Framtíðin er í Mosfellsbæ

Friðfinnur Finnbjörnsson

Friðfinnur Finnbjörnsson

Mosfellsbær er fallegt samfélag með vinalegu fólki. Við konan mín fluttum í bæinn fyrir áramót með börnin okkar, Eric þriggja ára og Leiu fimm ára.
Leikskólinn sem þau eru á er einn sá besti sem við höfum kynnst og grunnskólinn sem þau munu sækja virkar mjög traustvekjandi. Ég vona að börnin fái að njóta þess tómstundastarfs sem í boði er þegar fram líða stundir, en umfram allt vil ég að þeim líði vel.

En það eru blikur á lofti
Ég hef áhyggjur af þróun skólamála í Mosfellsbæ þrátt fyrir stutta búsetu í bænum. Ég horfi á hverfi rísa þar sem tvö hundruð börn búa og er þeim ætlað að sækja skóla í öðru hverfi sem þegar er yfirsetinn. Önnur hverfi eru einnig í byggingu þar sem upphaflega var gert ráð fyrir 52 íbúðum en er samkvæmt deiliskipulagi er búið að hækka þá tölu í 212 íbúðir. Ekki er fyrirsjáanlegt í hvaða skóla börnin í því hverfi eiga að fara. Þessu hef ég áhyggjur af.

Það sem heillaði okkur fjölskylduna við bæinn var hugmyndin um heilnæmt og heilsusamlegt samfélag fyrir fjölskyldu okkar. Nánd við náttúru, barnvænt umhverfi og ásýnd bæjarins hafði áhrif á val okkar. Nú viljum hvergi annars staðar búa en ég hef áhyggjur. Þörfin fyrir nýtt húsnæði má ekki ganga á gæði skólaumhverfisins og upplifun barna okkar. Við megum ekki gefa eftir í skipulags- og skólamálum þó að við séum undir pressu að fjölga íbúðum í Mosfellsbæ.

Það eru blikur á lofti um að líðan barna og ungmenna fari versnandi og það sem kom okkur á óvart hvað einelti virðist vera algengt. Það er mikilvægt að við sýnum gott fordæmi og ráðumst saman í að vinna bug á þessum vanda fyrir börnin, unga fólkið og bæinn okkar.
Hluti af þessu er að huga að samhliða uppbyggingu hverfa séu leikskólar og grunnskólar til staðar sem taki við nýjum nemendum.
Skólarnir þurfa að vera vel mannaðir og hver skóli að hafa íþrótta- og tónlistar­aðstöðu. Umfram allt verðum við að passa að börnunum okkar líði vel í skólanum sínum og heildræn samvinna sé milli fagaðila í málefnum skólabarna.

Mín framtíðarsýn fyrir bæinn er einföld. Ég vil heilnæmt og heilsusamlegt umhverfi fyrir börnin og að Mosfellsbær verði skipulagður af sérfræðingum í samstarfi við bæjarbúa. Taka þarf tillit til allra þátta sem eru nauðsynlegir hverju samfélagi, eins og skóla í nýjum hverfum.
Mosfellsbær á að vera með gagnsæja stjórnsýslu sem nýtir þátttöku bæjarbúa sem vegvísi til framtíðar. Með gegnsæi, fagmennsku og íbúaþátttöku að leiðarljósi verður bæjarfélagið okkar betra.
Við sköpum vettvang fyrir einstaklinga og hópa til að taka þátt í umræðum um málefni Mosfellsbæjar. Við sýnum fordæmi hvernig við komum saman og leysum úr málum. Það væri gott veganesti fyrir unga fólkið okkar. Það væri mér heiður að fá að taka þátt í því starfi fyrir börnin okkar, nýja vini og nágranna. Framtíðin er í Mosfellsbæ.

Friðfinnur Finnbjörnsson er í 3. sæti Í-lista
Íbúahreyfingarinnar og Pírata í Mosfellsbæ.