Vorið kemur, heimur hlýnar

Michele Rebora

Þvílík forréttindi eru að búa í nánd við náttúru, í bæjarfélagi sem umkringt er fallegum gönguleiðum hvort sem er við sjávarsíðu, í skóglendi eða upp á fjalli. Fuglasöngur og hófadynur fylla loftið í kvöldkyrrðinni. Ríkidæmi sem ekki er sjálfgefið og ber að varðveita. Passa þarf upp á að stækkandi bær glati ekki sérstöðu sinni sem sveit í borg.
Umhverfismál eru sífellt fyrirferðarmeiri í hugum flestra. Margir bæjarbúar láta sér ekki nægja að fegra og snyrta garðinn sinn, heldur taka til hendinni í nærumhverfi og leggja sitt af mörkum, til dæmis með því að plokka. Þeim fjölgar sem líta á reiðhjól sem raunhæfan kost í samgöngum.
Það sem af er kjörtímabilinu hefur gott samstarf milli fulltrúa allra lista náðst á vettvangi umhverfisnefndar bæjarins og hefur það meðal annars skilað sér í metnaðarfullri umhverfisstefnu Mosfellsbæjar, sem samþykkt var síðasta haust.
En mikilvægt er að efndir fylgi orðum og stefnan sé höfð að leiðarljósi í allri starfsemi sveitarfélagsins.
Spennandi áfangar eru í sjónmáli, svo sem langþráð opnun gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU í Álfsnesi, sem mun umbylta meðhöndlun lífræns úrgangs frá heimilum höfuðborgarsvæðisins og stórauka framboð á vistvænu svansvottuðu íslensku eldsneyti, metani.
Unnið er með Umhverfisstofnun að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Álafoss og Tungufoss og horft er til mögulegrar stækkunar á friðlýstu svæði við Varmárósa. Leitað er varanlegra leiða til að tryggja vernd og notagildi Varmár sem útivistarsvæðis í hjarta bæjarins. Mörg önnur verkefni á sviði umhverfismála bíða okkar og ég hlakka til þeirra.
Göngum vel um náttúru og njótum sumarsins í fallega bænum okkar.

Michele Rebora
Aðalmaður Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd