Viðhalds er þörf

Ólafur Ingi Óskarsson

Það er öllum hollt að hreyfa sig. Hjá flestum er það hluti af almennri heilsubót. Hreyfing getur verið alls konar og kallar á mismunandi aðstæður.
Mörgum dugar að ganga um eða hlaupa í okkar fallegu náttúru eða bara á gangstéttum og göngustígum bæjarins. Fyrir aðra þarf að byggja upp aðstöðu.
Það er ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga að byggja og reka íþróttamannvirki en hins vegar teljum við það vera sjálfsagt verkefni þeirra til að styðja við gott og blómlegt mannlíf.

Borðaklippingar
Það hefur þótt gott nesti fyrir stjórnmálamenn að fara í kosningar með loforð um metnaðarfull íþróttamannvirki eða að taka í notkun eitt eða fleiri slík korteri fyrir kosningar.
En þegar búið er að byggja þá tekur hversdagurinn við, rekstur mannvirkjanna og líka viðhald sem verður þeim mun kostnaðarsamara eftir því sem þau eldast. Það er hins vegar ekki jafn líklegt til vinsælda að skipuleggja viðhald. Því fylgja engar skóflustungur eða borðaklippingar að viðstöddum ljósmyndurum.

Sunna Arnardóttir

Stefnuleysi
Það dregur verulega úr notkunarmöguleikum og öryggi notenda þessara dýru mannvirkja ef viðhaldi er ábótavant. Því miður er þetta orðin staðan hjá okkur víða þrátt fyrir að margt sé í góðu lagi.
Á fundi sem Öryrkjabandalagið og Landssamtökin Þroskahjálp boðuðu nýverið til hér í bæ og buðu fulltrúum allra framboða í Mosfellsbæ til, kom fram að lyfta ætluð fötluðum í íþróttamiðstöðinni að Varmá hafi verið biluð í mjög langan tíma. Fólki sem bundið er við hjólastól og á erindi í íþróttamiðstöðina er rennt inn um neyðarútgang til að komast inn í húsið. Það er ekki mikil virðing sem fötluðu fólki er sýnd með því.
Mosfellsbær státar af mörgu framúrskarandi íþróttafólki í ýmsum íþróttagreinum, þar á meðal í frjálsum íþróttum. Árið 1989 var tekinn í notkun í Mosfellsbæ fullkomnasti frjálsíþróttavöllur landsins.
Í kjölfarið varð mikill uppgangur í íþróttinni hér í bæ og blómlegt starf. Því er það þyngra en tárum taki að síðan 2011 hafi þessi glæsilegi völlur ekki uppfyllt kröfur til að halda stærri mót, s.s. Íslands- eða landsmót.
Vegna hvers var það, jú vegna skorts á viðhaldi! Margt af okkar fremsta frjálsíþróttafólki æfir nú og keppir með félögum í öðrum sveitarfélögum. Því miður er þetta ekki eina dæmið. Fjölmörg dæmi eru líka um að ekki hafi verið fjárfest í búnaði til nota í íþróttamannvirkjum okkar, búnaði sem myndi auka notagildi þeirra.
Það er mikill ábyrgðarhluti að eigur okkar íbúanna séu látnar grotna niður vegna skorts á eðlilegu viðhaldi og endurbótum.

Stefna til framtíðar
Þróttmikið íþróttastarf fyrir alla, óháð aldri, efnahag og félagslegum aðstæðum eflir og auðgar samfélagið og hefur jákvæð áhrif á lýðheilsu. Öflugt starf byggir á góðri aðstöðu og það er hlutverk bæjaryfirvalda að sjá til þess að sú aðstaða sé fjölbreytt, góð og mæti þörfum. Aðstöðunni þarf síðan að halda við og bæta jafnt og þétt svo hún haldi gildi sínu.
Nauðsynlegt er að móta stefnu til framtíðar um uppbyggingu íþróttasvæða í bænum, þar með talið viðhald, stefnu sem unnið er eftir. Það mun Samfylkingin gera fái hún til þess afl eftir kosningar.
Settu x við S á kjördag.

Ólafur Ingi Óskarsson, skipar 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar
Sunna Arnardóttir, skipar 6. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar