Fagleg handleiðsla

Dagný Kristinsdóttir

Á undanförnum árum hefur orðið mikil fjölgun á nemendum í grunn- og leikskólum bæjarins. Með auknum fjölda hafa skapast nýjar áskoranir meðal kennara og skólastjórnenda, margar þeirra krefjandi sem hafa sýnt fram á nauðsyn þess að efla og styrkja skólafólk með auknu aðgengi að sérfræðingum.
Það er fátt eins lamandi og erfitt í starfi með börnum og að lenda í alvarlegum aðstæðum sem þú veist ekki hvernig á að leysa. Á þeirri stundu þarf starfsmaðurinn lítið til að upplifa að stuðningur, innan vinnustaðar, sé ekki fyrir hendi.
Nú, þegar hægt hefur á nemendafjölgun í grunnskólum er gott að nýta tímann til að fara yfir undanfarin ár, skoða það sem vel hefur tekist til og hverju má standa betur að – með eflingu á þjónustu Fræðslusviðs. Fara þarf í þarfagreiningu í hverjum skóla, meta hvaða þjónustu þarf beint inn í skólana, hvaða þjónustu skólarnir geta sameinast um og verið miðlægt staðsett á Fræðslusviði.
Við í Vinum Mosfellsbæjar leggjum ríka áherslu á að á Fræðslusviði sé teymi sérfræðinga ráðið inn, sem fari út í skólana og sé kennurum og stjórnendum til stuðnings. Í teyminu geta verið ráðgjafar á borð við kennsluráðgjafa, hegðunarráðgjafa, sálfræðinga, félagsráðgjafa og ráðgjafarþroskaþjálfa sem geta stutt beint við bakið á kennurum.
Benda má á sambærileg verkefni í Reykjavík, Betri borg fyrir börn og þjónustu Farteyma. BBB verkefnið, eins og það er kallað, gengur út á það að færa þjónustuna nær notendum og hafa kennsluráðgjafar og hegðunarráðgjafar viðveru í skólum hverfisins á tilteknum tímum og geta þar tekið til vinnslu mál sem bíða og unnið jafnóðum og þau koma upp. Þessi viðvera hefur verið mikill styrkur fyrir nemendur og starfsfólk, vinnsla mála hefst fyrr, sem þýðir að færri málum er vísað til Þjónustumiðstöðva til vinnslu.
Þjónusta Farteyma er þjónusta við nemendur með fjölþættan vanda þar sem unnið er með nemandann í nærumhverfi hans. Allt kapp er lagt á að málin séu unnin í skólanum, ef það gengur ekki upp er teymið með aðsetur og getur tekið nemendur til sín. Með dyggri aðstoð og ríkri eftirfylgd náum við betri árangri, börnunum okkar til heilla.

Dagný Kristinsdóttir, skipar 1. sæti
á framboðslista Vina Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær – náttúru- og útivistarbær

Ásgeir Sveinsson

Skipulagsmál eru stór þáttur í vaxandi samfélagi okkar í Mosfellsbæ og eitt helsta hagsmunamál íbúa.
Bærinn okkar mun halda áfram að stækka á næstu árum en við ætlum að standa vörð um sérkenni Mosfellsbæjar sem „sveit í borg“ og huga vel að dýrmætri náttúrunni allt í kringum okkur. Mosfellsbær er fallegur bær, umlukinn fellum, ám og vötnum. Tengslin við náttúruna eru sterk og því er bæjarfélagið vinsælt til búsetu fyrir áhugafólk um útivist og íþróttir.

Við leggjum áfram áherslu á góð búsetuskilyrði í fallegu og öruggu umhverfi þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttum húsa- og íbúðagerðum sem uppfylla þarfir íbúa á öllum æviskeiðum. Sem heilsueflandi samfélag mun Mosfellsbær hafa heilbrigði bæjarbúa að leiðarljósi í skipulagsmálum.

Helga Jóhannesdóttir

Fagleg og fjölbreytt uppbygging heldur áfram
Uppbygging nýrra hverfa heldur áfram og þar er langstærsta verkefnið uppbygging á Blikastaðalandinu. Við ætlum að byggja upp stóra og fjölbreytta byggð á Blikastaða­landi með grænum svæðum inn á milli í byggðinni frá fjalli til fjöru og mun gamli Blikastaðabærinn standa áfram en honum er ætlað að vera hjartað í hverfinu. Í þessu hverfi sem og öðrum verður lögð mikil áhersla á góðar og öruggar samgöngur og stígakerfi með góðu aðgengi að hágæða almenningssamgöngum m.a. Borgarlínu.

Í öðrum nýjum hverfum verður meira haldið í hefðbundna mosfellska byggð með áherslu á minni þéttleika og sérbýli. Áfram verður lögð áhersla á góðar og fjölbreyttar samgöngur, sérstaklega fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur auk hestafólks.

Ævintýragarður – perla útivistar í Mosó
Ein helstu verðmæti Mosfellsbæjar er fjölbreytt náttúran sem umlykur bæjarfélagið og þau fjölbreyttu útistarsvæði sem við eigum. Þar er Ævintýragarðurinn perla sem er í uppbyggingu og framkvæmdir þar í gangi sem munu halda áfram. Deiliskipulag fyrir svæðið er tilbúið og verið er að klára hönnun og skipulag varðandi aðgengi að garðinum í samstarfi við Vegagerðina.

Í Ævintýragarðinum er nýbúið að opna glæsilegan samgöngustíg fyrir gangandi og hjólandi með fjórum akreinum sem annar umferðinni um garðinn mjög vel sem aðalsamgönguæðin í gegnum garðinn.
Mikil fjölbreytni verður innan Ævintýragarðsins samkvæmt skipulaginu og má þar nefna m.a. rósastíg sem mun liggja eftir svæðinu endurlöngu og ætistíg meðfram matjurtargarðinum.
Þar er einnig gert ráð fyrir fjallahjólabraut, gönguskíðabraut, stóru leiksvæði þar sem kastalinn, grillið og ærslabelgurinn eru þegar komin í notkun og á minni leiksvæðum á jöðrum garðsins verða einnig leiktæki fyrir alla aldurshópa. Settar verða upp þrekstöðvar á nokkrum stöðum í garðinum og þrektröppur, auk þess sem skíða- og sleðabrekkur verða á tveimur stöðum.
Í garðinum verður einnig tjaldsvæði og þjónustu- og veitingastaður tengdur því svo fátt eitt sé nefnt. Ævintýragarðurinn er og verður algjör útivistarperla fyrir okkur Mosfellinga til framtíðar.
Við eigum fleiri frábær útistarsvæði í Mosó og má þar til dæmis nefna þær fjölmörgu hjóla-, hlaupa- og göngleiðir í bæjarfélaginu og á fellunum í kring. Einnig má nefna Stekkjarflötina við Álafosskvos.
Það er markmið okkar að ljúka uppbyggingu útivistarsvæðis í miðbænum á næsta kjörtímabili. Þar mun glæsilegur miðbæjargarður vera hjarta miðbæjarins þar sem hægt verður að njóta útivistar í fallegu umhverfi og mun garðurinn ramma inn mannlífið í miðbænum og skerpa ásýnd miðbæjarins.

Ásgeir Sveinsson,
formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar.
Frambjóðandi í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.
Helga Jóhannesdóttir,
nefndarmaður í skipulagsnefnd.
Frambjóðandi í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.

Græn svæði fyrir alla

Stefanía Ragnarsdóttir

Eitt sterkasta einkenni og aðdráttarafl Mosfellsbæjar er náttúran sem umlykur byggðina. Fellin, heiðin og hafið.
Í bænum sjálfum eru það svo þessi litlu grænu svæði sem gefa mikið. Lækir, móar, stallar og skógar. Það eru heilmikið forréttindi að hafa aðgang að þessum grænu svæðum og þau hafa mikil áhrif á íbúana sem tengjast þeim allir á sinn hátt.

Til að tryggja vistvænar samgöngur, aðgengi fyrir alla og heilnæmt umhverfi þarf að horfa á grænu svæðin, bæði í stóru samhengi og smáu. Að ár séu verndaðar frá upptökum að ósum og að aðgengi að grænum svæðum sé mögulegt fyrir allar kynslóðir og hreyfigetu.
Það er lykilatriði fyrir umhverfið og þar af leiðandi loftslagið að græn svæði séu til í sinni náttúrulegustu mynd, bæði á stórum og smáum skala. Þau skapa lífið á jörðinni eins og við þekkjum það í dag, framleiða hreint loft, hreint vatn og aðstæður fyrir matvælaframleiðslu.
Grænu svæðin móta hversdaginn, hvort sem það er hlaupatúr meðfram sjónum, ganga með barnavagn á stígum milli trjáa og leikvalla eða bara eitt augnablik þegar litið er út um eldhúsgluggann og veður dagsins gefur útsýninu nýjan blæ.
Grænu svæðin sem við njótum alla daga þarf að vernda til framtíðar og eitt besta verkfærið sem við eigum til þess er náttúruvernd. Með skipulagðri vernd gefum við svæðunum framtíð og tryggjum að náttúran umlyki ekki bara bæinn heldur eigi sér líka heimili í þéttbýlinu.
Vinstri græn vilja fjölskylduvænt, réttlátt og umhverfisvænt samfélag. Verndun grænna svæða er í senn loftslagsaðgerð og einn lykillinn að þeirri framtíð.

Stefanía Ragnarsdóttir skipar 11. sæti
V-listans í kosningunum 14. maí.

Skólarnir okkar

Anna Sigríður Guðnadóttir

Fáir efast um það að skólarnir okkar í Mosfellsbæ, leikskólar og grunnskólar, séu þær stofnanir bæjarins sem snerta líf barna okkar mest. Hafa áhrif á uppvöxt og þroska, félagslega færni og velferð í víðum skilningi.
Ég birti greinina „Farsæll grunnskóli“ í Mosfellingi í febrúar síðastliðnum og ég skrifa aftur núna um skólana því ég tel að málefni barnanna okkar séu mikilvægustu málefni sem sveitarstjórnarfólk stendur frammi fyrir að sinna. Starfið sem unnið er innan þessara stofnana leggur grunninn í lífi barnanna okkar. Skólarnir auka jöfnuð í samfélaginu því þar mætast börn á jafnræðisgrundvelli. Þar eiga börnin að fá þá þjónustu sem þau þurfa til að rækta hæfileika sína og blómstra. En fá börnin þá þjónustu sem þau þurfa?
Það er alveg ljóst að starfsfólk skólanna gerir sitt allra besta til að styðja börnin til þroska en því miður hefur vantað úrræði inn í skólana svo mæta megi börnunum þar sem þau eru stödd. Kennarar eru settir í þá stöðu að bera ábyrgð á menntun og velferð barnanna en fá ekki þann sérfræðistuðning sem þarf og er nauðsynlegur.
Ef við grípum ekki börnin þegar þau þurfa á stuðningi að halda getur aðstoðin orðið mun kostnaðarsamari fyrir samfélagið á fullorðinsárum þeirra. Sveitarstjórnarmenn eiga alltaf að horfa langt fram í tímann og það á ekki síst við þegar við fjöllum um aðbúnað barna.
Leikskólinn er fyrsta skólastigið en oft hefur borið á skilningsleysi í umræðunni á því fagstarfi sem þar fer fram. Mannekla sem sífellt berast fréttir af víða um land, hefur á stundum orðið til þess að umræðan um skólastigið hefur hverfst um gæsluhlutverk leikskólans. Leikskólinn er hvort tveggja í senn, skóli og gæsla. Hluta dagsins er unnið samkvæmt námsskrá og síðan tekur frjáls leikur við undir umsjón starfsfólks en börnin eru náttúrulega að læra allan daginn. Snemmtæk íhlutun varðandi málþroska er gríðarlega mikilvægur þáttur í starfi leikskóla þar sem sjónum er beint að því að börn fái þá aðstoð sem þarf til að koma í veg fyrir að vandi ágerist.
Í leikskólunum okkar fer fram metnaðarfullt starf en það er nauðsynlegt að styrkja umgjörð þeirra sem skólastofnana, auka stuðning til símenntunar og til að sækja sér menntun í leikskólakennarafræðum. Samkvæmt lögum um menntun og hæfni kennara eiga 2/3 hlutar stöðugilda í leikskólum að vera mannaðar með kennurum. Því fer víðs fjarri að það hlutfall náist.
Ég lýk þessum skrifum með tveimur áherslupunktum úr kosningastefnuská Samfylkingarinnar og hvet kjósendur til að kjósa út frá hagsmunum barna og kynna sér stefnumál okkar á sammos.is

Fjölbreyttari sérfræðiþekkingu inn í skólana
Við viljum ráða sérfræðinga með mismunandi fagþekkingu inn í teymi sem þjónustar skóla bæjarins.

Gjaldfrjáls leikskóli – fyrsta skólastigið
Við stefnum að gjaldfrjálsum leikskóla með það markmið að sá tími sem ætlaður er í skipulagt, faglegt skólastarf samkvæmt námsskrá verði gjaldfrjáls.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi,
skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar

Mosó, stórasti bærinn!

Ragnar Bjarni Zoëga

Það er gott og eftirsóknarvert að búa í Mosfellsbæ eins og við öll vitum. Samkvæmt könnunum eru íbúar hér með þeim ánægðustu á landinu sem er ekkert nýtt fyrir okkur sem höfum búið hér lengi. Það er nefnilega alvitað að það er best að búa í Mosfellsbæ, þar sem sveit og borg sameinast í hina fullkomnu blöndu sveitar og byggðar.
Í Mosó eru góðir skólar og mjög flott íþrótta- og tómstundalíf og frábært að alast hér upp. Mosfellsbær er gæðasamfélag sem við í meirihlutanum höfum unnið í að þróa og skapa undanfarin ár og við viljum halda því áfram.
Við viljum líka halda áfram að vera snjöll og framsýn og ætlum að opna FabLab smiðju og viljum líka koma á fót Þróunar- og nýsköpunarsetri sem gefur endalausa möguleika fyrir ungt fólk til að taka þátt í þróun og nýsköpun. Staður þar sem ungt fólk kemur hugmyndum sínum á framfæri.

Við í Sjálfstæðisflokknum ætlum áfram að stuðla að því að boðið verði upp á fjölbreytt húsnæði fyrir alla aldurshópa í nýjum hverfum bæjarins. Mismunandi stærðir og skipulag á íbúðum henta ólíkum hópum af fólki. Með því að auka úrval og framboð á fjölbreyttari íbúðum viljum við passa að allir sem eru að leita að heimili í Mosfellsbæ geti fundið eitthvað sem hentar fyrir sig. Fyrir ungt fólk og ungar fjölskyldur er það spennandi valkostur að geta eignast sína fyrstu íbúð hér í Mosfellsbæ.

Þóra Björg

Áherslur Sjálfstæðisflokksins eru að stuðla að því að boðið verði áfram upp á fjölbreytta og fjölskylduvæna byggð, fjölbreytta möguleika á húsnæði fyrir alla og allar fjölskyldustærðir allt frá einstaklingsíbúðum til stærri eigna fyrir stórar fjölskyldur.
Við viljum byggja upp stóra og fjölbreytta byggð á Blikastaðalandi. Blikastaðalandið er tilvalið svæði til að bjóða upp á fjölbreytt úrval af húsnæði fyrir bæði núverandi og verðandi Mosfellinga.

Ekki má gleyma þeim sem byggðu upp þetta samfélag og er Mosfellsbær með forystu Sjálfstæðisflokksins búinn að gera samning um uppbyggingu á íbúðum í Bjarkarholti fyrir eldri borgara í samstarfi við Eir. Þar munu rísa öryggis- og þjónustuíbúðir sem munu tengjast við núverandi byggingar auk þess sem húsnæði fyrir félagsstarf mun aukast mjög mikið. Þessar viðbætur tryggja það að bærinn geti mætt þörfum þessa ört stækkandi hóps enn betur.

Íbúafjöldi Mosfellsbæjar hefur frá árinu 2004 til dagsins í dag tvöfaldast og frá 2011 hefur aukningin verið 50%. Það mætti þá kannski segja að Mosfellingurinn og fyrrverandi forsetafrú hafi haft rétt fyrir sér þegar hún sagði að Mosfellsbær væri stórasti bærinn eða eitthvað í þá áttina.

Ragnar Bjarni Zoëga og Þóra Björg frambjóðendur á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar 14. maí

Líf í bæinn

Kristján Erling Jónsson

Nú þegar Hlégarður hefur verið opnaður á ný getum við loksins farið að nota aðstöðuna til að njóta lista og menningar sem í boði er í bænum.
Það er mikil söngmenning í bænum okkar. Við erum rík af kórum og ekki síður listafólki sem bæði er búið að gera garðinn frægan eða er að gera tónlist og skapa alls konar list
Hvernig væri að opna Hlégarð nokkra daga í mánuði og gefa fólki færi á að nýta húsið sem vettvang til að koma sér á framfæri? Það væri hægt að bjóða kórum upp á að hafa opnar æfingar, halda sýningar listafólks eða aðra sköpun.
Þessir viðburðir yrðu opnir fyrir Mosfellinga og aðra gesti. Nú nýverið var stofnað lista- og menningarfélag Mosfellinga sem er ætlað að sameina listamenn og gera meira úr menningu bæjarins. Aðgangseyrir að viðburðum gæti verið hóflegur og runnið til þessa nýja og mikilvæga félags.
Ég get sagt út frá sjálfum mér sem meðlim í Karlakór Kjalnesinga og Stormsveitinni að ég væri meira en til í að fá að koma fram og syngja án gjalds en styrkja gott málefni í staðinn, og ég held ég tali fyrir munn margra því fyrir okkur er það allra skemmtilegasta að koma fram fyrir áheyrendur.

Kristján Erling Jónsson
skipar 7. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar

Snemmtæk úrræði fyrir skólasamfélagið. Hvað er til ráða?

Erla Edvardsdóttir

Á undanförnum árum hefur Mosfellsbær vaxið jafnt og þétt og í dag eru 5 grunnskólar og 9 leikskólar starfræktir í bæjarfélaginu.
Sem starfandi kennarar hér í bæ höfum við fundið fyrir vaxandi þörf á sértækum úrræðum af ýmsum toga fyrir börn og ungmenni sem kljást við félagslega einangrun, einhverfu, ADHD taugaþroskaröskun, tengslavanda, þroskaskerðingu, sjálfsskaða, geðraskanir, áhættuhegðun, tölvufíkn og hegðunarvanda. Auk þess sárvantar móttökudeild fyrir nýbúa með annað móðurmál en íslensku, en þeim hefur farið fjölgandi í bæjarfélaginu.
Hugmyndafræðin „skóli án aðgreiningar“ er flott á blaði en hefur ekki verið fylgt inn í skólakerfið með því fjármagni og sérþekkingu sem þarf til. Allt of fá úrræði hafa verið í boði fyrir börn með mikinn vanda og biðin eftir því að komast að hjá sérfræðingum oft allt of löng. Við það skapast mikið álag, bæði innan skólakerfisins og inn á heimilunum. En hvað er til ráða?
Við í Framsókn teljum að með því að koma upp miðlægðri þjónustumiðstöð sem býður upp á margs konar úrræði, sniðnum að þörfum hvers og eins, megi draga verulega úr þessu álagi. Í slíkri þjónustumiðstöð væru starfandi sérfræðingar á sviðum sálfræði, talmeinafræði, atferlistfræði, uppeldisfræði, nýbúafræði og kennsluráðgjafar, svo eitthvað sé nefnt. Þessir sérfæðingar gætu nýst öllum börnum leik-og grunnskólanna, líka yfir sumartímann. Þessir sérfræðingar kæmu inn í

Þorbjörg Sólbjartsdóttir

skólana eftir þörfum hverju sinni, auk þess sem húsnæði þjónustumiðstöðvarinnar væri nýtt til kennslu og námskeiðahalds. Þjónustumiðstöðinni væri einnig ætlað að veita foreldrum upplýsingar og aðstoð hvað réttindi barna þeirra varðar.
Hið sögufræga hús, Brúarland, væri tilvalið fyrir slíka þjónustumiðstöð, en undanfarin ár hefur húsnæðið verið nýtt til skólahalds og nemendum og starfsfólki liðið afar vel þar.
Með því að byggja upp miðlæga þjónustumiðstöð í Brúarlandi tryggjum við skólakerfinu hér í bæ greiðan aðgang að sérfræðingum og stuðlum að snemmtækri íhlutun sem líta þarf á sem fjárfestingu í framtíðinni, bæði fyrir einstaklinginn, fjölskyldu hans og samfélagið.

Erla Edvardsdóttir og Þorbjörg Sólbjartsdóttir
Höfundar eru grunnskólakennarar og skipa 6. og 8. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ.

Öll á sama báti

Ari Trausti Guðmundsson

Aðgerðir okkar í loftslagsmálum gagnast veröldinni. Það sem önnur ríki ná að gera í þeim efnum er samtímis í okkar þágu.
Einföld sannindi rétt eins og þau að jákvæðar aðgerðir, sem minnka losun kolefnisgasa eða binda kolefni, eru ekki á fárra höndum. Þær eru flókið langtíma samvinnuverkefni stjórnvalda, þ.e. ríkis, þings og sveitarstjórna, margvíslegra samtaka, fyrirtækja og almennings. Enginn er eyland þegar kemur að umhverfi samfélaga hvar sem þau eru. Við erum þar með öll í sama bátnum hvað sem fjarlægðum og ólíkri menningu veraldar líður. Þetta á líka við um aðlögun að loftslagsbreytingunum. Þar mun alþjóðleg samvinna skipta meginmáli.
Orkuskipti eru meðal helstu verkefna. Til þeirra þarf raforku. Full orkuskipti merkja að vélknúin tæki á landi, sjó og í lofti nota ekki olíu, bensín eða þotueldsneyti, heldur „grænt“ rafmagn og rafeldsneyti, byggt á vetni framleiddu með slíkri orku, að því marki sem samfélagið ákveður.
Markið er nú sett við 2040 og þá búið að „fasa út“ yfir milljón tonna ársnotkun af jarðefnaeldsneyti. Sjálfbær orkustefna og raunhæf loftslagsstefna Íslands eiga að taka mið af þessu næstu 18 árin. Samhliða æ minni losun kolefnisgasa verður reynt að binda sem mest kolefni í gróðri og jarðvegi með ýmsum aðferðum.
Sveitarfélög hafa sem betur fer sett sér umhverfis- og loftslagsstefnu, sum jafnvel líka auðlindastefnu. Mosfellsbær hefur, m.a. með stuðningi VG, tekið þátt í vinnu við nýja, sameiginlega loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið: Grunnstefnu sem sveitarfélög geta lagað að sér. Góðar vonir eru bundnar við hana.
Kolefnisspor Íslands er stórt miðað við fólksfjölda. Aðgerðir hér varða bæði ábyrgð okkar og velferð milljarða manna, þegar allt kemur til alls. Við erum þátttakendur í örlagaríku verkefni jarðarbúa. Það munar um Mosfellsbæ í þessu samhengi.
Sveitarfélagið getur og á að spara orku og minnka kolefnislosun með orkuskiptum í sínum ranni. Fyrirtæki og samtök geta það, einnig heimilin, og við getum unnið saman að því að binda kolefni með því bæta við gróðri og endurheimta votlendi. Vernda og ganga vel um umhverfið, m.a. minnka notkun og sóun plasts sem mengar umhverfið víða í sveitarfélaginu.
VG er með framsýna stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum og hefur sýnt ábyrgð í málefnum sveitarfélagsins. Hún þarf áfram að skila sér til samfélagsins í Mosó.

Ari Trausti Guðmundsson
skipar 14. sæti V-lista í kosningunum 14. maí.

Einhverfugreining og hvað svo?

Olga Kristrún Ingólfsdóttir

Sonur minn fékk greiningu á einhverfu hjá Ráðgjafa og greiningarstöðinni í desember 2019.
Þetta var um þriggja ára ferli sem svo sannarlega tók á, ekki síst fyrir son okkar. En við erum virkilega þakklát fyrir það að skólinn hans, Krikaskóli, var ekki að bíða eftir greiningunni áður en hann gat brugðist við heldur tók á móti hans þörfum eins best og hægt var.
En svo kom greiningin og hvað breyttist? Var einhver hjá Mosfellsbæ sem hafði samband við okkur foreldrana og upplýsti okkur um hvaða réttindi sonur okkar og við höfðum? Eða færi yfir hans mál og skoðaði hvort sonur okkar væri í einhverju tómstundastarfi? En félagsleg örvun er gríðarlega mikilvæg fyrir einhverf börn.
Það var því miður ekki svo, það hefur engin hjá Mosfellsbæ haft samband og farið yfir með okkur hvaða réttindi hann ætti rétt á og hvernig við getum snúið okkur í þeim málaflokki. Heldur höfum við þurft að hafa fyrir því sjálf og enn í dag vitum við ekki hvort að við séum að fullnýta okkur þau réttindi sem sonur okkar á rétt á því það er engin sem segir okkur það og aðgengi upplýsinga er mjög ábótavant a.m.k eru þau ekki sýnileg.

Ég vil taka það fram að samskipti og þjónusta starfsfólks Mosfellsbæjar er til fyrirmyndar og það eru allir að gera sitt besta en það er augljóst að verkferlar í þessum málaflokki eru ekki skýrir.
Þessu þarf að breyta og ég sé fyrir mér að það væri umboðsmaður fatlaðs fólks sem færi yfir þennan málaflokk og væri í nánu samstarfi við einstaklinginn og fjölskyldu hans svo farið væri yfir hans mál með það að markmiði að styðja við, efla og styrkja til sjálfstæðs lífs. Með þessu fyrirkomulagi væru verkferlar skilvirkari og skýrt hver réttindi barnsins eru.

Olga Kristrún Ingólfsdóttir
Höfundur skipar 5. sæti á lista Viðreisnar í Mosfellsbæ

Öflug stuðningsþjónusta fyrir eldri Mosfellinga

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Mosfellsbær er ört stækkandi sveitarfélag og mun halda áfram að stækka. Í bæinn okkar flytja íbúar sem hafa aldrei búið hér áður, eða eru kannski að snúa til baka eftir að hafa alist hér upp bæði ungir sem aldnir, stórar fjölskyldur eða pör og einstaklingar sem eru að feta sín fyrstu skref á eigin fótum.

Við sem hér búum viljum líka fá foreldra okkar til að vera nær okkur og flytja í Mosó. Eitt af því sem hefur verið rætt á fundum hjá okkur í Öldungaráði Mosfellsbæjar er það hvaða þjónusta er í boði fyrir eldri Mosfellinga, og hvort þeir sem þurfa á þjónustunni að halda séu meðvitaðir um það sem þeir eiga rétt á. Hvar finna þeir upplýsingarnar og við hvern á að tala?

Það er ýmis þjónusta í boði fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ sem þarfnast stuðnings. Eldra fólk sem ekki getur séð hjálparlaust um heimilishald eða persónulega umhirðu getur sótt um stuðningsþjónustu hjá fjölskyldusviði Mosfellsbæjar. Í stuðningsþjónustu felst einstaklingsbundin aðstoð sem metin er hverju sinni af sérmenntuðu fagfólki á fjölskyldusviði og getur falið í sér t.d. heimaþjónustu, félagslegt innlit, heimsendan mat sem og ráðgjöf við einstaklingana sjálfa og aðstandendur þeirra.

Mikil áhersla hefur verið lögð á það hjá Mosfellsbæ að efla stuðningsþjónustu við eldri borgara með það að markmiði að gera fólki kleift að búa sem lengst í heimahúsi. Reglubundið samráð og samstarf milli heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu hefur verið komið á laggirnar til að tryggja að þörfum fólks fyrir stuðning verði mætt sem best sem og að tryggja öllum samfellu í þjónustu. Við viljum fyrst af öllu að allir Mosfellingar geti átt áhyggjulaust ævikvöld og notið þess með okkur hinum sem hér búa. Það hefur verið markmið okkar að bæta þjónustuna og það verður það áfram.

Nú er komin í loftið ný og endurbætt heimasíða hjá Mosfellsbæ www.mos.is þar sem tilvonandi notendur og aðstandendur þeirra geta fundið allar upplýsingar sem og að hafa samband við þjónustuverið til að fá aðstoð.

Rúnar Bragi Guðlaugsson, bæjarfulltrúi, formaður fjölskyldunefndar,
Öldungaráðs og frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar 14. maí 2022

Hálfa leið eða alla leið?

Halla Karen Kristjánsdóttir

Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag og hefur verið leiðandi í þróun verkefnisins sem hefur verið innleitt víða um land.
Framsókn í Mosfellsbæ vill leggja áherslu á áframhaldandi forystu, innleiðingu og rekstur verkefnisins og þannig setja lýðheilsu í forgrunn við alla ákvarðanatöku á vegum bæjarins. Við viljum ekki láta staðar numið við fallegt plagg heldur þarf að fylgja því eftir með fjármagni og aðgerðum.
Íþrótta- og tómstundastarf hefur verið og verður mál málanna næstu árin. Af hverju ? Jú það eru allir orðnir sammála um hversu mikið gildi heilbrigt íþróttastarf og tómstundir eru. Í samfélagi þar sem er mikill hraði og áreiti verður sífellt mikilvægara að leita leiða til að spyrna gegn streitu, kvíða og vanlíðan með öflugu framboði af leiðum til hreyfingar og samveru.
Framsókn í Mosfellsbæ vill hugsa stórt. Við viljum búa til sameiginlega framtíðarsýn og vinna markvisst að því að hún verði að veruleika.

Við höfum allt til þess að vera fyrirmyndar Heilsubærinn Mosfellsbær og það á að vera eftirsóknarvert að vera hér bæði fyrir íbúa og gesti. Bærinn okkar á að vera í fremstu röð þegar kemur að heilsueflingu fyrir alla.
Mosfellsbær nýtur gríðarlegra forréttinda. Hér er ósnortin náttúra í bakgarðinum, fjöll, dalir, lækir og vötn. Ein af perlum okkar er Varmársvæðið sem er allsherjar íþrótta og útivistaparadís. En það er ekki nóg að vera með íþróttaaðstöðu, það þarf að hlúa að henni og sinna viðhaldi. Þegar kemur að framkvæmdum þarf að hugsa stórt og uppbygging íþróttamannvirkja á að vera metnaðarfull og þannig úr garði gerð að hún svari þörfum starfseminnar sem þar fer fram til framtíðar. Þannig verður hagur allra bæjarbúa hafður í fyrirrúmi.

Hvað er það sem nærir þig?
Jú svörin eru væntanlega eins misjöfn og þau eru mörg. Því það sem nærir þig, nærir ekkert endilega aðra. Það er eins með börnin okkar og okkur sjálf það hafa ekki allir áhuga á sömu íþróttagreininni eða bara að æfa íþróttir yfir höfuð. Sumir finna hjartað slá hjá Aftureldingu, aðrir brenna fyrir jaðaríþróttum enn aðrir velja að fara í tómstundir eins og t.d. skáta, vera í tónlistaskólanum eða í kórstarfi.
Framsókn í Mosfellsbæ vill að stofnað verði til samráðsvettvangs allra þeirra sem koma að hreyfingu og tómstundum hjá bæjarfélaginu. Vegna þess að það er mikilvægt að auka samtalið og samvinnuna. Þannig aukum við líkurnar á því að forsvarsmenn félaga verði frekar meðvitaðir um hvað er helst á dagskrá í bænum og geti hjálpast að við að efla kynningu á því góða starfi sem fer fram hér í bæjarfélaginu okkar. Því öll erum við að vinna að sama markmiðinu sem er að efla einstaklinginn andlega, líkamlega og félagslega.

Öflug sókn í íþrótta og tómstundastarfi er besta forvörn sem við getum veitt börnunum okkar. Við foreldrarnir sem og afar og ömmur megum samt ekki gleyma hlutverki okkar. Við erum fyrirmyndir. Eins og málshátturinn segir: „Það sem þú gerir hljómar svo hátt að það sem þú segir heyrist ekki.“

Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari og oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ

Almenningssamgöngur og skipulagsmál

Ómar Ingþórsson

Í ört vaxandi bæjarfélagi eins og Mosfellsbæ vegur mikilvægi góðra almenningssamgangna þyngra með hverju árinu.
Mörg okkar hafa e.t.v. ekki mikinn áhuga á þessum málum enda hefur einkabílinn þjónað okkur vel þar sem leiðarkerfi strætó hefur verið stopult og ekki fallið að okkar þörfum. Hvers vegna er þetta yfir höfuð eitthvað sem skiptir okkur máli? Hér verðum við hins vegar aðeins að staldra við og spyrja okkur hverjar eru og hverjar munu okkar þarfir verða á komandi árum. Sérstaklega þegar við vitum að þensla gatnakerfisins verður ekki endalaus, að þungi umferðar mun aukast með tilheyrandi biðtíma, að boðaðar eru nýjar álögur á einkabílinn svo ekki sé talað um allan þann aukna kostnað og umhverfisáhrif sem af þessari þróun hefur hlotist.

Almenningssamgöngur og skipulagsmál eru og ættu að vera samtengd mál þar sem gott skipulag getur auðveldað flæði á milli íbúðahverfa og samtímis gert tengingar greiðfærari og hagkvæmari. Við gerum okkur grein fyrir að margt er hægt að bæta í Mosfellsbæ, þetta er í raun þroskaferli.
Ný hverfi hafa byggst upp stakstæð með lélegum tengingum inn í leiðakerfi strætó. Þetta þekkjum við frá fyrstu árum Leirvogstung- og Helgafellshverfis. Hins vegar hefði þetta ekki þurft að vera svona í upphafi því við skipulagningu nýrra íbúðahverfa skyldi ætíð horfa til þess hvernig samgöngur eru við önnur hverfi og hvernig almenningssamgöngur þróast næstu áratugina. Það er mun óhagstæðara að huga að þessum hlutum þegar þeir eru komnir í öngstræti og gera breytingar eftir á. En hvað þarf til?

Innanbæjarstrætó
Í fyrsta lagi þarf að tryggja tíðar samgöngur frá Reykjavík og til Mosfellsbæjar þar sem endastöðin er samgöngumiðstöð í miðbæ Mosfellsbæjar, kjarnastöð. Þessari kjarnastöð þarf að finna stað en hún er ekki nógu vel skilgreind í dag. Í öðru lagi þarf síðan að koma innanbæjarstrætó sem myndi ganga ákveðna innanbæjarleið frá kjarnastöðinni og tengja saman ólík íbúðahverfi innan bæjarins. Innanbæjarstrætó myndi t.d. stuðla að öruggari og auðveldari samgöngum yngri kynslóðanna milli skóla og íþróttasvæða. Hann væri límið sem myndi tengja saman íbúðahverfi bæjarins og draga úr þörf fyrir hið eilífa foreldraskutl.

Hringrásarskipulag
Við verðum að byggja upp almenningssamgöngur þannig að þær séu hugsaðar sem hringrás innan bæjarins, eins konar hringrásarskipulag sem tengir ólík íbúðahverfi, gerir flæðið milli þeirra auðveldara og samfélagið samheldnara, öruggara og umhverfisvænna. Við verðum líka að minna okkur á að Mosfellsbær er ekki úthverfi Reykjavíkur, þar sem almenningssamgöngur taki bara mið af því að komast til borgarinnar, heldur miklu fremur sjálfstætt hverfi á höfuðborgarsvæðinu með okkar eigin forsendur, þarfir og óskir um þjónustu innan okkar hverfis.
Við getum orðið mun sjálfbærari með tímanum ef við tökum ákvörðun um að verða það. Almenningssamgöngur innan bæjarins eru því mikilvægur stefnumótandi skipulagsþáttur í sjálfbærni bæjarins, sérstaklega þegar vitað er að Mosfellsbær mun meira en tvöfaldast á næstu 20 árum og mörg ný skólahverfi líta dagsins ljós.

Samfylkingin vill beita sér fyrir nýrri nálgun í skipulagi, framsýnni og sjálfbærri fyrir framtíðina.

Ómar Ingþórsson, skipar 3ja sæti framboðslista Samfylkingarinnar

Fjárfestum í ungu fólki

Hrafnhildur Gísladóttir

Undir forystu Framsóknar hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, staðið að einu mesta átaki sem lagt hefur verið í varðandi velferð barna og ungmenna á Íslandi.
Slagorðið „fjárfestum í fólki” var eitt af megin stefum Framsóknar í síðustu Alþingiskosningum. Framsókn í Mosfellsbæ hefur sett það á stefnuskrá sína að halda þeirri stefnu á lofti að fjárfesta í ungu fólki þar sem að öll fjárfesting í fólki skilar sér margfalt til baka í framtíðinni.

Hvað felst í því að fjárfesta í ungu fólki?
Fjárfestingar eru fjármunir sem ráðstafað er til lengri eða skemmri tíma og þurfa að skila því að kostnaður verði ekki meiri en fjárfest var fyrir og helst að skila arði. Fjárfesting í ungu fólki þýðir það að halda þarf úti þjónustu og verkefnum sem stuðla að þroska, byggja upp reynslu, draga úr áhættu og auðvelda inngrip þegar á þarf að halda.
Kostnaður við að halda úti slíkri þjónustu er þá sú fjárfesting sem mun til lengri tíma litið leiða til þess að unga fólkið í dag verði kraftmiklir, hugmyndaríkir og heilbrigðir fullorðnir einstaklingar sem skapa verðmæti fyrir samfélag framtíðarinnar og verða þá jafnframt síður líkleg til að lenda út af sporinu síðar á lífsleiðinni. Með öðrum orðum, fjárfestingin skilar sér til framtíðar í auknum lífsgæðum einstaklinga, auknum tekjum fyrir samfélagið og lægri kostnaði.

Leifur Ingi Eysteinsson

Það eru fjölmörg verkefni sem sveitarfélög sinna sem snúa að ungu fólki. Í leikskóla og upp allan grunnskóla er börnum skapað umhverfi sem stuðlar að auknum þroska, námi og félagsfærni. Í félagsmiðstöðvum er skipulagt starf, í umsjá fagfólks, sem hefur mikið forvarnargildi. Þar fá ungmenni að spreyta sig á verkefnum í öruggu umhverfi.
Viðfangsefnin eru fjölbreytt, enda er ungt fólk margbreytilegt með mismunandi áhugasvið, mismunandi forsendur og mismunandi getu. Félagsmiðstöðvar sem reknar eru á faglegum forsendum með reyndu starfsfólki eru kjörinn vettvangur til að koma til móts við þær fjölbreyttu þarfir og áskoranir ungs fólks.

Félagsmiðstöðin Bólið er rekin á þremur starfsstöðvum, Lágafellsskóla, Kvíslaskóla/Varmárskóla og Helgafellsskóla. Opnunartími félagsmiðstöðva í Mosfellsbæ miðast við skólaárið. Það hefst um miðjan ágúst og lýkur í enda maí.
Það að tryggja samfellu í starfi félagsmiðstöðva allt árið hefði í för með sér að hægt væri að sinna því mikilvæga forvarnarstarfi, sem unnið er í félagsmiðstöðvum, einnig yfir sumartímann. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir faglegt starf að geta boðið upp á fleiri heilsársstörf fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva í Mosfellsbæ.

Framsókn í Mosfellsbæ vill að félagsmiðstöðin Bólið verði starfandi yfir sumartímann til að tryggja áframhaldandi velferð og utanumhald um unga fólkið okkar.
Framsókn vill fjárfesta í ungu fólki.

Hrafnhildur Gísladóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur, 7. sæti á lista Framsóknar
Leifur Ingi Eysteinsson nemi í tómstunda og félagsmálafræði, 5. sæti á lista Framsóknar

Þjónusta við aldraða

Ólafur Ingi Óskarsson

Umræðan um skort á hjúkrunarrýmum hefur verið fyrirferðarmikil á undanförnum misserum og árum og þá einkum í tengslum við fráflæðisvanda Landspítalans. Það er dýrt úrræði að fólk sem lokið hefur sjúkrahússmeðferð dvelji á spítala og teppi háþróuð og dýr legurými.
Bæði þessi úrræði, sjúkrahús og hjúkrunarheimili, eru á ábyrgð og í umsjón ríkisins. Það vekur furðu að ríkisstjórnin sem að minnsta kosti í orði kveðnu gefur sig út fyrir hagkvæmni í rekstri geri ekki það augljósa þ.e. að fjölga hjúkrunarrýmum.

Hlutverk sveitarfélaga
Sveitarfélög geta líka komið að lausn þessa vanda og jafnvel seinkað því að fólk þurfi að flytja á hjúkrunarheimili. Þau geta boðið upp á valkosti í sinni þjónustu sem í raun flestir sem komnir eru á efri ár geta valið um. Einn möguleiki er að öldruðum sé gert kleift að búa og lifa á sínu heimili, eins lengi og kostur er, með þeim stuðningi sem þarf til og hentar hverjum og einum. Það er reyndar lögbundið hlutverk sveitarfélaga að annast þessa þjónustu og vissulega gera sveitarfélög það, en þó hvert með sínum hætti.

Elín Árnadóttir

Með því að bæta í og auka gæði stuðningsþjónustu sveitarfélaga með fjölbreyttum úrræðum og samfelldri þjónustu getum við seinkað verulega innlögnum á hjúkrunarheimili og þar með dregið úr kostnaði samfélagsins. Fyrir utan lægri kostnað þá stuðlar bætt stuðningsþjónusta að því að aldraðir hafi val og geti búið lengur í því húsnæði sem þeir helst kjósa.

Samþætt þjónusta
Til að aldraðir hafi þetta val er mjög mikilvægt að þjónustan sem í boði er, og er grundvöllur þess að aldraðir geti nýtt sér valfrelsi, sé samþætt undir einni stjórn. Hér í Mosfellsbæ er þessi þjónusta, stuðningsþjónusta og heilbrigðisþjónusta, á hendi þriggja aðila. Til að bæta þjónustu við aldraða Mosfellinga í heimahúsum svo þeir hafi raunverulegt val um búsetu og til auka yfirsýn og skilvirkni er samþætting nauðsynleg. Þessu ætlum við jafnaðarmenn breyta og stuðla þar með að aukinni farsæld þeirra sem þjónustunnar njóta.

Það þurfti jafnaðarmenn í ríkisstjórn á sínum tíma til þess að hjúkrunarheimili risi í Mosfellsbæ og það þarf jafnaðarmenn í meirihluta í bæjarstjórnar Mosfellsbæjar til þess að bæta þjónustu við eldri borgara í bænum.

Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna. Settu X við S á kjördag.

Ólafur Ingi Óskarsson, skipar 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar
Elín Árnadóttir, skipar 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar

Hver ákvað þetta eiginlega!

Lovísa Jónsdóttir

Fyrir 4 árum gaf ég í fyrsta skipti kost á mér í sveitarstjórnarkosningum í Mosfellsbæ. Það má svo sannarlega segja að á kjörtímabilinu sé margt sem hefur komið mér á óvart.
Þrátt fyrir að vera löglærð og telja mig vita nokkurn veginn hvernig skipulagi sveitarstjórnamála væri háttað, þá hvarflaði ekki að mér að það væri jafnmikill lýðræðishalli í bænum okkar og raun ber vitni.

Heilmikill kostnaður
Lögum samkvæmt ber öllum sveitarfélögum að vera með nefndir sem eiga að bera ábyrgð á sínum málaflokkum. Skóla- og leikskólamál eru hjá fræðslunefnd, velferðarmál hjá fjölskyldunefnd og svo framvegis. Skipting nefndarsetu á milli framboða fer eftir sömu reglu og úthlutun sæta í bæjarstjórn í kosningunum. Þannig er tryggt að í nefndunum sitji bæði fólk frá þeim flokkum sem mynda meirihluta og þeim sem eru í minnihluta. Þetta á að tryggja að lýðræðisleg umræða fari fram inni í nefndunum sem eiga að taka ákvarðanir um málefni bæjarins.

Allt nefndarfólk fær svo greidd laun, formaðurinn að lágmarki tvöfalt meira en aðrir nefndarmenn. Kostnaðurinn við nefndirnar er fastur, hvort sem nefndirnar funda eða ekki, þannig að nefndarfólk fær föst laun auk greiðslu fyrir hvern fund. Í lýðræðis- og mannréttindanefnd var ekki haldinn fundur frá því í september 2019 þangað til í maí 2020 en nefndarmenn fengu engu að síður föstu launin greidd.
Auðvitað er það eðlilegt að fólk fái greiðslur fyrir störf sín en það er þá líka eðlileg krafa íbúa Mosfellsbæjar sem borga fyrir þessa vinnu að nefndirnar virki eins og þær eiga að gera.

Reykfylltu bakherbergin
En hvað er það þá sem ekki virkar. Dagskrá nefndanna er ákvörðuð af formönnum í samstarfi við starfsfólk bæjarins. Áður en rætt er um málefnin í nefndunum þá er búið að halda svokallaða meirihlutafundi. Það er á þessum fundum sem ákvarðanir eru teknar.
Á þessum fundum, þar sem fulltrúar meirihlutans hittast og kryfja málin, stundum með aðstoð starfsmanna, er niðurstaðan ákveðin. Þetta þýðir að þegar formlegir nefndarfundir eru haldnir, þá er hluti nefndarfólks þegar búið að ræða málin og jafnvel fá meiri upplýsingar en aðrir. Í þessu felst lýðræðishallinn.

Almannahagsmunir umfram sérhagsmuni
Auðvitað er það eðlilegt að meirihlutinn taki ákvarðanir en jafnræðisreglan er sú að allir fulltrúar eiga rétt á sömu upplýsingum. Þegar staðan er hins vegar sú að fulltrúar minnihluta geta ekki treyst því að hafa allar upplýsingar og þurfa að hafa frumkvæði að því að biðja um upplýsingar, jafnvel að giska á hvaða upplýsingum á að óska eftir, ólíkt fulltrúum meirihluta sem fá allar upplýsingar bornar á borð fyrir sig þá verður til lýðræðishalli.
Þetta fyrirkomulag býður upp á vantraust og að sérhagsmunir séu teknir fram yfir almannahagsmuni.
Ef að það er ekki vilji til þess að virða leikreglur lýðræðisins betur en þetta þá er það í raun mun heiðarlegra að hreinlega spara bæjarbúum kostnaðinn við nefndir bæjarins.

Við í Viðreisn teljum það mjög mikilvægt að lýðræðið sé virt. Það þýðir jafna þátttöku allra fulltrúa, bæði frá meirihluta og minnihluta. Það þýðir jafnan aðgang að upplýsingum og starfsmönnum. Það þýðir gagnsæi í allri ákvarðanatöku.

Þannig viljum við í Viðreisn vinna.

Lovísa Jónsdóttir