Frístundaávísun fyrir 5 ára börn

Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir

Skipulagt íþrótta- og tómstundastarf hefur margsannað forvarnargildi sitt og stuðlar að heilbrigðum og jákvæðum lífsstíl. Mosfellsbær sem og önnur sveitarfélög hafa stutt við slíka iðkun með frístundaávísunum fyrir aldurshópinn 6-16 ára.
Það hefur færst í vöxt undanfarin ár að bjóða upp á skipulagt íþrótta- og tómstundastarf fyrir 4 og 5 ára börn. Það hefur sýnt sig að eftirspurn er eftir því og á vegum Aftureldingar er til að mynda boðið upp á fimleika, fótbolta, sund og körfubolta fyrir þennan aldurshóp. Einnig hefur verið boðið upp á sundnámskeið og svo hefur hinn sívinsæli Íþróttaskóli barnanna verið rekinn um árabil.

Það eru samtals um 140 börn í árgangi 2015 og 2014 í Mosfellsbæ og eru iðkendur í skipulögðu íþróttastarfi í þessum aldurshópi á bilinu 180-200 börn. Því má gera ráð fyrir að 64-71% barna í þessum hópi stundi að jafnaði einhvers konar skipulagt íþrótta- eða tómstundastarf. Það er frábær virkni hjá þessum yngsta aldurshópi og endurspeglar kraftmikið starf og dugmikla foreldra.
Til að koma til móts við þennan hóp þá lagði Viðreisn í Mosfellsbæ til í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar 2020 að 4 og 5 ára börn fengju frístundaávísun og yrði 50% af upphæðinni sem grunnskólabörn fá eða kr. 26.000 á ári.
Tillagan var að hluta til samþykkt í bæjarstjórn og er niðurstaðan sú að aldursviðmið frístundávísunar hafa verið færð niður í 5 ára frá og með árinu 2020 og er upphæðin kr. 26.000 á barn.

Valdimar Birgisson

Þetta eru frábærar fréttir og góð búbót fyrir barnafólk í Mosfellsbæ og styður enn við öflugt íþrótta- og tómstundastarf í bænum. Viðreisn mun halda áfram að vinna að málefnum barnafólks og munum við leggja áherslu á að frístundaávísunin nái einnig til 4 ára barna við gerð næstu fjárhagsáætlunar.
Hvetjum við alla foreldra 5 ára barna að sækja um frístundaávísun þegar næsta tímabil ávísunarinnar hefst þann 15. ágúst nk.

Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, varafullltrúi Viðreisnar í Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar
Valdimar Birgisson, bæjarfulltrúi Viðreisnar í Mosfellsbæ