Lífið er núna

Lóa Björk Kjartansdóttir

Lóa Björk Kjartansdóttir

POWERtalk deildin Korpa hefur fundað 1. og 3. miðvikudag í mánuði í vetur. Síðasti fundur fyrir sumarfrí var mánudaginn 14. maí.
Veturinn hefur verið viðburðaríkur og skemmtilegur. Öflug stjórn leiddi hópinn og á hverjum fundi tóku allir þátt og hafa fundir því verið fjölbreyttir.

Á haustmánuðum stóð seinni fundurinn í október upp úr. Hann var helgaður Bleiku slaufunni og baráttunni gegn krabbameini í konum. Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í fyrra rann til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, sem veitir ókeypis stuðning, fræðslu og ráðgjöf til krabbameinsgreindra og aðstandenda. Rósa Björg Karlsdóttir kom í heimsókn og sagði frá reynslu sinni. Erindi hennar henti fundargestum inn í ískaldan raunveruleika heilbrigðrar og hraustrar konu, sem greindist með fjórða stigs ristil krabbamein er hún var aðeins 41 árs gömul. Og allt í einu var hún ekki mjög heilbrigð lengur. Saga hennar er baráttusaga, saga sem einkennist af einu skrefi áfram og tveimur afturábak. Þótt krabbameinið hafi verið læknað, þá er baráttan ekki búin. Það var enginn ósnortinn af sögu þessarar ljúfu, einlægu konu sem stóð brosandi og jákvæð í pontu og talaði um allt það neikvæða og ljóta ásamt því dásamlega og jákvæða. Saga hennar minnti mjög á hversu mikilvægt er að fá fræðslu, ráðgjöf og ekki síst stuðning þegar fólk greinist með krabbamein, það skiptir öllu máli. En fyrst og fremst minnti hún okkur á hversu dýrmætt lífið er.

Mosfellingar vita að bæjarleikhúsið í Mosfellsbæ er mjög öflugt. Korpur drifu sig eitt föstudagskvöld á sýningu þeirra „Allt önnur Ella“ og fóru saman út að borða áður. Sýningin var samstarfsverkefni tónlistarskólans og leikfélagsins og var að mestu byggð á tónlist Ellu Fitzgerald þar sem leikhúsinu var breytt í jazzklúbb í anda sjöunda áratugarins og tónlistar­atriði fléttuðust saman við leikin atriði. Það er óhætt að segja að fólk hafi skemmt sér konunglega.

Deildin tók þátt í kappræðukeppni samtakanna og gerði sitt besta til að sannfæra dómara um að Borgarlínan væri ekki málið. Litlu munaði en mót­herjar höfðu betur að þessu sinni. Á hverju ári er haldin ræðukeppni í deildinni og sá sem ber sigur úr býtum keppir fyrir hönd deildarinnar á landsþingi samtakanna í byrjun maí. Þátttaka var góð í ár og varð Vilborg Eiríksdóttir hlutskörpust að þessu sinni.

Nú í vor fóru félagar í bíó saman og horfðu á þá stórkostlegu frönsku mynd „Ömurleg brúðkaup“. Fyrir utan að vera mjög fyndin er myndin uppspretta alls konar pælinga og hugleiðinga um mannfólkið, fjölskylduna, ástina, samfélagið, menningarheima, trúarbrögð og fordóma í allar áttir.
POWERtalk fræðslan hefur verið á sínum stað í dagskrá vetrarins og hafa félagar hafa fengið endurgjöf fyrir verkefni sín, fá þannig tækifæri til að bæta sig og halda áfram að gera það sem vel er gert.

Gestagangur var töluverður í vetur hjá Korpu, bæði mættu gestir á fundi en einnig komu nokkrir gestir sem stigu í pontu og fluttu erindi. Það er ávallt tekið vel á móti öllum og fólk er alltaf velkomið á alla fundi.

Það hefur verið mikið að gera hjá deildinni í vetur og erfitt að koma öllum hugmyndum að því veturinn virðist alltaf vera aaaaðeins of stuttur. Hér hefur rétt verið stiklað á stóru. Starfið er búið að vera alls konar, hefðbundið og annað ekki svo hefðbundið. Félagar hafa lært mikið, prófað alls konar og æft sig fullt, en umframt allt skemmt sér vel. Það hefur verið full ástæða til að hlakka til fyrir hvern fund. Félagar Korpu fara sáttir í sumarfrí og munu nota tímann vel til að safna orku fyrir næsta vetur.

Í haust hefst starfið aftur, fundir verða 1. og 3. miðvikudag hvers mánaðar allan næsta vetur. Nánari upplýsingar um starf samtakanna má finna á powertalk.is.

Lóa Björk Kjartansdóttir
Forseti Korpu 2017-2018