Fagleg handleiðsla

Dagný Kristinsdóttir

Á undanförnum árum hefur orðið mikil fjölgun á nemendum í grunn- og leikskólum bæjarins. Með auknum fjölda hafa skapast nýjar áskoranir meðal kennara og skólastjórnenda, margar þeirra krefjandi sem hafa sýnt fram á nauðsyn þess að efla og styrkja skólafólk með auknu aðgengi að sérfræðingum.
Það er fátt eins lamandi og erfitt í starfi með börnum og að lenda í alvarlegum aðstæðum sem þú veist ekki hvernig á að leysa. Á þeirri stundu þarf starfsmaðurinn lítið til að upplifa að stuðningur, innan vinnustaðar, sé ekki fyrir hendi.
Nú, þegar hægt hefur á nemendafjölgun í grunnskólum er gott að nýta tímann til að fara yfir undanfarin ár, skoða það sem vel hefur tekist til og hverju má standa betur að – með eflingu á þjónustu Fræðslusviðs. Fara þarf í þarfagreiningu í hverjum skóla, meta hvaða þjónustu þarf beint inn í skólana, hvaða þjónustu skólarnir geta sameinast um og verið miðlægt staðsett á Fræðslusviði.
Við í Vinum Mosfellsbæjar leggjum ríka áherslu á að á Fræðslusviði sé teymi sérfræðinga ráðið inn, sem fari út í skólana og sé kennurum og stjórnendum til stuðnings. Í teyminu geta verið ráðgjafar á borð við kennsluráðgjafa, hegðunarráðgjafa, sálfræðinga, félagsráðgjafa og ráðgjafarþroskaþjálfa sem geta stutt beint við bakið á kennurum.
Benda má á sambærileg verkefni í Reykjavík, Betri borg fyrir börn og þjónustu Farteyma. BBB verkefnið, eins og það er kallað, gengur út á það að færa þjónustuna nær notendum og hafa kennsluráðgjafar og hegðunarráðgjafar viðveru í skólum hverfisins á tilteknum tímum og geta þar tekið til vinnslu mál sem bíða og unnið jafnóðum og þau koma upp. Þessi viðvera hefur verið mikill styrkur fyrir nemendur og starfsfólk, vinnsla mála hefst fyrr, sem þýðir að færri málum er vísað til Þjónustumiðstöðva til vinnslu.
Þjónusta Farteyma er þjónusta við nemendur með fjölþættan vanda þar sem unnið er með nemandann í nærumhverfi hans. Allt kapp er lagt á að málin séu unnin í skólanum, ef það gengur ekki upp er teymið með aðsetur og getur tekið nemendur til sín. Með dyggri aðstoð og ríkri eftirfylgd náum við betri árangri, börnunum okkar til heilla.

Dagný Kristinsdóttir, skipar 1. sæti
á framboðslista Vina Mosfellsbæjar.