Traust fjárhagsstaða Mosfellsbæjar

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er góð og sveitarfélagið nýtur hvarvetna trausts. Á undanförnum árum hefur þessi trausta fjárhagsstaða verið nýtt til að auka þjónustu við bæjarbúa og lækka álögur.
Grettistaki hefur t.d. verið lyft í þjónustu við yngstu börnin m.a. með því að setja á laggirnar ungbarnadeildir á leikskólunum og lækka leikskólaaldurinn niður í 13 mánaða aldur. Álagningarhlutföll fasteignaskatts hafa lækkað um rúm 15%, heita vatnið og leikskólagjöldin lækkuð um 5%, afsláttur af fasteignagjöldum til eldri borgara hefur hækkað verulega, frístundaávísun hækkað um 280% og útsvar verið lækkað svo eitthvað sé nefnt.
Á næsta kjörtímabili ætlum við Sjálfstæðisfólk í Mosfellsbæ að halda áfram á sömu braut. Við ætlum m.a. að miða við að öll börn 12 mánaða og eldri eigi kost á leikskólaþjónustu og við ætlum að halda áfram að lækka álögur á íbúa og tryggja áfram trausta og ábyrga fjármálastjórn með gegnsæi að leiðarljósi.

Góð afkoma bæjarsjóðs
Forsenda þess að hægt sé að lækka álögur og stórauka þjónustuna eins og raun ber vitni er að fjárhagur sveitarfélagsins sé traustur og afkoma góð. Á síðasta ári var um 560 mkr. rekstrarafgangur af bæjarsjóði og á árunum 2015-17 var samtals um 900 mkr. rekstrarafgangur. Á sama tíma var veltufé frá rekstri jákvætt um samtals 3.500 mkr. en veltufé frá rekstri er ein mikilvægasta kennitala sveitarfélaga. Hún mælir hvað miklir fjármunir eru eftir á bankareikningnum þegar búið er að greiða allan kostnað og leiðrétta fyrir reiknuðum liðum eins og verðbótum og afskriftum.
Heildarfjárfestingar á þessu tímabili voru hinsvegar um 3.240 mkr. eða töluvert lægri upphæð en veltufé frá rekstri. Þetta þýðir að allar fjárfestingar á þessum tíma voru fjármagnaðar með eigin fjármunum og afgangur til upp í afborganir skulda. Þetta á sér stað á einum af mestu uppbyggingartímum bæjarins sem hlýtur að teljast afar góður árangur.

Skuldahlutfall lækkar
Þegar vinstri menn stjórnuðu bænum fram til ársins 2002 var skuldahlutfallið komið í 200%. Samkvæmt núverandi fjármálareglum sveitarfélaga hefði slík staða kallað á alvarlegar aðgerðir eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga gagnvart Mosfellsbæ og væri stutt í að bænum yrði skipuð fjárhaldsstjórn.

Sjálfstæðismenn tóku við stjórnartaumunum í Mosfellsbæ árið 2002 og hefur skuldaviðmið farið hríðlækkandi allt frá því og var komið niður í 109% af tekjum í árslok 2017. Árið 2002 var veltufé frá rekstri neikvætt um rúmar 100 mkr. á núvirði sem þýddi að taka þurfti lán fyrir venjubundnum rekstri eins og greiðslu launa. Það var afar alvarleg staða.
Nú er öldin önnur og allt annar bragur á fjárhag Mosfellsbæjar og sem dæmi er tekið að miðað við núverandi hlutfall veltufjár frá rekstri tæki það sveitarfélagið um 6 ár að greiða niður allar skuldir bæjarins ef um engar fjárfestingar væri að ræða. Það þætti góð staða á hverju heimili.

Mosfellsbær nýtur trausts
Mosfellsbær nýtur mikils og góðs trausts sem sést best á því að fjármögnun framkvæmda hefur gengið vel og að bænum bjóðast vextir sem eru með því lægsta sem býðst. Fyrr á þessu ári var tekið lán til endurfjármögnunar á 2,58% vöxtum sem er með því allra lægsta sem þekkist hjá sveitarfélögum.
Gott lánstraust og lágir vextir eru meðal annars vegna góðs og trúverðugs rekstrar bæjarins og þess að bærinn hefur og getur staðið við skuldbindingar sínar. Bærinn hefur aðgang að hagkvæmum lánalínum hjá bönkum og lánastofnunum sem stuðlar að lægri vaxtakostnaði sem gerir bænum unnt að spara sér vaxtakostnað og hafa veltufjárhlutfallið undir einum sem fátítt er meðal sveitarfélaga.

Á þessum trausta grunni viljum við Sjálfstæðisfólk halda áfram að byggja bæinn okkar upp í góðu samstarfi við frábært starfsfólk Mosfellsbæjar. Settu X við D þann 26. maí n.k. Það skiptir máli hverjir stjórna.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri og oddviti sjálfstæðisfólks í Mosfellsbæ.