Göngum, göngum!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Staðfest hefur verið með fjöldamörgum rannsóknum að regluleg hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vellíðan alla ævi.
Hreyfing eykur líkamshreysti, hreyfifærni, vellíðan og lífsgæði almennt fyrir utan það að minnka líkurnar á flestum langvinnum sjúkdómum. Auk beinna áhrifa á heilsu og líðan getur lífsstíll, sem felur í sér daglega hreyfingu, einnig skapað tækifæri til að mynda og styrkja félagsleg tengsl og haft góð áhrif á andlega líðan okkar.

Hvernig aukum við hreyfingu?
Það þarf ekki að vera flókið að auka við hreyfingu í daglegu lífi. Ein einfaldasta leiðin er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup og almenningssamgöngur.
Það besta er að ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við líkamlega vellíðan heldur hefur regluleg hreyfing verulega jákvæð áhrif á andlega heilsu okkar. Þess utan er þetta einnig umhverfisvænn og hagkvæmur kostur til að komast á milli staða.

Göngum í skólann
Verkefnið Göngum í skólann hófst í gær, 5. september, og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 10. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Með því gefst jafnframt tækifæri til að draga úr umferðaþunga, hraðakstri og mengun nálægt skólum. Munum að þarna erum við fullorðna fólkið mikilvægar fyrirmyndir eins og í mörgu öðru.

Lýðheilsugöngur FÍ 2018
Ferðafélag Íslands stendur fyrir lýðheilsugöngum vítt og breitt um landið kl. 18:00 alla miðvikudaga í september. Þetta eru 60-90 mínútna fjölskylduvænar göngur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Í Mosfellsbæ verður gengið frá Reykjalundi kl. 18:00 alla miðvikudaga í september og hægt er að sjá nánari upplýsingar á www.fi.is/lydheilsa

„Vér göngum svo léttir í lundu, því lífsgleðin blasir oss við“ kvað Freysteinn Gunnarsson um árið og ef við leggjum textann út frá hreyfingu og vellíðan má segja að þarna hafi hann einmitt hitt naglann á höfuðið. Ganga og önnur hreyfing léttir nefnilega lundina og framkallar jákvæðari sýn á lífið.

Komdu og vertu með – allir vinna þegar þú tekur þátt!

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Að gefnu tilefni

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Í árslok 1970 birtist í Morgunblaðinu grein Halldórs Laxness: „Hernaðurinn gegn landinu“. Þá var ég í námi í Menntaskólanum í Hamrahlíð og þessi grein kveikti bókstaflega í mér sem öðru ungu fólki. Síðan hef ég tekið töluverðan þátt í þjóðfélagsumræðunni, mörgu tengdu umhverfismálum og vona ég að ég verði enn að meðan ég lifi. Ég starfaði töluvert í Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar um aldarfjórðungsskeið.
Við hjónin tókum gjarnan börnin okkar með í gróðursetningu og við að hlúa að skóginum meðan ung voru. Þá voru fjöruferðirnar í Leirvoginn okkur mjög lærdómsríkar. Ætli náttúran sé ekki eitt besta tækifærið að ala upp börn við holla og góða hreyfingu og fylgjast með lífinu á marga lund. Drengirnir okkar sem nú eru komnir á fertugsaldur minnast oft á þessar stundir sem einar þær bestu í bernsku þeirra.

Fyrir rúmum 11 árum átti ég þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélag Mosfellsbæjar. Því miður hefur starf þess legið niðri en það þarf að endurvekja við fyrstu hentugleika. Höfða ég sérstaklega til yngra fólksins að taka við keflinu enda erum við sem erum að hefja eftirlaunaárin ekki lengur miklir bógar. En við getum veitt mikið frá okkur og miðlað, bæði þekkingu og reynslu.

Mosfellsbær hefur tekið mjög miklum stakkaskiptum frá því við Úrsúla fluttum úr Reykjavík og hingað í ársbyrjun 1983. Alltaf er okkur minnisstætt þegar gríðarlega stór hópur snjótittlinga sveimaði á móti okkur þegar við ókum í flutningabílnum með fremur fátæklega búslóðina okkar niður Arnartangann. Nánast hvergi var trjágróður að sjá og hvergi skjól fyrir næðingnum og skafrenningnum sem oft fyllti götur og gerði þær mjög oft torfærar á vetrum.

Í Mosfellspóstinum sem þá kom út mátti oft sjá lesendabréf garðeigenda sem skömmuðust út af öllum rollunum sem víða óðu um garðana og átu allt sem tönn á festi.
Þá voru Mosfellingar einungis rúmlega 2.000 að tölu. Síðan hefur Mosfellingum fjölgað mjög mikið og verið iðnir við að rækta garðana sína og sinna nánasta umhverfi sínu. Er nú svo komið að Mosfellsbær er eitt af fegurstu sveitarfélögum landsins sökum fjölbreytts gróðurs.

Ég er þakklátur Mosfellingum fyrir að veita mér viðurkenningu á bæjarhátíðinni fyrir störf mín tengd umhverfismálum. Hún er mér dýrmæt og mun hvetja mig áfram við að halda áfram mínu striki þótt einhver óvænt hliðarspor verði.
Góðar stundir!

Guðjón Jensson
Arnartanga 43
Mosfellsbæ

Haustið er tíminn – Fimm ráð til að koma sér af stað

Unnur Pálmarsdóttir

Unnur Pálmarsdóttir

Helstu kostirnir við að gera líkamsrækt að lífsstíl og stunda daglega eru aukið heilbrigði, andleg og líkamleg vellíðan.
Þegar við breytum slíkum lifnaðarháttum þá fylgir aukin orka, ónæmiskerfið verður sterkara, bætt sjálfsmynd og aukið sjálfstraust.

Hér eru fimm kostir þess að stunda reglulega líkamsrækt og hreyfingu allt árið.

1. Bætir skapið og styrkir ónæmiskerfið
Þarftu að fá útrás? Eða þarftu að losa um streituna eftir erfiðan dag? Iðkun líkamsræktar eða ganga 30 mínútur rösklega getur hjálpað við að losa um streitu.
Líkamsrækt örvar ýmis efni heilans sem gera þig tilfinningalega hamingjusamari og hefur áhrif á eigin vellíðan sem gerir það að verkum að við verðum enn skapbetri í skammdeginu. Ónæmiskerfið styrkist með daglegri líkamsrækt og hreyfingu. Sjálfstraust og vellíðan á líkama og sál eykst.

2. Borðaðu á þriggja tíma fresti
Borðaðu á tveggja til þriggja tíma fresti til að halda brennslunni gangandi. Þegar þú ætlar að taka þig verulega á þá er nauðsynlegt að skera niður sætindi, gosdrykki, kex og kökur.
Allt er þó leyfilegt einu sinni í viku á nammidegi (t.d. á laugardögum). Verið dugleg að drekka nóg af vatni yfir allan daginn og einnig meðan á æfingu stendur. Vatn er allra meina bót.

3. Haltu matardagbók
Mjög gott er að halda utan um mataræðið sitt með því að skrifa matardagbók. Með því að halda matardagbók fær maður betri yfirsýn yfir það sem maður lætur ofan í sig og hefur betri yfirsýn yfir fæðuval.
Ég mæli með að borða fimm til sex máltíðir á hverjum degi. Það er morgunmatur, millimál, hádegismatur, millimál, kvöldmatur og kvöldsnarl.

4. Betri svefn
Áttu í erfiðleikum með svefn? Regluleg hreyfing getur hjálpað þér að sofna og dýpkar svefn þinn. Stundaðu líkams- og heilsurækt daglega og þú munt finna mun á svefninum.
Þegar við stundum meiri hreyfingu þá þurfum við meiri svefn. Svefnleysi getur m.a. stuðlað að því að þú borðar meira og finnur frekar til svengdar. Því er nauðsynlegt að ná góðum svefni til að ná meiri árangri í heilsurækt.

5. Betra kynlíf
Finnst þér þú vera of þreytt/ur eða langar ekki að njóta líkamlegrar nándar við maka þinn? Regluleg líkamsrækt getur haft jákvæð áhrif á kynlíf þitt. En það er meira en það. Regluleg hreyfing getur valdið aukinni örvun fyrir konur.
Karlmenn sem æfa reglulega eiga minni líkur á að lenda í vandræðum með ris­truflanir en þeir sem nýta ekki orkuna í að stunda reglulegt kynlíf. Kynlíf er hollt fyrir líkama, nándina og sálina.

Líkamsrækt er lífstíll
Íþróttir og líkamsrækt er besta og skemmtilegasta leiðin til að varðveita eigin heilsu. Við eigum aðeins einn líkama og heilsan okkar er það dýrmætasta sem við eigum. Líkamsrækt gefur þér tækifæri til að slaka á og njóta lífsins sem gerir þig hamingjusamari. Aukin líkamsrækt getur einnig hjálpað þér að tengjast betur fjölskyldu eða vinum í skemmtilegu félagslegu og hvetjandi umhverfi.

Ég vil hvetja þig kæri lesandi að byrja strax að hreyfa þig. Gangi þér vel!

Unnur Pálmarsdóttir, MBA
Mannauðs- og markaðsstjóri Reebok Fitness

Fjöldahjálp í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjósinni

Hrönn Pétursdóttir

Hrönn Pétursdóttir

Í Mosfellsbæ, Kjósinni og á Kjalarnesi eru starfandi þrjár skilgreindar fjöldahjálparstöðvar, í Varmárskóla og Klébergsskóla, og í húsnæði Rauða krossins í Þverholtinu í Mosfellsbæ.
Til viðbótar er unnið að því að bæta við tveimur stöðvum, annarri í Mosfellsbæ en hinni í Kjósinni.

Þegar loka þarf veginum um Kjalarnes gerist það oftar en ekki að opna þarf fjöldahjálparstöðina í Klébergsskóla þangað sem leita tugir og jafnvel hundruð strandaglópa. Ennfremur hafa stöðvarnar í Mosfellsbæ verið opnaðar nokkrum sinnum á síðastliðnum árum í kjölfar rútuslysa í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er mismunandi milli ára hversu oft þessar stöðvar eru opnaðar, en undanfarin ár hefur það verið alls í um fimm skipti á ári að meðaltali.

Fjöldahjálparstöðvar falla undir starfsemi almannavarna á Íslandi og er ákvörðun um það að opna stöðvarnar tekin af almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins þegar veður, náttúruhamfarir eða slys gera það að verkum að koma þarf fólki í skjól eða aðstoða það í nauð.

Rekstur þessara stöðva er í höndum Rauða krossins. Sem hluti af almannavarnarkerfinu hefur félagið umsjón með fjöldahjálp og sálfélagslegum stuðningi þegar náttúruhamfarir og aðrir alvarlegir atburðir eiga sér stað, auk þess að veita áfallahjálp í kjölfar vinnuslysa, hópslysa og annarra alvarlegra atburða. Þá er þolendum húsbruna veitt fyrsta aðstoð á vettvangi, svo sem þak yfir höfuðið, mat og aðrar brýnustu nauðsynjar. Þessi þjónusta er veitt án endurgjalds og af vel þjálfuðum sjálfboðaliðum sem eru tilbúnir til aðstoðar, hvenær sem kallið kemur.

Undanfarin ár hefur Rauði kross á Íslandi séð um rekstur fjöldahjálparstöðvanna á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ, en frá haustinu 2018 tekur deild Rauða krossins í Mosfellsbæ verkefnið yfir. Starfssvæði deildarinnar nær til Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósar.

Deildin býr þegar yfir vel þjálfuðum og reyndum sjálfboðaliðum sem hafa búsetu í Mosfellsbæ, en þarf fleiri sjálfboðaliða í hópinn til að geta sinnt þessu verkefni. Er þar leitað að einstaklingum sem búa í Mosfellsbæ en ekki síst á Kjalarnesi og í Kjósinni.
Einstaklingar sem vilja leggja samfélaginu lið með því að koma til aðstoðar þegar aðrir eru í nauð geta fengið ítarlegri upplýsingar með því að hafa samband við Rauða krossinn í Mosfellsbæ í netfangið moso@redcross.is. Einnig má skrá sig á fyrsta þjálfunarnámskeiðið hér www.raudikrossinn.is/taktu-thatt/vidburdir/inngangur-ad-neydarvornum-mosfellsbaer, en námskeiðið verður haldið þann 3. september nk. kl. 18 -21 í húsnæði Rauða krossins í Mosfellsbæ.

Hrönn Pétursdóttir,
formaður Rauða krossins í Mosfellsbæ.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?

Lóa Björk Kjartansdóttir

Lóa Björk Kjartansdóttir

Nú þegar líður að hausti fara margir að huga að því hvað þá langar að gera í vetur. Félagar í POWERtalk deildinni Korpu hafa verið í góðu sumarfríi en eru byrjaðir að huga að vetrarstarfinu.
POWERtalk samtökin eru þjálfunarsamtök sem leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjálfun í tjáningu sem skilar árangri. Markmið POWERtalk eru sjálfstyrking, uppbygging á eigin persónu og samskipti af virðingu við aðra auk þess að félagarnir verði færari um að tjá sig á formlegan hátt með þátttöku í og stjórnun félagsmála.

Starfsemin byggir á einstaklingsmiðaðri jafningjafræðslu sem hvetur fólk til dáða þar sem tjáskipta- og stjórnunarhæfileikar skipta sköpum til starfsframa og þátttöku á opinberum vettvangi. Félagar njóta einnig góðs af nauðsynlegu uppbyggilegu frammistöðumati reyndari félaga.
Þann 4. og 13. september munu samtökin halda ræðunámskeiðið „Fyrstu skrefin“, sem er tilvalið fyrir fólk sem langar að fá þjálfun í ræðuskrifum og framkomu. Námskeiðið er fyrir alla sem vilja stíga aðeins út fyrir þægindahringinn sinn. Ekki er skilyrði að vera í samtökunum til að skrá sig á námskeiðið. Það er tilvalið að fara á námskeiðið og halda svo áfram að efla sjálfan sig og fá áframhaldandi þjálfun með því að mæta á fundi hjá Korpu í kjölfarið og taka þátt í skemmtilegu starf.

POWERtalk deildin Korpa er ein af sjö deildum á Íslandi. Korpa starfar í Mosfellsbæ og er fyrir alla þá sem langar að læra og tileinka sér allt það sem viðkemur t.d. framkomu, ræðuskrifum, glærukynningum, fundarsköpum, viðburðastjórnun, greinaskrifum og tímastjórnun. Einnig fyrir þá sem langar að efla sjálfstraust sitt og færni í samskiptum og samvinnu. Í starfinu fær fólk tækifæri til að vinna á eigin hraða að markmiðum sínum. Og fólk fær uppbyggilega endurgjöf á vinnu sína og verkefni.

Langar þig að öðlast meira öryggi á fundum, sýna meira frumkvæði í vinnunni, tjá þig á foreldrafundi í leikskólanum eða flytja tækifærisræðu í stórafmæli? Langar þig að styrkja sjálfsímynd þína almennt og þannig eiga auðveldara með samskipti í bæði leik og starfi? Þá er starfið í Korpu fyrir þig og það er ekki eftir neinu að bíða.

Fundirnir eru haldnir fyrsta og þriðja miðvikudag í mánuði. Fyrsti fundur vetrarins verður haldinn miðvikudaginn 5. september klukkan 20:00, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, á 2. hæð. Gestir eru velkomnir á alla fundi í vetur og fólk er hvatt til að koma og kynna sér starfið.
Ef einhverjar spurningar vakna má gjarnan senda fyrirspurnir á netfangið korpa@powertalk.is og þeim verður svarað fljótt og vel. Einnig er hægt að kíkja á powertalk.is fyrir almennar upplýsingar um starf samtakanna.

Lóa Björk Kjartansdóttir
Ritari Korpu 2018-2019

Ný bæjarstjórn

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Um miðjan þennan mánuð lét ég af störfum sem bæjarfulltrúi, ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja í bæjarstjórn í 8 ár og sem varamaður 8 ár þar á undan.
Það eru því orðin heil 16 ár síðan ég kom fyrst að bæjarmálunum. Það hefur verið ótrúlega skemmtilegur tími og ég verð að viðurkenna að það er ekkert verkefni sem ég hef tekið að mér (ef frá er talið foreldrahlutverkið) sem hefur verið jafn skemmtilegt og lærdómsríkt og bæjarfulltrúahlutverkið.
Ég hef mikla trúa á Mosfellsbæ, ég veit að sveitarfélagið er vel rekið, hér eru bæði góðir skólar og leikskólar, íþrótta- og tómstundastarf er í miklum blóma og síðast en ekki síst er sveitarfélagið fallegt. Mosfellsbær er umvafinn fallegri náttúru, við erum innrömmuð fellum, ám og Leirvoginum. Endalaus tækifæri til útivistar og hreyfingar í túninu heima. Sveitarfélagið hefur vaxið mikið á síðustu árum og nú erum við komin yfir 10 þúsund. Það er bæði ánægjulegt en líka krefjandi verkefni þegar sveitarfélagið vex hratt bæði hvað varðar skipulagsmál svo og uppbyggingu innviða og nærþjónustu.

Höldum í sérstöðu Mosfellsbæjar
Ég hef þá sýn að Mosfellsbær eigi að byggja á sérstöðu sinni sem er bæði náttúrutengd og samfélagstengd. Þannig er mikilvægt að þrátt fyrir stækkun sveitarfélagsins og óhjákvæmilega og eðlilega þéttingu byggðar þá haldi sveitarfélagið samt í þá sérstöðu sína að hér sé hátt hlutfall sérbýla, hér sé stutt í náttúru og að við séum grænn og umhverfisvænn bær. Mosfellsbær hefur lengið verið eftirsóknarverður staður til að búa á og þá sérstaklega fyrir fjölskyldufólk en hvergi á höfuðborgarsvæðinu er hlutfall barna jafn hátt og hér í Mosfellsbæ.
En hvað samfélagslega þáttinn varðar þá er það ekki síst hlutverk okkar allra íbúa að tryggja að hér verði áfram sá þorpsbragur sem löngum hefur einkennt Mosfellssveitina. Okkur er umhugað um náungann og samfélagið okkar. Sá mikli samfélagslegi auður sem felst í sjálfboðastarfi allra sem koma að íþrótta- og tómstundafélögum hér í bæ er ómetanlegur. Það að við fjölmennum á þorrablót, brennu og bæjarhátíð og skemmtum okkur saman er líka mikilvægur hluti af öflugu og góðu samfélagi. Höldum því áfram.

Takk fyrir mig
Ég vil óska öllum nýkjörnum bæjarfulltrúum velfarnaðar í störfum sínum. Ég vona að nýrri bæjarstjórn auðnist að vinna saman að því að tryggja að það verði áfram best að búa í Mosfellsbæ. Ég vil þakka öllum þeim kjörnu fulltrúum sem ég hef unnið með á vettvangi bæjarstjórnar og nefnda bæjarins á síðustu árum. Einnig vil ég þakka því frábæra starfsfólki sem vinnur fyrir Mosfellsbæ en það hefur verið einstaklega ánægjulegt að kynnast þeim góða hópi sem vinnur á hverjum degi fyrir þjónustufyrirtækið Mosfellsbæ.
Síðast en ekki síst vil ég þakka kjósendum fyrir að hafa treyst mér fyrir því mikilvæga starfi sem bæjarfulltrúastarfið er, það eru forréttindi að fá að sinna því. Ég hef lagt mig alla fram við að gera það af metnaði og alhug. Það er aldrei hægt að gera þannig að öllum líki en ég hef ávallt haft hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Í hlutverki kjörins fulltrúa lærir maður að málin geta oft verið mun flóknari en virðist í fyrstu og það er að mörgu sem þarf að huga áður en ákvörðun er tekin.
Þrátt fyrir að hverfa af vettvangi bæjarstjórnar mun ég áfram í starfi mínu sem þingmaður fylgjast með rekstri sveitarfélagsins og leggja mitt af mörkum við að tryggja framgang verkefna sem heyra undir ríkisvaldið en þjóna hagsmunum okkar hér í bæ. Sérstaklega má þar nefna stækkun hjúkrunarheimilis og umferðaröryggismál á Vesturlandsvegi og Þingvallavegi.

Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður

Flokkun á plasti í Mosfellsbæ

Tómas G. Gíslason

Tómas G. Gíslason

Mosfellsbær hefur frá því sl. vor boðið íbúum upp á aukna þjónustu varðandi flokkun á plasti frá heimilum til endurvinnslu, þar sem heimilt er að flokka plast í lokuðum plastpokum í gráu sorptunnuna.
Plastflokkun í plastpoka er samstarfsverkefni SORPU og fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Mosfellsbæjar, Hafnafjarðar, Garðabæjar og Seltjarnarnesbæjar. Sérhæfður vélbúnaður SORPU flokkar síðan plastið frá öðrum úrgangi og kemur til endurvinnslu. Ekki er nauðsynlegt að setja hreina plastið í sérstaka poka en þeir þurfa að vera úr plasti. Íbúar geta því t.d. notað innkaupapoka eða aðra plastpoka sem til falla á heimilum. Markmiðið er að auka endurvinnslu og draga úr urðun plasts og endurnýta þannig betur plastið sem hráefni.
Verkefnið hefur farið vel af stað og hefur magn af flokkuðu plasti frá íbúum í Mosfellsbæ aukist verulega. Þó er ennþá talsvert um að íbúar fleygi plasti óflokkuðu með blönduðum heimilisúrgangi, og því er tækifæri til að gera enn betur. Íbúar í Mosfellsbæ eru því hvattir til þess að kynna sér þessa nýju leið til flokkunar á plasti í plastpokum í gráu tunnuna, en einnig má benda á að hægt er að skila flokkuðu plasti á grenndargámastöðvum við Háholt, Olís Langatanga, Bogatanga og Dælustöðvarveg, auk endurvinnslustöðvar SORPU við Blíðubakka.
Vegna þessara breytinga, er nýjum límmiðum dreift með þessu eyðublaði Mosfellings og eru íbúar hvattir til að líma þá innan á lok sorptunna sinna, bæði bláu pappírstunnuna og gráu tunnuna fyrir almennt sorp og plast.

Hvers vegna að flokka plast?
Áætlað er að á árinu 2017 hafi að jafnaði um 27 kg af óflokkuðu plasti frá hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu endað í hefðbundinni sorptunnu og farið á urðunarstað SORPU í Álfsnesi. Eingöngu um 5 kg af plasti á íbúa skilaði sér flokkað til endurvinnslu. Markmiðið er að auka þetta magn verulega og er plastflokkun í plastpoka í gráu tunnuna mikilvægt skref í þá átt.

Tómas G. Gíslason
Umhverfisstjóri Mosfellsbæjar

Pólitísk afskipti Varmárskóla af kosningabaráttunni

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir

Þann 24. maí síðastliðinn birtist færsla á Facebook-síðu Varmárskóla þess efnis að ónafngreindir aðilar væru að vega að skólastarfinu og var sami texti settur á vef skólans daginn eftir.
Af samhengi og efni pósta í kjölfarið og gagnrýni sem fram kom á opnum íbúafundi í Hlégarði 24. maí var engum blöðum um það að fletta við hverja var átt, þ.e. frambjóðendur Í-lista. Færslunni í nafni skólans var dreift víða um netið og voru kjósendur m.a. hvattir til að kjósa listann ekki.
Nú er Varmárskóli opinber stofnun sem rekin er af Mosfellsbæ. Hann er stærsta uppeldisstofnun sveitarfélagsins og einn af stærstu skólum landsins. Færslan á samskiptasíðunni birtist tveimur sólarhringum fyrir kosningar. Sú tímasetning er ekki tilviljun.

Afskipti D-lista
Það sem gerir málið alvarlegra en ella er að skólayfirvöld í Mosfellsbæ lögðu blessun sína yfir færsluna með því að taka undir hana, þ.e. núverandi og fyrrverandi formenn fræðslunefndar, Kolbrún Þorsteinsdóttir og Hafsteinn Pálsson frambjóðendur D-lista. Bæði voru í framboði og má líta svo á að þessi aðför hafi því hentað þeim persónulega.
Ef marka má tilsvör bæjarstjóra og formanns fræðslunefndar í umræðum um málið á fundi bæjarstjórnar nr. 718 þótti fulltrúum D-lista ekkert tiltökumál að stofnanir sveitarfélagsins væru notaðar til að hafa áhrif á niðurstöður kosninga. Bæjarstjóri sagðist hafa heyrt „kjaftasögur“ og formaður fræðslunefndar talaði um „ótrúlegar tröllasögur“. Engin svör fengust þó við því um hvað þær fjölluðu, hverjir sögumennirnir voru eða hvernig opinberri stofnun datt yfirleitt í hug að færa sér ósómann í nyt til að skaða tiltekið framboð korteri fyrir kosningar.
Hvað sem öðru líður vekja afskiptin upp áleitnar spurningar um fagmennsku í skólamálum og siðferði í stjórnmálum.

Framlag Íbúahreyfingarinnar til skólamála
En hvað var svona ógnandi? Getur verið að það hafi verið ákall Íbúahreyfingarinnar um úrbætur í skólamálum á kjörtímabilinu? Undir eðlilegum kringumstæðum myndi fólk ætla að starfsmenn Varmárskóla hefðu fulla ástæðu til að taka því fagnandi. En hér það helsta:
• Byggt verði nýtt mötuneyti við Varmárskóla;
• Kæliklefum fjölgað í mötuneytinu til að koma í veg fyrir að matvæli skemmist;
• Settar verði upp færanlegar stofur fyrir tónlistarkennslu á skólatíma fyrir yngri nemendur í Varmárskóla;
• Bæjaryfirvöld láti sig ónægju kennara varða í kjölfar nýrra kjarasamninga;
• Endurskoða áætlanir um uppbyggingu skólamannvirkja vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar nemenda í Varmárskóla;
• Hvatt til að fram fari opin umræða í fræðslunefnd um áskoranir í skólastarfi;
• Starfsumhverfi kennara verði bætt;
• Sérfræðiþjónusta við börn með sérþarfir og fagleg stoðkennsla verði aukin til bæta líðan nemenda og að gera skóla án aðgreiningar betur mögulegan;
• Bæjarráð fái árlega skýrslu um eineltismál í fyrirtækjum og skólum Mosfellsbæjar inn á borð til sín til að kanna umfang eineltismála og bregðast við þeim;
• Stofna sérstakt embætti jafnréttisfulltrúa til að styðja við jafnréttis- og kynjafræðslu í skólunum, auk þess að fræða skólabörn um hinar ýmsu birtingarmyndir ofbeldis;
• Óháður aðili verði fenginn til að gera úttekt á Varmárskóla vegna óánægju foreldra með mikilvæga þætti í skólastarfinu;
• Mosfellsbær veiti skólum/kennurum árleg hvatningarverðlaun til að verðlauna það sem vel er gert og vekja athygli íbúa á skólastarfinu.

F.h. Íbúahreyfingarinnar
Sigrún H Pálsdóttir

Eftir kosningar

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Ég leyni því ekki að niðurstöður kosninganna þann 26. maí voru vonbrigði fyrir Samfylkinguna í Mosfellsbæ.
Framboðum fjölgaði til muna í bænum við þessar kosningar frá þeim síðustu og ljóst að mun meiri samkeppni yrði um atkvæðin. Enda kom það á daginn og niðurstaðan varð að Samfylkingin tapaði einum bæjarfulltrúa.
Miklar breytingar verða nú í bæjarstjórn. Í minnihluta á síðasta kjörtímabili voru tveir flokkar en á þessu nýhafna kjörtímabili verða þeir fjórir og hver þeirra með einn fulltrúa. Vinstri græn höfnuðu tilboði þessara flokka um meirihlutaviðræður og töldu sínum áherslum og málefnum best borgið í fangi Sjálfstæðisflokksins líkt og áður sem kom kannski ekki á óvart.
Ásýnd nýrrar bæjarstjórnar verður einnig gjörbreytt því einungis tvær konur munu sitja í níu fulltrúa bæjarstjórn næsta kjörtímabil. Það er sorgleg staða árið 2018 og endurspeglar að stjórnmálaflokkar treysta konum síður til að sitja í oddvitasætum.
Á síðasta kjörtímabili náðum við Ólafur Ingi bæjarfulltrúar S lista góðum árangri og fengum samþykktar margar tillögur um málefni sem flokkurinn hafði sett á oddinn í kosningabaráttunni 2014. Þeim árangri náðum við með málefnalegu starfi og staðfestu. Þrátt fyrir breytta stöðu þá mun ég sem bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar halda áfram að vinna málefnum okkar jafnaðarmanna framgang innan bæjarstjórnar og nýta til þess málefnalegar leiðir.
Þeim sem ákváðu að treysta Samfylkingunni fyrir atkvæði sínu þakka ég af heilum hug. Full auðmýktar gagnvart verkefninu lofa ég að gera mitt allra besta til að vinna að áherslum okkar á ábyrgan rekstur, lýðræðislegt samráð og gagnsæi, mannvænt skipulag, jafnrétti, sjálfbærni og umhverfismál með hagsmuni framtíðarkynslóða í huga, að ógleymdri félagslegri samhjálp á grunni virðingar og mannréttinda, en allar þessar áherslur miða að því að auka jöfnuð, velsæld og gleði í bænum okkar góða.

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Finnsku húsin í Arnartanga

finnsku

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Aðfaranótt 23. janúar 1973 hófst mikið eldgos í Heimaey eins og kunnugt er.
Í vetur sem leið voru því 45 ár liðin frá þessum atburði. Frækilegur brottflutningur fólks varð víðfrægur um allan hinn upplýsta heim og dáðust margar þjóðir að hversu Íslendingar reyndust úræðagóðir þegar mikið reyndi á.

Víða barst aðstoð erlendis frá. Norðurlöndin brugðust vel við og sendu hingað heilu raðhúsin til að gefa flóttafólkinu úr Vestmannaeyjum. Stofnaður var sjóður, Viðlagasjóður, og helsti tekjustofn hans var að lagður var sérstakur skattur og bætt við þáverandi söluskatt sem var undanfari virðisaukaskattsins. Þessi viðbótarskattur nam 2% og var hugsunin að hafa þessa skattheimtu tímabundna uns afleiðingarnar þessa goss yrðu til lykta leiddar. En skatturinn stendur enn þrátt fyrir að langur tími sé liðinn!

Í Mosfellsbæ voru byggðar 8 raðhúsalengur með alls 35 íbúðum og standa húsin við Arnartangann. Fram á níunda áratug síðustu aldar var Arnartangi vestasta byggðin í Mosfellssveitinni gömlu. Þessi hús eru falleg, einföld en praktísk og hafa reynst mjög vel enda hæfilega stór með ofurlitlum garði og hafa alltaf verið vinsæl. Er að mörgu leyti undarlegt að ekki séu byggð fleiri hús í svipuðum stíl og stærð.
Raðhúsin voru sérstök gjöf Finna hugsuð til að rétta Íslendingum hjálparhönd í erfiðleikum þeirra vegna eldgossins á Heimaey. Þau eru byggð úr timbri á steyptum sökklum að hluta til á steyptum grunni. Þau voru endurhönnuð með sérstöku tilliti til einangrunar, jarðskjálftahættu og veðurs á Íslandi enda eru aðstæður hér gjörólíkar en í Finnlandi sem er eitt skógríkasta land heims.

Lengi vel nutu húsin í Arnartanganum ekki skógarskjóls en nú eru vaxin upp tré töluvert upp fyrir lágreista byggðina. Austan við Arnartanga var fyrir um 30 árum plantað þremur löngum röðum af öspum sem hafa myndað mjög gott skjól fyrir austlægum áttum. Aspir vaxa yfirleitt mjög hratt en lifa fremur sjaldan lengur en hálfa öld, þá hrörna þær, fúna og deyja. Og þá geta margar og háar aspir reynst stórhættulegar þá Kári gamli er í essinu sínu.
Í Mosfellsbæ getur orðið nokkuð hvasst einkum í suðaustlægum áttum á vetrum. Nú þarf senn að huga að endurnýjun trjáa á þessum slóðum af þessum ástæðum og gróðursetja jafnvel aðrar hentugri tegundir. Má þar nefna sitkagreni sem vex og dafnar og getur orðið 300 ára gamalt en orðið mjög hátt, jafnvel hærra en turn Hallgrímskirkju. Sitkagreni nær hátt í hundrað metra í upprunalegu heimkynnum sínum í Norður Ameríku en verða hér varla mikið hærri en 30-40 metrar. En spurning er hvort við viljum hafa svo há tré í þéttbýli?

Í tilefni af því að finnski forsetinn Kekkonen kom hingað til lands að afhenda Íslendingum Viðlagasjóðshúsin á sínum tíma voru reistar tvær flaggstengur sem enn má sjá milli raðhúsanna og asparskógarins. Milli stanganna var komið fyrir hraunsteini úr Heimaey og fest á hann plata með áletrun um þennan atburð. Sú plata sem nú er mun ekki vera sú upprunalega því sú var úr kopar og fékk ekki að vera þar lengi og þjófar numið hana á brott enda eru þjófar mjög athugulir á fémæti.

Þegar Vigdís Finnbogadóttir var forseti barst hingað önnur gjöf frá finnsku þjóðinni sem minna bar á en þeirri fyrri en ekki síðri. Var það fræpoki með töluverðum slatta af fræi hengibjarkar (betula pendula). Hún er náskyld íslensku ilmbjörkinni enda hvoru tveggja norrænar tegundir.
Nú er liðinn um aldarfjórðungur frá þessari seinni gjöf og hengibjarkirnar finnsku hafa eignast vonandi þúsundir afkvæma sem dafna í íslenskri jörð. Er það tillaga mín að við komum nokkrum afkomendum þessara hengibjarka við minningamarkið austan við raðhúsin finnsku svo þar megi vaxa finnsk-íslenskur trjálundur sem kærkomin viðbót.

Vel gæti ég trúað að einhverjum þætti þetta vera hálfgert tildur en þess ber að geta að við eigum að hlúa sem best að gömlum vináttuböndum og efla þau eftir mætti. Og hvað er ekki betra en trjágróðurinn sem veitir okkur bæði mannfólkinu og fuglum himinsins mikilvægt skjól og yndi.

Guðjón Jensson
arnartangi43@43@gmail.com

Hlakka til að geta beitt þekkingu minni

Margrét Guðjónsdóttir

Margrét Guðjónsdóttir

Að taka þátt í sveitarstjórn er ábyrgðarfull ákvörðun. Traust íbúanna á kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins er forsenda hins staðbundna lýðræðis.
Ég hef búið í Mosfellsbæ frá árinu 1989 og þekki bæinn vel. Eitt af þeim málum sem ég hef brennandi áhuga á eru skipulagsmál. Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað í Mosfellsbæ síðustu ár, sem er jákvætt, en samhliða þurfum við að standa vörð um okkar fjölbreyttu og fallegu náttúru sem er okkar sérstaða á höfuðborgarsvæðinu.

Skipulagsvaldið er í höndum sveitarstjórna en við framkvæmd þess verða íbúar að geta treyst því að jafnræðis sé gætt auk þess sem festa sé í framkvæmd skipulagsins og því verði almennt ekki breytt nema veigamiklar ástæður mæli því með.
Ég vil leggja áherslu á að fá íbúana í lið með okkur, hlusta, taka við rökum, leita til þeirra til að afla upplýsinga og þekkingar og vinna saman að málefnum sveitarfélagsins. Það eru íbúarnir sem eru sérfræðingar í nærumhverfinu og geta komið með áhugaverðar lausnir.

Mosfellsbær er yndislegur staður til að búa í og hlakka ég til að geta beitt þekkingu minni íbúum hans til góðs.

Margrét Guðjónsdóttir
skipar 2. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar.

Kjósum V-listann!

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason

Ágætu Mosfellingar. Hér á eftir verður greint frá nokkrum stefnumálum V-listans í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Fræðslumál
Fræðslumálin eru mjög viðamikill málaflokkur, enda rekur sveitarfélagið bæði leikskóla og grunnskóla bæjarins. Á þessu kjörtímabili hefur Bryndís gegnt varaformennsku í fræðslunefnd en á þeim vettvangi hefur bygging Helgafellsskóla verið stærsta verkefnið.
VG stendur vörð um öflugt skólastarf á öllum vígstöðvum; við viljum að gerð verði áætlun um að eyða biðlistum fyrir tónlistarnám í Listaskóla Mosfellsbæjar, stefna að því skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar og að leikskólagjöld verði felld niður í áföngum.

Íþrótta- og tómstundamál
Blómlegt íþrótta- og tómstundastarf í Mosfellsbæ byggist á náinni samvinnu bæjarfélagsins og frjálsra félagasamtaka. V-listinn vill styrkja þetta samstarf enn frekar og að allri gjaldtöku fyrir íþrótta- og tómstundastarf verði stillt í hóf. Við viljum auka hlut almenningsíþrótta fyrir alla aldurshópa, styrkja félagsstarfið í Bólinu og ungmennahúsi og efla samstarfið við ungmennaráð Mosfellsbæjar.

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Velferðarmál
Aðgengi allra hópa samfélagsins að lífsins gæðum á að vera tryggt, óháð aldri, heilsu og þjóðerni. V-listinn vill að gerð verði áætlun um að stytta biðlista eftir félagslegum íbúðum og auka framboð á leiguhúsnæði í samvinnu við byggingarfélög þar sem arðsemissjónarmið ræður ekki för. Einnig viljum við stuðla að bestu útfærslunni á heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu.

Jafnréttismál
VG vill standa vörð um jafnrétti kynjanna og uppræta kynbundinn launamun. Einnig viljum við tryggja jafnréttisfræðslu í skólum og fræðslu um kynbundið ofbeldi.

Skipulagsmál – umhverfismál
Umhverfis- og skipulagsmál eru nátengd og skipulag þarf ævinlega að taka mið af umhverfissjónarmiðum. Á þessu kjörtímabili hefur Bjarki verið varaformaður skipulagsnefndar og formaður í umhverfisnefnd þar sem hann hefur beitt sér fyrir mörgum brýnum málum, meðal annars á sviði náttúruverndar.
Undir hans formennsku hefur umhverfisnefnd haldið opna fundi á hverju ári þar sem íbúum hefur gefist kostur að taka þátt í umræðunni. Sá síðasti var í marsmánuði þar sem fjöldi Mosfellinga tók þátt í að vinna að nýrri umhverfisstefnu fyrir sveitarfélagið.

Atvinnumál – ferðamál
VG vill stuðla að fjölbreyttri, sjálfbærri og vistvænni atvinnustarfsemi með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Vinstri-græn vilja huga að vaxtasprotum í atvinnuuppbyggingu og vinna með fyrirtækjum og einstaklingum að uppbyggingu á þessu sviði.
Nábýli Mosfellsbæjar við höfuðborgarsvæðið og Gullna hringinn skapar tækifæri í ferðaþjónustu, við viljum miðla upplýsingum til ferðafólks allan ársins hring.

Menningarmál
Menningarlíf í Mosfellsbæ er gróskumikið og nauðsynleg kjölfesta sem auðgar samfélagið okkar. Vinstri-græn leggja áherslu á að sveitarfélagið styðji myndarlega við bakið á þessari fjölbreyttu starfsemi í samvinnu við félagasamtök, einstaklinga, fyrirtæki og skólasamfélagið.
V-listinn lítur á félagsheimilið Hlégarð sem Menningarhús bæjarins með stórum staf og vill taka virkan þátt í stefnumótun um framtíð þessa sögufræga húss.

Fjármál, stjórnsýsla, íbúalýðræði
Traustur fjárhagur sveitarfélaga er forsenda fyrir öllum framkvæmdum og rekstri á vegum þeirra. V-listinn vill sýna áframhaldandi aðhald og hagsýni í rekstri bæjarfélagsins.
Stjórnsýslan á að þjóna almenningi, íbúalýðræði er afar mikilvægt og tryggja þarf bæjarbúum aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku. Hægt er að gera það með ýmsum hætti, til dæmis opnum fundum, skoðanakönnunum og íbúakosningu.

Kjósum V-listann!

Bjarki Bjarnason og Bryndís Brynjarsdóttir
skipa 1. og 2. sæti V-listans.

Skólarnir okkar

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Samfylkingin vill skóla í fremstu röð fyrir börnin í Mosfellsbæ og að allir nemendur fái tækifæri til að þroska hæfileika sína og blómstra.
Skólinn gegnir afar mikilvægu hlutverki í að undirbúa börn og ungmenni undir þátttöku í margbreytilegu lýðræðissamfélagi og því þarf að búa þannig að skólunum að þeir hafi nægt bolmagn til að sinna verkefni sínu af alúð. Endurskoðun skólastefnu bæjarins sem samþykkt var 2010 er löngu tímabær.

Stuðningur og samstarf
Samfylkingin leggur áherslu á að styrkja starfsumhverfi kennara með því að auka aðgengi að sérhæfðu starfsfólki á ýmsum fagsviðum. Þannig er hægt að mynda öflug og samstíga teymi svo auðveldara verði að mæta ólíkum þörfum nemenda. Stuðningur við börn á að miðast við þarfir þeirra en ekki að vera háður læknisfræðilegum greiningum. Námsframboð og skipulag þarf að vera sveigjanlegt. Efla þarf samstarf á milli skóla, skólastiga og allra þeirra aðila sem sinna tómstundum og menntun barna og ungmenna til að sem best samfella sé í vinnudegi barna og aðstæður fullnægjandi. Þá er nauðsynlegt að hugað sé tímanlega að uppbyggingu skólamannvirkja svo skólar verði ekki of stórir. Að eiga stærstu skóla landsins á ekki að vera markmið sveitarfélagsins.

Steinunn Dögg Steinsen

Steinunn Dögg Steinsen

Fleiri leikskólakennara
Nauðsynlegt er að fjölga leikskólakennurum í leikskólum bæjarins og þar á bærinn að stíga myndarlega inn með stuðningi við starfsfólk sem vill sækja sér frekari menntun. Þetta má gera með því að auka við stöðugildi á leikskólum til að koma til móts við fjarveru vegna skólasóknar starfsfólks. Til þessa hefur sveitafélagið ekki staðið sig nógu vel í að styðja ófaglærða starfsmenn leikskóla á þessu sviði. Þar vill Samfylkingin gera mun betur.

Leikskóli fyrir 12 mánaða
Samfylkingin vill að öll 12 mánaða börn fái leikskólavist. Óvissa um dagvistunarúrræði barna er óásættanlegt fyrir foreldra og samfélagið. Þá er mikilvægt að þeirri lækkun leikskólagjalda sem Samfylkingin fékk samþykkta í bæjarstjórn verði viðhaldið og að gjöldin verði áfram sambærileg við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Við viljum búa vel að barnafjölskyldum og gæta þess að þjónustan í okkar góða bæ sé ekki síðri eða dýrari en annars staðar.

Listaskólinn
Listaskólinn gegnir ákaflega mikilvægu hlutverki í bæjarlífinu. Samfylkingin vill að á næsta kjörtímabili verði unnið markvisst að því að skapa Listaskólanum framtíðar­aðstöðu svo hann geti vaxið og dafnað með stækkandi sveitarfélagi og sinnt áfram þeirri mikilvægu kennslu og menningaruppeldi sem honum er falið.

Samfylkingin telur mikilvægt að setja málefni barna í fyrsta sætið. Ef þú er sammála þá setur þú x við S á kjördag 26. maí.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar.
Steinunn Dögg Steinsen, varabæjarfulltrúi, skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar.

Fullmekta vegagerð

Halldór Þorgeirsson

Halldór Þorgeirsson

Vaxandi umferð flutninga- og einkabíla í gegn um Mosfellsbæ er mestmegnis kvöð, hálfgerð konungsskipun, sem rýrir lífsgæði allra íbúa.
Skipulag bæjarins hefur alla tíð miðast við Vesturlandsveginn og Þingvallaveginn, eins og þeir séu óbreytanlegar föstur, en eru ekkert nema mannanna verk, eitthvað úr fortíðinni eins og amboðin í Árbæjarsafni. Nefnd vegstæði eiga fyrst og síðast að þjóna bæjarbúum, en ekki öllum stórflutningum vestur, norður og austur.
Vesturlandsvegurinn var sprengdur niður í klöpp með ærnum tilkostnaði og nú ætla sömu aðilar að gera strandhögg í Mosfellsdal, sumpart með nauðsynlegar úrbætur, en enga dreifingu á umferðarmagni. Ferðamenn eru velkomnir í Mosfellsbæ, en það er óþarfi að fá alla sem fara til Þingvalla tvisvar á sama degi.

Á síðastliðnu ári var þeirri hugmynd hent á loft að leggja veg frá Geithálsi að Kjósarskarði. Markmiðið er að draga úr gegnumstreymisakstri og eiga val á að fara greiðari leið og sleppa við 9 hringtorg, ­a.m.k. aðra leiðina.
Íbúasamtök Mosfellsdals, Víghóll, kostuðu verkfræðistofu til þess að gera frumdrög að veglagningu samsíða gamla Þingvallaveginum, sem síðan voru send bæjarstjórn. Í og með var hugmyndin að koma samgöngumálum á dagskrá fyrir þessar kosningar, en það hefur ekki tekist. Áhugasvið manna nær ekki út fyrir nema eitt hringtorg í einu. Skyldu frambjóðendur kunna að reikna pí?

Langtímahagsmunir bæjarbúa vega því létt í dægurþrefi stjórnmálanna og reikningurinn fyrir andvaraleysi er þegar kominn í póst til skattgreiðenda. Aukin umferð lækkar fasteignaverð og setur skynsemi á haus. Nýr vegur yfir Mosfellsheiði gæti hins vegar orðið tekjulind, sú eina á Gullna hringnum og skilað sér margfalt til baka.
Framtíðin er nefnilega sú að óþarfa umferð á ekki samleið með blómlegri byggð. Mengun, slysahætta sérílagi á börnum og óbærilegur hávaði er í réttu hlutfalli við umferðarþungann.

Stjórn Víghóls hefur samþykkt að hitta að máli alla frambjóðendur sem hafa áhuga á nýrri nálgun á vanda, sem verður óleysanlegur hnútur innan fárra ára.
vigholl@mosfellsdalur.is

Halldór Þorgeirsson
Melkoti

Betri menntun í blómstrandi bæ

Hildur Björg Bæringsdóttir

Hildur Björg Bæringsdóttir

Í Mosfellsbæ er fjórðungur bæjarbúa á grunnskólaaldri og málefni dagvistunar, skóla og tómstunda því sjálfkrafa í brennidepli hjá stórum hluta bæjarbúa.
Það er okkur hjartans mál að gera betur í skólamálum, tryggja dagvistun og að börnum og starfsfólki líði vel. Það er alveg frábært hvað kennarar og starfsmenn skólanna standa sig vel miðað við þær aðstæður sem þeir hafa.

Viðreisn leggur áherslu á að bjóða börnum bæjarins upp á nútíma tækni og aðbúnað til að geta tekist á við verkefni sín í takt við þann heim sem við búum í. Samkvæmt gögnum Mosfellsbæjar, þá er gert ráð fyrir 40 milljónum króna til upplýsinga- og tæknimála hjá grunnskólum og gert er ráð fyrir eflingu tæknibúnaðar, bættan aðbúnað kennara og nemanda ásamt stuðningi við innleiðingu á fjölbreyttari kennsluháttum. Núverandi aðbúnaður er óviðunandi og þessar úrbætur því löngu tímabærar og fær bæjarstjórn klapp á bakið fyrir þær. En hér er ansi knappt í lagt. Heildarframlagið reiknast sem 22 þúsund krónur per barn. Allir kennarar eiga að fá fartölvur og í það fer væntalega helmingur upphæðinnar. Restin, 20 milljónir, fer vonandi í börnin en það dugar skammt. Þetta verður að endurskoða og tryggja raunhæft fjármagn í þennan mikilvæga málaflokk.

Fyrsta áfanga Helgafellsskóla lýkur um næstu áramót og þá hefja börn í 1-5. bekk nám þar. Þegar skólinn er fullbúinn er gert ráð fyrir 110 börnum í leikskóla og 600 í grunnskóla í 1-10. bekk. Við verðum að tryggja að fjöldi íbúa í hverfinu stemmi við stærð skólans. Varmárskóli er hannaður sem 600 barna skóli og það eru mörg ár síðan þar voru 600 börn. Nýr Helgafellsskóli léttir vissulega á, en ekki nægilega mikið.

Varmárskóli er löngu sprunginn og það er tímabært að bæjaryfirvöld opni augun og líti til framtíðar. Það er nauðsynlegt að bregðast strax við og leysa bráðvanda Varmárskóla og gera allsherjar úrbætur á skólabyggingunum. Þó ekki væri nema til samræmis við markmið um heilsueflandi samfélag og kröfur um nútíma skólahald. Nemendur Varmárskóla voru 822 skólaárið 2017/2018 og verða 868 nemendur á næsta skólaári. Þessa fjölgun á að leysa með 2 færanlegum kennslustofum. Hverfið í Leirvogstungu heldur áfram að byggjast upp og áður en við vitum af verður húsnæði í Háholti og Þverholti fullbyggt með nýju fólki sem þarf að koma börnum sínum í skóla. Í Leirvogstungu er leikskóli í færanlegum kennslustofum. Ef við byggjum strax varanlegan skóla í Leirvogstungu fyrir börn 1-9 ára, þá myndi það létta mun betur á Varmárskóla og auðvelda vinnu við endurbætur. Hefjast þarf handa strax við að byggja Leirvogstunguskóla.

Það er því ljóst að löngu tímabært er að móta skólastefnu til framtíðar og endurskoða stefnu í uppbyggingu skólamannvirkja í samráði við alla hagsmunaaðila og sem tekur mið af áætlun um íbúafjölda. Verkefnið er ögrandi og við viljum beisla tækifærin sem þessu fylgja og móta saman með íbúum bæjarins metnaðarfullt fræðslu- og tómstundastarf sem tekur mið af þörfum allra íbúanna.

Hildur Björg Bæringsdóttir
4. sæti á lista Viðreisnar í Mosfellsbæ.