Viðreisn setur þjónustu við fólk í fyrsta sæti

Valdimar Birgisson

Fyrir fjórum árum stofnuðum við nokkrir félagar í Viðreisn félag í Mosfellsbæ og hófum undirbúning að framboði fyrir sveitastjórnarkosningarnar vorið 2018.

Við veltum því vandlega fyrir okkur hvort við ættum að blanda okkur í þennan slag, hvort við ættum brýnt erindi við kjósendur og hvort við gætum látið gott af okkur leiða til að gera mannlífið betra og rekstur sveitarfélagsins skilvirkari og opnari.
Niðurstaða okkar var sú að okkar hugmyndir um framfarir hér í bæ og stefna Viðreisnar um að setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum ættu sannarlega erindi við kjósendur.

Það sem við settum á oddinn voru lýðræðislegar umbætur og ábyrgð í fjármálum. Við vildum komast að til þess að breyta. Ekki til þess að gera einhvern að bæjarstjóra sem gekk með það í maganum eða til höfuðs bæjarstjóra. Við kærðum okkur kollótt um slíkt. Við vildum einfaldlega þjóna bæjarbúum og gera betur.

Við náðum þeim árangri að vera með næstflest atkvæði af þeim átta framboðum sem buðu fram og höfum því undanfarin fjögur ár átt bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og fulltrúa í nefndum sveitarfélagsins.
Við höfum unnið eftir þeim áherslum sem við settum okkur í upphafi og teljum líkt og fyrir fjórum árum að breytinga sé þörf í Mosfellsbæ og því er þörf á frjálslyndu afli í stjórn Mosfellsbæjar.

Okkar áherslur undanfarin fjögur ár markast helst af því að við höfum veitt meirihlutanum aðhald með því að gera kröfur um fagleg vinnubrögð og gagnsæja stjórnsýslu.
Við höfum lagt áherslu á málefni barna og fjölskyldna með því að minna stöðugt á að stjórnsýslan snýst um að veita þeim þjónustu sem þurfa á að halda.

Okkar markmið er að komast í meirihluta þannig að áherslur okkar fái enn meira vægi í stjórnun bæjarins og vonumst við eftir því að kjósendur veiti okkur það brautargengi í næstu kosningum. Við setjum þjónustu við fólk í fyrsta sæti.

Valdimar Birgisson,
bæjarfulltrúi Viðreisnar.

Velferð og þjónusta í Mosfellsbæ

Jana Katrín Knútsdóttir

Orðið velferð þýðir samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabók að „einhverjum farnist vel“.
Samkvæmt lögum ber stjórnvöldum að tryggja velferð sinna þegna og markmið þeirrar velferðarþjónustu sem Mosfellsbær veitir ætti því að vera að auka lífsgæði og stuðla að því að allir íbúar Mosfellsbæjar eigi kost á að lifa með reisn. Velferð skarast á svo mörgum sviðum samfélagsins en hér verður aðeins tæpt á fjölbreyttum þörfum barna, fjölskyldna og einstaklinga á öllum aldri.
Innan skólakerfisins er í dag, sem aldrei fyrr, þörf á hæfu og reyndu starfsfólki sem hefur metnað fyrir því sem það er að gera. Einnig þarf að tryggja að stoðþjónusta sé til staðar, á réttum tíma og á réttum stað. Öðruvísi getur ekki farið fram faglegt og gott starf sem stuðlar að menntun, þroska og velferð nemenda. Kennarar og aðrir sem starfa með börnum (s.s. í frístund eða tómstundastarfi) eru að veita þjónustu sem oft er langt umfram „hefðbundna“ kennslu.
Kennarar í dag vinna að því alla daga að vinna traust sinna nemenda, lesa í þarfir hvers og eins og með lausnamiðuðum hætti finna leið fyrir hvern einstakling að námi og árangri. Stuðningur við heimili er einnig umfangsmikill þáttur í starfi kennarans ekki síst í vaxandi fjölbreytileika samfélagsins. Í einhverjum tilfellum gegna þeir jafnvel því hlutverki að uppfylla þarfir, sem nemendur fá ekki uppfylltar á sínu heimili.
Aðstoð og þjónusta við fatlað fólk og eldri borgara á eigin heimilum og á stofnunum eru líka hluti velferðarþjónustu hvers sveitarfélags.
Ef standa á við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur gengist við og uppfylla lög um mannréttindi og réttinn til heilsu þá er mikilvægt bjóða upp á búsetu við hæfi og að veita viðeigandi þjónustu á öllum stigum. Þannig er hægt að tryggja að það fjármagn sem veitt er til þessarar þjónustu nýtist sem best.
Störf sem þessi krefjast mikils af þeim sem þeim sinna. Það er staðreynd að þeir sem starfa í nánum og krefjandi mannlegum samskiptum eru í aukinni hættu á kulnun í starfi með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum á heilsu og lífsgæði en ekki síður afleiðingum fyrir gæði þeirrar þjónustu sem er veitt. Starfsumhverfi, samskipti, stuðningur, stjórnun og stjórnsýsla hefur mikil áhrif á þessa þætti og því mikilvægt að rýna í og skoða hvort þar sé gert eins vel og hægt er.
Margoft hefur verið bent á að ekki hafi verið rétt gefið þegar þessi þjónusta fluttist frá ríki til sveitarfélaga og vissulega eru sveitarfélögin bundin af kjarasamningum þessara stétta, en við þurfum að horfa á allt þetta umhverfi með gagnrýnum huga og skoða hvort gera megi betur.

Jana Katrín Knútsdóttir
Höfundur er í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Af því að það skiptir máli

Aldís Stefánsdóttir

Tilvera okkar er full af áreiti og álitaefnum. Til dæmis hvort maður eigi að bjóða sig fram til setu í sveitastjórn eða ekki.
Það eru ótrúlega margar ástæður fyrir því að gera það ekki. Trúið mér, ég er búin að fara yfir þær allar. En á endanum varð niðurstaðan sú að ég vil leggja mitt af mörkum. Mér finnst skipta máli hverjir stjórna og hvernig er stjórnað. Það er pláss við borðið fyrir fjölbreyttar skoðanir og það er mikilvægt að nýjar raddir fái að heyrast.

Við búum í samfélagi sem hefur alla burði til að geta þróast með kröfum nútímans og svarað kalli framtíðarinnar.
Þjónusta sveitarfélaga er gríðarlega mikilvæg og snertir hvert einasta heimili. Þegar þjónusta er þróuð, skipulögð og veitt skiptir mestu máli að hlusta á þá sem þiggja hana og ennfremur þá sem veita hana. Ég tel að reynsla mín og þekking á starfsemi sveitarfélagsins geri mig að góðum hlustanda.

En það er ekki nóg að hlusta og hafa skoðanir. Það þarf líka að hafa reynslu og þekkingu til að greina aðalatriði frá aukaatriðum, kunna að afla sér upplýsinga og síðast en ekki síst að hafa nægilegan styrk til að geta tekið góðar ákvarðanir. Ég trúi því að áralöng reynsla í krefjandi verkefnum á vinnumarkaði geri mig hæfa til ákvarðanatöku.

Mosfellsbær hefur allt til að bera til að vera fyrirmyndarsveitarfélag. Það er mikilvægt að við leyfum okkur að hugsa stórt og hugsa lengra. Okkar bíða áskoranir við að byggja upp Mosfellsbæ framtíðarinnar.
Eftirköst heimsfaraldursins, mótttaka og aðlögun innflytjenda, áhrif loftslagsbreytinga, breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, frekari uppbygging íbúðarhúsnæðis, fjölgun íbúa og efling innviða. Þetta eru áskoranir sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir bæði til lengri og skemmri tíma. Það er af nægu að taka.

Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum og hlakka mikið til að heyra hvað brennur á íbúum í bænum. En svona verkefni vinnur enginn einn. Það skiptir máli að vera í góðum hópi fólks og eiga góða að.
Framsókn í Mosfellsbæ er fjölbreyttur og hæfileikaríkur hópur fólks sem brennur fyrir því að auka velferð í samfélaginu okkar og treystir sér til að hlusta á íbúa og taka góðar ákvarðanir.

Þetta verður eitthvað!

Aldís Stefánsdóttir

Mosfellsbær – bærinn minn og þinn

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Öflugt atvinnulíf er forsenda verðmætasköpunar og á sama hátt er traustur og ábyrgur rekstur hvers sveitarfélags undirstaða velferðar borgaranna og góðrar þjónustu við þá.
Við Sjálfstæðismenn höfum alltaf lagt áherslu á að fara vel með fjármuni til þess að geta eflt enn frekar góðar stofnanir bæjarins í að veita sem besta þjónustu.
Þjónusta í þína þágu, kæri Mosfellingur, hefur alltaf verið markmið bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og það markmið verður áfram okkar leiðarstef.

Ég er stolt af því að búa í Mosfellsbæ og kalla mig Mosfelling. Nálægðin við ósnortna náttúru og víðátta móta sérstöðu bæjarins.
Við sem höfum valið að búa hér lítum á Mosfellsbæ sem valkost númer eitt hjá fólki sem kýs sambýli við náttúruna og fallegt umhverfi frekar en ys og skarkala borgarinnar. Þess vegna þarf að halda í þessi ómetanlegu gæði og vanda vel skipulag bæjarins inn í framtíðina til þess að tryggja að hér verði áfram betra að búa en annars staðar. Öflugir inniviðir eru fjárfesting til framtíðar fyrir íbúa Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær er sannarlega útivistar– og íþróttabær. Öflugt íþrótta– og æskulýðsstarf hrífur til sín fólk á öllum aldri, styrkir það félagslega og líkamlega og vekur okkur öll til umhugsunar um gildi góðrar hreyfingar og holls lífernis.
Traustur rekstur er grundvöllur þess að hægt sé að byggja íþróttamannvirki s.s. íþróttahús, sundlaugar, knattspyrnu-, golf- og reiðvelli, göngu-, hjóla- og reiðstíga. Við viljum vinna með íþróttafélögum og bæjarbúum að framtíðarsýn þessara mála.

Í Mosfellsbæ eru öflugir leik– og grunnskólar sem hafa á að skipa frábæru fagfólki og það er metnaðarfullt markmið að vilja verða leiðandi í skólastarfi. En til þess að svo megi verða þarf að auka enn frekar sjálfstæði skólanna því rannsóknir sýna að það skilar sér í betra námi fyrir nemendur og meiri starfsánægju innan skólanna.
Okkar markmið eru skýr, við viljum samráð og samvinnu við skólasamfélagið og foreldrafélögin með hagsmuni barnanna okkar að leiðarljósi. Þess vegna er mikilvægt að hér verði áfram traustur og skilvirkur rekstur bæjarsjóðs.

Í bænum okkar, Mosfellsbæ, þar sem allir skipta máli, viljum við Sjálfstæðismenn tryggja öruggan, ábyrgan og skilvirkan rekstur.
Við viljum veita íbúum á öllum aldri framúrskarandi þjónustu og við viljum opin samskipti við íbúa bæjarins um málefni sem snerta okkur öll.

Kæri Mosfellingur, ég segi XD fyrir enn betri bæ, XD fyrir fólk eins og þig og mig og vona að þú viljir verða mér samferða.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Skipulagsvald sveitarfélaga

Ólafur Ingi Óskarsson

Skipulagsmál eru eitt þeirra lögbundnu verkefna sem sveitarfélögum ber að sinna. Með skipulagsvaldinu er kjörnum fulltrúum gert kleift að móta ásýnd og umhverfi sveitarfélagsins og setja fram framtíðarsýn um uppbyggingu innan þess.

Aðalskipulag – deiliskipulag
Stóra myndin í hverju sveitafélagi er sett fram í aðalskipulagi sem er stefnumótun til lengri tíma og ber að endurskoða með reglubundnum hætti. Allt annað skipulag, s.s. rammaskipulög og deiliskipulög sveitarfélaga, þarf að taka mið af aðalskipulagi.
Nú er það svo að borgir og bæir eru sjaldnast byggðir að fullu í einu lagi. Bæir stækka oftast jafnt og þétt eftir því sem íbúum fjölgar og atvinnulífið blómstrar. Því eru óbyggð landsvæði deiliskipulögð í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins. Eins getur það hent að eldri deiliskipulög séu tekin upp og þeim breytt til þess að mæta breyttum þörfum eða áherslum.
Það er því hverju sveitarfélagi mikilvægt að hafa mótað sér stefnu í skipulagsmálum sem fyrst og fremst tekur mið af þörfum íbúa, núverandi sem og væntanlegra, og framtíðarsýn um þróun samfélagsins. Uppbyggingarreitir á nýju eða áður skipulögðu landi taki síðan mið af þeirri stefnu og framtíðarsýn.

Skipulag á forsendum hverra?
Í Mosfellsbæ er því þannig háttað að mestallt land er í einkaeigu eða á forræði lóðarhafa sem leigja það af bæjarfélaginu. Eðlilega vilja þeir sem með þessi réttindi fara hámarka þann arð sem þeir geta haft af uppbyggingu þar.
Hagsmunir þeirra aðila þurfa þó ekki endilega að fara saman við hagsmuni meginþorra íbúanna.
Uppbyggingu í bæjarlandinu á ekki að vera stýrt á forsendum verktaka, lóðarhafa eða landeigenda heldur forsendum okkar íbúanna sem munum búa hér áfram með okkar fjölskyldum.
Það er því mjög mikilvægt að skipulagsvaldinu sé beitt með þeim hætti fyrir núverandi íbúa og þá sem seinna koma að bærinn okkar haldi sínum einkennum, bjóði upp á fjölbreytt byggðamynstur, þróist í takt við nýjar áskoranir, stuðli að félagslegri blöndun og fjölskylduvænu umhverfi í tengslum við okkar dásamlegu náttúru. Að þessu munum við jafnaðarmenn stefna og berjast fyrir almannahagsmunum gegn sérhagsmunum nú sem fyrr.

Ólafur Ingi Óskarsson, skipar 2. sæti
á framboðslista Samfylkingarinnar

 

Samtalið gerir Mosfellsbæ að betri bæ

Hilmar T. Guðmundsson

Fólk talar saman af ýmsum ástæðum. Við deilum upplýsingum til að gera okkur lífið auðveldara, eflum félagsleg tengsl okkar við aðra og samtalið gerir okkur kleift að hafa áhrif á hvernig aðrir upplifa okkur.
Löngunin í að hafa samskipti er forrituð í okkur öll. Við getum bara ekki þagað endalaust. Við tölum um veðrið og hvað á að vera í matinn í kvöld en mest þó um það sem aðrir eru að tala um.

Samtöl okkar á milli tryggja að við skiljum hvert annað, við erum stödd á sömu plánetu. Við hefjum yfirleitt samræður til að efla félagsleg tengsl og einnig af einskærri forvitni. Þetta á líka við á netinu. Fólk uppfærir stöðu sína til að skapa tengsl, jafnvel þegar fólk er landfræðilega fjarlægt.
Stöðuuppfærslur innihalda oft félagslegar ábendingar eða spurningar og fólk bregst oft við með því að „líka við” eða skrifa athugasemdir. Ekki vegna þess að því líkar við efnið heldur vegna þess að það vill senda frá sér einföld skilaboð til að ýta undir áhuga þinn á málefninu.
Í mörgum tilfellum er svo samtalið sem kemur í kjölfar stöðuuppfærslu mun mikilvægara eða skemmtilegra en stöðuuppfærslan sjálf.

Þó að fólk tali saman til að gera líf sitt auðveldara, til að mynda félagsleg tengsl og til að hjálpa öðrum, eru flest samtöl okkar eins konar markaðssetning á okkur sjálfum.
Við upphefjum okkur sjálf með því að segja frá persónulegri upplifun okkar eða jafnvel slúðra um hver sé að gera hvað með hverjum. Yfirleitt er aðeins örlítill hluti gagnrýni eða neikvæðni. Langflest þessara samtala eru jákvæð þar sem við erum alltaf að passa upp á okkar ímynd.
Sjálfsmynd okkar mótast stöðugt af samtölunum sem við eigum við aðra. Hvort sem þú vilt eða ekki er gildum okkar og skoðunum deilt áfram, út frá fyrri samtölum við fjölskyldu, vini og frá fólkinu sem þú hittir, jafnvel örstutt á förnum vegi eða þú rekst á á rafrænni götu.

Gerum Mosfellsbæ betri með því að tala saman. Heilsumst út á götu, köstum kveðju á aðra í heita pottinum, gefum jákvæða strauma á netmiðlum.
Tökum þátt í samtalinu en virðum skoðanir annarra og veljum að taka það samtal sem okkur líður best með.
Geymum gargið og hávaðann innra með okkur á meðan við vinnum úr því og eyðum síðan orkunni sem myndast í eitthvað jákvætt.

Hilmar T. Guðmundsson.
Höfundur er í 9. sæti á framboðslista Framsóknar í Mosfellsbæ.

Látum kerfin ekki þvælast fyrir okkar veikasta fólki

Valdimar Birgisson

Einn mælikvarði á velsæld þjóða er hvernig komið er fram gagnvart þeim sem veikust eru. Hvernig til tekst að skapa þeim eins gott líf og aðstæður leyfa hverju sinni. Flest erum við sammála um að þetta er markmið sem við eigum að setja okkur. En hvernig tekst okkur til?

Ríkið vill spara sér fé til hjúkrunarheimila
Samkvæmt lögum skipta ríki og sveitarfélög með sér verkum við þjónustu fyrir veika, fatlaða og aldraða. Skipting á því hver sér um hvað er bundin í lög. Þannig er starfsemi hjúkrunarheimila á forræði ríkisins. Hins vegar hefur það atvikast þannig að sveitarfélög víða um land hafa tekið að sér að reka hjúkrunarheimili og gert samning um þann rekstur við ríkið til að flýta fyrir uppbyggingu þeirra. Það á t.d. við hér í Mosfellsbæ þar sem bærinn er ábyrgur fyrir rekstri hjúkrunarheimilisins Hamra. Mosfellsbær hefur líkt og fleiri sveitarfélög deilt við ríkið um framlög til reksturs þessara heimila.
Ríkið skammtar of lítið fé til þess að veita veikasta fólkinu okkar á hjúkrunarheimilum mannsæmandi þjónustu, það er öllum ljóst. Þannig hafa sveitarfélög verið nauðbeygð til þess að nota útsvarstekjur til þess að brúa bilið. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi lofað því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila hefur biðin eftir efndum verið löng. Biðin bitnar á öldruðu og mjög veiku fólki.

Aldraðir í tómarúmi
Þjónusta við aldraða skiptist á milli sveitarfélaga og ríkisins þannig að ríkið sér um heilbrigðisþjónustu en sveitarfélög sjá um aðra nauðsynlega þjónustu fyrir aldraða. Ódýrast og best er að hjálpa fólki að búa heima hjá sér eins lengi og unnt er. Fyrir fólk fylgir því í flestum tilfellum aukin lífsgæði að fá að vera lengur heima hjá sér.
Til að fólk geti verið lengur heima þarf að vera fyrir hendi þétt samstarf við heilsugæslur um nauðsynlega samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu. Þarna þarf samstarf ríkis og sveitarfélaga að vera öflugra. Þetta er nauðsynlegt að laga.

NPA samningar stranda á ríkinu
Málefni fatlaðra eru hins vegar á forræði sveitarfélaga sem fá framlög úr framkvæmdasjóði fatlaðra til þess að fjármagna þá þjónustu. Ein af þeim þjónustum sem fötluðu fólki stendur til boða eru NPA samningar en það er skammstöfun fyrir notendastýrða persónulega aðstoð. Fólk sem þarf á aðstoð að halda getur þannig gert samninga um þjónustu. Það stýrir því sjálft hvar það fær aðstoð, hvenær, hvernig og hver aðstoðar.
Slíkir samningar eru fyrir fólk sem þarf töluverða aðstoð í daglegu lífi og skiptir sköpum að þessi aðstoð sé veitt. Sveitarfélög kosta þessa þjónustu á móti ríkinu sem borgar 25%. Ríkið hefur hins vegar takmarkað fjölda samninga sem gerðir eru og afleiðingin af því er að sveitarfélög hafa hætt að gera fleiri samninga þar til ríkið stendur við sitt. Félagsmálaráðherra þarf að gera betur. Þetta bitnar á fötluðum.

Lögum kerfin
Fólk á ekki að vera fórnarlömb kerfislægs vanda í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Við sem erum kosin á Alþingi og í sveitarstjórnir eigum að gera betur og laga þetta kerfi. Það skiptir fólk sem notar þjónustuna eða borgar fyrir hana ekki máli úr hvaða vasa er borgað heldur að þjónustan verði veitt með skilvirkum hætti þannig að velsæld fólks verði hámörkuð.
Það þarf skýrari verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Ríkið þarf að veita meira fé í hjúkrunarheimili. Sveitarfélög þurfa meira fé til þess að sinna öldruðum heima og að uppfylla skyldur sínar gagnvart fötluðu fólki. Ég mun gera að forgangsmáli á næsta kjörtímabili að laga þessi kerfi.

Valdimar Birgisson,
bæjarfulltrúi Viðreisnar.

Væringar á vígstöðvum

Sveinn Óskar Sigurðsson

Eftir að úrslit prófkjörs lágu fyrir hér í Mosfellsbæ nýlega virðist sem að upp á yfirborðið hafi leitað sjóðheit mál sem virðast hafa kraumað lengi undir niðri. Hér er um innanbúðarátök að ræða.
Okkur sem sitjum í bæjarstjórn Mosfellsbæjar var gert að tryggja í upphafi kjörtímabilsins að rétt kynjahlutföll yrðu að vera jöfn í ráðum og nefndum Mosfellsbæjar. Hneykslast var á því í upphafi kjörtímabilsins að bæjarfulltrúi Miðflokksins hafi ætlaði að tilnefna konu í fræðslunefnd. Hafði formaður nefndarinnar á orði að það gengi ekki að Miðflokkurinn tilnefndi konu þar sem Sjálfstæðisflokkurinn væri með tvær konur sem aðalmenn af 5 í nefndinni og Viðreisn eina. Það gengi því alls ekki að það væru of margar konur í nefndinni.

Í janúar, nánar tiltekið 6. janúar sl., barst oddvita Miðflokksins í Mosfellsbæ árétting frá Jafnréttisstofu þess efnis að fyrir næstu kosningar ætti að „viðhalda jöfnu kynjahlutfalli í bæjar- og borgarstjórnum ásamt því að minna á mikilvægi fjölbreytileika.“
Það er rétt að taka undir þetta en í sama erindi var fjallað um hvatningabréf frá Kvenréttindafélagi Íslands sem er sagt vera hluta af herferðinni og verkefni sem tilheyrir Byggðaáætlun ríkisins. Með þetta í veganesti í upphafi kjörtímabils, bæði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 og nú 2022, er mikilvægt að huga að breytingum. En hvað gerðist á kjörtímabilinu?

Í fyrsta lagi virðist sem einn íþróttafrömuður í Mosfellsbæ vilji ekki annan íbróttafrömuð í forystu hjá Sjálfstæðisflokknum. Í annan stað var formanni bæjarráðs Mosfellsbæjar vikið til hliðar á miðju kjörtímabilinu, þ.e. því sem senn er á enda. Við það fór forysta Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gegn áréttingum Jafnréttisstofu enda er nú bæjarstjórinn karl, formaður bæjarráðs karl og forseti bæjarstjórnar líka karl.
Ekki ætla ég að útlista mig sérstaklega hvort þetta sé gott en vegna bæði samsetningar á pólitískum flokkum og einstaklingum þarna tel ég þetta öllu verra en t.d. ef einn karlinn væri úr Miðflokknum, a.m.k. hefur oddviti þess flokks einhverja innsýn inn í jafnréttismálin.

Í málefnasamningi Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs kemur fram að „D- og V-listi vilja stuðla að efla jafnrétti í öllum birtingamyndum þess orðs.“ Niðurstaða þessara framboða virðist ítrekað benda til brota á eigin loforðum en í upptalningu í málefnasamningnum kemur einnig fram að það eigi að „horfa til jafnréttissjónarmiða í allri ákvarðanatöku sveitarfélagsins.“
Það er því spurning hvort framboðum, sem hafa starfað lengi saman en fara lítt eftir eigin áformum, sé treystandi til að stjórna Mosfellsbæ næstu misserin. Það þarf að gæta festu við stjórn sveitarfélaga og jafnréttis.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ og bæjarfulltrúi allra Mosfellinga.

Farsæll grunnskóli

Anna Sigríður Guðnadóttir

Grunnskólarnir okkar eru ein megin samfélagsstoðin í bænum okkar. Öll höfum við gengið í skóla og vitum hversu mikilvægt hlutverk grunnskólanna er í fræðslu, uppvexti og félagslegri mótun barna.
Grunnskólinn hefur tekið geysilegum breytingum og framförum undanfarna áratugi frá því rekstur skólanna var fluttur frá ríki til sveitarfélaganna árið 1996. Við flutninginn var gert samkomulag milli sveitarfélaga og ríkisins um hvernig fjármagna skyldi reksturinn og hvaða upphæðir væri um að ræða. Allar götur síðan hefur verið deilt um hvort rétt hafi verið gefið í því spili.

Skóli margbreytileikans
Grunnskólinn hefur tekið mjög miklum breytingum á þeim tíma sem rekstur hans hefur verið á höndum sveitarfélaganna. Þar ber einna hæst stefnu stjórnvalda um skóla án aðgreiningar. Í skóla án aðgreiningar á að vera pláss fyrir öll börn og þau eiga að fá þá þjónustu sem þau þurfa til að þroska hæfileika sína.
Börnin eiga að fá aðstoð við að finna fjölina sína og skólinn á að útvega þeim þær bjargir sem þeim eru nauðsynlegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. En erum við að veita þá þjónustu sem börnin eiga skilið?

Kennarar og aðrir sérfræðingar
Kennarar eru sérfræðingar í kennslu og miðlun þekkingar og búa yfir gríðarlegri sérþekkingu á sínu sviði. Skóli margbreytileikans gerir mjög ríkar kröfur til kennara um að mæta öllum nemendum þar sem þeir eru staddir og veita öllum börnum þær bjargir sem þau þurfa til að uppfylla þær kröfur sem skólinn setur fram. En enginn kennari er sérfræðingur í öllu sem viðkemur börnum og þeim fjölbreytilegu þörfum sem þau hafa.
Til að búa börnum okkar sem vænlegust skilyrði til vaxtar og þroska þarf að fjölga öðrum sérfræðingum innan skólakerfisins til að starfa við hlið kennaranna. Ef við viljum að skóli án aðgreiningar nái markmiðum sínum verður að fjölga fagfólki með fjölbreytta þekkingu inni í skólunum. Til dæmis ættu þroskaþjálfar, talmeinafræðingar, iðjuþjálfar og sálfræðingar að vera hluti af starfsliði skólanna í ríkari mæli til að styðja við það starf sem sérfræðingar í kennslu stýra svo hvert barn fái sem besta möguleika á að þroska sína styrkleika. Með því að grípa þau börn sem það þurfa snemma og veita þeim þá þjónustu sem þau þurfa tímanlega er verið að fyrirbyggja vandamál síðar meir og leggja inn fyrir farsæld á fullorðinsaldri.

Fjármögnun og farsæld
Um hvað snúast sveitarstjórnarmál í grunninn? Þau snúast um þjónustu við íbúana, að íbúar fái þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda þegar hennar er þörf. Ekki síst á þetta við um þjónustu við börn þar sem hvert ár er óendanlega mikilvægt í þroskaferli þeirra.
Það er skylda sveitarfélaga að búa þannig að skólastarfi að það uppfylli þarfir barnanna og stuðli að farsæld þeirra. Það er verkefni næstu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, í samstarfi við önnur sveitarfélög, að halda áfram að þrýsta á ríkisvaldið um að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna þannig að þeim sé gert kleift að uppfylla margbreytilegar þarfir barna í skóla án aðgreiningar sem er jú stefna stjórnvalda.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Að rækta garðinn sinn

Bjartur Steingrímsson

„Maður verður að rækta garðinn sinn“ sagði Birtíngur í lok samnefndrar bókar eftir Voltaire. Það er hægt að leggja margs konar merkingu í þessi orð, en ein túlkun er sú að hver og einn beri ábyrgð á því að skapa sína eigin paradís í samspili við nærumhverfi sitt og samferðamenn.
Ef Mosfellsbær er okkar heimili þá mætti segja að fellin í kringum okkur, heiðarnar, skógarnir, árnar og vogarnir séu okkar garður og höfum við bæjarbúar skyldu til að rækta hann svo hann verði sem blómlegastur.

Eitt af höfuðeinkennum Mosfellsbæjar hefur verið hugmyndin um „sveit í borg“ og spila fyrrnefnd náttúra og víðerni þar höfuðhlutverk. Aðdráttarafl Mosfellsbæjar fyrir öllum þeim sem vilja njóta útivistar og óspilltrar náttúru er skýrt enda fjölgar bæjarbúum dag frá degi og færri komast að en vilja. Slíkri uppbyggingu og fólksfjölgun fylgja áskoranir, en jafnframt tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt og gera betur. Þétting byggðar, stuðningur við fjölbreytta samgöngumáta, rík áhersla á lýðheilsu og útivist og grænar áherslur í skipulagi eru meðal atriða sem núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur horft til í uppbyggingu bæjarins. Það er mikilvægt að sú uppbygging verði framsækin og umhverfismiðuð, en einnig í samræmi við þann bæjarbrag sem við höfum notið hingað til, svo að við glötum ekki því sem gerði bæinn okkar svo eftirsóttan til að byrja með.

Það hefur ýmislegt áunnist í umhverfismálum í Mosfellsbæ á liðnu kjörtímabili sem við getum verið stolt af. Ný og róttæk umhverfisstefna Mosfellsbæjar var gefin út árið 2019 sem markaði skýra sýn í umhverfisvernd, sjálfbærri landnýtingu, fræðslu og úrgangsmálum svo fátt eitt sé nefnt. Á kjörtímabilinu átti umhverfisnefnd bæjarins frumkvæði að því að stækka friðland við Varmárósa til að vernda enn fremur viðkvæmt votlendi og stefnt er að því í samstarfi við Reykjavíkurborg að friðlýsa Leiruvog og og Blikastaðarkró. Ef það heppnast mun Mosfellsbær hafa komið að því að friða alla þá ósnertu strandlengju og hafsvæði sem bærinn á land að fyrir komandi kynslóðir til að njóta. Í samstarfi við fyrirtækið Resour­ce International mun Mosfellsbær hefja reglubundnar loftgæðamælingar innan bæjarmarkanna á næstu misserum. Það er stöðug vinna að styðja við fjölbreytta og umhverfisvæna samgöngumáta, en bærinn hefur sýnt þann stuðning í verki með samstarfi um Borgarlínu og áframhaldandi uppbyggingu göngu- og hjólastíganets í bænum.

Umhverfis og loftslagsmál eru og munu halda áfram að vera stærsta staka áskorun og áhyggjuefni nútíma samfélags. Það þarf engan að undra sem hefur rætt þann málaflokk við yngri kynslóðir okkar. Liðinn er sá tími að umhverfismál og umhverfisvernd séu einungis til punts, nú er það okkur beinlínis nauðsyn að finna sjálfbærari leiðir til að lifa á þessari jörð og nýta hana. Eitt brýnasta verkefni stjórnvalda er að finna leiðir til að virkja hvern og einn einasta einstakling í því verkefni. Sveitarfélagið sem minnsta lýðræðislega stjórnsýslueiningin er kjörinn vettvangur fyrir slíkt, en hvar byrjar sú vinna ef ekki í skólunum, í lífi og leik út í náttúrunni, í umræðum við kvöldverðarborðið?
Það er hagur okkar allra að Mosfellsbær sé til fyrirmyndar í umhverfismálum, og að okkur bæjarbúum sé kleift að taka sem virkastan þátt í því verkefni. Þannig getum við haldið áfram að rækta garðinn okkar, svo að vist þeirra sem á eftir komi verði ávallt örlítið farsælli.

Bjartur Steingrímsson,
formaður Umhverfisnefndar Mosfellsbæjar fyrir hönd Vinstri Grænna.

Leiguíbúðir í Mosfellsbæ

Ólafur Ingi Óskarsson

Eitt af meginverkefnum sveitafélaga eru skipulagsmál. Á vettvangi sveitarstjórnarmála er oft rætt af miklum þunga um mikilvægi þess að skipulagsvaldið sé hjá sveitafélögunum til þess að undirstrika sjálfstæði þeirra við að móta samfélagið eftir vilja þeirra sem það byggja. Samt veltum við skipulagsmálum sjaldnast fyrir okkur nema kannski þegar kemur að því að gera eigi breytingar í okkar næsta umhverfi.
Einn veigamikill þáttur í skipulagi er að móta umhverfið þannig að það stuðli að fjölbreyttu og mannvænu umhverfi. Ein leið að því markmiði er að góð blöndun sé í hverfum með tilliti til aldurs og efnahags þeirra sem þar búa. Þetta getum við gert með því að skipuleggja mismunandi húsagerðir á nýjum byggingarreitum og að bjóða upp á mismunandi búsetuform sem henta mismunandi hópum.

Hamraborgarreitur
Nú er í skipulagsferli svokallaður Hamraborgarreitur sem afmarkast af Langatanga, Bogatanga og bensínstöð Olís. Í þeim tillögum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir blandaðri byggð af einbýlishúsum, raðhúsum og fjölbýlishúsum.
Umræddur byggingarreitur er gæddur mörgum kostum m.a. hvað varðar staðsetningu þar sem öll helsta þjónusta og verslun er í göngufæri og stutt er í góðar samgöngur, hver sem ferðamátinn er. Einnig mun fyrirhuguð Borgarlína liggja nálægt skipulagsreitnum. Mikill skortur hefur verið á ódýru og öruggu leiguhúsnæði hér í bæ eins og víðar á landinu fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur á vinnumarkaði.

Bjarg íbúðafélag
Í kosningastefnu Samfylkingarinnar fyrir kosningar 2018 lagði flokkurinn áherslu á að samstarf yrði tekið upp við óhagnaðardrifin leigufélög um uppbyggingu leiguíbúða.
Í samræmi við þá áherslu flokksins lagði undirritaður fram tillögu í skipulagsnefnd um að bæjaryfirvöld settu sig í samband við Bjarg íbúðafélag og ræddu hvort hér væri ekki á ferðinni vænlegur kostur til að byggja fjölbýli á þeirra vegum þar sem þeir kostir sem ég hef tiltekið falla mjög vel að hugmyndum félagsins.
Skipulagsnefnd samþykkti einróma að vísa tillögunni til bæjarráðs til skoðunar. Bæjarráð samþykkti að vísa tillögunni til bæjarstjóra til afgreiðslu í tengslum við þau samskipti sem nú eiga sér stað á milli Mosfellsbæjar og Bjargs íbúðafélags varðandi mögulega uppbyggingu í Mosfellsbæ.
Vonandi veit það á gott og áður en langt um líður verði hafist handa við uppbyggingu á góðu og öruggu leiguhúsnæði á vegum Bjargs íbúðafélags fyrir tekjulága íbúa í Mosfellsbæ.

Ólafur Ingi Óskarsson,
áheyrnarfulltrúi S-lista í skipulagsnefnd.

Vinir Mosfellsbæjar bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum í vor

Stefán Ómar Jónsson

Það var skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2018 sem hópur fólks með ýmsar stjórnmálaskoðanir og ólíkan bakgrunn kom saman og ákvað að stofna hreyfingu með það eina markmið að beita sér fyrir hagsmunum íbúa Mosfellsbæjar og gera þannig góðan bæ betri.
Þetta var fólk en ekki flokkur og þannig varð L-listi Vina Mosfellsbæjar til.

Þrátt fyrir mjög skamman fyrirvara fékk framboðið góðar viðtökur eða tæp 11% atkvæða og einn bæjarfulltrúa af níu. Vinir Mosfellsbæjar hafa starfað í bæjarstjórn og í nefndum bæjarins af ábyrgð og yfirvegun, tekið þátt í mörgum góðum ákvörðunum fyrir bæjarfélagið og bæjarbúa alla, staðið vörð um góða stjórnsýsluhætti og starfað af heiðarleika og gegnsæi.

Vinir Mosfellsbæjar eru sannfærðir um að óháður bæjarlisti þar sem aðeins hagsmunir íbúa bæjarins ráði för, eigi fullt erindi í Mosfesllsbæ og hafa því ákveðið að bjóða fram við komandi bæjarstjórnarkosningar þann 14. maí nk.
Innan skamms munu Vinir Mosfellsbæjar kynna undirbúning og tilhögun framboðsins nánar. Vinir Mosfellsbæjar telja það mjög mikilvægt að vanda til alls undirbúnings og að allir þeir sem þátt taka á framboðslistanum séu meðvitaðir um að störf sem þeim eru falin sem kosnir eru til starfa fyrir bæjarfélagið, eru samfélagsstörf í þágu allra bæjarbúa.

Stefán Ómar Jónsson
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Lærum að lesa, reikna, leika og lifa

Sara Hafbergsdóttir

Við getum gert svo ótrúlega margt. Sem barn vildi ég gera svo ótrúlega margt og lifa lífinu, leika mér og sjá heiminn, helst allan í einu.
Það voru ekki allir á því að þetta væri leiðin en ég var alveg með það á tæru hvað ég vildi gera. Það var ekki hægt að vera með eitthvað múður við mig. Það sem ég sá að aðrir vildu var ekki endilega það sem ég vildi og alls ekki vildi ég þrýsta á aðra að gera það sem ég vildi gera. Ég tel alveg fullvíst að börn hafi ekkert breyst hvað þetta varðar.

Hvað hefur þá breyst? Krafan er hugsanlega meiri bæði á börn í skólum og aðstandendur þeirra, foreldra. Hvað ef mamma og pabbi hafa ekki húsnæði? Hvað með vörumerkjasamkeppnina? Hvað með eineltið og þau börn sem hafa ekki sama aðbúnað, öryggi og umhyggju? Hvað er það sem veldur því að tölur Embættis landlæknis sýna að sjálfsvígum ungs fólks á aldrinum 18-29 ára rýkur upp á milli áranna 2019 og 2020? Hvað veldur því að um 17,9 karlar af hverjum 100.000 íbúa á Íslandi völdu sjálfsvíg að meðaltali árlega frá 2011 til 2020 en 5,1 kona? Hvað getum við gert til að búa fólk undir lífið svo það velji ekki að yfirgefa það?

Skólar eru skjól. Því þurfum við að tryggja í framtíðinni að starfsfólk þessara stofnana geti tekist á við vandann, sé með aukna þekkingu á þessu sviði og að umbúnaður skólanna verði bættur til að tryggja að þeir sýni enn betur að þar séu allir velkomnir eins og við vitum að er. Hér í Mosfellsbæ þarf að skoða það alvarlega að búa til fleiri úrræði og bæta við starfsfólki með sérþekkingu. Við búum nú þegar að því að eiga í Mosfellsbæ frábæra kennara og aðra starfsmenn sem gera sitt allra, allra besta. En hvernig getum við bætt í með skynsömum hætti?

Það er spurning hvort samtakamáttur bæjarbúa geti leitt til þess að hér verði sett á laggirnar greiningarmiðstöð fyrir ungmenni og fleiri leiðir verði boðnar börnum í skólakerfinu en aðeins þessi hefðbundna. Í bænum okkar eru fjölmörg fyrirtæki sem starfa á mörgum sviðum. Þar gætu gefist tækifæri til verklegrar kennslu og nýlega hafa framhaldsskólar fengið heimildir til að sjá um kennslu iðngreina og nú jafnframt geta þeir stuðlað að því að koma t.a.m. nemendum í starfsgreinum á samning. Þetta eigum við að kynna í skólum enn meira en áður. Við eigum að dekra meira við börnin okkar og hjálpa forráðamönnum þeirra að gera það líka, auka samveru foreldra og barna í skólunum og sýna virkilega fram á að börn, hvernig sem þau eru af Guði gerð séu velkomin nú sem fyrr. Skólinn er og á að vera börnum skjól. Kennum börnum því að lesa, reikna, leika og lifa.

Sara Hafbergsdóttir, varafulltrúi Miðflokksins
í fræðslunefnd Mosfellsbæjar

Mér finnst eins og ég muni…

Jana Katrín Knútsdóttir

Mér finnst eins og ég muni eftir því þegar Mosfellssveit varð að Mosfellsbæ. Sem er í raun ómögulegt því ég var ekki nema árs gömul og hef tæplega orðið vör við eða skilið breytinguna.
Líklega man ég þó eftir umræðunni þegar ég eltist því ég minnist þess að hafa sýnt nokkurn mótþróa og heitið því að kalla bæinn Mosfellssveit um ókomna tíð. Lengst af kallaði ég hann þó Músabæ og gerði ég mitt allra besta til að kalla hátt og snjallt „velkomin í Músabæ“ um leið og við fjölskyldan keyrðum inn fyrir bæjarmörkin hvort heldur sem var eftir ferð til Reykjavíkur eða Norðurlandið.
Að baki „Músabæjar“ stóð sú allra hlýjasta merking sem ég gat hugsað mér. Eitthvað sem var fallegt og gott enda einmitt sú tilfinning sem ég bar til heimabæjarins og geri svo sannarlega enn. Hér ólst ég upp og hér er ég svo lánsöm að ala börnin mín upp. Mosfellsbær hefur nefnilega svo marga góða kosti og sinn einstaka sjarma sem sveit í borg með náttúruna, fjöllin og fuglalífið allt um kring. Það skiptir mig miklu máli að hér sé og verði áfram gott að búa og sé ég ótalmörg tækifæri til þess að svo megi vera. Huga þarf að þeim þáttum sem snerta velferð fjölskyldna og íbúa bæjarins beint, t.a.m. aðgengi að þjónustu og afþreyingu, aðgengi að öflugu og vönduðu íþrótta- og tómstundastarfi og viðeigandi stuðningi fyrir þá nemendur sem þurfa á sértækum úrræðum að halda á öllum skólastigum.
Jafnframt er mikilvægt að horfast í augu við stöðu drengja í menntakerfinu sem farið hefur versnandi síðustu ár og sporna við þeirri þróun með stuðningi við bæði skóla og kennara. Við þurfum að huga að þjónustu í heimahúsum fyrir aldraða og fatlaða svo að fólki sé gert kleift að búa á eigin heimili og njóta þannig mannréttinda og aukinna lífsgæða.
Margt hefur verið gert í gegnum tíðina og mikilvægt að styðja enn frekar við innviði og grunnstoðir í samfélagi sem er í örum vexi. Þannig verður Mosfellsbær, bærinn okkar, að „stórasta“ bæ í heimi.

Jana Katrín Knútsdóttir,
frambjóðandi í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.

Bætum íþróttaaðstöðu í Mosfellsbæ

Valdimar Birgisson

Það birtist frétt fyrir nokkru af krökkum í Reykjabyggð í Mosfellsbæ að spila fótbolta með höfuðljós á óupplýstum fótboltavelli.
Þau höfðu sent bæjarráði handskrifað bréf þar sem þau óskuðu eftir lýsingu á völlinn og helst gervigras líka. Þessi frétt barst víða og var meira að segja sýnd í sjónvarpinu í Danmörku. Þessu erindi þeirra var vel tekið í bæjarráði og vísað til umsagnar í stofnunum bæjarins. Það er aðdáunarvert þegar ungir krakkar taka sig til og fara með mál til bæjarráðs og biðja um úrbætur eins og þau gera.

En við ættum öll að biðja um úrbætur því að aðstaða til íþróttaiðkunar er alls ekki nógu góð í Mosfellsbæ og við eigum að gera betur. Það er nokkuð ljóst.

Það er á fjárhagsáætlun fyrir næsta ár að hefja byggingu á félagsaðstöðu við Varmá. Löngu tímabær bygging því það hefur skort félagsaðstöðu og búningsklefa í langan tíma. Það vantar líka ýmislegt annað. Það eru tvær sundlaugar í Mosfellsbæ og hvorug er lögleg keppnislaug. Aðstaða fyrir frjálsar íþróttir hefur drabbast niður vegna þess að viðhaldi hefur ekki verið sinnt. Fótboltinn hefur ekki almennilegan keppnisvöll og vantar svæði til þess að æfa.
Helsta afrek meirihlutans á síðasta kjörtímabili er viðhald á íþróttasal á Varmá sem sami meirihluti hefur látið sitja á hakanum. Það sem var gert á kjörtímabilinu fyrir utan viðhald var bygging á knattspyrnuhúsi sem er mun minna en önnur sveitarfélög hafa verið að byggja og uppsetning á bráðabirgða áhorfendastæði við fótboltavöllinn. Áhorfendasvæðið er sunnan meginn við völlinn þar sem áhorfendur eru með vindinn í fangið og sólina í bakið.
Þetta eru þessi stórkostlegu afrek sem meirihlutinn getur státað sig af. Jú og reddað fjárhag golfklúbbsins. Löngu fyrirséður vandi sem golfklúbburinn var kominn í vegna byggingar golfskálans.

Við þurfum að gera betur. Það þarf að skipuleggja Varmársvæðið til framtíðar. Fjölga völlum á svæðinu og byggja upp aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að byggja löngu tímabæra félagsaðstöðu og hefst vinna við það á þessu ári. Það verður verkefni næstu bæjarstjórnar sem og að byggja íþróttahús við Helgafellsskóla.

Við þurfum líka að gera betur við að byggja göngu og hjólastíga í nágrenni Mosfellsbæjar. Það er leyndur fjársjóður sem við eigum í náttúrunni í kringum Mosfellsbæ. Þannig opnum við fellin fyrir útivist. Við þurfum að tryggja að aðstaða til hreyfingar og íþrótta fyrir börn, fullorðna, eldri borgara og allra annarra íbúa sé til fyrirmyndar og standa þannig undir nafni sem heilsueflandi samfélag.

Valdimar Birgisson
bæjarfulltrúi Viðreisnar í Mosfellsbæ