Rússneska keisaradæmið í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Ánægjulegt er að líta til baka og sjá hvað hefur áunnist síðustu misserin. Það sem einna mest hefur komið á óvart er hve fundir bæjarstjórnar eru líflegir og sérstaklega þegar slökkt er á myndavélinni og forseti bæjarstjórnar tilkynnir fundarmönnum að skollið sé á fundarhlé.
Vinarþel og varfærni í orðfari fara þá oft veg allrar veraldar þegar vígvöllurinn er í raun mest lifandi. Stundum eru atlot bæjarstjórnarmanna góð og oft skapast þar ansi náin kynni. Það er sérstaklega ánægjulegt enda slíkt vel þekkt úr hinum rómaða rússneska bókmenntaarfi.
Á vígvellinum er síðan slökkt þegar kveikt er á upptökutækjum fundarins. Prúðbúnir bæjarfulltrúar og nýkjörnir pörupiltar Mosfellsbæjar birtast þá á alheimsnetinu eins og styrjöld hafi aldrei verið háð og skotgrafir aldrei grafnar.

Eftir ósigur Rússa í Krímstríðinu 1856 varð öllum í Rússlandi ljóst að til einhverra umbóta varð að grípa svo rússneska keisaradæmið ætti ekki að liðast í sundur. Fullyrt er að gerspillt embættismanna- og stjórnkerfi, lélegar samgöngur og frumstæður iðnaður hafi ekki síður átt þátt í ósigri Rússa en hrakfarir á vígvellinum. Brugðist var m.a. við með því að breyta skipan sveitarstjórnarmála í Rússlandi. Lénsherrar höfðu ráðið yfir sveitarstjórnum svo áratugum skipti, ef ekki öldum. Hafði Nikulás I á þessum tíma nýlega gefið upp öndina og var fáum harmdauði. Alexander II, sonur hans, tók við og hóf að hrinda miklum umbótum í framkvæmd.
Þó svo að Alexander II hafi nú ætlað sér að hefja umbótastarf hafði hann engin áform um að hrófla við einveldinu frekar en faðirinn. Losaði hann bændur undan átthagafjötrum en skuldsetti þá hressilega í staðinn. Hver þekkir ekki þessa áhugaverðu aðferð við lánveitingar og kröfugerðir?
Vildi Alexander II auka samkeppnishæfni Rússa gagnvart öðrum ríkjum og það fór með hann eins og aðra ágæta umbótamenn að hann var sprengdur í loft upp 1881. Tók þá við sonurinn, Alexander III, og hafði þá frétt að faðir hans hafi hlotið ömurleg örlög eftir allan velgjörninginn sem hann hafði veitt almúganum er fólst m.a. í því að hætta að pína fólk og limlesta. Alexander III tók upp gamla iðju og dró til baka umbætur föður síns og gott betur. Það má segja í þessu samhengi að brennt barn forðist eldinn.

Í ljósi þessa sögubrots frá Rússlandi er afar áhugavert sögulega séð að enn sé á Íslandi hinu góða einhvers staðar ríkjandi virk ritskoðun, skotgrafahernaður og raunveruleg barátta á virkum vígvelli með öllum þeim rómans og ástríðu sem finna má í bestu bókmenntaverkum sögunnar.
Það eru því forréttindi fyrir hvern sem er að sitja í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Þar er af nægu að taka þó svo að umbætur undanfarin kjörtímabil hafi verið afar takmarkaðar. Í einhverjum mæli hefur verið um afturför að ræða eftir að hörundsárir hafa farið í baklás eftir að hafa skaðbrennt sig á umbótum. Fram undan eru nú bjartir tímar og gleðilegir. Ef þessi ástríða og allt þetta umrót heldur áfram með ,,dash“ af umbótum getur maður nærst vel í nágvígi því sem felst með setu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Sveinn Óskar Sigurðsson
Fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Mosfellsbæjar