Áramótakveðja

Regína Ásvaldsdóttir

Nýársávarp bæjarstjóra Mosfellsbæjar

Gleðilegt ár kæru íbúar, starfsmenn og aðrir samstarfsaðilar.
Ég vil byrja á því að þakka fyrir samfylgdina síðustu mánuði en ég var ráðin sem bæjarstjóri í sumar, af nýjum meirihluta Framsóknarflokks, Samfylkingar og Viðreisnar. Ég tók til starfa í byrjun

september og það verður að segjast eins og er að verkefnin hafa verið ærin, enda að mörgu að huga í vaxandi bæjarfélagi. Sum verkefnanna fengum við í fangið ef svo mætti að orði komast, eins og viðgerðir í Kvíslarskóla sem er gríðarlega kostnaðarsamt og flókið verkefni, samhliða því að halda úti fullu skólastarfi. Þar eiga nemendur og starfsfólk skólans mikið hrós skilið fyrir þrautseigju og þolinmæði á meðan á framkvæmdum stendur.
Meðal þess sem við höfum lagt áherslu á í starfinu í haust er að miðla upplýsingum til bæjarbúa. Auka fréttaflutning á vefnum og facebook-síðu bæjarins auk þess sem ég hef skrifað vikulega pistla sem birtast á heimasíðu Mosfellsbæjar á föstudagseftimiðdögum þar sem ég fer yfir helstu verkefni vikunnar. Markmiðið er að veita innsýn í starf bæjarstjórans þó að eðli málsins samkvæmt sé ekki farið í einstök málefni sem snerta einstaklinga og fyrirtæki hér í bæ. Fyrir hvert mál sem er tekið til umfjöllunar og ákvarðanatöku í bæjarráði eða fagnefndum bæjarins liggur mjög mikil undirbúningsvinna, sem er oft ósýnileg.

Það er mikil uppbygging fram undan, bæði í Helgafellslandinu, Hamraborginni og í Blikastaðahverfinu, svo helstu nýbyggingarsvæðin séu nefnd. Fjölgun íbúa fylgir þörf á aukinni velferðarþjónustu, nýjum skólum og leikskólum, bættri aðstöðu fyrir íþrótta-, frístunda- og menningarstarf auk þess sem það þarf að styrkja stjórnsýsluna í bæjarfélaginu. Þar ber helst að nefna innleiðingu stafrænna lausna og verkferla sem stytta málsmeðferðartíma gagnvart bæjarbúum og fyrirtækjum.

Til þess að undirbúa sveitarfélagið sem best fyrir framtíðina þá var samþykkt af öllum flokkum í bæjarstjórn að ráðast í stjórnsýslu- og rekstrarúttekt á bæjarskrifstofunum og samþykkt að fá ráðgjafafyrirtækið Strategíu í verkefnið.

Tilgangur úttektarinnar er að fá fram mat á núverandi stöðu sveitarfélagsins og leiða fram hvernig stjórnsýsla Mosfellsbæjar virkar í dag gagnvart íbúum, stofnunum bæjarins, hagsmunaaðilum, kjörnum fulltrúum og starfsmönnum. Jafnframt að setja fram á grunni stöðumatsins tillögur að umbótum sem eru til þess fallnar að efla starfsemi bæjarins. Loks þarf úttektin að leiða fram helstu áhættur í rekstri Mosfellsbæjar og mat á fjárfestingargetu sveitarfélagsins til skemmri og lengri tíma.
Mosfellsbær, eins og önnur sveitarfélög fer ekki varhluta af verðbólgu og háu vaxtastigi. Það hefur mikil áhrif á niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 og sveitarfélagið mun skila neikvæðri niðurstöðu, eins og reyndar árin 2020 og 2021. Þar voru áhrif Covid veruleg á rekstur sveitarfélagsins.
Við stefnum hinsvegar að hallalausu ári á árinu 2023 og farið verður í fjölmörg ný verkefni og velferðarþjónusta bæjarins verður styrkt svo um munar.
NPA-samningum verður fjölgað og tækifæri fatlaðra einstaklinga til atvinnu við hæfi verða aukin. Bætt verður í ráðgjöf við fjölskyldur og börn og frístundaþjónusta við fötluð börn efld, sem og skammtímadvöl. Uppbygging búsetuúrræða fyrir fatlað fólk heldur áfram og gert er ráð fyrir stofnframlögum til óhagnaðardrifinna félaga til byggingar á hagkvæmum leiguíbúðum.
Á næsta ári verður skólaþjónusta styrkt með fjölgun starfsmanna og 50 ný leikskólapláss tekin í notkun. Lokið verður við endurbætur á 1. hæð Kvíslarskóla og átak gert í endurbótum á skólalóðum og það sama á við um íþróttahús og útisvæði við Helgafellsskóla.
Áhersla verður lögð á heildstæða uppbyggingu íþróttasvæða í bæjarfélaginu og til stendur að endurbæta gervigras á fótboltavelli við Varmá sem og hönnun og útboð á endurgerð aðalvallar. Þá hefst undirbúningur að byggingu þjónustubyggingar við íþróttahúsið á árinu.
Endurskoðun á aðalskipulagi stendur yfir og umhverfissvið verður styrkt með fjölgun starfsmanna til að styðja við fyrirsjáanlegan vöxt næstu ára. Þá er vinna hafin við forgangsröðun og gerð rammaskipulags mögulegra uppbyggingasvæða. Nýjum lóðum verður úthlutað í 5. áfanga í Helgafellslandi og gert er ráð fyrir umfangsmiklum framkvæmdum við stofnlagnir vatns-, hita- og fráveitu ásamt raf- og fjarskiptalögnum á atvinnusvæðinu í Blikastaðalandi.
Stafrænn leiðtogi Mosfellsbæjar hefur verið ráðinn og bærinn tekur þátt í stafrænum verkefnum á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Á sviði menningarmála verður viðburðum á vegum Mosfellsbæjar í Hlégarði fjölgað og hafin vinna við mótun stefnu á sviði atvinnu- og nýsköpunarmála.

Ný áfangastofa ferðamála fyrir allt höfuðborgarvæðið tekur til starfa á árinu og eru fjölmörg tækifæri fyrir Mosfellsbæ í því samstarfi.

Það er því ekki annað hægt en að vera bjartsýnn á framtíðina hér í Mosfellsbæ. Góðir innviðir, frábært starfsfólk og mikill vilji og tækifæri til umbóta einkennir samfélagið.

Ég hlakka til vegferðarinnar á nýju ári!

Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri