Grænt skipulag í Mosfellsbæ

Steinunn Dögg Steinsen

Steinunn Dögg Steinsen

Mosfellsbær er einstaklega vel í sveit settur og býður íbúum sínum og nærsveitungum upp á frábæra útivistarmöguleika bæði innanbæjar sem og í umliggjandi landbúnaðar- og náttúrusvæðum.
Það er mikilvægt að Mosfellsbær tryggi íbúum sínum áfram aðgengi að góðum útivistarsvæðum ásamt því að stuðla að umhverfis- og náttúruvernd. Besta leiðin til þess er grænt skipulag.
Grænt skipulag er heildstætt skipulag á öllum grænum svæðum, frá litlum svæðum í þéttbýli til stórra náttúrusvæða. Skipulagið felst í að mynda samhangandi svæði og samgöngukerfi, nokkurs konar grænan vef, innan byggðar og sem tengir saman byggð við náttúru- og útivistarsvæði, landbúnaðarsvæði, fjöll, vötn, árfarvegi og strandsvæði.
Samfylkingin vill leggja áherslu á heildarskipulag grænna svæða og að bæjarland Mosfellsbæjar verði eftirsótt útivistarsvæði. Með markvissri stefnu viljum við auka trjá- og skógrækt til skjólmyndunar fyrir byggðina og þá sérstaklega með ræktun í nýjum hverfum. Með heildstæðu skipulagi grænna svæða getum við einnig staðið vörð um náttúru bæjarins sem okkur ber skylda til að varðveita og færa til komandi kynslóða.

Samson Bjarnar Harðarson

Samson Bjarnar Harðarson

Samfylkingin vill að byggð Mosfellsbæjar þróist á hagkvæman og skynsaman hátt, þar sem almannahagsmunir ráði för í skipulagsmálum. Samfylkingin vill að Mosfellsbær verði fallegur, skjólsæll og lágreistur bær með fjölbreyttri byggð, starfsemi og útivistarsvæðum. Við viljum að fólk geti búið sér gott heimili í Mosfellsbæ sem hentar þörfum þess óháð fjölskyldustærð og efnahag.

Við viljum styrkja ímynd bæjarins sem útivistarbæjar, sveitar í borg með góðu skólastarfi og möguleikum til íþrótta og frístunda. Götur, torg og græn svæði eiga að vera falleg, mannvæn og skjólsæl umgjörð daglegs lífs í Mosfellsbæ.
Miðbær Mosfellsbæjar þarf að þróast á þann hátt að þar dafni fjölbreytt þjónusta og atvinnustarfsemi. Það getur einungis gerst með því að þétta byggð með nægilegum íbúafjölda til að styðja við miðbæjarstafsemi. Þétt miðbæjarsvæði er jafnframt lykilatriði í þróun á hagkvæmum og skilvirkum almenningssamgöngum í því nútímaborgarsamfélagi sem við viljum vera hluti af.

Með fjölbreytni, fegurð og mannvænt umhverfi að leiðarljósi viljum við gera Mosfellsbæ að grænum nútímabæ og virkum hluta af höfuðborgarsvæðinu.

Steinunn Dögg Steinsen skipar 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar
Samson Bjarnar Harðarson skipar 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar