„Það bera sig allir vel“

Margrét Guðjónsdóttir

Þennan texta hafa landsmenn sungið með Helga Björnssyni tónlistamanni á hverju laugardagskvöldi meðan hinn alræmdi COVID-19 sjúkdómur hefur gengið yfir heimsbyggðina.
Segja má að með þessum orðum hafi Helgi hitt naglann á höfuðið, við höfum almennt borið okkur vel. Ekki hefur þessi veira þó látið okkur Íslendinga ósnerta með andláti tíu einstaklinga sem smituðust af veirunni og aðrir þjást enn af eftirköstum sjúkdómsins.

Þessi veira hefur líka leikið efnahag þjóðarinnar grátt og margir einstaklingar eiga í vanda vegna þess. Atvinnuleysi er mikið sem getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir hvern þann sem í því lendir. Vonandi er þó að aðeins sé um tímabundið ástand að ræða í þeim málum. Þessi veira hefur þó líka orðið til þess að við höfum haft meiri tími til að sinna okkar nánustu fjöldskyldu og haft tíma til að staldra við og fara yfir hvað það er sem er verðmætast í okkar lífi.

En við höfum borið okkur vel og virðumst vera að koma ótrúlega vel út úr þessu hættustigi sem enginn vissi hvert gæti leitt okkur. Þetta hefur verið óvissuferð en við höfum öll verið í henni saman. Samstaða og samtakamáttur þjóðarinnar allrar hefur verið til fyrirmyndar, fagmenn fengið að stjórna og eigum við mörgum að þakka.

Það hefur oft sýnt sig að með samtakamætti stendur íslenska þjóðin saman þegar vá steðjar að. Upplýsingafundir um stöðu mála frá degi til dags hafa veitt þjóðinni öryggi og vissu um að heilbrigðiskerfið réði við verkefnið. Þetta gagnsæi er mjög mikilvægt í hverju verki sem er og á það einnig við á sveitarstjórnarstigi. Að íbúar séu vel upplýstir um hvað stendur til, bæði í þeirra nærumhverfi og sveitarfélaginu öllu og komi þannig að stefnumótun allri.

Ég veit að ef við stöndum saman og leyfum þeim mannauði sem byggir landið okkar góða að njóta sín eigum við góða tíma fram undan. Við skulum þó ekki horfa fram hjá því að margir eiga erfitt og hugum að þeim eins og kostur er. Lítum í kringum okkur og athugum hvort við séum fær um að veita hjálp.
Það er óskandi að þetta erfiða tímabil verið skammvinnt og með hækkandi sól getum við horft bjart fram á veginn, því lífið er gott sem betur fer.

Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur er varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar