Fab Lab smiðja, skapandi vettvangur nýsköpunar fyrir skólasamfélagið

Arna Hagalíns

Í heimi þar sem tækninni fleygir fram á ógnarhraða er mikilvægt að stuðla að tækniþróun skólanna og undirbúa nemendur fyrir framtíðina með því að gera starfsumhverfi skólanna enn betra.
Einn þáttur í því er að halda áfram að stuðla að snjöllum skólum og skapa vettvang til nýsköpunar.

Skólasamfélagið kallar eftir nýjum leiðum í kennslu þar sem samþætting námsgreina og fjölbreyttir kennsluhættir geti meðal annars mæst á vettvangi tækni og nýsköpunar. Okkur þykir mikilvægt að svara þessu ákalli.

Annars vegar teljum við að það yrði frábært fyrir skólasamfélagið okkar hér í Mosfellsbæ að hafa aðgang að Fab Lab smiðju, en Fab Lab smiðja er sköpunar- og tæknismiðja útbúin tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er, þar sem einstaklingum eru gefin tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

Elín María Jónsdóttir

Að fá hugmynd, setja sér markmið og sjá hana verða að veruleika er geggjuð tilfinning. Að fylgjast með nemendum sínum fá hugmynd, hvetja þá til að setja sér markmið og fylgjast með þeim þróa og skapa sína hugmynd þar til hún verður að veruleika en enn betri tilfinning. Tilfinningin er eins og heimurinn sé ósigrandi og hindranir verða bara eitthvað sem við lærum að finna lausn á.
Við Sjálfstæðismenn ætlum því, á næsta kjörtímabili, að opna Fab Lab smiðju með stafrænum tækjum og tólum sem gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Hinn þátturinn er að halda áfram að stuðla að snjöllum skólum, en það er áframhaldandi átak í upplýsingatæknimálum skólanna þar sem áherslan verður að styðja áfram við upplýsingateymi kennara og stjórnenda innan skólanna.
Við viljum sjá til að þess að þeir hafi áframhaldandi aðgang að verkefnastjóra til að hafa umsjón með upplýsingatæknimálum og búnaði innan skólanna. Við teljum það góða leið til að styðja við kennarann í starfi og styrkja hann þannig til að nýta tækin og tæknina í kennslu. Við viljum gera betur í að undirbúa nemendur fyrir framtíðina og stuðla að því að þau verði ekki bara neytendur tækninnar heldur líka notendur.

Arna Hagalíns og Elín María Jónsdóttir,
frambjóðendur á lista Sjálfstæðisflokksins

fyrir komandi kosningar 14. maí.