur matur – vöndum valið
Munum eftir grænmetinu og ávöxtunum, leggjum upp með hollt nesti, verum dugleg að grilla fisk og gerum í raun hvaðeina sem okkur langar til. Það er enginn alheilagur í þessum efnum en verum samt meðvituð um að gæða hráefni skiptir sköpum og er „gott fyrir kroppinn“ eins og ég segi gjarnan við drengina mína.

Við sem stýrum Heilsueflandi samfélagi þökkum ykkur öllum fyrir frábæra samvinnu í vetur enda er samvinna og jákvætt viðhorf lykill að árangri þegar kemur að uppbyggingu heilsueflandi og -hvetjandi umhverfis hér í Mosfellsbæ.
Við vonum að þið eigið dásamlegt sumar og hlökkum svo sannarlega til að halda vegferðinni áfram í haust í samvinnu við ykkur frábæru Mosfellingar. Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og
verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Kæru Mosfellingar

Jón Jósef Bjarnason

Jón Jósef Bjarnason

Eftir niðrandi framkomu bæjarráðsmanna einn ganginn til, þungar og staðlausar ásakanir þeirra í minn garð, neitun um að fá að bóka í fjórgang, sem er lögbrot og fundarsköp sem væru ósæmandi grunnskólanemum og í algerri andstöðu við samþykktir bæjarfélagsins, sé ég mér ekki fært að starfa áfram fyrir ykkar hönd.
Þær persónulegu fórnir sem ég hef þurft að þola eru einfaldlega of miklar og ég gefst upp.

Mér þykir fyrir því að skilja ykkur eftir með stjórnmálamenn sem hugsa fyrst um sig, þá um flokk sinn og að lokum um stjórnmálastéttina án þess að gagnrýnisrödd fái að heyrast.

Jón Jósef Bjarnason
varabæjarfulltrúi

Borgarlína í Mosfellsbæ?

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Hvað er Borgarlína?
Borgarlína er hágæða almenningssamgöngur sem keyra á sérakgreinum og eru þannig ekki háðar annarri umferð.
Borgarlínan er leið sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu til að taka á móti þeim 70.000 íbúum sem áætlað er að bætist við til ársins 2040 án þess að umferð aukist í sama hlutfalli.
Þrátt fyrir eflingu almenningssamgangna með Borgarlínu er enn gert ráð fyrir því að einkabíllinn verði helsta samgöngutæki svæðisins. En með slíkri uppbyggingu aukast möguleikar heimila til að nota einkabílinn minna og kannski myndu mörg heimili frekar kjósa að eiga einn bíl í stað tveggja til fjögurra sem er staðan á mörgum heimilum í Mosfellsbæ í dag.

Af hverju Borgarlínu?
Vegna þess að það er mikilvægt að tryggja að ferðatími okkar aukist ekki til allra muna með fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Umferðarspár benda til þess að ómögulegt verði að uppfylla ferðaþarfir fólks til framtíðar eingöngu með uppbyggingu hefðbundinna umferðarmannvirkja.
Það sýna rannsóknir og reynslan bæði hérlendis og erlendis. Kostnaðar- og ábatagreining sýnir fram á það með óyggjandi hætti að það er þjóðhagslega hagkvæmt að setja fjármuni í Borgarlínu. Það dregur úr fjárfestingarþörf hins opinbera í öðrum dýrum samgöngumannvirkjum, það er umhverfisvænt, það minnkar samgöngukostnað heimilanna og bætir lýðheilsu almennings.

Fær Mosfellsbær Borgarlínu?
Svarið við því er JÁ, í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir að allir miðbæjarkjarnar á svæðinu tengist Borgarlínunni. Nú er í forkynningarferli skipulag sem tekur frá rými fyrir Borgarlínu, en samkvæmt þeirri tillögu mun Borgarlína keyra í gegnum væntanlega byggð í Blikastaðalandi, fara Baugshlíðina fram hjá Lágafellsskóla, Bogatanga og svo Þverholtið inn að miðbænum okkar.
Það er mikilvægt fyrir sveitarfélagið okkar að vera tengt þessari miklu samgöngubót sem Borgarlínan verður. Það er þó ástæða til þess að taka það fram að Borgarlínan mun aldrei þjónusta öll hverfi sveitarfélagsins vegna þess að þéttleiki í kringum slíkar stöðvar þarf að vera meiri en gengur og gerist í Mosfellsbæ, þar sem þéttleiki byggðar er almennt­ lítill. Þannig er gert ráð fyrir að þéttleiki á Blikastaðalandi verði meiri en við þekkjum í núverandi hverfum, svo og er gert ráð fyrir meiri þéttleika í miðbænum okkar.

Hvenær og hvernig verður þjónustunni háttað þangað til?
Borgarlínan mun ekki leysa af hólmi hinn almenna Strætó sem mun þjóna öðrum hverfum og tengja þau þannig við Borgarlínu. Ekki er hægt að fullyrða um það hvenær Borgarlínan rís í Mosfellsbæ en það mun verða í tengslum við uppbyggingu Blikastaðlands, líklega á næstu 10-20 árum. Þangað til mun hinn hefðbundni Strætó þjóna íbúum.
Bæjaryfirvöld leggja áherslu á að bæta þjónustu Strætó eins og kostur er. Þannig er brýnt að Strætó keyri í Helgafellshverfi enda byggist það hratt upp með fjölda íbúða. Eins er uppbygging í Leirvogstungu mikil og þar er í skoðun hvernig hægt er að bæta núverandi þjónustu með umhverfislegum og hagkvæmum hætti. Einnig er mikilvægt að kanna hvort ekki sé hægt að auka tíðni ferða, sérstaklega yfir sumartímann.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður og bæjarfulltrúi

Með gleði inn í sumarið!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Þá er sumarið gengið í garð og um að gera að njóta þess til fullnustu með þeim sem okkur þykir vænst um.

Hreyfivika UMFÍ
Það er óhætt að segja að Mosfellsbær hafi verið á iði síðustu vikurnar og viljum við þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu ævintýri með okkur. Kettlebells, Lágafellssókn, Hestamannafélagið Hörður, World Class, Elding líkamsrækt, Afturelding, Golfklúbbur Mosfellsbæjar, Mosó skokk og Ferðafélag Íslands – bestu þakkir fyrir að opna allar dyr og/eða standa fyrir viðburðum sem gerðu okkur hinum kleift að prófa og njóta.
Við viljum sömuleiðis þakka ykkur öllum sem tókuð þátt, þið öll gerðuð þessa viku frábæra og lögðuð svo sannarlega ykkar lóð á vogarskálarnar til að efla eigin heilsu og skapa þá umgjörð sem hvetur aðra til gera slíkt hið sama – TAKK!

Gulrótin 2017
Það var hátíðleg stund þegar Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, afhenti Svövu Ýr Baldvinsdóttur Gulrótina 2017 á Heilsudagsmálþinginu í FMOS í síðustu viku.
Þetta er í fyrsta skipti sem Gulrótin er veitt en hún er ný lýðheilsuviðurkenning sem ætlað er að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa Mosfellsbæjar. Heilsuvin og Mosfellsbær standa að baki viðurkenningunni sem felur í sér þakklæti fyrir frumkvæði og störf í anda lýðheilsu og á jafnframt að vera hvatning til allra á þessum vettvangi í bæjarfélaginu.
Svava Ýr er svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu komin en hún hefur til áratuga unnið ötullega að lýðheilsu og heilsueflingu allra aldurshópa í Mosfellsbæ. Hún hefur virkjað marga í íþróttum, m.a. sem handboltaþjálfari og umsjónarmanneskja Morgunhananna, ásamt því að kenna, fræða og byggja upp stóra hópa með heilsueflingu að leiðarljósi. Svava Ýr er ekki hvað síst þekkt fyrir að starfrækja Íþróttaskóla barnanna hjá Aftureldingu en hún hefur rekið hann í heil 25 ár. Við óskum henni hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna!
Eins og sést þá hefur verið heilmikið um að vera í heilsubænum okkar nú á vordögum og við erum hvergi nærri hætt þótt skipulagðir viðburðir verði í lágmarki í sumar. Svo þið missið ekki af neinu þá hvetjum við ykkur eindregið til að fylgjast með á fésbókarsíðunni okkar „Heilsueflandi samfélag Mosfellsbæ“ en þar birtum við ýmislegt bæði skemmtilegt og praktískt til efla heilsu og auðga andann.
Förum með gleði inn í sumarið!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Sumarið handan við hornið

Signý Björg Laxdal

Signý Björg Laxdal

Nú fer að líða að sumarfríi hjá deildinni okkar í Mosfellsbæ. Sjálfboðaliðar okkar fóru í árlega vorferð daginn fyrir Uppstigningardag, en sú ferð hefur undanfarin ár verið farin stuttu fyrir sumarlokun deildarinnar.
Að þessu sinni var farið umhverfis Snæfellsnesið og Borgarfjarðardeild Rauða krossins einnig heimsótt á heimleiðinni. Ferðin vakti mikla lukku að vanda. Nú fara helstu verkefni okkar í dvala þar til líður að hausti, en skrifstofa deildarinnar verður lokuð frá 19. júní til 14. ágúst nk. Þótt skrifstofa deildarinnar verði lokuð á þessu tímabili og helstu verkefni í dvala, þá er alltaf hægt að ná í okkur í síma deildarinnar ef mikið liggur við. Hælisleitendum og heimsóknarvinum verður sinnt, auk þess sem Gönguvinirnir verða á ferðinni í mestallt sumar.
Á uppstigningardag fór stjórn deildarinnar í vinnuferð til Hveragerðis í stefnumótun og samveru. Þar gafst okkur tækifæri til að yfirfara verkefnin okkar, ræða ný og hvernig við getum gert enn betur á næsta starfsári. Mosfellsbæjardeildin hét áður Kjósarsýsludeild en Kjalarnes og Kjós tilheyrir enn okkar starfssvæði. Margir hælisleitendur eru á okkar svæði í Arnarholti og Víðinesi, þar sem menn hafa lítið við að vera og samgönguleiðir þeirra afar torveldar. Reynt hefur verið að létta þeim samgönguleysið með því að útvega þeim reiðhjól m.a. í samvinnu við Barnaheill, sem hafa í nokkur ár safnað reiðhjólum fyrir börn og ungmenni. Síðastliðnar vikur hefur verið enskunámskeið fyrir þá í húsnæði okkar að Þverholti 7.
Námskeiðið var mjög vel heppnað að sögn sjálfboðaliða og nemenda. Þetta eru allt karlmenn á ýmsum aldri og af mjög mismunandi þjóðerni. Við viljum sérstaklega hvetja karlmenn til þess að kynna sér starf með hælisleitendum.
Okkur þykir gríðarlega mikilvægt að mæta þörfum þeirra sem nýta sér þjónustu okkar og um leið sýna framtíðar sjálfboðaliðum hve gefandi og áhrifaríkt það getur verið að gefa brot af tíma sínum. Það má alltaf hafa samband við okkur í gegnum Fésbókarsíðu deildarinnar eða með því að senda tölvupóst á starfsmann okkar hulda@redcross.is fyrir nánari upplýsingar. Verkefnin eru fjölbreytt en við munum kynna þau betur í haust fyrir forvitna og opna huga.
Fyrir tæplega tveimur árum tók ég þá ákvörðun að gerast heimsóknarvinur en það sem kom mér mest á óvart við það var hve verðmæt ein klukkustund á viku varð. Sjötíu ára aldursmunur okkar varð að engu þegar við sátum saman að skoða gamlar ljósmyndir og drekka kaffi.
Í vor kvaddi sú kæra vinkona en eftir sitja fallegar minningar og þakklæti fyrir kynni okkar. Verkefni geta verið svo miklu meira en bara verkefni. Að lokum er tilvalið að rifja upp sígild orð sem eru eitthvað á þá leið að enginn getur allt, en allir geta eitthvað.
Fyrir hönd stjórnar RKÍMOS þakka ég fyrir velvild í okkar garð og vel unnin störf ómetanlegra sjálfboðaliða. Sjáumst í túninu heima!

Signý Björg Laxdal, varaformaður
Rauða Krossins í Mosfellsbæ.

Rjúfum félagslega einangrun saman

Hulda Margrét Rútsdóttir

Hulda Margrét Rútsdóttir

Undanfarið hefur farið fram töluverð umræða um einmanaleika og félagslega einangrun bæði á samfélagsmiðlum og í kjölfarið í fjölmiðlum. Fólk á öllum aldri hefur tjáð sig um að vera vinalaust og einmana og auglýsir jafnvel eftir vinum á Fésbókinni. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og margir hafa boðið fram aðstoð og vináttu svo að þeir sem tjáðu sig á samfélagsmiðlunum séu ekki einmana lengur.
Eitt af meginverkefnum Rauða krossins er að rjúfa einangrun fólks. Það er gert á ýmsan hátt, til að mynda með heimsóknum, opnum húsum og símavinum. Sjálfboðaliðar annast þessi verkefni með stuðningi frá starfsmönnum Rauða krossins. Heimsóknavinir fara í heimsóknir til fólks og spjalla við það, en tilgangurinn er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Stundum fara vinirnir í gönguferð, bíltúr eða gera eitthvað annað. Þá rekur Rauði krossinn hjálparsímann 1717 sem er alltaf opinn allan sólarhringinn alla daga ársins. Föt sem framlag, karlakaffi, vinahús og strákakaffi eru dæmi um hópa á vegum Rauða krossins þar sem ýmislegt skemmtilegt er haft fyrir stafni í góðum félagsskap. Eins eru reglulega opin hús fyrir flóttafólk og hælisleitendur.
Rauði krossinn í Mosfellsbæ er ein 42 deilda á Íslandi. Hjá deildinni er öflugur „Föt sem framlag“ prjónahópur sem hittist vikulega. Í heimanámsaðstoðinni er ekki bara verið að aðstoða við lærdóminn, það gefst líka tími til að spjalla og jafnvel spila eða fara í leiki á bókasafninu öðru hverju.
Heimsóknavinir heimsækja fólk í bænum okkar. Gönguvinir hittast tvisvar í viku og taka létta göngu og spjalla á leiðinni. Undanfarna mánuði hafa sjálfboðaliðar verið með byrjendakennslu í ensku fyrir hælisleitendur einu sinni í viku. Aðalmarkmið enskukennslunnar er að allir fari brosandi úr tíma og gildir það jafnt fyrir sjálfboðaliða og nemendurna. Í tímum eru grunnatriðin í ensku kennd en líka spjallað og stundum spilað á spil.
Ljóst er að fjöldi fólks á öllum aldri er félagslega einangrað. Ótal ástæður geta legið að baki en það er okkar samfélagsins að reyna að aðstoða og koma í veg fyrir einangrun. Við getum öll lagt okkar af mörkum til þess að hleypa birtu inn í líf annarra. Við þekkjum það öll að hlýja og nærvera, jafnvel bros frá ókunnugum getur gert daginn svo miklu betri.
Vantar þig félagsskap? Viltu veita félagsskap og taka þátt í verkefnum hjá Rauða krossinum? Lumar þú á góðri hugmynd um hvernig við getum dregið úr félagslegri einangrun í bænum okkar?
Við hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ tökum vel á móti öllum sjálfboðaliðum og skjólstæðingum. Hafðu samband: hulda@redcross.is eða í síma 898 6065.

Hulda Margrét Rútsdóttir
verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ

Mosfellsbær á iði

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú á vordögum og í byrjun sumars er og verður heilmikið um að vera í heilsubænum okkar til að koma blóðinu á hreyfingu, gleðjast með okkar nánustu og auðga andann.

Hreyfivika UMFÍ – Move Week
Hreyfivikan verður nú haldin dagana 28. maí – 4. júní nk. Þessi vika er hluti af stóru lýðheilsuverkefni sem fram fer um gjörvalla Evrópu á sama tíma. Markmiðið er að fá hundrað milljónir fleiri Evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020.
Að venju verður heilmikið um að vera í Mosfellsbæ og má finna dagskrá sem uppfærist jafnóðum á heimasíðu verkefnisins www.iceland.moveweek.eu auk þess sem upplýsingar verða birtar fésbókarsíðum Mosfellsbæjar og Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ. Hver er þín uppáhalds hreyfing?

Heilsudagurinn í Mosfellsbæ 2017
Dagurinn verður haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 1. júní nk. og byrjum við daginn að vanda á hressandi morgungöngu með Ferðafélagi Íslands á bæjarfellið Mosfell. Um kvöldið verður, líkt og síðustu ár, blásið til myndarlegs málþings í Framhaldsskólanum þar sem mikilvægi samvinnunnar svífur yfir vötnum.
Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og starfsmaður karlalandsliðsins í knattspyrnu, mun skyggnast á bak við tjöldin á EM og útskýra hversu miklu máli hver einstaklingur skiptir í sterkri liðsheild, við heyrum einnig frá fulltrúum skólanna okkar og fleira skemmtilegt verður á boðstólnum. Eins og alltaf er aðgangur ókeypis, boðið verður upp á léttar veitingar og allir hjartanlega velkomnir.

Örgöngur FÍ í Mosfellsdal
Ferðafélag Íslands býður nú í maí upp á þrjár örgöngur í Mosfellsdal með Bjarka okkar Bjarnasyni. Göngurnar hófust sl. þriðjudag skv. ferðáætlun FÍ en jafnframt verður gengið þriðjudagana 23. maí og 30. maí kl. 19:00. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu FÍ www.fi.is og á Fésbókarsíðu Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ. Göngurnar eru ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Hjólað í vinnuna
Nú er lýðheilsuverkefnið Hjólað í vinnuna á lokametrunum en það stendur stendur til 23. maí nk. Helsta markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.
Þátttakendur eru hvattir til þess að ganga, hjóla, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu. Virkur ferðamáti er frábær kostur til þess að koma hreyfingu inn í daglega rútínu og hvetjum við ykkur eindregið til að prófa.

Fyrirmyndardagurinn
Að lokum verður að minnast á Fyrirmyndardaginn sem Mosfellsbær stóð fyrir um liðna helgi. Þar kom saman vaskt og hugmyndaríkt fólk sem stóð m.a. fyrir fyrsta Íslandsmeistaramótinu í YFIR, ratleik í Reykjalundarskóginum, grilli á miðbæjartorginu, hjólagleði á hjólabrautinni okkar, tónleikum ungs og efnilegs listafólks o.fl. Í gærkvöldi tóku síðan nemendur í FMOS og vinaliðar í grunnskólunum höndum saman og fóru í útileiki í hverfum bæjarins. Sannkallað fyrirmyndarverkefni!

Við hvetjum ykkur eindregið til að taka þátt í öllu því sem boðið er upp á og virkja fólkið í kringum ykkur til að gera slíkt hið sama – því maður er manns gaman – og félagslegi þátturinn er svo sannarlega líka mikilvægur í vegferð okkar til hamingju og heilbrigðis.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og
verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Heimsbyggð – heimabyggð

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar. 

Nú í sumarbyrjun er ástæða til að horfa um öxl til nýliðins vetrar og einnig fram á veginn til sumarsins sem bíður okkar handan hornsins.
Um þessar mundir standa vorverkin yfir, fólk sinnir görðum sínum og sveitarfélagið hefur sett upp gáma þar sem íbúum gefst kostur á að koma með garðaúrgang. En um leið og við hugum að nánasta umhverfi okkar hér og nú er rétt að hafa í huga að umhverfismál snerta allar árstíðir og heimsbyggð og heimabyggð í senn. Hér á eftir verður drepið á nokkur umhverfismál sem hafa verið á dagskrá á nýliðnum vetri.

Vistgerðarkort
Fyrir skemmstu kynntu fulltrúar frá Náttúrufræðistofnun Íslands svokallað vistgerðarkort í umhverfisnefnd bæjarins. Um er að ræða heildstætt yfirlit og lýsingu á náttúrufari alls landsins þar sem notast er við nýja aðferðafræði við flokkun og kortlagningu lífríkisins. Kortið sýnir útbreiðslu 105 vistgerða og er öllum opið á kortasjá NÍ. Landið og náttúran taka breytingum og er ætlunin að kortasjáin verði uppfærð eftir því sem ástæða þykir til.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Stígar og slóðar
Undanfarin þrjú ár hefur sérstakur starfshópur unnið að kortlagningu vegslóða í landi Mosfellsbæjar og er lokamarkmiðið að skilgreina betur hvar má aka á vélknúnum ökutækjum og hvar ekki. Stíga- og slóðakerfi bæjarins er mjög víðtækt, einkum á Mosfellsheiði þar sem finna má margar fornar leiðir. Starfshópurinn hefur nú lokið starfi sínu og sent lokaskýrslu sína til bæjarráðs sem vísaði málinu til skipulagsnefndar til frekari úrvinnslu.

Okkar Mosó
Nýlega fór fram íbúakosningin „Okkar Mosó“ þar sem bæjarbúum gafst kostur á að leggja fram tillögur að verkefnum sem unnið yrði að á þessu ári. Þátttaka var einstaklega góð, margar athyglisverðar hugmyndir komu fram og var kosið á milli þeirra. Þau verkefni sem bæjarbúar veittu brautargengi tengjast öll umhverfinu á einn eða annan hátt og má þar nefna útivistar­paradís á Stekkjarflöt við Varmá, bekki fyrir eldri borgara við Klapparhlíð og fuglafræðslustíg meðfram Leiruvogi.

Opinn fundur umhverfisnefndar
Síðustu ár hefur það verið árlegur viðburður hjá umhverfisnefnd að halda opinn fund í samræmi við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar. Fundurinn verður að þessu sinni haldinn fimmtudaginn 11. maí kl. 17 í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og mun fjalla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sjálfbæra þróun. Frummælendur verða Andri Snær Magnason rithöfundur og Lúðvík Gústafsson verkefnisstjóri, síðan verða almennar umræður um þennan viðamikla málaflokk.
Við hvetjum bæjarbúa til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í samræðum um mál sem snerta í senn heimsbyggð og heimabyggð.

Gleðilegt sumar, kæru Mosfellingar.

Bjarki Bjarnason, formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar. Örn Jónasson, varaformaður.

Fyrsta hjálp – er þín fjölskylda tilbúin?

Signý Björg Laxdal

Signý Björg Laxdal

Oft eru það aðstandendur og almenningur sem eru fyrstu viðbragðsaðilar á slysstað og börn eru ekki síður líkleg til þess.
Í fyrra var skyndihjálparmaður ársins hjá Rauða krossinum Unnur Lísa Schram, sem bjargaði lífi eiginmanns síns þegar hann fór í hjartastopp. Árið þar á undan var það hin 7 ára gamla Karen­ Sæbjörg Guðmundsdóttir, sem bjargaði lífi móður sinnar. Slys eða veikindi gera ekki boð á undan sér.
Í dag er fræðsluefni um skyndihjálp ótrúlega aðgengilegt. Hægt er að heimsækja www.skyndihjalp.is og taka stutt próf um þína þekkingu. Það er mælt með því að fara á skyndihjálparnámskeið á tveggja ára fresti að jafnaði, svo ef það er lengra liðið frá því að þú sóttir síðast námskeið, þá er tími til að huga að endurnýjun.
Ég veit, ég veit – ótrúlega margendurtekin mantra um mikilvægt málefni sem allir ætla að gera, bara ekki einmitt núna. En það er gott að hafa þessa hluti á hreinu, mæta í nokkra klukkutíma, drekka lítilfjörlegt kaffi og bjarga kannski lífi einn daginn. Skyndihjálparnámskeið eru haldin reglulega á höfuðborgarsvæðinu en allar upplýsingar má nálgast á heimasíðu Rauða krossins á Íslandi: raudikrossinn.is.
Þar að auki gaf RKÍ út skyndihjálpar-app fyrir nokkrum árum þar sem hægt er að rifja upp helstu bjargráð og jafnvel grípa til í neyð, þótt auðvitað sé best að þurfa þess ekki. Auðvelt er að sækja appið (eða fá börnin til þess) og kynna sér efnið.
Krakkar eru merkilega snjallir og læra hraðar en amma og afi vilja kannski viðurkenna. Það er því ekki síður mikilvægt að leyfa börnunum að vera með og fara saman yfir helstu viðbrögð.
Að lokum vil ég minna á að námskeiðið Börn og umhverfi verður haldið hjá Rauða krossinum okkar í Mosfellsbæ 8. – 11. maí næstkomandi. Námskeiðið er ætlað ungmennum 12 ára og eldri (fædd 2005 og fyrr) og fer vel í umgengni barna og slysavarnir.
Þetta er tilvalið fyrir þau sem ætla að sjá um og passa börn í sumar og síðar. Frekari upplýsingar má finna hjá deildinni okkar á Facebook eða hjá starfsmanni okkar hulda@redcross.is

Allra bestu sumarkveðjur, Signý Björg Laxdal,
varaformaður Mosfellsbæjardeildar RKÍ.

Áfallasjóður Rauða krossins

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir

Áfallasjóður Rauða krossins er samstarfsverkefni deilda á Stór-Reykjavíkursvæðinu, það er Mosfellsbæjar-, Kópavogs-, Reykjavíkur-, Hafnarfjarðar- og Garðabæjardeildar.
Áfallasjóðurinn var stofnaður í árslok 2015. Stofnun hans kom til þar sem ljóst var að margir sem lenda í tímabundnum vanda vegna ófyrirsjáanlegra áfalla eiga í engin hús að venda ef þeir þurfa stuðning til að yfirstíga vanda sem hlýst af áfallinu. Tilgangur sjóðsins er að aðstoða fólk sem verður fyrir skyndilegu fjárhagslegu áfalli, oft vegna sjúkdóma eða slysa, og fær enga eða mjög litla aðstoð annars staðar. Ætlunin er að brúa bil og með því hjálpa fólki að ná sér aftur á strik eftir ófyrirséð fjárhagslegt áfall. Markmiðið er að forða fóki frá að lenda í aðstæðum sem það nær ekki að vinna sig úr án stuðnings.
Þeir sem sótt geta um stuðning eru einstaklingar og fjölskyldur með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu.
Á síðasta ári var veittur stuðningur til 44 einstaklinga og fjölskyldna.
Viðbrögð þeirra sem fengu aðstoð hafa verið ákaflega hjartnæm eins og sjá má af dæmunum hér fyrir neðan og sýna þau okkur að stuðningur getur gert gæfumun í slíkum aðstæðum.
Hér eru tvö dæmi sem tekin eru úr þakkarbréfum frá þeim sem fengið hafa stuðning:
„Það munar rosalega að fá svona aðstoð… það léttir rosalega á manni andlega, það verður léttara yfir manni, og maður fær smá von í hjarta um að kannski muni þetta nást á endanum, þetta gefur manni von.“
„Ég get aldrei fullþakkað Rauða krossinum fyrir þá aðstoð sem mér var veitt í september 2016. Hún gerði það að verkum að ég gat flutt í húsnæði sem er öruggt og þar sem ég þarf ekki að flytja aftur nema ég þurfi og vilji, er loksins komin í öruggt skjól.“
Það sem af er þessu ári hefur umsóknum um stuðning fjölgað til muna og eru orðnar svipað margar og allt árið 2016. Því er ljóst að þörfin er mikil og fer vaxandi.
Til þess að Rauði krossinn geti haldið áfram að veita þennan mikilvæga stuðning þurfum við nú á aðstoð ykkar að halda. Það er von okkar að velviljaðir einstaklingar og fyrirtæki veiti fjárhagslegan stuðning svo að við getum haldið áfram því mikilvæga starfi sem stuðningur úr áfallasjóðnum er.
Hægt er að leggja inn á bankareikning 0315-22-000499. Kennitala 551082-0329 og merkja greiðsluna: Áfallasjóður

Katrín Sigurðardóttir, stjórnarmaður Rauða krossins í Mosfellsbæ og í stjórn áfallasjóðs

#mosoheilsa

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú er vorið að nálgast og segja þeir allra jákvæðustu að það hafi nú verið meira og minna vor í allan vetur! Menningarvorið er allavega gengið í garð og var okkur boðið upp á mannbætandi og heilsueflandi samverustundir á bókasafninu síðustu tvo þriðjudaga.
Krókusarnir eru komnir upp í görðum á víð og dreif og lóan er meira að segja komin – yndislegt. Til að toppa þetta þá er ýmislegt spennandi fram undan í heilsubænum Mosfellsbæ.

#mosoheilsa
Til að vekja unglingana okkar til ábyrgðar og vitundar um mikilvægi eigin heilsu þá munum við blása til samfélagsmiðlaleiks meðal nemenda í 8.-10. bekk sem hefst í dag, fimmtudaginn 6. apríl, og stendur til 30. apríl nk.
Við höfum fengið nemendafélögin í Lágafells- og Varmárskóla til liðs við okkur og er hugmyndin sú að nemendur taki myndir af hverju því sem þeir tengja við heilsu og merki myndirnar #mosoheilsa.
Allir geta leitað í hugmyndabanka sem verður inni á www.heilsuvin.is til að finna tillögur að myndefni – hvernig myndar maður t.d. kyrrð og gleði? Glæsileg verðlaun verða í boði fyrir bestu/skemmtilegustu myndirnar eins og sjá má í auglýsingu á öðrum stað í blaðinu.

Okkar Mosó
Við hvetjum ykkur eindregið til að taka þátt í kosningum um verkefni í Okkar Mosó og hafa þar með bein áhrif á umhverfið og samfélagið hér í bænum.
Kosning um tillögur stendur núna yfir á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mos.is og eru þær hver annarri betri. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu heilsuþenkjandi íbúar Mosfellsbæjar eru og ég verð að játa að ég sjálf á í stökustu vandræðum með að kjósa á milli og langar að velja allar tillögurnar!

Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar
Við höfum, fyrst allra sveitarfélaga, ákveðið að efna til samkeppni um Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar og mun verðlaunaafhending fara fram á Heilsudeginum okkar núna í vor.
Verið er að setja saman dómnefnd og þau viðmið sem farið verður eftir og mun Mosfellingum gefast kostur á að tilnefna verkefni og/eða einstaklinga sem koma að lýðheilsu og heilsueflingu á einn eða annan hátt.
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og tilhögun verða birtar í næsta Mosfellingi en farið endilega að hugsa hverjir ætti skilið að hljóta Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar 2017.

Það eru sem sagt spennandi tímar fram undan­ og nú er það bara áfram veginn!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Lattelepjandi mosfellsk lopapeysa

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Ég elska Mosfellsbæ, mér finnst yndislegt að búa í smá sveit þar sem stutt er í náttúruna og samkennd einkennir mannlífið. En ég væri líka til í smá miðbæ, geta sótt kaffihús eftir kl. 18 og farið út að borða með vinkonum eða fjölskyldu og geta valið milli staða sem ekki flokkast undir skyndibita.
Miðbær í Mosfellsbæ verður aldrei eitthvað á við miðbæinn í höfuðborginni. En hér ætti að geta skapast mannlíf á við það sem nú er að skapast í kringum miðbæ í nágrannasveitarfélögum okkar. Við ættum að geta haft Kaffi Mosó, eins og kaffihús í Vesturbænum eða Laugalæknum. Kannski er þess ekki langt að bíða að þetta geti orðið að veruleika.
Byggingaverktakar hafa nú sýnt miðbænum aukna athygli og vænta má þess að á næstu misserum byggist upp bæði verslun, þjónusta og íbúðir í miðbænum okkar.
Skipulagsnefnd er einhuga um mikilvægi þess að fjölga þurfi íbúðum í miðbæ Mosfellsbæjar enda er ein af forsendum þess að Borgarlínan (framtíðar almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins) nái upp í Mosfellsbæ sú að í miðbænum sé nægjanlega mikill fjöldi fólks fyrir slíka þjónustu.

Miðbæjaruppbygging
Nú á næstu vikum verður auglýst breyting á lóðum sem ná frá framhaldsskólanum og að Krónubyggingunni. Þar á að byggja upp íbúðir og verslunar- og þjónusturými. Áhersla er á uppbrot bygginga og fallega götumynd.
Ekki er ólíklegt að lóðirnar á móti sem lengi hafa verið í eigu Kaupfélags Kjalarnesþings muni jafnframt fara í skipulagsferli fljótlega þar sem gert er ráð fyrir uppbygginu íbúða. Þetta er jákvætt enda ljóst að þörf er á miklum fjölda íbúða inn á markað á næstu misserum.
Í síðasta Mosfellingi var fjallað um áhuga fjárfesta á mögulegri hóteluppbyggingu í Sunnukrika. Þegar Krikahverfið var skipulagt á sínum tíma var gert ráð fyrir verslun og þjónustu neðst í hverfinu. Þótti það skynsamlegt til að skýla íbúðabyggð fyrir Vesturlandsveginum og til að stækka miðbæjarsvæðið sem er skilgreint beggja vegna Vesturlandsvegar. Lóðirnar hafa verið auglýstar til sölu á vef Mosfellsbæjar svo árum skiptir en það er ekki fyrr en nú sem áhugi hefur skapast fyrir uppbyggingu þar. Ef af þessari uppbyggingu verður er það til mikilla bóta fyrir miðbæ í sveitarfélaginu okkar enda ljóst að í kringum hótel þrífst betur verslun og veitingastarfsemi.
Það er ánægjulegt til þess að hugsa að mikill áhugi er fyrir uppbyggingu í Mosfellsbæ, bæði íbúðir og verslunar- og þjónusturýma. Enda er gott að búa í Mosfellsbæ.

Bryndís Haraldsdóttir
Formaður skipulagsnefnar

Að rækta skóg

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Að rækta skóg er eins og að gefa nýtt líf. Þú setur fræ í mold, fylgist með að sjá það spíra og verða að pínulítilli plöntu. Mörg ár munu líða þangað til þessi litlu kríli verða að tjám.
Við sem ræktum skóg lítum á tré sem vini. Þetta eru lifandi verur sem vinna fyrir okkur á margan hátt, t.d. búa til súrefni, veita okkur skjól, gefa næringar- og byggingarefni, jafna úrkomu og draga þar með úr flóðahættu og margt fleira. Ekki síst eru skógar með eftirsóttustu útivistarsvæðum.
Tré eru lengi að vaxa úr grasi og okkur skógarvinum þykir miður hve kæruleysislega sumir haga sér. Má þá til dæmis nefna utanvegaakstur (bæði jeppar, vélsleðar og fjórhjól) þar sem litlar plöntur troðast undir og skaddast. Klukkutímaskemmtun á torfærutækjum getur valdið tjóni sem verður ekki bætt á mörgum árum.
Skógræktarfélögin á landinu hafa lyft grettistaki í að koma upp dásamlegum skógarsvæðum víða um land. Árum saman hafa menn einbeitt sér að pota niður trjáplöntum, en nú þegar vöxtulegir skógar hafa myndast verða verkefnin smám saman önnur.
Nú þarf að búa til stíga, grisja, hafa upplýsingar aðgengilegar og sinna umönnun í þessum „gömlu“ skógum þannig að þetta verkefni megi áfram dafna og vaxa, mönnum til gagns og gamans.
Nú er í auknum mæli verið að opna eldri skóga og gera þá aðgengilega fyrir almenning. Þörf er á að fagmenn komi að umsjón og umhirðu skógarsvæðanna og sem betur fer fjölgar menntuðum skógfræðingum frá ári til árs.
Markviss umönnun og umhirða skógarsvæða gerist ekki án þess að ríkið og sveitarfélögin komi að þessu með auknu fjármagni. Skógræktarfélögin hafa hvorki peninga né vinnuafl til að geta sinnt þessu.
Við og okkar afkomendur þurfum að læra að umgangast náttúruna af alúð og virðingu. Að rækta skóg er mannbætandi. Skólarnir ættu að fá svigrúm og fjármagn til að sinna þessu mikilvæga uppeldisverkefni. Börn sem fá viðeigandi uppeldi og fræðslu munu kenna foreldrum sínum þegar heim er komið.

Úrsúla Jünemann.
Höfundur starfar í umhverfisnefnd fyrir Íbúahreyfinguna.

Hvernig líður þér í fótunum?

Rósa Jósefsdóttir

Rósa Jósefsdóttir

Að fara reglulega til fótaaðgerðafræðings ætti að vera jafn mikilvægt og að fara til tannlæknis.
En hverjir eru það sem ættu að fara til fótaaðgerðafræðings? Svarið er einfalt – ALLIR. Þeir sem hafa farið til fótaaðgerðafræðings hafa fundið fyrir hversu mikil vellíðan fylgir slíkri heimsókn. Allir ættu að huga vel að fótum sínum því þeir leika stórt hlutverk í því að halda líkama okkar uppi og koma okkur frá einum stað til annars.
Til fróðleiks má geta þess að með hverju skrefi sem við tökum setjum við 1,5 x eigin þyngd okkar á fótinn í hverju skrefi. Manneskja sem vegur 70 kg setur þannig 105 kg á fótinn í hverju skrefi.

Þeir sem hafa einhvern tíma glímt við einhvers konar fótamein vita hversu hvimleitt það er að finna fyrir sársauka í hverju skrefi og þurfa jafnvel að beita líkamanum á annan hátt til að minnka fótverki. Slík líkamsbeiting getur í sumum tilvikum haft slæmar afleiðingar, til dæmis verki upp í bak. Þegar óþægindi láta á sér kræla til dæmis niðurgróningur á nögl eða jafnvel sprungur á hælum er mikilvægt að leita til fótaaðgerðafræðings svo hægt sé að koma í veg fyrir frekara mein.
Fótaaðgerðafræðingar ráðleggja einnig þeim sem eru sykursjúkir um mikilvægi umhirðu fóta, hvað beri að varast og ekki síst mikilvægi þess að láta fylgjast reglulega með fótunum svo sem skynjun, húðbreytingar og margt fleira.

Mosfellingar nýta sér án efa þá náttúruperlu sem nánasta umhverfi þeirra býður upp á og eru það mikil forréttindi. Gönguferðir eru eflaust vinsælar og er þá mikilvægt að vera vel skóaður og ekki síður í góðum sokkum. Þessir þættir eru ekki síður mikilvægir þegar kemur að umhirðu og heilbrigði fóta.
Of þröngir skór og sokkar geta leitt til fótameina sem væri hægt að komast hjá ef við erum meðvituð um hvað gerir okkar fætur heilbrigða og hvað við getum gert til að viðhalda því.
Sá sem nýtir sér þjónustu fótaaðgerðafræðings fær einnig fræðslu um hvernig best sé að hugsa um fæturna og veita fótaaðgerðafræðingar góð ráð varðandi umhirðu fóta, val á skóm, sokkum, innleggjum og hlífum.

Rósa Jósefsdóttir fótaaðgerðafræðingur
Fótaaðgerðastofu Mosfellsbæjar