Fornleifar og elstu húsin í Mosfellsbæ

Guðjón Jensson

Innan Mosfellsbæjar eru einungis tvennar fornleifar sem eru á skrá yfir friðaðar fornminjar. Fyrir áratugum voru þær teknar á skrá og þar við situr.
Þær eru annars vegar gamlar fjárborgir sitt hvoru megin við þjóðveginn uppúr Mosfellsdal, um einn kílómetra austan við Gljúfrastein. Þá eru fornminjar lengst og vestast í Mosfellsbæ á utanverðu Blikastaðanesi sem á síðustu árum hafa verið að eyðast sökum sjávarrofs. Fyrir um 40 árum birtist grein eftir Kristján Eldjárn fyrrum forseta um rústir þessar og má lesa um þær í greininni: Leirvogur og Þerneyjarsund sem birtist í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1980, bls. 25 og áfram. Talið er að þær séu leifar aðstöðu tengdar verslun og siglingum á miðöldum um Leirvog og Þerneyjarsund.
Spurning er hversu unnt er að bjarga því sem bjargað verður. Sjórinn nagar stöðugt í bakkann og skolar jarðveginum burt og þar með þessum fornu rústum.

En það eru ýmsar áhugaverðar menningaminjar innan lögsögu Mosfellsbæjar. Syðst í bæjarlandinu er eyðibýlið Elliðakot sem var á ofanverðri 19. öld stórbýli en var yfirgefið skömmu fyrir miðja síðustu öld. Þar er að finna einstakt fyrirbæri sem óvíða má sjá orðið á Íslandi, gamlar traðir um hlaðvarpann.
Þessar traðir voru almennt eyðilagðar þegar skurðgröfur og jarðýtur voru teknar í notkun til að slétta út tún. Líklega eru þessar gömlu traðir einna best sýnilegar að Keldum á Rangárvöllum og Núpsstað austast á Síðunni í Skaftafellssýslu.

Í Seljadal er gömul rétt, Kambsrétt, sem vel kann að vera að þar hafi verið Viðeyjarsel á miðöldum. Þar er gömul þjóðleið inn eftir Seljadalnum, vestasta gamla leiðin sem yfir Mosfellsheiðina liggur. Þar var leið þriggja konunga.
Því miður hafa ökumenn verið að aka eftir þessari leið og verður það að teljast mjög miður því þessar gömlu hestagötur voru ekki lagðar fyrir jeppa sem kannski eru þyngri en 2 tonn.
Eins er með gömlu leiðirnar yfir Mosfellsheiðina. Hefur leiðin sem nefnd hefur verið Gamli Þingvallavegurinn verið stórskemmd af akstri jeppa undanfarinna áratuga. Þetta eru hestavegir og þess vegna góðar gönguleiðir, kannski hjólandi en alls ekki ætluð vélknúnum ökutækjum.
Aðrar gamlar minjar eru víða eins og gamlar leiðir, vörður, seljarústir og rústir tveggja sæluhúsa. Líklega verða þær ekki taldar í hættu þar sem þær eru utan almennra leiða en æskilegt væri að varðveita sem mest.
Nú er miðað við 100 ára aldur mannvirkja þegar um fornleifar er að ræða. Lagaumhverfið eru lög nr.80/2012 um minningarminjar sem leysti af eldri lög eins og þjóðminjalög, lög um húsafriðun og fleira.
Gömul hús og byggingar eru ekki mörg innan Mosfellsbæjar. Elsti hluti Laxnessbæjarins er frá lokum 19. aldar þá Páll Vídalín hrossakaupmaður var þar með sína starfsemi. Skammt þar frá er gamli bærinn að Hraðastöðum frá því í byrjun 20. aldar.
Elsta húsið á Blikastöðum, gamli bærinn, er frá því um 1910 og stendur að húsabaki norðan við. Og ekki má gleyma sjálfri Lágafellskirkju, eitt fegursta og mesta húsadjásnið í Mosfellsbæ. Gamli bærinn á Lágafelli var fluttur niður í kvosina ofan við Hlíðartúnshverfið. Það hús er frá því um aldamótin 1900.

Þá er í Mosfellsdal gamalt frístundahús, Hjaltastaðir sem Hjalti Jónsson, Eldeyjar-Hjalti, reisti fyrir um 100 árum síðan. Líklega er þetta eitt af elstu húsum sinnar tegundar og er augljóst vitni um nýja og betri tíma þegar íslensk borgarastétt kemur sér upp sveitarsetri.
Þetta lágreista hús ber aldurinn vel en því hefur verið mjög vel haldið og er í eigu niðja Hjalta að því mér best skilst. Þar er gamall trjálundur sem mun vera nálægt 90 ára gamall að stofni til og Eldeyjar-Hjalti gróðursetti.

Og það mætti sjálfsagt bæta við þessa skrá en það er hlutverk samtíðarinnar hverju sinni að færa til bókar það sem rétt þykir að halda til haga.

Guðjón Jensson