Þegar fjármagnið ræður för

Sigurður Kristjánsson

Sigurður Kristjánsson

Arion banki er á förum úr Mosfellsbæ. Ekki svo mikil tíðindi út af fyrir sig nema fyrir þá sök að þá erum við íbúar í þessum ágæta bæ alveg án banka í þeirri mynd sem flestir leggja í það orð.
Þeim sem hér búa þykir þetta spor aftur á bak svo ekki sé kveðið fastar að orði. Að sjálfsögðu kemur þetta misjafnlega við fólk. Ekki síst eldra fólk þarf á bankanum sínum í heimabyggð að halda og margt fólk er hætt að keyra bíl. Hinir eru þó væntanlega fleiri sem nota mikið heimabankann sinn (netbanka) og fara lítið í banka. En hvað um gjaldeyrisviðskipti og lánveitingar? Varla dugar þar einu sinni heimabanki.
Arion banki býður fólki í Mosfellsbæ af miklum þægilegheitum að flytja sín viðskipti í næsta bankaútibú sitt niður á Höfða. Ekki er víst að allir sem hafa aðstöðu til þess að velja, hafi áhuga á þeim stað. Ekki fer milli mála að breytingin er ekki gerð með hagsmuni viðskiptavina fyrir augum. Hver er þá staða bankans fyrir utan það að valda starfsfólki sínu í Mosfellsbæ ómældum óþægindum? Eitthvað kemur þetta inn á það hver stefna ríkisins er í bankamálum þar sem ríkið hefur verið aðal eignaraðili stóru íslensku bankanna. Á þeim bæ virðist áherslan vera á því að þessir bankar skili sem mestum arði og séu nokkurs konar skattheimutæki í staðinn fyrir að bankarnir veiti sómasamlega þjónustu og greiði viðunandi vexti af innlánum viðskiptamanna.
Ef til vill þarf Arion banki að gera eitthvað róttækt eftir ævintýri sitt í Helguvík eins og að sameina bankaútibú. Ekki finnst mér þó að Mosfellsbær hafi þurft að koma við sögu með þessum hætti vitandi það að hér eru rúmlega 10 þúsund íbúar og staðurinn í örum vexti. Þetta eru einfaldlega mistök sem erfitt er að útskýra. Ráðamenn Mosfellsbæjar þurfa sannarlega að láta í sér heyra þegar vegið er að þjónustu við bæjarbúa eins og hér hefur verið lýst.

Sigurður Kristjánsson
(Í stjórn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar)