Stöndum saman og styðjum hvert annað!

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Kveðja frá Lágafellskirkju
Sjaldan eða kannski aldrei höfum við glaðst eins yfir komu sumarsins eins og þetta árið. Enda hafa síðustu vikur og mánuðir verið fordæmalausir tímar vegna lítillar veiru sem hefur ógnað ekki bara okkur hér á landi heldur allri heimsbyggðinni.
Við höfum fundið fyrir henni á margvíslegan hátt vegna þeirra takmarkana sem settar hafa verið á líf okkar og sett líf og starf úr skorðum. Allt hefur það verið gert í þeim tilgangi að forðast útbreiðslu COVID-19, að verja þau í samfélagi okkar sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, aldraða og svo að heilbrigðiskerfi okkar gæti ráðið við ástandið.
Þetta virðist hafa tekist og öllum er okkur létt, þó að við séum ekki alveg komin á leiðarenda á þessari göngu. Enn er samfélagið í áfalli sem hefur haft áhrif á okkur öll andlega og líkamlega og á hag okkar ýmislegan.

Það tekur tíma að jafna sig og vinna úr áfalli og svo mun einnig vera fyrir okkur sem einstaklinga og samfélag. Það mun okkur takast með Guðs og góðra manna hjálp.
Það er ósk og von okkar presta og starfsfólks Lágafellskirkju að sóknarbörn Mosfellsprestakalls hafi og verði fyrir sem minnstum skaða á heilsu og högum öllum. Þess biðjum við einnig fyrir alla jarðarbúa.
Vegna samkomubanns og þeirra tilmæla sem því fylgja þá féll allt safnaðarstarf og hefðbundið helgihald í kirkjunum okkar niður. Þar með talið voru fermingar vorsins, sem voru fluttar á aðrar dagsetningar, meðal annars til haustsins.
Hjónavígslur hafa verið afpantaðar eða fluttar á aðrar dagsetningar og útfarir fluttar til stærri kirkna. Eins og með mörg ykkar, var að einhverju leyti unnið heima, fundað með fjarfundabúnaði og almennt tæknin tekin með okkur í lið. Það þýddi að við sendum frá okkur, „steymuðum“ guðsþjónustum, bænastundum og öðru efni á samfélagsmiðlum og má nú finna það efni á heimasíðu kirkjunnar, Facebook-síðu hennar eða Youtube.

Í þessum töluðu orðum er breytingin í starfi okkar takmörkuð vegna tveggja metra reglunnar og stærðar á því húsnæði sem við ráðum yfir. Við bjóðum áfram í sálgæslu í safnaðarheimilinu og við munum á komandi tíma bjóða upp á guðsþjónustur með breyttu sniði í kirkju eða undir beru lofti. Hægt verður að fylgjast með auglýsingum um þær á heimasíðu kirkjunnar.
Við tökum einn dag í einu. Við erum með ykkur í sama liði, stöndum saman og gerum okkar besta hvert og eitt okkar og sem samfélag með það/þau verkefni sem okkur er falið á hverjum stað og tíma.
Guð gefi okkur öllum góða tíð og fallegar stundir.

Fyrir hönd starfsfólks og presta Lágafellssóknar.
Sr. Ragnheiður Jónsdóttir
sóknarprestur