Tökum höndum saman

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Umhverfis- og loftlagsmál eru mikið í umræðunni þessa dagana, það er líka mjög jákvætt hvað ungir krakkar eru orðnir meðvitaðir um þessi mál.
Þau geta haft mikil áhrif á aðra og hafa virkilega mikinn baráttuvilja til að koma í veg fyrir hlýnun jarðar með ýmsum leiðum. Þar er hægt að nefna Gretu Thunberg frá Svíþjóð sem berst fyrir framtíðinni.
Hún byrjaði með þöglum mótmælum í þeim tilgangi að fá fólk til að opna augun fyrir þessum vanda og hefur hún breytt út boðskapinn þannig að keðjan rúllaði af stað og fleiri og fleiri krakkar í öðrum löndum, þar á meðal Íslandi, eru farnir að hugsa meira um umhverfis- og loftslagsmál og gera sér grein fyrir því að ef allir leggjast á eitt í baráttunni fyrir umhverfis- og loftlagsvernd þá er hægt að hægja á og jafnvel koma í veg fyrir hlýnun jarðar.
Það er hægt og þú getur tekið þátt í því með því að flokka sorpúrgang frá heimilinu meira, labba meira, keyra minna, fljúga minna og kaupa minna af fötum og hætta eða minnka að kaupa óþarfa hluti sem gefa okkur gervigleði.

Ég hef verið svo heppin að vinna með frábærum hóp af ólíku fólki í umhverfisnefnd að gera umhverfisstefnu Mosfellsbæjar að veruleika. Nú er verið að leggja lokahönd á þá vinnu og vonumst við til að það hjálpi í þeirri alvarlegu stöðu sem loftslagsmálin stefna í ef ekki verður gripið til aðgerða í þeim efnum.
Tökum höndum saman og lofum sjálfum okkur því að við ætlum að gera betur í dag og næstu ár en við höfum gert hingað til.

„Við þurfum í raun að grípa til aðgerða núna. Við höfum 10-12 ár, rúman áratug, til þess að breyta því hvernig við lifum og koma í veg fyrir gríðarlegar afleiðingar sem hlýnun jarðar og súrnun sjávar mun hafa. Núna er tækifærið og við verðum að grípa það.“

Staðreyndir um þessi mál
Þannig munu jöklar og hafís bráðna og minnka og yfirborð sjávar hækka um allt að 7 metra á næstu 10 árum, með þeim afleiðingum að stór láglend landsvæði myndu sökkva, eins og hluti af Bangladesh, Hollandi og Flórída, og margar litlar úthafseyjar
Mosfellsbær er einn af eigendum að Sorpu sem er að taka í notkun gas og jarðgerðastöð sem verður í Álfsnesi. Hún verður tekin í notkun 2020 þar sem molta og metan verður búið til og verður því hægt að nýta það áfram sem er jákvætt fyrir umhverfið og gott er að taka jákvæð lítil skref sem verða að stórum markmiðum síðar.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Einvera – einföld leið til agastjórnunar

Fjalar Freyr Einarsson

Fjalar Freyr Einarsson

Einvera er aðferð til að stöðva hegðunarvanda með því að koma barninu úr þeim kringumstæðum sem það er í á skjótan og einfaldan hátt.
Aðferðin er notuð á börn á aldrinum tveggja til tólf ára. Um leið og barn sýnir óásættanlega hegðun fær það aðvörun þannig að talið er frá einum upp í þrjá. Fyrst er sagt „einn“ um leið og brotið á sér stað, sé brotið ekki þeim mun alvarlegra. Ef barnið lætur sér ekki segjast fer talningin upp í tvo. Dugi það ekki til fer talningin upp í þrjá og samhliða er sagt: „Einvera.“
Barninu er því næst fylgt á fyrir fram ákveðinn stað (þegar barnið er komið í þjálfun getur það farið sjálft) þar sem það bíður í einveru í jafnmargar mínútur og aldur þess er í árum. Fjögurra ára barn myndi þannig vera í einveru í fjórar mínútur.

Fjarri öðru heimilisfólki
Sumir agaráðgjafar telja áhrifaríkast að barnið sitji á stól t.d. í herberginu sínu þar sem það situr í einverunni án þess að mega hafa neitt fyrir stafni. Aðrir agaráðgjafar telja nóg að barnið sé í herberginu sínu og því sé frjálst að gera það sem það vill að undanskildum öllum raftækjum (sjónvarpi, síma, spjaldtölvum o.þ.h.).
Agaráðgjafar sem aðhyllast þessa aðferð eru þó sammála um að fjarlægja þurfi barnið þaðan sem hegðunin á sér stað og koma því á stað þar sem það er fjarri öðru heimilisfólki. Þess vegna er það kallað einvera því að barnið á að vera eitt.

Tíminn öllum ljós
Mikilvægt er að tíminn sem barnið er í einveru sé öllum ljós. Gott er að hafa sjónrænar klukkur (niðurteljara) eða svokallaða tímavaka hjá barninu svo það sjái hvað tímanum líður. Tímavakar fást t.d. í skólatengdum verslunum. Einnig er hægt að birta sjónrænar klukkur á tölvuskjá eða spjaldtölvu, en munið að barnið á ekki að leika sér í tölvunni.
Leitarorðið „timetimer online“ kemur þér á sporið. Barnið fylgist þannig sjálft með tímanum og kemur fram þegar klukkan sýnir að einverunni sé lokið.

Allir komast í kælingu
Kosturinn við einveru er að allir aðilar komast strax úr kringumstæðunum og í kælingu. Það er nefnilega þannig að við, hinir fullorðnu, þurfum stundum sjálfir stund til að ná áttum. Með því að barnið fari strax í einveru fer hinn fullorðni ekki að skamma barnið og æsa jafnvel sjálfan sig upp.
Þegar einverunni er lokið hefur barnið tekið út sína refsingu og engin orð þarf að hafa meira um það. Sé rétt að málum staðið veit barnið hvers vegna það var sett í einveru. Barnið kemur því úr einverunni búið að taka út sína refsingu og þarf ekki að kvíða eftirmálum.
Þegar um mjög ung börn er að ræða (tveggja til fjögurra ára) er samt skynsamlegt að útskýra fyrir barninu með einni til tveimur setningum hvers vegna það fór í einveru. Gott er að spyrja barnið hvort það viti af hverju það fór í einveru til að tryggja að skilningurinn sé til staðar.

Stöðva óásættanlega hegðun
Einveru er hægt að nota þegar stöðva þarf óásættanlega hegðun. Einveru ætti ekki að nota þegar börn neita að gera hluti s.s. að taka upp dótið sitt, sinna heimanámi eða æfingum. Einnig skal varast að nota einveru gagnvart öllu því sem miður fer. Veldu heldur örfá hegðunarbrot (tvö er alveg nóg) til að vinna með í einu, sérstaklega til að byrja með.
Sé einvera rétt notuð er hún örugg og árangursrík aðferð við að stöðva óásættanlega hegðun barns. Hægt er að finna gagnrýni á þessa aðferð eins og flest allt annað. Ég hef engu að síður engar rannsóknir séð sem sýna fram á að einvera skaði börn tilfinningalega að því gefnu að aðferðin sé rétt notuð.

Fjalar Freyr Einarsson, aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is

Nýtum kosningarétt okkar

Una Hildardóttir

Una Hildardóttir

Kæru Mosfellingar!
Dagana 7.–21. er vefur samráðsverkefnisins Okkar Mosó opinn fyrir tillögum íbúa. Með þátttöku í verkefninu geta bæjarbúar haft áhrif á forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Í ár er gert ráð fyrir 35 milljónum króna í framkvæmdirnar og hækkar fjármagnið um 10 milljónir króna milli ára en í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna var samþykkt að setja meira fjármagn í lýðræðisverkefnið Okkar Mosó.
Verkefnið byggir á hugmyndum um umræðulýðræði, þátttökulýðræði og þátttökufjárhagsáætlunargerð og því er ætlað að virkja aðkomu almennings að ákvarðanatöku við framkvæmdir sem snerta nærumhverfi sitt.
Verkefnið gekk vonum framar árið 2017 en 14% íbúa nýttu kosningarétt sinn. Í ár stefnum við á að gera betur og vonumst eftir 20% kjörsókn.
Fyrsta skref verkefnisins er áður­nefnd hugmyndasöfnun en allir íbúar Mosfellsbæjar 16 ára og eldri geta komið með tillögur á því stigi. Skora ég því á íbúa að skila inn hugmyndum á vefnum https://okkar-moso.betraisland.is en Mosfellsbær verður allur eitt svæði bæði í hugmyndasöfnun og kosningu.
Árið 2017 komu margar skemmtilegar hugmyndir frá bæjarbúum og urðu 10 þeirra að veruleika, til dæmis fuglaskoðunartígur meðfram Leirvoginum, blakvöllur á Stekkjarflöt og vatnsbrunnar og loftpumpur á hjólastígum bæjarins.

Tökum öll þátt og gerum góðan bæ enn betri.

Una Hildardóttir formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar.

Leikskólar í Mosfellsbæ í fremstu röð

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Mosfellsbær leggur sig fram við að bjóða sem besta þjónustu í öllum sínum skólastofnunum. Dagforeldrar, ungbarnadeildir, leikskóladeildir og grunnskólar veita mikilvæga þjónustu sem skiptir flestöll heimili í bænum miklu máli.
Hér verður stuttlega fjallað um þjónustuna fyrir foreldra yngstu barnanna.

Fjölgun plássa á ungbarnadeildum
Á undanförnum tveimur árum hefur verið gert sérstakt átak í þjónustu við 12 – 18 mánaða gömul börn í Mosfellsbæ. Árið 2017 opnaði fyrsta ungbarnadeildin á leikskólanum Hlíð en stefnt er að því að árið 2021 verði leikskólinn Hlíð ungbarnaleikskóli fyrir eins til þriggja ára börn. Á leikskólanum Huldubergi er ein ungbarnadeild en markmiðið er að fjölga ungbarnaplássum smám saman eða eins og þörfin kallar á.
Næsta haust verður gert ráð fyrir alls um 70 plássum á ungbarnadeildum okkar. Á ungbarnadeildunum er lögð áhersla á tilfinningalegt öryggi, umhyggju, streitulaust umhverfi og aldurshæfandi örvun. Starf leikskólanna í Mosfellsbæ er einstakt þar sem fagmennska er ávallt í fyrirrúmi. Horft er til leikskólanna okkar varðandi ýmislegt í innra starfi eins og t.d. verkefnið Leikur að læra sem er ávallt notað á fleiri og fleiri leikskólum um allt land.
Mosfellsbær hefur einnig gert þjónustusamning við sjálfstætt starfandi ungbarnaleikskóla í Reykjavík sem tryggir pláss fyrir börn úr Mosfellsbæ.
Nú eru starfandi fjórir dagforeldrar með þjónustusamning við Mosfellsbæ og hefur verið auglýst eftir fleirum til þeirra starfa en foreldrar vilja gjarnan hafa val þegar kemur að gæslu fyrir svo ung börn. Dagforeldrar fá mikla fræðslu, upplýsingar og stuðning til að efla sig frekar í því starfi.
Foreldrar greiða sama gjald fyrir börn sín frá 13 mánaða aldri hvort sem þau eru hjá dagforeldri, á ungbarnadeild eða í almennu leikskólaplássi. Það gjald hefur lækkað um 10% sl. tvö ár.

Leikskólarnir
Í Mosfellsbæ eru átta leikskólar: Hlaðhamrar, Hlíð, Reykjakot, Leirvogstunguskóli, Höfðaberg, Hulduberg, Krikaskóli og sá nýjasti í Helgafellsskóla. Mikil fjölgun barna í bænum hefur kallað á fjölgun leikskólaplássa. Í Helgafellsskóla hefur verið brugðist við með því að hraða innritun yngri barna fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir í fyrstu.
Umhyggja starfsfólks er lykilatriði þegar kemur að starfi þessara leikskóla og daggæslu. Það er kappsmál okkar sem komum að fræðslumálum að foreldrar fái sem besta og faglegasta þjónustu fyrir börn sín. Þessi málaflokkur er stærsti málaflokkur sveitarfélagsins og er lögð mikil áhersla á gæði þjónustunnar og umgjörð starfsins. Við viljum að Mosfellsbær sé í fremstu röð hvað þessa þjónustu varðar.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Vorkoman og fermingar

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Á þessum tíma á hverju ári breytist takturinn í kirkjunni hér í Lágafellssókn. Það eru fyrstu vorboðarnir sem gefa nýjan takt – fermingarbörnin.
Nú er undibúningur komandi fermingarathafna genginn í garð og kominn á fullt skrið í kirkjunni. Væntanlega er það, eða verður einnig reyndin í fjölskyldum þeirra barna sem fermast. Tími eftirvæntingar og gleði.
Undanfarin mörg ár hefur tíðkast að birta nöfn barnanna í safnaðarblaðinu og bæjarblaðinu okkar, Mosfellingi. Þessi hefð hefur glatt margan manninn, nágranna, vini og fjarskylda ættingja, að sjá og gleðjast yfir að geta fylgst með að – „Já! – einmitt þessi stúlka eða drengur er að fermast“ – og geta sent þeim og fjölskyldum þeirra blessunaróskir í huganum, skeyti eða eitthvað annað.
Nú er sá tími liðinn að birting nafnanna sé heimil, því miður. Því veldur ný persónuverndarlöggjöf sem gekk í gildi á umliðnu hausti. Þar segir að upplýsingar um aðild að trú- eða lífskoðunarfélagi flokkast undir „viðkvæmar persónuupplýsingar“ sem megi aðeins birta með sérstöku samþykki viðkomandi einstaklinga og í tilfelli fermingarbarnanna, með samþykki foreldra þeirra. Hvort við í framtíðinni munum ráðast í þá framkvæmd að leita eftir og nálgast þær undirskriftir sem þetta útheimtir og hvort allir verða því hlynntir á eftir að koma í ljós.
Það eru 120 börn sem munu fermast í kirkjunum okkar, Lágafells- og Mosfellskirkju á þessu vori. Athafnirnar verða níu og verða fyrstu fermingarathafnirnar í Lágafellskirkju þann 24. mars næstkomandi kl. 10:30 og kl. 13:30.

Á næstu dögum mun safnaðarbréfið berast inn um lúguna á heimilum Lágafellssóknar, bæklingur með upplýsingum um helgihaldið, safnaðarstarfið o.fl. á komandi mánuðum, allt fram til haustsins. Í þessu blaði fylgja einnig sérstakar upplýsingar um væntanlegar fermingar ársins 2020 og skráningarblað. Athugið að safnaðarbréfinu er aðeins dreift á heimili sem leyfa „fjölpóst“.
Við viljum benda á að hægt verður að nálgast upplýsingarnar á heimasíðu kirkjunnar: www.lagafellskirkja.is.
Fyrir hönd Lágafellssóknar óska ég fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra til hamingju með ferminguna og daginn.

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur Mosfellsprestakalls.

Samgönguáætlun og fjármögnun samgöngumannvirkja

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Nýverið samþykkti Alþingi samgönguáætlun, í fyrsta skipti til 15 ára með aðgerðaáætlun til 5 ára. Er það hluti af breyttum áherslum í Stjórnarráðinu um að horft sé til lengri tíma í allri stefnumótun. Umræðan um samgönguáætlun var að miklu leyti um hugmyndir að því hvernig hægt sé að hraða enn frekar uppbyggingu samgöngumannvirkja með gjaldtöku. Alþingi fól samgönguráðherra að koma fram með slíkar tillögur. Ísland er strjálbýlt land og vegakerfið okkar mjög umfangsmikið miðað við fólksfjölda. Fjárfestingarþörfin í heild er á milli 350–400 milljarðar kr.

Við útfærslu hugmynda um veggjöld er lögð áhersla á að við endurskoðun almennra gjalda, þ.e. olíu- og bensíngjalds og bifreiðaskatts, þarf að tryggja að sértæk gjaldtaka eins og veggjöld auki ekki álögur á bifreiðaeigendur umfram þann ábata sem hlýst af greiðara og öruggara umferðarflæði og bættu umhverfi.
Lögð er áhersla á að gætt verði meðalhófs við ákvörðun fjárhæðar gjaldsins og horft verði til þess að veita magnafslætti en einskiptisgjöldin verði hærri. Ekki er gert ráð fyrir að fjárframlög ríkissjóðs til samgönguframkvæmda lækki vegna gjaldtökunnar. Í umræðunni hefur það líka komið skýrt fram að ef komi til sölu ríkiseigna sé horft til þess að nýta þá fjármuni í samgöngumál.

Samgöngubætur í Mosfellsbæ
Í Mosfellsbæ eru tvær mjög brýnar framkvæmdir á áætlun. Fyrst vil ég nefna Vesturlandsveg milli Skarhólabrautar og Hafravatnsvegar, þar er nauðsynlegt að ráðast í öryggisumbætur og tryggja örugga og greiða umferð á 2+2 vegi með aðgreindar aksturstefnur. Nú er tryggt að af því verkefni verður á þessu ári.
Þá er það Þingvallavegur en nauðsynlegt er að tryggja þar öruggar samgöngur bæði fyrir þá sem í gegnum Mosfellsdal fara en ekki síður fyrir þá sem þar búa og þurfa að komast leiðar sinnar hvort sem er gangandi, hjólandi eða akandi.
Mosfellsbær hefur unnið að deiliskipulagi vegarins með hringtorgum, undirgöngum og öruggum hjóla- og göngustíg. Þessi framkvæmd er nú komin á samgönguáætlun og verður vonandi lokið að fullu árið 2021.

Borgarlína og breyttar samgönguvenjur
Öll borgarsamfélög í heiminum leggja áherslu á auknar almenningssamgöngur. Ástæðan er helst betri landnýting og bætt borgarsamfélag en ekki síður loftslagsmál og umferðaröryggismál.
Við vitum að okkur mun fjölga og ef við náum ekki að breyta ferðavenjum mun umferð bíla aukast um 40% fram til ársins 2030. Það væri þvert á stefnu sveitarfélaganna og myndi tryggja að við næðum ekki markmiðum okkar í loftlagsmálum.
En þrátt fyrir breyttar ferðavenjur mun umferðin aukast um allt að 24% á þessum tíma. Þörfin er því brýn bæði í bættum stofnvegum og öflugri almenningssamgöngum. Því er brýnt að hugmyndir að Borgarlínu verði að veruleika í góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokks

Hugurinn skapar þann veruleika sem við upplifum…

Arna Hagalínsdóttir

Arna Hagalínsdóttir

Í janúar er ár frá því að ég tók þeirri áskorun að stíga inn í okkar pólitíska umhverfi. Árið hefur verið mér afar lærdómsríkt og ég er ykkur einstaklega þakklát fyrir allan þann stuðning sem mér hefur verið sýndur.
Eftir síðustu kosningar tók ég sæti varabæjarfulltrúa sem 5. maður á lista Sjálfstæðisflokksins og sit í fræðslunefnd bæjarins.

Það sem af er kjörtímabilinu hef ég lagt mig fram að kynnast málefnum bæjarins, sækja bæjarstjórnafundi og sinna starfi mínu í fræðslunefnd. Ég er afar stolt af bænum okkar og öllu því starfi sem hér er í gangi og ekki síst öllu því góða fólki sem leggur sitt af mörkum til að gera bæjarfélagið eins og það er í dag.

Á bæjarstjórnarfundum er oft tekist á um málefni þar sem ólíkar skoðanir mætast í lýðræðislegu samfélagi. Þetta getur verið flókið samspil enda skapar hugurinn þann veruleika sem við upplifum og sem varabæjarfulltrúi hef ég fengið einstakt tækifæri til að hlusta, skilja og sjá. Sjá hvernig umræðan sem ætti að vera málefnaleg helgast af misskilningi aðila á milli.

Bæjarstjórn okkar Mosfellinga er skipuð 6 stjórnmálaflokkum og þrátt fyrir ólíkar áherslur og frábrugðinn skilning á samvinnu og samlyndi á hinum ýmsum málefnum má finna einhug innan meirihlutans og okkar sjálfstæðismanna. Einhug um að skapa sterkt og öflugt samfélag. Samfélag sem hefur ekki einungis það hlutverk að auka velferð okkar heldur einnig að flétta saman þá þætti sem þarf til þess að tryggja velferð okkar bæjarbúa.

Einn þessara þátta er m.a fræðslunefndin. Í fræðslunefnd bæjarins situr gott og efnilegt fólk og við getum sagt með stolti að við eigum góða og öfluga skóla hér í Mosfellsbæ. Inni í fræðslunefnd sé ég að innan veggja skólanna eru góðir og metnaðarfullir kennarar, nemendur, stjórnendur og annað starfsfólk sem alla daga leggja sitt af mörkum við að gera sitt besta. Ég finn að utan veggja skólanna stendur kröftugur hópur foreldra sem óskar sér einskis annars en að börnum þeirra vegni vel.
Utan um þennan hóp allan heldur svo fræðsluskrifstofa bæjarins sem einnig leggur allt sitt af mörkum að aðstoða við að láta alla þessa ólíku hópa og skoðanir mætast til að skólasamfélagið í heild gangi upp í ört stækkandi bæjarfélagi. Það er heiður að fá að taka þátt í þessu starfi, fá tækifæri til að hlusta, sjá og læra inn á ólíkar skoðanir og skapa þann veruleika sem við upplifum.

Ég hlakka til að halda áfram að starfa í þágu bæjarins og í samstarfi við ykkur sinna starfi mínu í fræðslunefnd og sem varabæjarfulltrúi.

Arna Hagalíns, varabæjarfulltrúi
og nefndarmaður í fræðslunefnd.

Blakið að Varmá – glæsileg viðbót!

Gunna Stína Einarsdóttir

Gunna Stína Einarsdóttir

Frá því að blakdeild Aftureldingar tefldi fram liði í efstu deild á Íslandi hefur Afturelding ávallt verið í keppni um efstu sætin í úrvalsdeild kvenna.
Í haust var ákveðið að spila á ungu og reynsluminna liði bæði í meistaraflokki karla og kvenna með aðstoð frá eldri og reyndari leikmönnum. Markmiðið var og er að spila á heimafólki. Kvennaliðið situr nú í 4. sæti deildarinnar og karlaliðið í 3. sæti þegar nokkrar umferðr eru eftir.
Leikmenn og stjórn blakdeildar hafa lengi beðið eftir því að gólfið í sal 3, gamla salnum að Varmá, yrði endurnýjað og rættist draumurinn um jól og áramót þegar Mosfellsbær í samstarfi við Aftureldingu settu á glæsilegt gólf og eru leikmenn ákaflega ánægðir með undirlagið og ekki síður yfir því hversu birtan í salnum eykst og umgjörðin svo miklu betri og flottari.
Snemma var farið að ræða það að gera eins og gert er víða erlendis, að hafa myndir af leikmönnum hangandi í salnum þar sem blakið æfir og keppir og fóru leikmenn meistaraflokkanna í fjáröflun til að fjármagna það verkefni. Blakdeildin hefur nú látið útbúa fána með myndum af öllum leikmönnum okkar í efstu deildum, bæði karla og kvenna. Jakob Jóhannson grafískur hönnuður sá um alla vinnu og hönnun á fánunum og má sjá afraksturinn í opnu blaðsins í dag þar sem við erum með kynningu á leikmönnum okkar.
Við erum ákaflega ánægð með útkomuna og vonumst við til þess að fá að setja fánana upp í salinn þar sem við æfum og keppum, bæði til að hafa fyrirmyndir okkar sýnilegar yngri iðkendum en einnig myndi það að okkar áliti gera salinn enn flottari og heimavöllinn okkar svo sannarlega að Aftureldingargryfju.
Bæði karla- og kvennaliðið eru komin áfram í 8-liða úrslit Kjörísbikarsins og eiga þau bæði leik í vikunni. Karlaliðið á útileik við lið Álftaness í kvöld (fimmtudag) kl. 19:00 og á sunnudaginn fær kvennaliðið HK í heimsókn og hefst leikurinn kl. 15:00 að Varmá.
Við hvetjum Mosfellinga til að mæta á leikina og hvetja okkar lið því sigur í þessum leikjum gefur miða í „Final 4“ helgina sem spiluð verður í Digranesi 22.-24.mars nk. svo það er til mikils að vinna.
Þjálfari kvennaliðs Aftureldingar í blaki er Piotr Poskrobko og þjálfari karlaliðsins er Piotr Kempisty sem spilar einnig með liðinu og er númer 15 á mynd með karlaliðinu.
Áfram Afturelding!

Gunna Stína Einarsdóttir
Formaður blakdeildar Aftureldingar

Eitt hundrað og þrjátíu ára afmæli!

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Næstkomandi sunnudag, 24. febrúar kl. 11, höldum við upp á 130 ára afmæli Lágafellskirkju með guðsþjónustu í kirkjunni og bjóðum í kirkjukaffi að athöfn lokinni í Safnaðarheimili Mosfellsprestakalls að Þverholti 3.
Frá þessum kristna helgistað verður af þessu tilefni horft til framtíðar. Hjá prédik­ara dagsins, Arnfríði Guðmundsdóttur prófessor í guðfræði, verða umhverfismál í öndvegi og framtíð okkar og komandi kynslóða. Diddú syngur ásamt kórnum okkar og Íris Torfadóttir og Selma Elísa Ólafsdóttir spila á fiðlu. Prestar og djákni safnaðarins, sr. Ragnheiður Jónsdóttir og sr. Arndís Linn Bernhardsdóttir og Rut G. Magnúsdóttir, þjóna fyrir altari og Þórður Sigurðarson organisti stjórnar söng og spilar undir. Komdu fagnandi!

Lágafellskirkja er að stofni til elsta hús í Mosfellsbæ. Þegar Mosfells- og Gufunessóknir voru sameinaðar 1888 var ákveðið að reisa kirkju á Lágafelli og taka niður kirkjurnar að Gufunesi og Mosfelli. Skáldsaga nóbelsskáldsins Halldórs Laxness, Innansveitakrónika, er skemmtileg lesning þar sem meðal annars er fjallað um þau átök sem áttu sér stað þegar þessi breyting var gerð.
Þegar Lágafellskirkja var vígð á konudegi 24. febrúar árið 1889 voru íbúar sóknarinnar 403. Sóknarmörk voru Elliðaár í suðri en Kollafjarðarkleifar í norðri, að austan réðu sýslumörk Kjósasýslu. Mikið vatn er runnið til sjávar frá þeim tíma. Sóknarbörnum hefur fjölgað margfalt og sóknarmörkin færð, svo eitthvað sé nefnt.
Um sögu Lágafellskirkju, bygginguna og breytingarnar sem hún hefur gengið í gegnum í áranna rás má m.a. lesa í „Kirkjur Íslands“, safn bóka gefið út af Þjóðminjasafni Íslands. Sagan væri engin ef ekki væri fólkið sem hefur verið og er til frásagnar. Lágafellskirkja, hús Guðs, hefur verið og er rammi utan um stærstu gleði- og hátíðastundir í lífi fólks og einnig sárustu sorgarstundir. Hér er nýju lífi fagnað og annað kvatt, Guð lofsunginn og færðar þakkir fyrir allt líf lifanda og liðinna. Lágafellskirkja er vegvísir í huga margra þar sem hún stendur á fellinu og minnir á það sem er stærra og meira en maðurinn sjálfur. Hún er skjólið og staðarprýðin fagra í Mosfellsbæ, ramminn utan um lifandi kirkjulíf.

Til hamingju kæru sóknarbörn með kirkjuna, Lágafellskirkju!
Fögnum og verum glöð!

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur.

Sjálfsumhyggja

Berta Þórhalladóttir

Berta Þórhalladóttir

Stundum við nægja sjálfsumhyggju? Ég velti þessu fyrir mér þegar fyrirsagnir helstu fréttamiðla sýna að annar hver maður er í hættu á að kulna í starfi. Þá spyr maður hvað er eiginlega að gerast í samfélaginu.
Eru kröfunar of miklar í vinnunni, heima og eða á öllum vígstöðum sem okkur er ætlað að vera á? Eða erum við ef til vill sjálf að setja þessa pressu á okkur, að vera 100 prósent alls staðar? Hraðinn í samfélaginu er gífurlegur sérstaklega hérna á Íslandi, við erum miklar keppnismanneskjur, við viljum vel, erum hörkudugleg og ætlum oft á tíðum að sigra heiminn. Getur verið að við gleymum að gera það sem nærir okkur þegar við erum undir miklu álagi og höldum áfram á sjálfstýringunni þar til við brennum út? Hvað gerir þú til að næra þig andlega og líkamlega?
Mig langar að koma með nokkur einföld ráð sem geta verið gagnleg til að næra sjálfið.
1. Svefn, svefn og aftur svefn. Sefur þú nóg? Þá er ég að tala um 7–8 tíma á sólahring. Svefn er einn af grunnþáttum okkar. Ef við erum svefnvana í margar nætur þá hefur það ósjálfrátt áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Við sækjum meira í einföld kolvetni og koffín og úr því getur orðið svefnvana vítahringur.
2. Hlustar þú á hvernig þú talar við sjálfan þig? Talar þú til þín með jákvæðri rödd eða neikvæðri? Ef þú talar með neikvæðri reyndu þá að sýna þér mildi og svara sjálfum þér með jákvæðum tón til baka.
3. Skrifaðu niður þrjá hluti daglega sem þú ert þakklátur fyrir. Rannsóknir hafa sýnt að það að æfa þakklæti í nokkrar mínútur á dag hefur jákvæð áhrif á geðheilsuna.
4. Hugleiða – Gefðu þér 5 mínútur til að anda inn og út. Auðvelt er að ná sér í app í símann og þar er hægt að velja sér hugleiðslu með eða án leiðsagnar.
5. Finndu þér hreyfingu sem gefur þér orku – dansaðu, farðu í göngutúr eða í ræktina með góðum félögum.
Fyrir suma getur þetta hljómað mjög væmið og ef til vill asnalegt. En ég get þó sagt af eigin reynslu að ef þið tileinkið ykkur eitthvað af þessu hér að ofan þá mun það veita ykkur meiri vellíðan í lífi ykkar. Að lokum langaði mig til þess að segja ykkur frá því að ég er að fara taka við Súperform námskeiðinu í World Class Mosó og hefst það 4. mars.
Kærleikskveðjur.

Berta Þórhalladóttir
Kennir Tabata í World Class Mosó á þriðjudögum og fimmtudögum kl: 18:20

Til hamingju með Helgafellsskóla

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Það er ávallt gleðiefni þegar nýr grunnskóli opnar í hverju sveitarfélagi. Það ber merki fjölgunar og blómstrandi mannlífs í nýjum hverfum. Það er sannarlega staðreynd hér í Mosfellsbæ. Helgafellsskóli í Helgafellshverfi sem vígður var 8. janúar síðast liðinn hefur nú bæst í raðir okkar góðu skóla í Mosfellsbæ.

1.-5. bekkur byrjar
Margt fólk kom að hönnun og undirbúningi Helgafellsskóla. Settur var saman rýnihópur úr röðum foreldra, kennara, leikskólakennara, íbúa í Helgafelli og sérfræðinga í kennslufræðum. Hugað var vel að öllum þáttum og þá helst hvernig mæta má ólíkum þörfum barna í nútímasamfélagi. Skóli dagsins í dag er ekki sá sami og hann var fyrir áratugum því tímarnir breytast og mennirnir með. Í Helgafellsskóla munu nemendur fá að vaxa og skapa á öllum sviðum bæði innan dyra og utan. Nú er 1.–5. bekkur að hefja nám við skólann og í febrúar opnar leikskóladeildin. Byggingu skólans er ekki lokið. Næsti áfangi verður tekinn í notkun í haust og í vor verða svo boðnar út framkvæmdir við 3. og 4. áfanga skólans.
Helgafellsskóli og sú hugmyndfræði sem byggt er á mun veita nemendum tækifæri til að efla styrkleika sína og þar með trú á eigin getu. Í rýmunum fá kennarar tækifæri til að spreyta sig á fjölbreyttum kennsluháttum. Rýmin eða svæðin eins og skólastofurnar heita núna verða vinnustöðvar kennara og nemenda. Þar munu fjölbreyttir kennsluhættir blómstra í fjölbreytileika hússins. Þá er hugað að nýbreytni og gæðum í þjónustu fyrir leik- og grunnskólabörn. Skólarnir okkar eru fjölbreyttir en lykilatriði er þó alltaf sá mannauður sem í skólunum starfar.

Hjörtun slá í skólunum
Í skólunum slá hjörtun í Mosfellsbæ og skólarnir, bæði leik- og grunnskólar, skipta allar fjölskyldur mestu máli. Bæjarstjórn leggur allan sinn metnað við að veita fjölskyldum sem besta þjónustu. Í skólunum á gleðin að óma og börnin að njóta trausts og virðingar, þar má gera mistök og fá leiðbeinandi faðmlag fullorðinna sem aðstoða litlar manneskjur að verða góðar og gildar manneskjur í samfélagi framtíðarinnar. Það er hlutverk allra skóla.
Til hamingju með Helgafellsskóla og megi þar ávallt ríkja hugarfar umburðarlyndis, umhyggju, velvilja og virðingar líkt og í öllum okkar skólum.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Gaman saman

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Nú þegar þorrablótshelgin er nýafstaðin er mér þakklæti efst í huga. Fyrst og fremst til þessa frábæra hóps sem skipar Þorrablótsnefndina, þessi hópur hefur nú starfað lengi saman með valinn mann í hverju rúmi og viðburðurinn gengur eins og smurð vél.
Það er ómetanlegt að öllu leyti fyrir félag eins og Aftureldingu að hafa svo öfluga sjálfboðaliða í okkar röðum. Ég held að það sé ekki hægt að hrósa þeim nóg, sem og öðrum sjálfboðaliðum í félaginu en þorrablótið er stærsta fjáröflun barna- og unglingastarfs handknattleiks- og knattspyrnudeildar Aftureldingar.
Í öðru lagi er svona samkoma mjög mikilvæg félagslega fyrir bæjarfélag eins og Mosfellsbæ, vinnustaðir, vinahópar, foreldrahópar, stjórnir og nágrannar sameinast á borðum. Það er fundað um hvernig skal skreyta og svo er hitað upp fyrir blótið sjálft, þetta er hópefli í lagi.
Nú fer í hönd sá tími þar sem deildir Aftureldingar halda sína aðalfundi, nú er tækifæri til að bjóða sig fram í stjórnir deilda og ráða. Ég tala af eigin reynslu að þó að það sé oft mikið að gera þá er sjálfboðaliðastarfið gríðarlega gefandi og svo kynnist maður mikið af góðu fólki og innviðum félagsins, svo er auðveldara að hafa áhrif á það sem er að gerast. Mig langar að hvetja ykkur kæru félagar til að mæta á þessa aðalfundi og taka þátt, það munar um alla og margar hendur vinna létt verk. Það er mikil fjölgun í iðkendafjölda Aftureldingar á sl. ári og ætti að vera auðsótt að fá nýja foreldra með.
Fram undan eru spennandi tímar, íþróttafólkið okkar er að skara fram úr hvert á sínu sviði með þátttöku í landsliðsverkefnum. Ég er ótrúlega stolt af iðkendum okkar og fékk gleðitár í augun þegar Andri Freyr og María Guðrún voru einnig valin íþróttafólk Mosfellsbæjar. Það er heiður fyrir okkur að eiga svona flottar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur.
Mig langar að lokum að hvetja fólk til að kíkja inn á síðuna okkar www.afturelding.is og skoða viðburðadagatalið og skora á ykkur að mæta á kappleiki. Það er nóg pláss og það er svo hvetjandi og gaman fyrir keppnisfólkið okkar að finna stuðning okkar allra.
Áfram Afturelding!

Birna Kristín Jónsdóttir,
formaður Aftureldingar.

Umhverfisvænna og manneskjuvænna nýtt ár

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Um áramót lítum við flest um öxl og förum yfir hvað var gott á árinu og hvað var síðra. En með reynslu nýliðins árs í farteskinu er líka tilvalið að velta fyrir sér hvað við viljum sjá gerast á nýju ári.
Mig langar að tæpa á tveimur málaflokkum sem mér standa nærri þótt fleiri málaflokkar skipti mig miklu máli.
Ein af helstu samfélagslegu áskorunum árið 2019 og áranna fram undan eru umhverfismálin. Að við leggjumst öll á eitt til að sporna með öllum ráðum gegn helstu ógn nútímans; loftlagsbreytingum. Í þeim efnum eru næg verkefni. Aðgerðaáætlun í loftlagsmálum sem umhverfisráðherra kynnti á haustþingi er fyrsta skrefið, ekki endastöð en afar mikilvæg verkfærakista. Nauðsynlegt er að verkfærunum sé fjölgað í þágu loftlags og umhverfisins og að stjórnvöld leiði þá vinnu og að við öll komum með í þá vegferð.
Ein af helstu áskorunum í loftlagsmálum er efling almenningssamgangna. Skriður mun loks komast á í þeim efnum með nýgerðu samkomulagi milli ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að tryggja fjármagn í undirbúningsvinnu fyrir Borgarlínu árið 2019. Það er mikið fagnaðarefni og mun vonandi takast vel til. Samgönguáætlun verður lögð fram á árinu og afskaplega brýnt er hún verði með eins grænum formerkjum og hægt er og í takti við skuldbindingar okkar í Parísarsamkomulaginu. Að sérstök almenningssamgangnastefna verði útbúin sem fyrst, eins og kveðið er á um í aðgerðaáætlun í loftlagsmálum. Stór verkefni í að sporna gegn loftlagsbreytingunum er að draga úr útblæstri og mengun, búa til hvata til að lifa umhverfisvænna lífi, draga úr óþarfa neyslu, minnka kjötneyslu, að skipulagsmálin sem snerta skipulagsvald sveitarfélaganna sé með umhverfisvænum áherslum og grænni sýn sem er sérstaklega nauðsynlegt fyrir Mosfellsbæ og gleðilega íbúafjölgunina þar. Í þessu getum við öll haft áhrif og vonandi séð árangur okkur og náttúrunni til heilla á næsta ári og árum.
Undir lok árs vorum við minnt rækilega á að við erum ennþá stödd í úrvinnslu #metoo-byltingarinnar sem náði hámarki fyrir rúmu ári. Í þeirri úrvinnslu er ótrúlega mikilvægt að við náum sátt um hvaða viðmið við viljum hafa í heiðri sem samfélag þegar kemur að samskiptum okkar á milli. Engin manneskja á að búa í samfélagi þar sem óæskileg hegðun, niðrandi tal um aðra og kynbundin áreitni eða kynferðisofbeldi er liðið. Við þurfum sem samfélag að leggjast öll á eitt að uppræta niðurlægjandi hegðun og vinna gegn ofbeldismenningu. Stuðla öll að meiri virðingu, nærgætni og vera öll sammála um hversu lífsnauðsynlegt það er að útrýma kynbundinni áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldishegðun af hvers kyns toga. Það hlýtur að vera göfugt markmið á árinu 2019.
Ég óska öllum íbúum Mosfellsbæjar gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir liðið ár.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
þingmaður VG í suðvesturkjördæmi.

Getur þú hjálpað þegar á reynir?

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Eitt af mörgum verkefnum Rauða kross deilda er að standa fyrir fjölbreyttum námskeiðum í skyndihjálp. Slys gera ekki boð á undan sér og því er þekking á skyndihjálp mikilvæg fyrir alla.
Sé rétt að skyndihjálp staðið getur hún skipt sköpum og skilið á milli lífs og dauða. Oftast eru það vinir og ættingjar sem koma fyrstir á vettvang þegar einhver slasast eða veikist alvarlega. Stutt skyndihjálparnámskeið getur gert þér kleift að bjarga mannslífi þegar aðstæður kalla á skjóta ákvarðanatöku. Með skyndihjálp má tryggja öryggi og rétt viðbrögð við slysum og áföllum á heimilinu.
Þann 7. febrúar næstkomandi mun deildin standa fyrir námskeiðinu Slys og veikindi barna þar sem tekið er á helstu vörnum gegn slysum á börnum, orsökum slysa almennt svo og þroska barna og aldurstengdum slysum. Þátttakendur fá leiðbeiningar í skyndihjálp við slysum barna og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús. Enn eru nokkur pláss laus svo það er um að gera að skrá sig á skyndihjalp.is.
Útbreiðsla skyndihjálparþekkingar hefur verið eitt af meginverkefnum Rauða kross Íslands í meira en 80 ár og á hverju ári sækja um 5.000 manns skyndihjálparnámskeið á hans vegum. 11. febrúar næstkomandi er einnig þekktur sem 112-dagurinn og miðar að því að efla vitneskju landsmanna um mikilvægi skyndihjálpar í slysum og áföllum. Stutt athöfn fer fram í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð þar sem skyndihjálparmaður Rauða krossins verður einnig tilkynntur. Nánar má kynna sér málið á raudikrossinn.is eða skyndihjalp.is.
Þann 24. apríl verður 4 klukkustunda námskeið í almennri skyndihjálp þar sem farið verður yfir grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað og viti í hvaða tilfellum er nauðsynlegt að hringja í 112. Við hvetjum alla til að skrá sig á skyndihjalp.is.
Skyndihjálp skiptir máli.

Fyrir hönd Rauða krossins í Mosfellsbæ,
Margrét Lúthersdóttir, deildarstýra

Hamingjan hefst hjá þér!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Það er svo ótal margt sem við getum gert til að efla vellíðan okkar og leggja rækt við okkur sjálf.
Það er löngu vísindalega sannað að nægur svefn er grunnurinn að góðri heilsu og vellíðan. Holl og fjölbreytt næring hefur einnig jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan okkar og hið sama gildir um hreyfingu. Ekki má svo gleyma mikilvægi þess að eiga í góðum og kærleiksríkum samskiptum við aðra.

Kærleiksvikan 11.-17. febrúar
Kærleiksvikan hefur verið við lýði í Mosfellsbæ allt frá árinu 2010 en markmið hennar er að virkja kærleikann innra með okkur, bæði í garð okkar sjálfra sem og annarra. Nemendur grunnskólanna hafa m.a. hengt kærleiksrík skilaboð á innkaupakerrur í Krónunni og Bónus og boðið hefur verið upp á ýmsa viðburði sem sjá má nánar á „Kærleiksvika í Mosfellsbæ“ á Facebook.

Lífshlaupið
Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, hefst 6. febrúar nk. og hvetjum við fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga í Mosfellsbæ eindregið til virkrar þátttöku. Mörg lið hafa að sjálfsögðu skráð sig til leiks nú þegar og má þar m.a. nefna bæjarskrifstofuna, Varmárskóla, Lágafellsskóla og FMOS. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til að huga að daglegri hreyfingu sinni og hvernig megi auka hana. Getum við t.d. gengið/hjólað á milli staða í stað þess að nýta bílinn? Getum við gengið stigann í staðinn fyrir að nota lyftuna? Höldum við á börnunum okkar eða leyfum við þeim að ganga/hlaupa?

Meistaramánuður Íslandsbanka
Það er alltaf gott að setja sér markmið í lífinu og þau geta verið alls konar. Veldu þér markmið sem skipta þig máli og hafðu þau SMART. Það þýðir skýr (stutt og laggóð), mælanleg (augljóst hvenær og hvernig árangri er náð), aðlögunarhæf (sveigjanleg), raunhæf (sem þú veist þú getur náð) og tímabundin (settu tímamörk). Gott er að skrifa markmiðin niður, taka eitt skref í einu og gefast ekki upp. Markmiðin geta snúist um samverustundir fjölskyldunnar, að lesa loks bókina sem maður ætlaði alltaf að lesa, leika sér meira úti o.s.frv. Mitt helsta markmið í meistaramánuði er t.d. að fara fyrr að sofa og ná að lágmarki 7 klst. svefni á nóttu.

Það er klárlega ýmislegt skemmtilegt fram undan og fjölmörg tækifæri til að hlúa vel að sjálfum sér. Titill pistilsins er sóttur í einkunnarorð Kærleiksvikunnar í Mosfellsbæ sem eiga alltaf við og því tilvalið að enda á þeim líka því – „Hamingjan hefst hjá þér“!

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ