Kjósum V-listann!

Bjarki Bjarnason

Þegar þetta er ritað eru rúmar tvær vikur til sveitarstjórnarkosninga, kjörfundur fer fram í Lágafellsskóla laugardaginn 14. maí. Sjö listar eru í framboði og verður kosið um 11 sæti í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, fulltrúum verður fjölgað um tvo í samræmi við aukinn íbúafjölda bæjarins.
Kosningabaráttan er að komast í algleyming, framboð og frambjóðendur keppast við að kynna sig og sín stefnumál. Þetta er um margt áhugaverður tími, kosningar eru tímamót og við horfum í senn til baka og fram í tímann, um leið og við nýtum okkur þann lýðræðislega rétt að velja þá sem við treystum best til að stjórna bæjarfélaginu næstu fjögur árin.

Sjö málaflokkar
Hér í Mosfellsbæ hafa vinstri-græn boðið fram undir eigin merkjum frá árinu 2006 og allar götur síðan hefur hreyfingin sett mark sitt á stjórn sveitarfélagsins. Á framboðslista VG eru 22 Mosfellingar með ólíkan bakgrunn en hafa áþekka sýn á samfélagið. Við viljum stuðla að því að samfélag okkar hér í Mosfellsbæ sé fjölskylduvænt, umhverfisvænt og byggist á félagslegu réttlæti og samfélagslegri ábyrgð. Stefnuskrá V-listans hvílir á þessum grunni og skiptist í sjö hluta sem eru:
Fræðslumál.
Íþrótta- og tómstundamál.
Velferðarmál.
Jafnréttis- og lýðræðismál.
Menningar- og ferðamál.
Skipulags-, atvinnu- og umhverfismál.
Fjármál.

Meðal stefnumála V-listans er að lengja opnunartímann í sundlaugum bæjarins, auka framboð á félagslegum íbúðum, gera leikskólann gjaldfrjálsan, vinna aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og skipuleggja Hafravatnssvæðið fyrir aukna útivist.
Menningarmál eru okkur einnig ofarlega í huga og vill V-listinn láta vinna heildarstefnu um rekstur á mannvirkjum sem tengjast menningarstarfsemi í bæjarfélaginu.

VG-stofan og fjölskylduskemmtun
Vinstri-græn hafa opnað VG-stofuna í miðrýminu í Kjarna, þar er tekið á móti gestum þriðjudaga – föstudaga kl. 16-18 og kl. 13-16 laugardaginn 7. maí. Og næstkom­andi laugardag, 30. apríl, verður efnt til mikillar fjölskylduhátíðar í Álafosskvos, meðal annars verður farið í ratleik, spilað bingó og kynt undir grillinu. Þangað er að sjálfsögðu allir velkomnir.
Hér að framan var getið um þau tímamót sem kosningar eru. Við erum stöðugt „að meta stöðuna“ eins og tekið er til orða, horfa um öxl og fram á veginn.
Gleymum því þó ekki að njóta andartaksins og dagsins – gleðilegt sumar, kæru Mosfellingar!

Bjarki Bjarnason, skipar 1. sæti V-listans í kosningunum 14. maí.