Bætt lýðheilsa = sparnaður í heilbrigðiskerfinu

Bryndís Haraldsdóttir

Lýðheilsuaðgerðir miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga og þjóðarinnar í heild með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu.
Hið opinbera á að skapa fólki aðstæður í samfélaginu sem auðvelda því að stunda heilbrigða lífshætti og efla vitund fólks og vitneskju um mikilvægi þess. Fáir deila um mikilvægi þess að íslenska ríkið greiði niður skuldir þar sem það sparar vaxtagreiðslur til framtíðar.
Svipað er hægt að segja um fjármuni sem varið er til aukinnar heilsueflingar til að bæta lýðheilsu. Slíkt sparar umtalsverð útgjöld til heilbrigðismála til lengri tíma.

Heilsubærinn Mosfellsbær
Mosfellsbær hefur staðið sig einstaklega vel í að viðhalda og varðveita útivistarsvæði bæði innan byggðarinnar og í útjaðri byggðar. Í þessu felast raunveruleg verðmæti fyrir komandi kynslóðir sem við fáum líka að njóta strax. Tveir golfvellir, tvær sundlaugar, mikið magn göngu- og hjólastíga og stikaðar gönguleiðir á öll fellin okkar meðfram ám og vötnum.
Óhætt er að segja að á tímum Covid hafi útivistarsvæðin sannað gildi sitt svo um munar. Yndislegt hefur verið að fylgjast með fjölskyldum í fjöruferð, fólki á öllum aldri á golfvellinum og aukinn áhugi á fellunum okkar og fossunum hefur heldur betur sýnt sig á þessum furðulegu tímum.
Rannsóknir sýna að gott aðgengi að útivist og fallegu umhverfi eru álitin ómetanleg lífsgæði og það eykur hamingju íbúa. Það stuðlar að aukinni lýðheilsu og sparar fjármuni til framtíðar í heilbrigðis­þjónustu.

Framtíðin er björt
Með bætta lýðheilsu og bjartsýni að leiðarljósi býð ég fram krafta mína til setu á Alþingi. Ég hef í störfum mínum talað fyrir enn betra samfélagi fyrir fjölskyldur í landinu.
Ég hef talað fyrir jafnrétti og umhverfisvernd, ég hef talað fyrir nýsköpun og öflugu atvinnulífi. Ég hef talað fyrir bættum samgögnum og auknu valfrelsi í samgöngum. Ég hef talað fyrir nýrri nálgun í heilbrigðis­málum. Árangur núverandi ríkisstjórnar hefur ekki látið á sér standa.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur ríkissjóður haft bolmagn til að taka á móti heimsfaraldri með öflugum stuðningsaðgerðum sem tryggðu rekstrargrundvöll fyrirtækja og um leið afkomu heimilanna í landinu. Allir mælikvarðar benda til þess að aðgerðir okkar síðustu kjörtímabil og þær ákvarðanir sem teknar voru í ríkisfjármálum séu grundvöllur þeirrar viðspyrnu sem Ísland býr yfir nú þegar við búum okkur undir að vaxa út úr faraldrinum.
Setjum X við D, strax í dag, og tryggjum að Ísland verði áfram land tækifæranna.

Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

Samvinna, Samgöngu­sáttmáli og Sundabrú

Willum Þór Þórsson

Við þekkjum öll þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í uppbyggingu á samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins undanfarna áratugi. Á sama tíma hefur umferðarþunginn aukist og ferðir til og frá vinnu geta tekið óratíma sérstaklega á háanna­­tíma.
Fyrir þetta kjörtímabil, sem nú er að ljúka, vorum við komin í skuld við vegakerfið vítt og breytt um landið. Hluti af vandamáli höfuðborgarsvæðisins voru deilur milli sveitarfélaganna varðandi framtíðar fyrirkomulag samgangna á svæðinu.
Sveitarfélögin höfðu öll mismunandi sýn og áherslur í málaflokknum sem gerði það að verkum að pattstaða myndaðist og ekkert gerðist. Ekki fyrr en formaður Framsóknar, Sigurður Ingi, settist í stól samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. Sigurður Ingi er nefnilega samvinnumaður af gamla skólanum og hann náði að byggja brýr milli ólíkra sjónarmiða og hagsmuna þessa sex sveitarfélaga.
Útkoman úr þeirra samvinnu og samtali er eitt stærsta framfaramál kjörtímabilsins. Samgöngusáttmáli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þar er að finna umfangsmikla uppbyggingu á stofnbrautum svæðisins, innviðum, almenningssamgöngum, göngu- og hjólastígum sem og umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu. Í náinni framtíð munum við sjá þau verkefni sem heyra undir sáttmálann fara í framkvæmd hvert á fætur öðru.
Einnig þekkjum við umræðuna um Sundabraut eða Sundabrú. Sú umræða hefur dúkkað upp fyrir kosningar síðan ég fékk kosningarétt. Það var því afar ánægjulegt að sjá málið komast formlega af stað í sumar eftir gríðalega vandaða undirbúningsvinnu. Ferlið er hins vegar langt enda gríðalega stór framkvæmd. Stefnt er að því að hægt verði að fara yfir brúna árið 2031.
Sundabrú mun létta mikið á umferð í Mosfellsbæ og Ártúnsbrekku og auka þannig lífsgæði þeirra sem búa á svæðinu.
Framsókn er samvinnuflokkur, svona vinnum við!

Willum Þór Þórsson
1. sæti Framsókn Suðvestur

Lög unga fólksins

Leifur Ingi Eysteinsson

Í aðdraganda kosninga þá rignir yfir okkur alls kyns auglýsingum um það sem flokkarnir ætla að gera eftir kosningar.
Trúverðugleiki flokka er hins vegar misjafn og er því mikilvægt að skoða verkin frá líðandi kjörtímabili og meta það út frá þeim.
Fyrir ungt fólk, sem er að taka þátt í sínum fyrstu kosningum, langar okkur að draga aðeins fram tvö mál sem Framsókn kom í gegn á liðnu kjörtímabili sem snerta hag okkar unga fólksins.

Menntasjóðurinn
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra umbylti lánaumhverfi námsmanna á kjörtímabilinu með stofnun Menntasjóðsins sem tekur við af LÍN. Nýr menntasjóður er með hærri framfærslu, möguleika á 30% niðurfellingu höfuðstóls, val um óverðtryggð lán og beinan fjárstuðning við foreldra í námi. Þetta er mesta framfaramál ungra námsmanna í áratugi.

Kjartan Helgi Ólafsson

Hlutdeildarlánin
Fyrir ungt fólk hefur reynst erfitt að koma sér inn á húsnæðismarkaðinn en hlutdeildarlánin sem Ásmundur Einar félags- og barnamálaráðherra kom með á kjörtímabilinu aðstoða einmitt ungt fólk að komast inn á þann markað. Það brúar bilið við fyrstu kaup og þarf þá einungis að leggja fram 5% af kaupverði eignarinnar en HMS lánar 20% sem hlutdeildarlán og það ber enga vexti eða afborganir. Stórt framfaramál fyrir ungt fólk.

Afrekalisti Framsóknar á kjörtímabilinu er langur og mörg framfaramál fyrir ungt fólk farið í gegn til viðbótar við þessi tvö hér að ofan. Það gefur okkur trúverðugleika þegar við tölum inn í framtíðina. Við tölum ekki fyrir neinum byltingum heldur framförum og raunhæfum lausnum.
Ungt fólk er framarlega og áberandi á listum Framsóknar t.d. hér í Suðvesturkjördæmi þar sem þrír af fimm efstu eru undir 35 ára. Á næsta kjörtímabili er mikilvægt að halda áfram veginn sem lagður var á síðasta kjörtímabili. Verkefnin framundan eru krefjandi og það mun skipta máli hverjir halda um stjórnartaumana. Framtíðin ræðst á miðjunni. XB fyrir unga fólkið.

Leifur Ingi Eysteinsson og Kjartan Helgi Ólafsson,
höfundar eru stjórnarmenn
í Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar

Afturelding spilar í Pepsi Max deild kvenna á næsta tímabili

Birna Kristín Jónsdóttir

Það var frábær stemming á Fagverksvellinum fimmtudaginn 9. september. Rúmlega 500 manns voru mættir á völlinn í boði Jako til þess að styðja stelpurnar okkar í úrslitaleik á móti FH um sæti í deild þeirra bestu að ári og ný vallarklukka leit dagsins ljós.
Ljóst var fyrir leikinn að liðið sem ynni færi upp, leikurinn var í járnum framan af en um leið og fyrsta markið kom var þetta aldrei spurning og niðurstaðan 4 – 0 fyrir Aftureldingu. Liðið stóð sig hrikalega vel, brjáluð barátta í stelpunum allan tímann og lang markahæsta konan í Lengjudeild í ár kemur úr okkar röðum, Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir skoraði 23 mörk og ég held að þetta hafi verið skrifað í skýin en hún spilar einmitt í treyju númer 23.
Teymið allt í kringum liðið í sumar hefur verið samstíga og mjög öflugt. Mig langar að nota tækifærið til að þakka öllum sjálfboðaliðunum sem hafa lagt hönd á plóginn. Þetta gerist ekki af sjálfu sér það er alveg ljóst. Sjálfboðaliðinn er einn mikilvægasti hlekkurinn í okkar starfi og eigum við mikið undir ykkur öllum.
Við erum ótrúlega rík og í raun ótrúlegt hvað fólk er tilbúið að leggja mikið á sig. Ég tala fyrir mig sjálfa að oft og tíðum er starfið erfitt og ég velti alveg fyrir mér af hverju ég er að eyða öllum þessum tíma í þetta.
Svo koma svona uppskerustundir og þá er þetta allt þess virði – Takk öll. Áfram Afturelding.

Birna Kristín Jónsdóttir,
formaður Aftureldingar.

Mikilvægi hreyfingar

Ragnheiður Vídalín Gísladóttir

Ávinningur þess að stunda íþróttir er mikill fyrir líkamlega og andlega heilsu.
Við sem búum í Mosfellsbæ erum heppin með þann fjölda íþróttagreina sem eru í boði fyrir okkur. Nú þegar haustið er komið þá fara margir að huga að því að æfa. Þá er gott að geta farið og prófað mismunandi íþróttagreinar því það sama hentar ekki öllum. Á heimasíðu Aftureldingar er hægt að sjá hvaða íþróttagreinar eru í boði.
Við hjá Taekwondodeild Aftureldingar viljum vekja athygli á starfinu hjá okkur. Taekwondo er ólympísk bardagaíþrótt þar sem iðkendur læra sjálfsvörn og aga, þá eflir taekwondo sjálfstraust, liðleika, þol og þrek.
Við erum með frábæran hóp þjálfara, iðkenda og foreldra. Það er í boði að koma og prófa æfingar frítt hjá okkur í tvær vikur.
Æfingar fara fram í bardagasal Aftureldingar að Varmá. Taekwondo hentar öllum og er hægt að byrja að æfa á hvað aldri sem er. Iðkendur hjá okkur eru á aldrinum 6-50 ára. Almennar æfingar eru fyrir alla frá 6 ára aldri. Krílatímar eru fyrir 3-5 ára og TKD fitness eru styrktar- og brennsluæfingar fyrir 18 ára og eldri.
Á heimasíðu okkur www.afturelding.is/taekwondo er hægt að sjá stundatöflu og upplýsingar um þjálfara. Nánari upplýsingar er hægt að fá í gegnum tölvupóst taekwondo@afturelding.is

Ragnheiður Vídalín Gísladóttir,
formaður Taekwondodeildar Aftureldingar

Jafnrétti fyrir okkur öll

Una Hildardóttir

Frá árinu 2006 höfum við haldið Jafnréttisdag Mosfellsbæjar hátíðlegan í kringum 18. september en dagurinn er fæðingardagur Helgu J. Magnúsdóttur fyrrum oddvita Mosfellsbæjar sem lét sig málefni kvenna varða með ýmsum hætti. Hún var til að mynda formaður Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu og formaður Kvenfélagasambands Íslands.
Helga lést árið 1999 og upplifði miklar framfarir í jafnréttismálum á æviskeiði sínu. Í formannstíð Helgu í Kvenfélagasambandinu var Leiðbeiningastöð heimilanna stofnuð og skrifstofa sambandsins flutt að Hallveigarstöðum en hún var ein þeirra baráttukvenna sem gerðu Kvennaheimilið á Hallveigarstöðum að veruleika.

Jafnréttisdagurinn nú á dagskrá grunnskólanna
Þegar lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar tók fyrstu skrefin við skipulagningu dagskrár jafnréttisdagsins í ár varð fljótt ljóst að óvíst væri hvort heimsfaraldur gæti haft áhrif á dagskrána í ár. Ákvað nefndin að í ár yrðu hátíðarhöldin rafræn og þeim streymt á miðlum Mosfellsbæjar.
Það var samhugur um umræðuefnið, stöðu trans barna og ungmenna í Mosfellsbæ og fylltist dagskráin hratt og örugglega. Það er fagnaðarefni, í ljósi ötullar baráttu Helgu frá Blikastöðum fyrir menntun og menntunartækifærum kvenna, að dagskrá jafnréttisdagsins var streymt í öllum grunnskólum bæjarins í dag. Að dagurinn hennar sé nýttur til þess að fræða ungt fólk, draga úr fordómum og auka samstöðu og sýnileika í jafnréttisbaráttunni.
Síðastliðin 15 ár hef ég, líkt og Helga upplifað miklar framfarir í jafnréttismálum, sérstaklega er kemur að breyttu viðhorfi til kynjajafnréttis. Jafnrétti kynjanna er ekki lengur bara spurning um tvö kyn og baráttu kvenna sem enn er ekki lokið.
Með tilkomu laga um kynrænt sjálfræði höfum við styrkt réttindi trans og intersex fólks, sérstaklega barna. Lýðræðis- og mannréttindanefnd þótti þarft að fjalla sérstaklega um stöðu trans barna, auka sýnileika og fræða okkur og aðra til þess að draga úr fordómum og bæta þjónustu og stuðning.

Fögnum fjölbreytileikanum
Á rafrænum jafnréttisdegi veittum við jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar í 15. sinn en í ár hlýtur Hinsegin klúbbur Bólsins viðurkenninguna. Hinsegin klúbburinn var stofnaður árið 2019 og er vettvangur þar sem öll ungmenni á aldrinum 13-18 ára geta verið þau sjálf og er þátttakendum gefið færi á að fræðast frekar um hinsegin málefni.
Starfsemi klúbbsins er kærkomin viðbót í flóru félagsstarfs í Mosfellsbæ en þar er meðal annars staðið að fjölbreyttri fræðslu, m.a. kynfræðslu og hafa samtök eins og #Sjúkást og Eitt líf í komið í heimsókn.
Með viðurkenningunni vill lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar viðurkenna þörfina fyrir öruggan vettvang fyrir hinsegin ungmenni. Tryggjum að við öll, sem búum í Mosfellsbæ, njótum sömu mannréttinda – óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu eða kyneinkennum.

Una Hildardóttir,
höfundur er formaður Lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar.

Miðflokkurinn lætur verkin tala og stendur við gefin fyrirheit

Sveinn Óskar Sigurðsson

Nú stefnir í annað hvort óbreytt stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á landsvísu eða óhreina vinstri stjórn.
Við Mosfellingar höfum búið við vinstri stjórn Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ um árabil og við sjáum hve hægt gengur að halda eignum bæjarins við og tryggja afburða þjónustu m.a. á sviði málefna fatlaðra og þeirra sem sárlega vantar félagslegt húsnæði. Biðlistar myndast og skuldir hrannast upp. Það er nú orðið lenska hjá meirihlutanum í Mosfellsbæ að benda á einhvern annan nafla en sinn eigin þegar fjárhagur bæði sveitarfélags og ríkis er kominn í hnút. Hins vegar bera þessir aðilar ábyrgð. Er ekki rétt að láta þá sæta þeirri ábyrgð?

Árið 2002, um það leyti þegar fáir vinstri menn tóku öll völd í Sjálfstæðisflokknum í Mosfellsbæ og fulltrúar Nýs vettvangs, fyrrum R-listans, gengu þar inn, ritaði núverandi bæjarstjóri grein með yfirskriftinni; „Er ekki kominn tími til að skipta?“. Þar mælti bæjarstjórinn eindregið gegn framkvæmdum á Blikastaðalandi og vildi fremur þétta byggð í miðbæ Mosfellsbæjar. Þéttingin hófst reyndar heimavið hjá honum sjálfum. Við vitum öll hvert það verkefni er komið og nú stefnir í enn frekari þéttingu byggðar meðfram borgarlínu sem nú er sögð forsenda fyrir að Blikastaðalandið byggist upp. Hvað með Sundabraut?

Bæjarstjórinn hefur nú tryggt að miklum fjármunum Mosfellinga verði varið í borgarlínu svo verkefnið, sem hann var sjálfur mótfallinn, nái nú fram að ganga. Í sömu grein fjallar hann um alla þá pytti sem hann situr nú sjálfur í, ásamt félögum sínum og Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Hann hefur því tekið bæjarbúa í skógarferð sem endaði í feni, skuldafeni.

Sama virðist stefna í varðandi núverandi stjórnvöld sem orna sér, rétt eins og bæjarstjóri okkar, við þann eld sem brennur vegna COVID-19 heimsfaraldursins og bendir á að í honum brunnu eignir, tækifæri og væntingar bæjarbúa til að lækka skuldir. Þá er fullyrt að þetta sé hvorki ríkisstjórn Íslands né bæjarstjórnarmeirihluta í Mosfellsbæ að kenna. Þetta var allt vegna COVID-19.

Vandinn er í raun og sann fortíðarvandi. Skuldir bæjarfélagsins eru ekki komnar til aðeins vegna COVID-19 og sama með ríkissjóð Íslands. Nú hefur verið gefið á garðann í Mosfellsbæ og enn er gefið. Sama hefur verið gert með uppboðseignum hjá ríkissjóði, fasteignum almennings sem seldar voru á „spott prís“ ásamt gjafafé sem afhent var á báðar hendur í heimsfaraldrinum. Hefur þessu verið rétt skipt. Nei, alls ekki. Þessu er svo ætlað að mæta með aukinni skattlagningu og enn stærra bákni.

Við Mosfellingar getum hvorki búið lengur við vinstri stjórn hér í Mosfellsbæ né á landsvísu. Við þurfum að kjósa flokk sem þorir, flokk sem stendur við gefin fyrirheit og þá sem hafa sýnt og sannað að það er almenningur í landinu sem gengur fyrir. Miðflokkurinn leggur áherslu á að gera skattborgara að eftirlitsaðilum almannafjár, bæta samgöngur án endalausra umferðartafa, skilvirkara heilbrigðiskerfi án biðlista, bætt kjör eldri borgara, Sundabraut og nægt lóðaframboð. Við viljum taka stjórn á landamærum Íslands, auka ferðafrelsi um hálendið og hafna ofríki ríkisvaldsins þegar kemur að hálendi Íslands og orkuöflun. Við viljum einfalda regluverkið og tryggja að bæði sveitarfélög og ríki séu betur rekin en nú í dag. Umhverfismálin eru í ólestri og ímyndunarstjórnmál þar sem hver fjöðurinn á eftir annarri er dregin yfir raunverulega stöðu mála.

Því er rétt að ítreka fyrirsögn bæjarstjórans í Mosfellsbæ frá árinu 2002: „Er ekki kominn tími til að skipta?“.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
höfundur er fulltrúi Miðflokksins í bæjarráði
og bæjarstjórn í Mosfellsbæ.

Tryggjum niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu

Elín Anna Gísladóttir

Þann 9. september síðastliðinn birti heilbrigðisráðuneytið tvær áfangaskýrslur um óbein áhrif af Covid-19.
Það þarf í sjálfu sér ekki að koma mikið að óvart að úr þessu má lesa að geðheilbrigði þjóðarinnar hefur farið versnandi. Sérstaklega er tekið fram að faraldurinn hafi haft afgerandi neikvæð áhrif á líðan framhaldsskólanema.
Sama dag og þessi skýrsla kemur út þá birtist áskorun frá Sálfræðingafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands um að standa við stóru orðin og fjármagna lög um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Lög sem að allir þingmenn Alþingis samþykktu en ríkisstjórnin hefur svo ekki séð um að fjármagna. Samt vitum við með staðreyndum að þörfin er mikil og hefur líklega sjaldan verið jafn brýn og nú.
Þessi lög sem félögin vísa í, í áskorun sinni, eru einmitt lög sem urðu að veruleika fyrir tilstilli Viðreisnar. Frumvarp sem ég er gríðarlega stolt af að minn flokkur hafi leitt og náð fram breiðri samstöðu um. Við vitum það í Viðreisn að niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu skiptir máli og á að vera sjálfsagður hlutur. Við erum komin á þann stað núna 2021 að vita það að andleg heilsa skiptir alveg jafn miklu máli og sú líkamlega. Svo það er mikilvægt að við veitum fólki tækifæri til þess að geta sótt sér þessa þjónustu.
Við munum halda áfram að berjast fyrir þessu máli svo að sem allra fyrst geti Íslendingar gengið að þessu sem sjálfsögðum hlut. Það er mikilvægt fyrir okkur öll og þá sérstaklega unga fólkið okkar sem kemur nú út úr þessum heimsfaraldi verr statt andlega en það var fyrir faraldurinn. Sjáum til þess að þeirra bíði kerfi sem getur stutt þau við að vinna sig út úr þessu svo þetta þurfi ekki að fylgja þeim út lífið.

Gefðu framtíðinni tækifæri!
Settu X við C þann 25. september.

Elín Anna Gísladóttir,
höfundur skipar 3. sæti á lista
Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.

Betra líf fyrir fjölbreyttar fjölskyldur

Gerður Pálsdóttir

Alþingiskosningar nálgast. Nú hefur þú, kjósandi góður, tækifæri til að kjósa með breytingum til betra lífs fyrir allar fjölskyldur á Íslandi.
Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðarþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti.

Endurreisn barnabótakerfisins
Samfylkingin ætlar að endurreisa barnabótakerfið að norrænni fyrirmynd. Það gerum við með því að hækka skerðingarmörk tekjutengdra barnabóta úr 351 þús. kr. fyrir einstæða foreldra í 600 þús. kr. og sömu mörk fyrir par í 1.200 þús. kr. Þannig jöfnun við kjörin og léttum undir með barnafjölskyldum. Tillögur Samfylkingarinnar eru fullfjármagnaðar, sanngjarnar og jafnaðarstefna í framkvæmd. Við hvetjum kjósendur til styðja okkur svo að þessar breytingar verði gerðar á barnabótakerfinu.

Þórunn

Mikilvægi sterkrar velferðarþjónustu
Samfylkingin ber ábyrgð á framgangi jafnaðarstefnunnar á Íslandi. Það er því á okkar ábyrgð að vinna sífellt að endurskoðun og nýsköpun innan velferðarþjónustunnar til að hún þróist í takt við kröfur samtímans og virki sem skyldi. Ljóst er að margt má betur fara í íslensku velferðarkerfi og það viljum við laga. Kerfið byggir í of ríkum mæli á skerðingum og tekjutengingum og er hvorki nógu almennt né nógu þétt. Of mörg falla á milli kerfa, festast í fátæktargildrum eða lifa í einsemd og einangrun. Alltof mörg þurfa að óttast um lífsafkomu sína, neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu eða alast upp í fátækt.
Hornsteinn velferðarsamfélags jafnaðarmanna er virðing okkar allra fyrir hverjum og einum. Þess vegna leggur Samfylkingin ríka áherslu á að notendasamráð sé viðhaft við alla stefnumótun og ákvarðanatöku um velferðarmál og þannig tryggt að stefna stjórnvalda sé í takti við veruleika og aðstæður þeirra hópa sem við á. Við lítum svo á að sérhver manneskja hafi eitthvað til samfélagsins að leggja og viljum nýta styrkleika hvers og eins sem best með þvíað stuðla að virkri þátttöku sem flestra og rjúfa einangrun þeirra sem upplifa sig afskipta eða útundan.

Bætt réttindi fatlaðs fólks
Samfylkingin vill að réttindi fatlaðs fólks séu virt í hvívetna á Íslandi. Það kallar á fullt aðgengi á öllum sviðum samfélagsins og að fötluðum einstaklingum séu tryggð tækifæri til sjálfstæðs lífs. Við viljum lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fylgja honum eftir með markvissum aðgerðum, meðal annars fullri fjármögnun stuðningsþjónustu og samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Áfram þarf að vinna að viðhorfsbreytingu í samfélaginu gagnvart réttindum fatlaðs fólks og gegn hvers kyns mismunun og fordómum í þeirra garð.
Settu X við S í kjörklefanum 25. septem­ber nk.!

Gerður Pálsdóttir er þroskaþjálfi, búsett í Mosfellsbæ og skipar
9. sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Þórunn Sveinbjarnardóttir leiðir listann.

Mosfellsbær, fyrsta kolefnishlutlausa sveitarfélagið?

Sigurður Loftur Thorlacius

Loftslagsvá er ein mesta ógn sem mannkynið hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ótvíræðar og valda meðal annars aukinni tíðni hitabylgna, aftakaúrkomu, flóða og gróðurelda. Þessar breytingar eru ekki lengur fjarri okkur heldur sjáum við sligandi hitabylgjur í nágrannalöndum okkar, gróðurelda geisa og hamfaraflóð æða yfir þéttbýli. Hitamet falla svo um munar á hverju ári. Loftslagsvá vofir ekki einungis yfir kynslóðum framtíðar heldur ógnar hún okkur hér í dag. Vinstri Græn vilja róttækar aðgerðir og réttlát umskipti í loftslagsmálum og viðbrögð við loftslagsvánni sem byggja á áætlunum og fléttast inn í alla pólitíska stefnumótun, líka í sveitarfélögum.
Mosfellsbær er ekki undanskilinn áhrifum loftslagsbreytinga því þær valda til dæmis aukinni tíðni á flóðum eins og þau sem urðu í Mosfellsbæ í mars 2015. Með auknum líkum á aftakaúrkomu eykst líka hættan á skriðuföllum og Mosfellsbær er ríkur af fellum. Við þurfum að sýna fyrirhyggju, aðlagast loftslagsvánni og taka tillit til hennar í öllu skipulagi. Samhliða þurfum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis hratt og örugglega til að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar.

Mosfellsbær hefur löngum verið í fararbroddi sveitarfélaga í umhverfismálum og á fáum stöðum hefur samþætting náttúru og byggðar tekist jafn vel. Við getum verið hreykin af fjölskylduvæna samfélaginu okkar, virku menningarlífi og gróskumikilli náttúru.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var sett fram markmið um kolefnishlutleysi Íslands fyrir 2040 og í júní á þessu ári var það markmið lögfest á Alþingi. Í umhverfisstefnu Mosfellsbæjar er líka stefnt á kolefnishlutleysi og ýmsar leiðir lagðar fram til að draga úr losun og auka bindingu. Styðja á við hjólreiðar, almenningssamgöngur og orkuskipti til að draga úr losun frá samgöngum. Auka á kolefnisbindingu með aukinni skógrækt og landgræðslu ásamt því að endurheimta votlendi og birkiskóga. Auka á aðgengi að vistvænum vörum, minnka matarsóun og auðvelda flokkun úrgangs.
Í umhverfismálum höfum við Mosfellingar forskot á mörg önnur sveitarfélög og ættum að nýta okkur þá forystu til að verða fyrsta íslenska kolefnishlutlausa sveitarfélagið. Einhver sveitarfélög hafa sett stefnuna á kolefnishlutleysi 2030 og þar ætti Mosfellsbær ekki að vera neinn eftirbátur. Við Vinstri græn viljum stíga stór skref, það vill Mosfellsbær líka, sameinumst öll í markmiðinu um kolefnishlutlaust bæjarfélag.

Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur og fulltrúi ungs fólks í Loftslagsráði.
Höfundur er í 11. sæti Vinstri
grænna í Suðvesturkjördæmi.

Heimabær menningarinnar

Una Hildardóttir

Mosfellsbær iðar af menningu. Einhvern veginn höfum við fundið fullkominn stað fyrir sköpunarkraftinn, þar sem þéttbýli og náttúran mætast á jaðri höfuðborgarsvæðisins.
Við höfum stolt fengið að fylgjast með tónlistarfólkinu okkar klifra upp metorðastigann bæði hér heima og erlendis. Ríkt menningarstarf í Mosfellsbæ og öflugur listaskóli hefur alið upp hæfileikaríkt listafólk á sviði tónlistar, ritlistar, myndlistar og svo mætti lengi áfram telja.
Eitt af meginmarkmiðum menningarstefnu Mosfellsbæjar er að stuðla markvisst að því að menningarlíf bæjarins sé fjölbreytt og aðgengilegt fyrir alla hópa samfélagsins, enda mikilvægt að allir eigi kost á að taka þátt í menningarstarfi á eigin forsendum.

Undirstaða öflugs lista- og menningarlífs er menntun á öllum skólastigum og jöfn tækifæri til náms. Í Mosfellsbæ er öflugur listaskóli en aðsókn er mikil og biðlistar langir. Skólagjöld eru há og einhverjir nemendur þurfa að leigja hljóðfæri með tilheyrandi kostnaði.
Listnám er ekki einungis farvegur til þess að beisla sköpunarkraftinn heldur eflir það líka alhliða þroska nemenda. Mér finnst mikilvægt að auka aðgengi nemenda að fjölbreyttu listnámi og skapa rými fyrir listsköpun.

Í dag gefst nemendum í grunnskólum Mosfellsbæjar tækifæri á að stunda tónlistarnám innan veggja skólans að einhverju leyti. Aftur á móti er mikilvægt að grunnskólar komi með auknum hætti að listnámi og geri það aðgengilegra fyrir alla nemendur, óháð samfélagsstöðu.
Sveigjanleiki sem tryggir aðgengi nemenda að grunnstigs tónlistar- eða öðru listnámi á skólatíma gerir okkur fært að samtvinna listir og menningu inn í daglegt líf barna og unglinga. Þannig tryggjum við sömuleiðis að nemendur mæti vel upp lagðir í tíma en ekki þreyttir að loknum hefðbundnum skóladegi eða seint að kvöldi.

Mosfellsbær er bær menningar og lista. Við höfum nú þegar séð að við höfum alla burði til þess að ala upp listafólk á heimsmælikvarða og getum auðveldlega gert enn betur. Við í Vinstri grænum viljum sjá skapandi greinar sem hluta af íslenskri atvinnustefnu og efla listnám.
Í dag er tónlistarnám forréttindi og því vil ég breyta, engum á að neita um þau tækifæri sem felast í listnámi. Það er orðið löngu tímabært að gera listnáminu hærra undir höfði innan almenna skólakerfisins og gefa öllum börnum tækifæri til þess að blómstra.

Una Hildardóttir.
Höfundur skipar 2. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi.

Við getum verndað Varmá

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir

Þegar ég flutti aftur í Mosfellsbæ með mann, kött og drauma um að fá okkur hund skipti mig miklu máli að finna húsnæði sem væri nálægt náttúrunni. Ekki aðeins svo að göngutúrarnir með hundinn yrðu fjölbreyttir og skemmtilegir, heldur líka vegna þess að náttúra Mosfellsbæjar skiptir mig máli persónulega.

Ég var svo heppin að finna íbúð á æskuslóðunum í Reykjahverfinu, þar sem náttúran er allt um kring. Ég man þannig eftir heilu sumrunum þar sem Varmá var aðal leiksvæði okkar vinanna. Við byrjuðum við dælustöðina og fylgdum ánni í gegnum skóginn við Reykjalund, framhjá Álafossi og enduðum síðan á Stekkjarflöt. Þá var mamma ein af stofnendum Varmársamtakanna, sem börðust fyrir verndun árinnar, þannig að Varmá átti stundum sæti við kvöldmatarborðið heima.
Varmá er perla og það er ekki síst hennar vegna sem mér hefur alltaf þótt Álafosskvosin vera hjarta Mosfellsbæjar. Það er ekki að ástæðulausu sem ferðamannarúturnar stoppa þar þegar þær eiga leið framhjá bænum. Sækjast í gömlu húsin, handverkið og auðvitað Álafossinn sjálfan.

Áhyggjur í áratugi
Þegar ég hugsa um barnæsku mína, nú þegar ég hef eignast mitt fyrsta barn, þykir mér sorglegt hvernig komið er fyrir Varmá. Ástand hennar er jafn slæmt, ef ekki verra, en það var þegar ég var lítil. Reglulega sjáum við myndir frá bæjarbúum af blágrænni slikju í ánni, mengun sem drepur fiska í hundraðatali ár eftir ár. Bakkar Varmár eru víða orðnir svo lélegir að það er ekki hægt að ganga meðfram henni á löngum köflum.

Bæjarbúar hafa bent á það frá því á síðustu öld að allt frárennsli frá göturæsum og bílastæðum fer beint út í ána. En þrátt fyrir óteljandi ábendingar, áskoranir og þrumuræður á bæjarstjórnarfundum frá vinum Varmár þá hefur ekkert verið gert. Áfram er efnum dælt út í ána og áfram fáum við myndir og áhyggjufullar færslur frá bæjarbúum.

Einföld breyting
En það er hægt að breyta til og grípa til aðgerða fyrir Varmá. Það er bara pólítísk ákvörðun eins og svo margt annað. Hvað íbúum kann að finnast skiptir ekki máli ef bæjarstjórn er á öðru máli. En það þarf ekki að vera þannig. Þess vegna erum við Píratar með stefnu í byggðamálum þar sem markmiðið er að auka völd íbúa og auðvelda þeim að hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Það má gera mjög auðveldlega, t.d. með því að breyta sveitarstjórnarlögum þannig að lægra hlutfall íbúa þurfi til að kalla til borgarafundar og til að óska eftir íbúakosningu um einstök málefni.

Mér persónulega finnst velferð Varmár vera slíkt málefni. Að fallegri Varmá taki á móti gangandi Mosfellingum og að sex mánaða sonur minn geti leikið sér við heilnæmari Varmá í framtíðinni.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir

Þegar sumir eru jafnari en aðrir

Elín Anna Gísladóttir

Það er ákveðin meginregla í siðmenntuðu samfélagi að við höfum sömu réttindi og gegnum sömu skyldum, að fólki sé ekki mismunað t.d. á grundvelli búsetu. En hvers vegna er það þá þannig að sumir eru jafnari en aðrir þegar það kemur að því að kjósa til Alþingis, æðstu stofnunnar landsins.
Skipta Mosfellingar og nágrannar okkar í Kraganum minna máli en vinir okkar sem búa í landsbyggðarkjördæmunum? Það virðist að minnsta kosti vera miðað við áhugaleysi ríkisstjórnarflokkanna til að rétta hlut okkar sem búum í fjölmennasta kjördæmi landsins. Svo mikill var munurinn á vægi atkvæða í síðustu kosningum að nærri því tvöfaldan fjölda atkvæða þurfti í okkar kjördæmi til að fá þingmann kjörinn á móti þingmanni í fámennasta kjördæminu, eða 5.350 atkvæði á móti 2.690 atkvæðum.
Viðreisn lagði fram tillögu á Alþingi í vor sem stuðla átti á réttlátara kosningakerfi. Allir þingmenn stjórnarflokkanna kusu gegn þeirri tillögu. Heyrst hefur frá stjórnarflokkunum í sumar að það hafi einfaldlega ekki gefist nægur tími í vor til þess að ræða þetta frumvarp og því hafi ekki verið hægt að samþykkja það.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Við biðjum virðulega stjórnarþingmenn að hætta að slá ryki í augu kjósenda. Það var einfaldlega enginn vilji til þess að breyta þessu – þar sem að þessi misskipting er stjórninni í hag. Í okkar bókum kallast það sérhagsmunir.
Jafnt vægi atkvæða er jafnréttismál. Stjórnmálaflokkar eiga að fá þingsæti í samræmi við þá kosningu sem þeir hljóta. Þeir þingmenn sem eru kjörnir á þing starfa þar fyrir alla þjóðina, ekki bara sitt kjördæmi. Þannig náum við fram sanngirni, jafnrétti og samstöðu. Í þannig samfélagi viljum við búa.

Eftir Elínu Önnu Gísladóttur 3. sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi
og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann Viðreisnar og
1. sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi

Gerum þetta saman

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Nú þegar skólastarf hefst að nýju eru grunnskólanemendur fullir eftirvæntingar að mæta í skólann sinn eftir sumarfrí. Einnig er að færast líf í starfið á leikskólunum eftir gott sumar og líf okkar allra að færast í fastar skorður. Við vonuðum í vor að kórónuveirufaraldurinn yrði vond minning þegar skólar hæfust nú í haust, en við verðum því miður að kljást við veiruna eitthvað áfram.
Ljóst er orðið að skólastarf verður með einhverjum takmörkunum í vetur með tilheyrandi púsli. Nú er vitað að veiran getur lagst illa á börn og það er hlutverk okkar fullorðna fólksins að verja þau. Það gerum við með því að fara eftir þeim reglum sem settar eru og huga að persónulegum sóttvörnum. Þetta kunnum við allt.
Megin­áherslan er þó að verja skólastarfið og reyna að tryggja að það verði sem eðlilegast. Til að það gangi eftir þurfum við að standa saman og leggja af stað inn í þennan vetur með bjartsýni og samheldni að vopni.

Skólarnir okkar – hvað er nýtt?
Varmárskóla hefur verið skipt í tvennt og heitir eldri deildin nú Kvíslarskóli. Það hefur vart farið framhjá bæjarbúum. Kvíslarskóli hefst kl. 8.30 í stað 8.10 í vetur samkvæmt ósk frá SAMMOS, samtökum foreldrafélaga grunnskóla í Mosfellsbæ. Breyting sem þessi hefur reynst vel annars staðar og vonandi verða unglingarnir okkar ánægðir með að fá að sofa aðeins lengur.
Nýr skólastjóri hefur verið ráðinn í yngri deildina og bjóðum við Jónu Benediktsdóttur hjartanlega velkomna til starfa með okkur. Nýju fólki fylgja nýjar áherslur og verður áhugavert að fylgjast með skólaþróun í Varmárskóla á næstu árum.
Í Helgafellsskóla hefur nýr áfangi, sem hýsir unglingadeildina, verið tekinn í notkun og verður gaman að sjá deildina blómstra í höndum eldhuganna sem þar starfa. Á Huldubergi og Hlíð verða yngstu börnin á ungbarnadeildum en mikið kapp hefur verið lagt í að aðlaga útisvæðin að þörfum yngstu barnanna. Á Höfðabergi verða 3 – 5 ára börn í góðum höndum og sex ára börnin fara aftur í stóru byggingu Lágafellsskóla. Hér er eingöngu stiklað á stóru því hver skóli iðar af lífi þar sem framsækið og öflugt fólk hefur ráðist til starfa sem ber hag unga fólksins okkar fyrir brjósti. Ég hlakka til að fylgjast með starfi þeirra í vetur.

Skólasamfélagið í Mosfellsbæ
Það er hlutverk bæjaryfirvalda að standa við bakið á skólafólkinu okkar svo það fái að blómstra og þróast í starfi.
Skólastarf í hverju sveitarfélagi er það sem skiptir íbúana mestu máli og þess vegna viljum við gera eins vel og mögulegt er. Markmiðið er að nemendur eflist og styrkist í starfi og kveðji skólann sinn í lok 10. bekkjar vel undir það búin að taka næstu skref inn í framtíðina. Þá hefur okkur tekist ætlunarverkið.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Um misvægi

Guðmundur Andri Thorsson

Eftir síðustu Alþingiskosningar vantaði átta atkvæði upp á að Kópavogsbúinn Margrét Tryggvadóttir yrði annar þingmaður Samfylkingarinnar fyrir Kragann.
Fyrir vikið varð þingflokkur Samfylkingarinnar manninum færri en þingflokkur Framsóknarflokksins – þrátt fyrir að Samfylkingin hefði fengið rúmlega 2500 fleiri atkvæði en Framsókn á landsvísu. Nú er ég kominn í annað sætið – og er út um allt að svipast um eftir þessum átta …

Sjálfur varð ég sá þingmaður sem hafði flest atkvæði á bak við sig á síðasta þingi – sem kannski er viss upphefð – en ég hefði samt frekar viljað hafa hana Möggu með mér. Það hefði hún líka verið ef atkvæði okkar í Kraganum hefðu ekki miklu minna vægi en atkvæði fólks sem býr í öðrum landshlutum.
Þegar kosningalög voru samþykkt undir lok þingsins reyndum við að koma á einfaldri leiðréttingu á þessari skekkju, með fjölgun jöfnunarþingsæta – auk mín lögðu fram málið Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir frá Viðreisn og Píratinn Björn Leví Gunnarsson. Í gamla daga var stundum talað um „lýðræðisflokkana“ til aðgreiningar frá meintum alræðissinnum. Kannski er ástæða til að endurvekja þetta hugtak um þá flokka sem studdu þessa tillögu.

Við sem lögðum málið fram gerðum það í samráði við Þorkel Helgason, þann mann sem mest og best þekkir til kosningalaganna og við tókum líka mið af umsögn Ólafs Þ. Harðarsonar um kosningalagabreytingarnar svo að ekki er hægt að afgreiða þessa tillögu okkar sem hugdettu á síðustu stundu.
Stjórnarliðar sögðu að ekki hefði farið „næg umræða fram“, eins og jafnt kosningaréttur sé álitamál sem þurfi að ræða, en ekki grundvallar-mannréttindi sem við öðlumst um leið og við höfum aldur til. Stundum heyrist í þessari umræðu að slík forréttindi og hagræði fylgi því að ýmsar stofnanir hafi höfuðstöðvar sínar á höfuðborgarsvæðinu að réttlætanlegt sé mismuna fólki þegar kemur að kosningarétti.
Það er vissulega ástæða til að jafna hlut byggðanna – og ótal tækifæri sem gefast til þess á okkar netvæddu tímum, en kosningaréttinn á ekki að nota til þess, frekar en önnur mannréttindi. Misvægi á einum stað verður ekki lagað með misvægi á öðrum stað.

Það ríkti almenn sátt um það frá árinu 1987 að minnsta kosti, að jafna bæri vægi flokkanna og Alþingi hefur nokkrum sinnum tekist að gera það. En í þremur síðustu kosningum hafa Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hins vegar skipst á að fá aukamann umfram það sem þeim ber samkvæmt atkvæðavægi. „Þetta er eitthvað sem þarf að skoða,“ er haft eftir forsætisráðherra um málið.
Ef við fáum til þess styrk í komandi kosningum þá er þetta hins vegar eitthvað sem við ætlum að breyta. Þá þurfa þessi átta að skila sér …

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar
í Suðvesturkjördæmi og skipar annað sæti listans í komandi kosningum